Lesnir;

20.9.06

Við lok tvímánuðar

Kæru lesendur. Kæru vinir.
Þá er ég nú kominn aftur.
Héðan ofan af sjöundu hæð er mun betra útsýni en var á þriðju hæð – glugginn snýr í norður, og vel sést um miðbæinn, og yfir hverfið með tveggja hæða tréhúsunum, þar sem allar aspirnar mynda samfellda breiðu - alla leið að sjónvarpsturninum sem stundum hverfur dulúðlega í þoku niður að fimmtándu hæð, svo að hann sýnist geta verið óendanlegur á leiðinni upp.
Á nóttunni tvímennir turninn með sjónvarpsmastrinu á myrkurhimininn, saman kallast þeir á við systur sínar uppi við Kúznetsjíku-ána; reykháfana á beðmisvinnslunni og kolakyndiverinu.
---
Um daginn var ég að lesa mér til skemmtunar í kvikfjártali Stokkseyrarhrepps 1703, sem er í Árnesingi VII. Við þann lestur datt mér í hug hvort ekki gæti verið reynandi að setja saman samskonar lista yfir eigin búhagi. Listi sem slíkur gæti jú, ef til vill, á vissan hátt gefið innsýn í heim og tilveru fólks, á líkan hátt og kvikfjártalið og aðrar fornar eignaskrár gera það.

Búshluta og húsgagna skrá, herbergi № 703, haustið 2006:
Herbergið er 3,5 x 3,5 metrar að flatarmáli. Það gera 12 ¼ fermetra. Hér höfum við hvor sitt rúm, auk náttborða. Hér er fataskápur upp undir loft, stór bókaskápur, byrða undir skrínukost, fjórar vegghillur í funkisstíl, tvö borð, annað þeirra samanfellanlegt, hitt stækkanlegt, tveir kollar, annar að broti kominn, einn stóll með ótraustu baki og lítill skenkur. Ofan á honum höfum við eldahellu. Enn er hér ísskápur mittishár, sem drynur álíka títt og Strokkur gýs. Kalk er í lofti. Ef maður stendur í horninu í kvöldbirtu og horfir skáhallt upp, sést að skrifað hefur verið í það með fingri ,,Évgéní, ég elska þig” og annað þess háttar.
Veggfóður er með trjágreinamynstri, enda hafa mann fram af manni búið skógfræðinemar í herberginu. Annars hef ég tekið eftir því með Rússa, að þeir fóðra veggi, en mála húsgögn.
Fyrir utan herbergið er nokkurskonar fordyri, sem við deilum með næsta herbergi, sem er þriggja manna. Í fordyrinu, sem er lokað af frá ganginum, er vaskur og krani, og þar til hliðar eru tvö afhurðuð skot. Í öðru var áður sturta, en eftir að sturturnar tóku að leka var komið upp fjöldasturtum á fyrstu hæð. Í því skoti er nú geymsla. Hitt skotið er klósett. Hér eru límdar upp á salerninu kosningaauglýsingar, en það er almenn tízka.

Núna er ég semsagt fluttur upp á sjöundu hæð, og deili herbergi með bekkjarfélaga mínum, Alexandri Rosljakovi að nafni.

Þegar tveir menn flytja í eitt herbergi, þá koma þeir oft með sitthvað af búshlutum, og verður þá stundum tvennt af einhverju, en annað getur komið að góðum notum.
Auk ísskápsins er Alexandr með fiskabúr með gúbbí-fiskum í, straujárn, borvél og hljómflutningstæki. Enn: tvo vegglampa með löngum flúorperum, gólfmottur, gluggatjöld og veggspegil. Sjálfur er ég með, fyrir utan helluna; tölvu, meðalstóra hátalara, og 146 hillusentimetra af bókum, mest íslenzkum. Einnig vatnssuðukönnu, tvo lampa á borðbrík, samanbrjótanlegan grillstól og olíukyndara. Þá eigum við ókjör af leirtaui og nokkur stofublóm.
Fyrir ofan rúmið sitt er Alexander með stórt veggteppi, með mynd af dádýri. Fyrir ofan mitt rúm er veggspjald með 25 húnvetnskum kúm, sem sýna íslenzka kúaliti.
---
Senn lýkur þessum pistli, án frásagnar af Bjarmalandsför íslenzkra skógræktarmanna. En það kemur að því, að alveg einsog kvikfé var talið snemma á 18. öld, og tók litla stund, þá var þjóðsögum ekki safnað fyrr en á 19. öld, og þurfti mikla úrvinnslu á sögnunum til þess að koma þeim á blað.

18.9.06

Getraun VI

Hvaða nytjaurt (yfirflokks og afbrigðis skal geta í svarinu) er svo lýst, í merkri grein í Búnaðarritinu (rétt og skilmerkileg tilvísun birtist er rétt svar fram kemur):

„Afbrigði þetta er allvíða um landið, einkum þó um allt Suðurlands undirlendið. [...] eru að lögun svipaðar þeim bleiku; >augun< og >naflinn< djúpur. En þær eru mun stærri og jafnan færri undir hverju grasi, venjulega frá 7-10. Þær liggja ekki mjög langt frá stönglunum og eru mjög fastar á taugunum.
Þar, sem þær vaxa í lausum eða sendnum jarðvegi, má oft taka í grasið og kippa því upp, með öllum [...] á. Þetta afbrigði er einnig mjög viðkvæmt hvað [...]sýki snertir, og er ekki heldur bráðþroska.“