Lesnir;

23.7.05

Um undiráróður með morgunkaffinu

Nú um daginn villtist maður í Skriðufellsskógi. Maðurinn, á níræðisaldri, var rammvilltur, og leita varð að honum. Hann fannst eftir vel tæps hálfs sólarhrings leit.
Svona mál er ekkert grín. Það er illt mál að villast, og því lengur, því verra. En nóg um það. Ég ætla hvorki að hlægja að atburðinum hér né stunda einhvern harmagrát.

Í þessu máli eru tvö aðalatriði; fyrst er, að maður týndist og leita varð að honum; í öðru lagi að hann týndist í Skriðufellsskógi. Án fyrri hlutans getur sá seinni ekki staðið. En frétt, um það eitt að maður hefði týnzt, er ekki mjög fréttnæm. Það gefur auga leið að það sem gerði þessa frétt merkilega, er það að aðalhlutverkið léku ekki yfirgripsmikil firnindi eða rangalar Þúsaldarhverfis, heldur í fyrsta skipti mannræktaður skógur á Íslandi.
Það er hægt að týnast í kjarri. Ef maður hefur ekki fjallasýn eða önnur mið er erfitt mál að vita hvar maður er staddur. Þannig að það er ljóst að það merkilegasta er einmitt þetta með ræktaða skóginn.
Ég tel þetta einmitt mikla viðurkenningu fyrir þann árangur sem náðst hefur í skógrækt á Íslandi.
Textavarpið tíundaði að maðurinn hefði villzt í skógi. Sama var gert í fréttum RÚV og í Morgunblaðinu. Slíkt verður einnig gert í Sunnlenzka fréttablaðinu og Dagskránni.
Aðeins Fréttablaðið skar sig úr.
Í frétt Fréttablaðsins um þetta mál var aðeins tíundað að maðurinn hefði týnzt við Ásólfsstaði (svo) í Þjórsárdal og fundizt aftur. Vel hefði mátt halda, af þessari frétt að þetta hefðu verið eintóm fjöll og sandhólar. Yfirleitt gerir maður jú ekki ráð fyrir því, þegar maður setur sér fyrir hugsskotssjónir vettvang frétta að þar sé allt fullt af skógi. Og þess kaus Fréttablaðið ekki að geta.
Kæru lesendur. Ég trúi ekki að blaðamaðurinn hafi í ógáti gleymt þess að geta aðalatriðis fréttarinnar. Að halda slíkt væri einfeldningsskapur.
Alveg frá því að Stöð tvö fór í loftið vissi ég að um samsæri væri að ræða gagnvart landbúnaði á Íslandi. DV hélt lengi kyndlinum á lofti, Bylgjan hefur verið drjúg, og Fréttablaðið er núna orðið aðalhöfuðberinn.
Gunnar Smári Egilsson ritstjóri er fastur í klisjum, og reyndar hélt ég lengi að hann væri eihverskonar dulnefni á vandlátri og kvartgjarnri húsmóður á Akranesi, þangað til ég fattaði að þetta voru leiðararnir. Og Gunnar Smári skrifaði leiðara um daginn um samhljóm sveitamanna og þéttbýlisbúa, og verð ég að telja þetta næst-hræsnisfullasta málflutning nútímaritsögunnar á eftir ræðu Rauðsmýrarmaddömunnar í Sjálfstæði fólki. Óþjóðlegra blað en Fréttablaðið verður ekki fundið.
Kæru lesendur. Fréttablaðið vill að við höldum að á Íslandi vaxi enginn skógur. Fréttablaðið vill ekki að ríkið sé að rækta skóg. (Sigmundur Ernir Rúnarsson var einmitt fyrir nokkrum dögum, af sínu alkunna skilningsleysi, að fetta fingur út í skógræktarverkefnin á baksíðunni). Fréttablaðið vill ekki að bændur rækti skóg. Í gær var grein um skógrækt, þar sem aðalatriðið var að nú sé skógur farinn að skyggja á útsýni. Rætt var við leiðsögumann nokkurn og mann frá Skrf.Í. Einmitt. Fréttablaðiðnu finnst mikilvægt að þéttbýlisbúar geti keyrt um landið og sagt; ,,Nú, hér sé ég ekki í næsta bæ fyrir skógi, en hvað skógrækt er ömurleg.” En svo er í fínasta lagi að menn kaupi sér jarðir og rækti sinn útivistarskóg á þeim.
Fréttablaðið vill ekki eftir 40 ár flytja fréttir af gríðarlegri framleiðslu í íslenzkum skógum bænda og vaxandi auðlegð. Fréttablaðið vill flytja fréttir af læknum eða framkvæmdastjórum sem í sveita síns andlits hafa keypt sér jörð og ræktað á henni skóg. Fréttablaðið er óvinur bænda, og það er óvinur heilbrigðrar verðmætasköpunar og lífshátta.

Fréttablaðið er ekki sent í dreifbýli einsog það er gert sumu þéttbýli. Enda yrðu margir ódrjúgir, ef þeir þyrftu að lesa svona eitur með morgunkaffinu. Bændablaðið er svo aftur á móti borið í öll hús í dreifbýli, en ekki í þéttbýli, svo að því miður geta þéttbýlismenn illa kynnst hollum lífsskoðunum og gildum.
Og því er mergurinn málsins, að rétta leiðin til að koma í kring réttum samhljómi sveitamanna og þéttbýlisbúa, er að bera sveitamönnum Fréttablaðið, og borgarbúum Bændablaðið. Og bráðlega mun Fréttablaðið leggjast af, og Bændablaðið eitt ríkja, til sjávar og sveita.
Heilbrigð gildi iðnaðarskógræktar svífa yfir vötnunum, ljós alhygðar tendrast í hjörtum manna.
Fegurðin mun ríkja ein.

13.7.05

Guð mín góða!

Á málstofu sem ég sat fyrir skemmstu á sk. kirkjudögum var rætt um íslenskt mál og mál almennt sem valdatæki og lið í kúgun kvenna fyrr og nú. Umræðan var greinilega mjög þörf miðað við lýsingar þess fjölda kúgaðra kvenna sem þangað var mættur og auðsjáanlegt að tungumálið er furðanlega vanstillt.

Konurnar lýstu til dæmis þeirri ömurlegstu útskúfun er fælist í ávarpinu: „Kæru vinir!“ — svo óheppilega vildi til að kirkjudagar voru einmitt opnaðir með þeim orðum. Sumum lá við köfnun af gremju, aðrar voru sárar og enn aðrar voru hrærðar yfir þó þeim árangri sem þær höfðu náð, svo mjög að ein þeirra lýsti því að blíð hvarmaskúr hefði vætt fyrstu síður nýrrar tilraunaútgáfu Nýja testamentisins sem að þónokkru leyti er og mun verða á máli beggja kynja.

Þetta er mikið áhyggjuefni. Þegar málinu á Biblíunni hefur verið breytt er hætt við að málnotkunin breytist víðar. Menn hætta að þora að ávarpa fjöldann í karlkyni: Eru ekki allir spenntir? Vegna bruna á þriðju hæð verða allir að yfirgefa bygginguna tafarlaust! (bara karlar?) o.s.frv. Hvað tekur þá við? Færeyska: Tað verða øll ... ? Það verða allir og allar ... ? (Þetta síðastnefnda kusu flestir á fundinum og fannst þetta sáraeinfalt, sjálfsagt mál).

Ég gat ekki annað en hrærst fölskvalausrar meðaumkunar yfir þessu hugarástandi kvennanna. Mér rann til rifja og sárnaði heiftin sem bjó í orðum þeirra þegar þær lýstu and-karllegum (refsandi, hirtingarsömum, letjandi, ávítandi) og al-kvenlegum (blíðum, móðurlegum, skilningsríkum, hvetjandi) hugmyndum sínum um Guð. Að mér læddust illir þankar um kvenupphafningarstefnu sem ekkert ættu skylt við evangelíska-lúterska trú þjóðkirkjunnar og væri frekar tilraun til að koma aftur á fyrra sambandi við Maríu mey — eða vildu þær í raun ekki bara kaþólska trú? Og átti nú að reyna að ráðskast með tungumálið, meðvitað aflaga það, hrista til í því, grauta í málvenjum undir því yfirskyni að verið væri að stuðla að jafnrétti?

Kirkjan hefur verið voldug en hún er það tæplega lengur, a.m.k. ekki hér. Ég óttast þó þau áhrif sem þetta kann að hafa; þau skilaboð sem slík breyting á textum Biblíunnar sendir út til mannanna. Hér áður fyrr tókst kirkjunnarmönnum að „afheiðna“ sjálf dagaheitin: geri aðrir betur.

Lausleg athugun á fornmáli leiðir eftirfarandi í ljós:1

1. dagur vikunnar:
sunnudagr > drottinsdagr > sunnudagur

Tilraun var gerð til að breyta sunnudegi í drottinsdag en sú breyting virðist ekki hafa slegið í gegn og við höldum gömlu myndinni.

2. dagur vikunnar:
mánadagr > ? (annardagr) > mánudagur (sló ekki í gegn)

Mánudagur sem áður var kenndur við mána og réttnefndur mánadagur gæti hafa verið uppnefndur annardagr af kirkjunni en um þetta finn ég engin dæmi.

3. dagur vikunnar:
týsdagr > þriðidagr > þriðjudagur

3. dagur vikunnar sem var áður nefndur eftir Tý fær hið frumlega (?) nafn þriðidagr. Sú breyting slær í gegn og við segjum þetta enn.

4. dagur vikunnar:
óðinsdagr > miðvikudagr > miðvikudagur

Dagurinn nefndur miðvikudagur eins og í þýsku.

5. dagur vikunnar:
þórsdagr > fimmtidagr > fimmtudagur

6. dagur vikunnar:
frjádagr > föstudagr > föstudagur

Upphaflega kenndur við Freyju en á lymskufullan hátt klætt í kristilegri búning.

7. dagur vikunnar
þváttadagr, laugardagr? > laugardagr > laugardagur


Skoðanir óskast.

1 Unnið upp úr gögnum í Textasafni Orðabókar Háskólans og fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over det gamle norske sprog, sem hvort tveggja er á Netinu.

6.7.05

Getraun

Úr hvaða skjali, er eftirfarandi tilvitnun, og í hvaða hrepp og sýslu er Krossanes?

Krossanes Abúandenn Tume Arason Jardarjnnstæda 4 Kúgillde þetta stendur fijrer henne:
kyr 9 vetra
quiga 2 vetra
fiorar ær 2 vetra
ein 3 vetra
fiorar gamlar
þriar Gimbrar 1 vetrar
tuær af þessum Am lambz skotur.

Og getiði nú.