Lesnir;

29.11.04

Menn í árdaga

Í kvöld sá ég fallegan, franskan þátt í sjónvarpinu um samskipti áa núverandi eina mannkyns, og Neanderdalsmannsins. Þetta var fagurlega leikið; Neanderdælingarnir töluðu eitthvað sem líktist ótrúlega mikið þýzku, og girntust mjög hinar fagurleggjuðu konur manna. Mannkonurnar litu svo út einsog paradísarfuglar, með hné og kálfa einsog Laxness hefði lýst þeim. Og þær klæddust stuttum pilsum og toppum, einsog þeim sem ég á eftir að skrifa um í verðlaunabókum mínum í framtíðinni, með munúðarfullum hætti.
Í þættinum var einnig sagt að margt í menningu okkar hefðum við frá Neanderdalsmanninum, þó svo að tegundir okkar hafi ekki getað blandað blóði. Sem dæmi var nefnd trú, og greftrunarsiðir.
Er það ekki yndislegt að við skulum enn þann dag í dag minnast menningar frænda okkar með því að stunda trúarbrögð af kappi? Jafnvel einföldustu jóla- og páskahátíðir trúleysingja bera frændaást okkar fagurt vitni.
En þá má spyrja enn. Hvað höfum við fleira frá Neanderdalsmanninum? Hvað höfum við frá Cro-Magnonmanninum, og hvað frá Flóresmanninum? Voru þeir ef til vill alltof heimskir til þess að við gætum nokkuð skemmtilegt lært af þeim?
Og hvað með tungumálin? Ég velti því fyrir mér hvort einhverra áhrifa frá Neanderdalsmanninum gæti í tungumálum okkar. Ef hann dó út fyrir 40.000 árum, og var talandi, einsog við, og átti samskipti við okkur, þá ætti að hafa orðið samgangur á milli tungumála, einsog annara menningarþátta.
---
Af öllu þessu hugsuðu, hef ég smíðað tvær litlar og snotrar tilgátur. 1. Hún er í grófum dráttum sú að hljóðið [n] sé komið frá Neanderdalsmönnum. 2. Það að sjúga upp í nefið er komið frá Cro-Magnonmanninum.

28.11.04

Heimsósómi?

I wish I loved the Human Race;
I wish I loved its silly face;
I wish I liked the way it walks;
I wish I liked the way it talks;
And when I’m introduced to one,
I wish I thought "What Jolly Fun!"
Sir Walter A. Raleigh (1861-1922)

Víntegundarímur, annar hluti.

-stuðlafall, samrímað, síðaukrímað-
Vesturbæjar vín-húsmæður óðum
kætast er ég gegnan óð
aftur hef af megnum móð.

Konjakið er kverkaskítsins meðal
eykur kapp við störf og streð,
styrkir lund og örvar geð.

Þó er rétt að rekja það í máli:
konjak búka- kveikir -bál
kneifi maður veikur skál.

-stuðlafall, frárímað-
Kæru vinir, koníakið brennir;
lifur, þarmar, lungu, bris
leggja af við svoddan slys.

Ég þess vegna veiti hér af brunni:
konjaki í skegg og skör
skenkið ávalt þyrstum bör.

23.11.04

Útgáfur handrita

Fjölmörg handrit liggja óútgefin hjá t.d. Árnastofnun og Þjóðskjalasafninu og bíða þess eins að stórhuga fræðimenn geri þau aðgengileg umheiminum. Þetta er slíkur hafsjór af ómetanlegum menningarverðmætum að það er ömurleg tilhugsun að vita af þeim rotnandi í kirfilega læstum hirslum. Sérhver sannur hugvísindamaður vatnar músum í hjarta sínu af ólýsandi angist og hamslausri sortablandinni hyldýpisgremju yfir öllum handritunum sem að eilífu glötuðust í brunanum í Kaupmannahöfn 1728.

Sá hinn sami hlýtur að reyta hár sitt og skegg yfir ótrúlega óvísindalegum aðferðum forvera sinna og lærifeðra og skrifum fram og aftur um réttar aðferðir við útgáfu handrita. Það er óviðunandi að gefa þurfi út sömu handritin aftur og aftur vegna þess að útgefendur geta ekki komið sér saman um rétt vinnubrögð. Það þarf að hætta þessu karpi og reyna að koma þessum handritum út - öllum saman. Hvað munu afkomendur okkar segja ef handritin sem við liggjum á og hafa ekki enn ratað á prent skyldu eyðileggjast?

Ég legg til að flokkunum verði fækkað og aðeins verði miðað við þessar þrjár meginútgáfur:

1. Fyrir fræðimenn: Stafrétt útgáfa. Textinn gefinn út eins og hann er og hverskyns innra ósamræmi haldið. Allar breytingar frá frumtexta verður að sýna skýrt og skilmerkilega. Ef um er að ræða blöndun tveggja eða fleiri handrita er rétt að sýna lesbrigði þannig að sjáist hvaðan breytingarnar eru komnar.

2. Fyrir almennning: Nútímastafsetning. Stafsetningu er þá breytt til samræmis við nútímamál en málinu er ekki breytt að öðru leyti en því að komið er samræmi á innra ósamræmi í rithætti m.t.t. nútímastafsetningar. Þetta þýðir að móðir ykkur verður ekki móðir ykkar - slíkt er þýðing og er óþolandi málgeldingarstefna og sögufölsun og vanvirðing við textann. Útgáfa af þessu tagi nýtist einnig við rannsóknir á forníslensku með t.a.m. orðstöðulyklum.

3. Fyrir aðra: Þýðing. Til dæmis þegar þýtt er frá forníslensku til nútímaíslensku fyrir þá sem hafa áhuga á slíku, auk annarra tungumála eins og færeysku, ensku, þýsku, frönsku o.s.frv. Útgáfur af þessu tagi má ekki kalla útgáfur með nútímastafsetningu. Físl. móðir ykkur er breytt í nísl. móðir ykkar, e. your mother o.s.frv.

Að auki mætti nefna ljósprentanir sem mögulega útgáfu. Ég tel þær ekki upp því þær eru lítið annað en ljósmyndir af handritum sem síðan eru prentaðar eða birtar á vefnum lítt breyttar. Þar sem ég geri hins vegar ráð fyrir ljósprentun sem mögulegri leið finnst mér ástæðulaust að hafa stafréttar útgáfur stafbrigðaréttar.


Ég hafna alfarið:

1. Fyrirbærinu samræmd stafsetning forn. Þessi stafsetning fyrnir í flestum tilvikum málstig útgefinna texta og býr til mállega aðgreiningu sem enginn fótur er fyrir. Samræmd stafsetning forn gefur villandi sýn á verkið þar eð hún miðast við málið eins og fyrsti málfræðingurinn lýsir því, þ.e.a.s. íslensku um 1200. Sömuleiðis hafna ég öllum millistigum samræmdrar stafsetningar fornrar og stafréttrar útgáfu, þar sem sumt er fært til nútímamáls en annað fær að haldast óbreytt. Þetta gerir það að verkum að lesandinn fær skakka mynd af forníslensku.

2. Algengum almenningsútgáfum sem sagðar eru vera „með nútímastafsetningu“ þegar greinilegt er að þær eru mun meira en það. Þær útgáfur sem nemendur eru látnir lesa í grunn- og framhaldsskólum geta ekki flokkast sem neitt annað en þýðingar frá fornmáli yfir á nútímaíslensku.

Það er ekki eðlilegt að 13 ára barn geti áreynslulaust lesið hátt í þúsund ára gamlan texta og það er rangt að telja því trú um að það sé að gera það. Það þarf að gera skýrari greinarmun á þýðingum og útgáfum frumtexta. Það er líka rangt að gefa út texta með blönduðum aðferðum, því það er óhjákvæmilega langt bil milli þýðingar og fræðilegrar útgáfu. Að reyna að gera texta aðgengilegan almenningi og fræðimönnum í sömu útgáfunni - með t.d. nútímastafsetningu og völdum breytingum á málfræði þannig að tilteknum úreltum orðmyndum er haldið lítt eða óbreyttum en öðrum kastað - er ónothæf útgáfa með öllu og til einskis. Hún er ekki nógu góð fyrir fræðimann og fyrir lesanda sem vill aðgengilegan texta sem næst eigin málstigi eru fornlegar orðmyndir fráhrindandi.

21.11.04

Ný hugsun, enn nýrri hugmyndir

Mestu framfarirnar liggja oft í því að við köstum eldri hugmyndum fyrir róða.
Kæru vinir! Hefur þetta nokkurn tíman verið eins satt og nú?
Hvern langar ekki annars í ljóstölvu?

Tími tannhjólatölvunnar er liðinn. Hún eyðilagðist þegar Gunnar flækti skegg sitt í henni. Sjónvarpslampatölvan er úrelt. Kísilsmáratölvurnar eru einsog olíutraktorar. Skammtapunktatölvur eru handan nánustu framtíðar. En jafnvel skammtapunktatölvurnar blikna í samanburði við ljóstölvu. Tæki, þar sem sjálft ljósið er beizlað, og leysir þannig hina ótrúlegustu útreikninga.

En tölvur? Hvað er ég að skrifa um hina steingerðu hluti, þegar ég hef sjálfur nokkuð mun fremra bakvið augu mín? Hliðrænan heila sem býr yfir skrilljónfaldri getu á við þá beztu af þessum stafrænu steingervingum. Tölvur eru okkur aðeins heimskulegar minnisblokkir.

En ný hugsun er möguleg. Ég kynni til sögunnar ljósmanninn.
Ljósmaður. Fyrst líf er úr kolefni, og tölvur úr kísli, og tölvur úr kísli alveg eins úr ljósi, þá er ljósmaður ekkert óhugsandi form.
Við jarðneskir menn erum úr kolefni. Kóðar okkar til kynslóðanna eru úr niturbösum og flóknum sýrum. Hjarta okkar dælir blóði, sem er í grunninnn járn til þess gert að flytja súrefni í hægan bruna í frumunum, þar sem orkan er bundin í fosfórtengjum.
Hjarta ljósmannsins er kalt natrínský, sem hamlar hraða ljóssins í gullnum æðum hans. (Þið skuluð samt ekki halda að ljósmenn hafi eitthvað með gyllinæð að gera.) Nýru hans eru úr kvarsstrendingum, og hann svitnar útvarpsbylgjum.
Ef til vill eru sumar geimverur úr ljósi. Það hljóta þá líka að vera til geimverur úr tannhjólum, lampadíóðum og skammtapuntkum. Og þær lifa einhverstaðar þar sem eru heppileg fæðuskilyrði. Ljósmenn lifa a.ö.l. á ljósi.
Hér að lokum er lítill óður til ljósmanna.

Ljósmaður. Ljósmaður.
Lýstu mér veg á heimsenda.
Þótt ég sé gerður úr elektrónum
en þú úr fótónum
þá erum við samt báðir úr kvörkum
og búum í söðulbökuðu rými.

17.11.04

Sköpun

Nú nýverið fundust líkamlegar leifar lífveru sem nefnd hefur verið Homo floresiensis eftir eyjunni - Flóres - þar sem þetta uppgötvaðist. Um er að ræða fund á beinum e-s sem virðist hafa verið um einn metri á hæð og með heilabú sem er um þrefalt minna en í nútímamanni. Þessi maður mun hafa verið uppi fyrir ekki meira en 12 þúsund árum herma fregnir. Án nokkurs vafa stórmerkilegur fundur. Hitt er annað mál og undarlegra að menn vilja draga af þessu ýmsar furðulegar ályktanir.

Í DV og á vefsíðunni vísi.is birtist grein með yfirskriftina: Er pláss á himnum fyrir smáfólkið í Flóres? þar sem ýjað er að því að fundurinn falli illa að staðhæfingum Biblíunnar.

Ég viðurkenni fúslega að ég lít ekki hlutlaust á málið en ég vil líka að það sé alveg ljóst að ég lít ekki á Biblíuna sem óskeikult rit sem sé fullkomið og skrifað nákvæmlega eftir forskrift frá Guði sjálfum - þ.m.t. um sköpun heimsins og mannsins. Ég get hins vegar með engu móti skilið af hverju túlka þarf fornleifafundi sem sönnun þess að Biblían hafi á röngu að standa og - í víðara samhengi - að t.a.m. kenningasmiðir eins og Darwin séu ógn við þær hugmyndir sem þar koma fram. Álíta menn sem svo að takist þeim að komast að einhverju sem er að einhverju leyti gagnstætt trú kristinna manna þá hljóti það að vera sannindi því allt sem fram komi í Biblíunni hljóti að vera tilbúningur frá rótum? Það finnst mér bera keim af einhverju allt öðru en vísindum. Þar með væri, býst ég við, hægt að skilgreina sannleik í eitt skipti fyrir öll út frá andhverfu sinni: ekki-sannleik Biblíunnar.

- Hvað mælir gegn því að þessi svokallaði hómó flóresíensis sé einfaldlega afkvæmi manns og apa?
- Gæti verið um erfðagalla að ræða?
- Að hvaða leyti er það gagnstætt kenningum Biblíunnar að það finnist lífverur sem eru útdauðar?
- Hvers vegna er það talið afsanna hugmyndir kristinna manna um sköpun að mörg dýr virðist nátengd og jafnvel að þau hafi þróast hvert í sína áttina út frá sameiginlegum forföður? Er nokkuð nema eðlilegt að þau beri skýr höfundarmerki: einn höfundur, eitt handbragð?

Og hvers vegna hafa þessar hugmyndir ekki komið fram? Er þetta tómt rugl?

(Með þessum vangaveltum mínum er ég e.t.v. kominn eitthvað út fyrir minn umræðuramma, með orðræðu sem hæfir máske ekki (mál)vísindalega þenkjandi einstaklingi eins og mér. Það geri ég þó, í og með a.m.k., með orð Foucaults á bak við eyrað um orðræður og mikilvægi þess að stíga út fyrir orðræðugrundvöll þess samfélags sem maður er hluti af og þora að tjá sig um efni sem kunna að vera umdeild. Ég er líka forvitinn að sjá hvort og þá hvussu ósammála menn eru mér um þetta atriði.)

16.11.04

Annáll með viðhorf

Lítil tilraun, ef hún virkar þá mæli ég með FannálaðuÞetta (e. BlogThis) möguleikanum. Afar patent.

13.11.04

Lausnir framtíðarinnar

Kæru lesendur.
Nú þegar Heimir hefur gert hér afar fróðlegar athugasemdir um stöðu tákna á lyklaborðum tölva okkar, fór mér að þykja æ erfiðara að skrifa með þessum sömu lyklaborðum.
Ég hugsaði sífellt, þegar fingur mínir leituðu að táknunum, sem svo: Æ, hvað er þessi stafur að gera hér? Svo.
Tæknin er það sem gerir okkur að mönnum. Og fyrir hvert tæknilegt úrlaunsarefni, eru oft margar lausnir. T.d. liðamót: þau geta verið úr stöng með gjörðum um (einsog lamir á venjulegum hurðum), þau geta verið haus sem gengur í hólk með rauf á, þau geta með lausri kúlu í horninu (einsog mjaðmakúlur í venjulegum manni) eða þá á einhvern enn annan hátt.
Hvað með lyklaborð. Þurfum við nokkuð lyklaborð? Er ekki kominn tími fyrir alveg nýja hugsun á því, hvernig koma má táknum frá sér?
Mér dettur í hug „lyklaborð” sem nemur hreyfingar handanna í loftinu, einsog spilað sé á þerómín. Eða þá einfaldlega hanzka með svipuðum græjum.
Einnig mætti nota talskynjara, en það gæti skapað skvaldur og hávaða. Og það væri efiðara að skrifa klámfengið efni. Svo má hugsa sér svipað tæki fyrir allan líkamann og fyrir hendurnar, það væri afar hollt fólki sem fengi annars litla hreyfingu.
Einnig má halda áfram með takkahugmyndina; ýmis hljóðfæri gefa okkur ágætis hugmyndir. Ef við höfum 8 fingur, eru möguleikar á 82 = 64 möguleikum ef við miðum við einfalt lokað/ólokað-kerfi. (Klarínett). Harmónikka er annað dæmi, hægt væri að búa til litlar harmónikkur, þar sem önnur höndin stýrði há/lágstöfum, sér/samhljóðum, o.s.frv., en hin höndin veldi endanlegt tákn.
------
Aldrei gleymi ég sögunni af manninum sem fékk taugahrörnunarsjúkdóm þannig að að endingu var svo komið að hann gat ekki einu sinni stjórnað augnlokunum, en var hinsvegar heilbrigður á allan annan hátt, hann gat semsagt numið allt í umhverfi sínu, en engu komið frá sér.
Gerð var tilraun á honum með nýtt tæki til hjálpar slíku fólki. Rafskaut greindu hvort heilinn hugsaði hægri eða vinstri. Þetta tókst, og svo fékk hann stafróf, og helmingaði það smám saman, þannig að alltaf stóð einn stafur eftir. Þannig gat hann sagt sína fyrstu hugsun í 4 ár: „Þakka þér kærlega, doktor Neuschwangstein.”

3.11.04

Víntegundarímur, fyrsti hluti

-Stikluvik, þríhend, vikframhent-
Kært er verum vínið flest,
veit ég sveitar lyndi.
Enda berja lóminn bezt
bragnar hverjir drekka mest.

Eitt er þó með öllu víst,
-enginn rengt það getur-
vínin óbrennd eru sízt
af þeim sljóleikurinn hlýzt.

En vínið brennt er kostakaup
kann ég annað nefna:
Eykur mennt og mátt við saup.
-Meðal pent eitt lítið staup.

- Stikluvik, þríhend-
Vodki ljómi lífs er tær
leitun mun að slíku
ein- er -tómur kundum kær
kætir lóma, vökvinn glær.

Drekka má sem meðal glatt;
mæðu vetrar læknar.
Nema gálaust gleypi hratt
gumar, þá fer einhver flatt.

2.11.04

Saga eða saga?

Aðalnámskrá grunskólans er stórskemmtileg lesning. Sérstaklega sögukaflinn (sjá undir samfélagsgreinar), en þar er útlistað hvað skal kennt í hverjum bekk og á hvað skal leggja mesta áherslu.
Þar kennir ýmissa grasa, og væri langt mál að telja allt upp hér sem mig langar að agnúast útí. En tökum frekar dæmi. Þar er tekið fram að nemandi, er lokið hefur þrepamarkmiði 5. bekkjar hafi: „[kynnst] hefðbundinni sögu af kristnitöku á Alþingi“! (bls. 34 í pdf-skránni). Það er eitt í sögukennslu sem mér finnst alltaf kúnstugt, en það er lagskipting. Afhverju að fela það fyrir vesalings börnunum að varla finnst sá sagnfræðingur nú til dags sem leggur skýlausan trúnað á frásögn Ara fróða í Íslendingabók? Óháð því hvað gengnum kynslóðum fannst og ókomnum kynslóðum mun finnast er í dag ekki lagður trúnaður hina hefðbundnu sögu af kristnitökunni. Ein helsta ástæðan fyrir því eru þau hagsmunatengsl sem Ari og velgjörðar menn hans höfðu af ákveðinni túlkun á sögunni, en það er önnur saga.
Kannski að þetta sé frekar sögur en saga sem verið sé að meina með þessu orðalagi, en þá á ekki að láta börnin halda að þetta sé sagnfræði. Þessi túlkun sem þarna kemur fram minnir mig um margt á sögusýninguna í Perlunni. Þar eru til sýnis leikbrúður og -myndir sem sína ýmis tímabil og atburði Íslandssögunnar. En það vottar ekki fyrir gagnrýninni söguskoðun, heldur er allt sett fram eins og það kemur af kúnni. Þá ætti líka að liggja ljóst fyrir að þarna eru á ferðinni sögur í merkingunni frásögur en ekki saga í merkingunni sagnfræði.