Lesnir;

20.11.08

Hefur ríkisstjórn framið valdarán?

Nú tala allir um gjaldeyrissjóðslánið sem orðinn hlut. Það skýtur skökku við, þar sem engin lög þar að lútandi hafa verið samþykkt á Alþingi (sbr. liðinn nýsamþykkt lög á heimasíðu þingsins).
Ástæða þess að þetta er skrýtið, er sú að 40. grein stjórnarskráar Lýðveldisins [sic!] Íslands hljóðar svo:

„40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“


Ekki má taka lán, er skuldbindi ríkið, nema samkvæmt lagaheimild.

Vonandi þóknast ríkisstjórninni að uppfylla þetta formsatriði sem stjórnarskráin setur (áður en peningarnir koma, þ.e.)

Um gjaldeyrissjóðinn gilda lög nr. 105/1945, það eru lögin um stofnaðils Íslands að honum. Ekki orð um lántökur. Bara framlög til sjóðsins (ríkisstjórninni er heimilt að taka innanríkislán til að standa straum af þeim kostnaði, sbr. 3. gr.).

Á þessum síðustu og verstu er gott að hafa fyrstu grein stjórnarskráarinnar einnig í huga, hún hljóðar svo:

„1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“


Sumsé, stjórnin er þingið. Ekki ráðherrarnir. Þeir eru bara framkvæmdavaldið. Þeir sumsé framkvæma þau lög sem Alþingi setur. Þegar kosið verður innan fárra mánaða verður fróðlegt að fylgjast með hvaða framboð munu setja þetta mikilvæga atriði á oddinn, að þingræðið verði endurreist. Niður með ráðherravaldið!

Ps. Í hvað á annars að nota þessa peninga?

---
Uppfært kl. 22:35

Lög nr. 60/2008 virðast kovera þetta, og því er lántakan nú ekki dæmi um valdníðslu ríkisstjórnarinnar.

---
Uppfært 21. nóv. kl. 13:06

Áðurnefnd lög, nr. 60/2008, heimila lántöku allt að 500 milljörðum. Nú virðist lántakan nema 700 milljörðum, og er því, nema mér hafi yfirsést eitthvað, lögleysa.

19.11.08

Sagan af Arnasi Matthæusi

Þegar dr. Bjartur Snær kom loks í stjórnarráðið hitti hann þar fyrir fjárbónda einn, sem kallaðist Arnas Matthæus, og var hann doktor að nafnbót. Hafði hann forframast við bændaskólann á Hvanneyri. Arnas þessi var ósnotur maður og því settur í verk þau er lítt þóktu sæmandi velliðnum mönnum, svo sem fjárlagagerð, ættmennaráðningar og útlensku. Þókti Bjarti Snæ þetta miður þar eð Arnas var þingmaður síns kjördæmis.
Sér til málsbóta hafði Arnas þó það, að ágætt uppsláttarrit átti hann í sínum fórum. Í riti þesu fann hann svör við öllum þeim ráðgátum sem upp komi í hans erfiða starfi; það hét Tidsskrift for Veternærievidenskap. Sóttist Bjartur Snær mjög eftir þessu riti. En á þeim buxunum var Arnas Matthæus ekki, og sat hann á öllum 138 árgöngum ritsins sem ormur á gulli. Það var ekki fyrr en Bjartur Snær bauð honum hið pólitíska barómet í skiptum, að hann lét til leiðast.
Eftir viðskipti sín við Arnas þennan urðu Bjarti Snæ minnisstæð varnaðarorð föður síns, að læknirarnir í höfuðstaðnum væru víðsjárverðir, þeir reyndu sífellt að fá mann til að kjósa sig í hreppsnefnd. En þennan dag komst Bjartur Snær að því að hrossalæknirarnir væru hálfu verri; þeir reyndu að véla mann til að kjósa sig í landsnefnd.
Af Arnasi er það að segja að mikið sá hann eftir skiptunum sem hann gerði við Bjart Snæ. Kvöld eitt stóð hann og horfði út um gluggann á fundarsal landsnefndarinnar. Fyrir utan var aragrúi fólks og fór það mikinn og hreytti óvinsamlegum orðum að Arnasi. Víst var það vegna einhverrar ráðningarinnar, hugsaði hann. Því næst gekk hann að veggnum hvar hann hafði hengt horngrýtis barómetið. Hafði það ekki gert neitt annað en að falla frá því honum áskotnaðist það.

15.11.08

Blautir draumar Fálkans í kringum mótmæli