Lesnir;

2.11.04

Saga eða saga?

Aðalnámskrá grunskólans er stórskemmtileg lesning. Sérstaklega sögukaflinn (sjá undir samfélagsgreinar), en þar er útlistað hvað skal kennt í hverjum bekk og á hvað skal leggja mesta áherslu.
Þar kennir ýmissa grasa, og væri langt mál að telja allt upp hér sem mig langar að agnúast útí. En tökum frekar dæmi. Þar er tekið fram að nemandi, er lokið hefur þrepamarkmiði 5. bekkjar hafi: „[kynnst] hefðbundinni sögu af kristnitöku á Alþingi“! (bls. 34 í pdf-skránni). Það er eitt í sögukennslu sem mér finnst alltaf kúnstugt, en það er lagskipting. Afhverju að fela það fyrir vesalings börnunum að varla finnst sá sagnfræðingur nú til dags sem leggur skýlausan trúnað á frásögn Ara fróða í Íslendingabók? Óháð því hvað gengnum kynslóðum fannst og ókomnum kynslóðum mun finnast er í dag ekki lagður trúnaður hina hefðbundnu sögu af kristnitökunni. Ein helsta ástæðan fyrir því eru þau hagsmunatengsl sem Ari og velgjörðar menn hans höfðu af ákveðinni túlkun á sögunni, en það er önnur saga.
Kannski að þetta sé frekar sögur en saga sem verið sé að meina með þessu orðalagi, en þá á ekki að láta börnin halda að þetta sé sagnfræði. Þessi túlkun sem þarna kemur fram minnir mig um margt á sögusýninguna í Perlunni. Þar eru til sýnis leikbrúður og -myndir sem sína ýmis tímabil og atburði Íslandssögunnar. En það vottar ekki fyrir gagnrýninni söguskoðun, heldur er allt sett fram eins og það kemur af kúnni. Þá ætti líka að liggja ljóst fyrir að þarna eru á ferðinni sögur í merkingunni frásögur en ekki saga í merkingunni sagnfræði.


3 skilaboð:

  • Jújú, okkur, sem komnir erum til vits og ára, finnst oft einsog saga fyrir grunnskóla sé full einfölduð, og jafnvel full af þesskonar lygi, sem verður til af einföldun.
    En er ekki markmiðið með sögukennslu í grunnskólum að ljá börnunum samkennd sem þjóð í gegnum sögu? Nú er það þannig að atburðir einsog þeir koma af kúnni lýsa í raun afstöðu sagnaritara (og þarmeð lesenda) til þeirra fremur en raunveruleikanum.
    Er í lagi að börn fái sömu tilfinningu fyrir atburðum úr lífi þjóðar vorrar og sagnaritarinn? Það er nú málið.

    Sjálfur hallast ég að því að bætt verði inn í námsskrána >forsögu<, sem verði borin uppi af staðreyndum úr Gylfaginningu, Noregskonungasögum fram að Ólafi helga, og Gríms sögu loðinkinna.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:58 e.h.  

  • Með þessum skrifum er ég ekki að setja út á námsefnið sem slíkt, heldur frekar þær forsendur sem það er kennt á. Þessi forsögu hugmynd er ekki slæm en þá á líka að koma skýrt fram hvaðan þessar sögur koma og hve lengi sirka þær lifðu í munnmælum áður en þær voru settar á skinn. (Er þetta ekki annars Páll sem skrifar?)

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:29 e.h.  

  • En er það ekki alveg í takt við nafngiftina að nemendur grunskóla séu ekki endilega að fræðast markvisst um sögu lands og þjóðar eftir viðurkenndum (eða -ari) heimildum, heldur að þeir fái nokkuð góðan grun um hvað var að gerast þarna fyrir milljón árum síðan?

    Nei nei nei, ég er að djóka. Uss. Mér fannst þetta bara svo gott orð, grunskóli. Hva.

    Við gætum tengt þessar tvær tvenndir saman.. grunnur / grunur - saga / sagnir. Nú er talað um sagnabrunn (sko, líka tvö enn) og á næstu vetrarólympíuleikum gæti alveg komið upp keppnisíþróttin sögubrun (eitt enn, hinsvegar).
    En þetta er allt hjóm, merkingarlaust og ég veit ekki hvað og hvað.

    -b.

    Sagði Blogger Björninn, kl. 8:32 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða