Lesnir;

13.7.08

Um það, hvað er ljóð, og hvað ekki

Hvernig er hægt að komast að og útskýra eðli ljóða, eða einsog sumir vilja hafa við, ljóðsins?
Það væri hægt að skoða uppruna ljóða hjá mannkyni til þess að útskýra eðli þeirra. Það væri líka hægt að skoða áhrif þeirra á fólk þegar það les þau. Eða draga mörk þess hvað telst ljóð. Og í þessum pistli hyggst ég einmitt leitast við að reifa skilgreiningar, skoða gagnsemi þeirra, og einsog berja í nokkra tunnubotna.

Hvað er ljóð?
Eða er spurningin: Skiptir máli, og þá hvaða, hvað ljóð er? – kannski mikilvægari?
Í íslenzkri orðabók er sagt að ljóð sé
ljóðrænn texti þar sem hrynjandi og myndmáli er meðal annars beitt markvisst, stuðlar eru áberandi og rím er oft notað, er annaðhvort háttbundinn, þar sem skipan þessara og fleiri atriða fer eftir föstum reglum, eða frjáls, án slíkra reglna […].”
Hér má draga saman, að eina atriðið í skilgreiningunni á ljóði samkvæmt orðabókinni, sem ekki er bundið skilyrðinu getur verið, er þessi: ljóðrænn texti. En er þá ljóðrænn texti, þar sem hrynjandi og myndmáli er beitt, ljóð? Nei, það held ég að sé nokkuð langt seilzt.

Einn af tónlistarmógúlum Sunnlendinga, Stefán Þorleifsson, sagði eitt sinn frá því þegar hann var á fyrirlestri í Árósaháskóla. Prófessor í tónlistarfræði lék hljóðskrá af allskyns tölvuunnum hljóðum; pískur, píp og annað í þeim dúr. Stefán spurði þá hvort þetta væri virkilega tónlist; þessi hljóð gæfu honum ekki neitt og höfðuðu ekki hið minnsta til hans. Prófessorinn svaraði á þá leið, að allt það sem sett væri í ákveðinn ramma, og þannig kallað tónlist, væri tónlist.
Er hægt að nota svipaða meðferð við hugtakið ljóð? – Nei, vegna þess að tónlist og ljóð eru ekki á sama stigi. Ljóð eru deild bókmennta, og geta því skarast við aðrar deildir, tónlist er hinsvegar ekki deild í neinu, heldur einsog bókmenntirnar sjálfar, yfirdeild. Þar fyrir utan er ótækt að gera ráð fyrir að hugtakið ljóð hafi eins innri byggingu og hugtakið tónlist.

Nú er það svo, að oft er erfitt að skilgreina hugtök og hluti. Skilgreiningar byggjast á séreinkennum; við teljum upp einkennin sem eitthvað þarf að hafa til þess að geta talizt einhver viss hlutur eða hugtak. Þannig getum við notazt við ókunn hugtök – þreifað okkur áfram. Það er samt mín skoðun, að sá sem notast við hugtak og skynjar hvar það á við og hvar ekki, búi yfir betri skilningi á því en sá sem tekur mið af skilgreiningu. Þar fyrir utan geta hugtök haft mismunandi merkingarsvið (semantískt svið) fyrir hverjum notanda. Þess vegna hlýtur svarið við spurningunni hvað ljóð sé, að vera einstaklingsbundið. Er það kannski þess vegna sem orðabókin varðar skilgreiningu sína á ljóði eða–fyrirvörum og loðnu orðalagi?
Hafi maður tileinkað sér hugtakið ljóð og noti það samkvæmt beztu samvizku, er líklega óhætt fyrir hann að ganga á röðina og segja: Þetta er ljóð, þetta er ekki ljóð.
Þessvegna er bezt að hengja sig ekki um of í skilgreiningar, og allra síst að draga erlenda orðræðu inn í málið.

Sem dæmi um vel heppnað óhefðbundið ljóð hefur oft verið nefnt ljóðið Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson. Menn hafa sagt sem svo: „Hvað finnst ykkur, talsmönnum stuðla og ríms, um þetta ha? Er þetta kannski ekki ljóð?” Tja, í Sorg má vel finna stuðla, og þeir eru hreint ekki ómarkvisst notaðir. Hið sama má segja um Dymbilvöku Hannesar Sigfússonar og Tímann og vatnið eftir Stein Steinar. Annað á kannski við um ljóð Jóns úr Vör í ljóðabókinni Þorpinu. Enda er ekki nema von að gagnrýnandinn spyrji:

Enginn slítur þau bönd,
--------sem hann er bundinn heimahögum sínum. Móðir
--------þín fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í
--------heiminn, en þorpið fer með þér alla leið.
---------------------------------[Úr Ég er svona stór eftir Jón úr Vör]

Mörg fleiri dæmi mætti tilfæra, sem sýna að hugsun býr að baki „kvæðanna”, og frásögnin víða meitluð og nákvæm. En hvers vegna vill höf[undur] kalla þetta l j ó ð, fremur en sögur, brot, þætti eða eitthvað þess háttar?
Er hér ekki verið að hafa hausavíxl á hugtökunum, að ástæðulausu?

(Úr ritdómi Rósbergs G. Snædal um ljóðabók Jóns úr Vör, Þorpið. Í tímaritinu Stíganda, 1946.)

Hér má einnig nefna til sögunnar nýlundu á borð við svokölluð fundin ljóð, ljóð samin af tölvum, orðarugl uppúr blaðafréttum, gatnakortaljóð og þessháttar. (Jón Örn Arnarson hefur kynnt mig fyrir þessu öllu. Kann ég honum þökk fyrir. PS) Þarf að búa til nýja listgrein undir hvert nýtt fyrirbæri, ef það rúmast ekki innan þeirra eldri? Og hvað má segja um þessi listform – ljóð eða ekki? Það held ég að skáldin verði að gera upp við sig sjálf. Og þau hafa fullan rétt til þess.

Þegar ég var lítill polli í grunnskóla var bekknum lagt fyrir að semja ljóð í tíma. Við möluðum einhverja steypu, en einhvernveginn finnst mér einsog við höfum öll haft nokkurn skilning á því, hvað væri ljóð. En við skulum ekki reyna að útskýra þann skilning sem börn leggja í hitt og þetta, til þess að líkjast ekki um of þeim sem í drýldni sinni telja sig þess umkomna að skilja og útskýra hugmyndir barna. – Alltént taka kröfurnar síðan breytingum með aldrinum og hver og einn þroskar sitt bragðskyn.

Hér hafa verið týndar til tvær tilraunir til skilgreiningar á ljóði, og bent á annmarka þeirra. Einnig voru hér færð til nokkur dæmi og tvær litlar sögur til þess að varpa betra ljósi á vangavelturnar. Þannig finnst mér allt búið undir lokaniðurstöðuna, sem er þessi: Skilgreining á því hvað sé ljóð og hvað ekki, á varla rétt á sér í vitrænni umræðu. Enda hafa skáldin sjálf ein rétt til þess að ákveða fyrir sig sjálf hvort þeirra verk séu ljóð eða ekki.

6.7.08

Þar sem gaukurinn gerir sér hreiður

Fátt er talið betra ungum skógræktarnemum en að dveljast í nokkurn tíma úti í sjálfum skóginum. Enda lætur Ríkistækniháskólinn í Arkangelsk slíkt ekki undir höfuð leggjast. Í sextíu ár hefur hann sent stúdenta sína á námskeið djúpt inn í skóginn, rúmlega 200 km suður af Arkangelsk, í tveggja tíma gang frá þorpinu Émtsu.

Um Émtsu er það annars sagt, að þar hafi annar hver maður setið inni. Á að gizka 10 km norður af Karasí, en svo heitir staðurinn, er svo hinn frægi Plesetsk-geimflaugaskotpallur. Sé gengið um skóginn má rekast á gervihnattarafhlöður og aðra varahluti. Ef haldið er enn lengra mæta manni gaddavír og niðurgrafnar birgðir af dósamat, ef til stríðs skyldi koma.
Í litlu rjóðri við tært og snoturt stöðuvatn standa svo sjálfir Karasjar; nokkur timburhús með reykháfum. Allt í kring er skógurinn gríðarhár, á milli húsanna standa eðalfurur, sem í sumarhitunum fá á sig gullinn blæ.

Símalína liggur frá Émtsu í Karasí. Þó efast ég um að hún virki. Yfir árið er aðeins einn vélavörður búsettur á staðnum, það er kona, en með henni er fyrrverandi vörður, rúmlega fertugur maður. Þetta par er hið merkilegasta, og finnst mér þau hafa sett mikinn svip á veru okkar þarna. Maðurinn er aldrei kallaður nema föðurnafni sínu; Michalič. Sólbrunninn og brennivínsútlítandi drykkjumaður að staðaldri, með rytjulegt hár og stingandi augu sem sljóvgast strax eftir fimmta glas. Fiskari og veiðimaður, sem á það til að skjóta á óvarfærinn hátt úr veiðibyssu sinni. Klæddur í upplitaða, fóðraða kápu, tekur ævinlega vel í allar spurningar okkar stúdentanna og er fús að lána hluti sem okkur vanhagar um. Þegar hann talar, er það kækur hans að gera stundum djöflatákn með hendinni. Hann hefur að eigin sögn setið fimm sinnum inni, og er því með fimm húðflúr. Michalič skarst aldrei undan því að drekka vatnsþynntan spíra með stúdentunum; sagði þá oft góðar veiðisögur. Hann er berklaveikur, þó ekki alvarlega, og því héldum við matar- og drykkjarílátum okkar aðskildum.
Kona Michaličar og staðarvörður, Lénka, er kona með lint og spíralegt augnaráð, illa á sig komin og á sjálfsagt ekki langt eftir, enda fer áfengissýki mun verr með kvenfólk en karla. Hún er 29 ára og kom það okkur öllum dapurlega á óvart að hún væri svo ung.

Við komum heim úr skóginum um daginn. Fjörutíu dagar og fjörutíu nætur urðu að tuttugu; vegna úreltrar aðstöðu og lítils viðhalds var ákveðið að stytta vistina.
Þó svo að lítið væri við að vera, þá bar margt við í Karasí á þessum tuttugu dögum, enda vorum við rúmlega fimmtíu manns þegar fæst var. Fyrstu nóttina var einum okkar, sem var að tala í síma, ráfað eftir göngustíg sem leiddi hann út í skóg. Þegar hann hugðist snúa aftur fann hann ekki stíginn til baka. Honum varð það úr að hringja neyðarlínuna, sem sagði honum að klifra upp í lerkitré og láta renna af sér. Undir morgunn fór hann svo af stað og fann höggrein.* Eftir höggreinanetinu fann hann svo Karasí-stöðina, og kom beint í morgunverð klukkan hálf níu.
Almennt má nú segja að menn hafi gert mest af sér í ölæði. Það var og mikið drukkið. Fyrrum herbergisnautur minn drakk ekki í tvo daga allt í allt. Þá var hann líka þunnur. Hina átján dagana drakk hann við ýmis tækifæri, með ýmsu fólki, og ýmsa drykki. Aðallega þó þynntan spíra.
Annar stúdent vel í glasi ákvað eina nóttina að fá sér sundsprett í vatninu. Hann lagði frá sér föt og skó og stakk sér; og synti útfyrir þvottasvæðið og framhjá varðarbústaðnum og vélageymslunni og allt að baðaðstöðu nemenda. Þetta mun vera um 400 metra leið sé hún gengin rösklega. Að sundinu loknu hafði hann ekki krafta í sér til að ná í fötin, heldur fór beint að sofa.
Um morguninn voru menn að bursta í sér tennurnar á bryggjunni, og varð bilt við að sjá fötin samanbrotin á bakkanum, og datt vitanlega í hug að hann hefði drukknað. Það eru jú í vatninu víða vofeiflega kaldar lindir.

En ekki var allt bara kárínur og drykkja. Eitt kvöldið fyrir frídag fórum við fimm saman gangandi að ánni Émtsu, í hálfs annars tíma göngufjarlægð í suðvestur af Karösjum. Við lögðum af stað með kvöldinu, og gengum eftir höggreinunum. Skógurinn á leiðinni var mestmegnis blandskógur af furu, greni og björkum; hæst voru furutrén. Inni á milli trónuðu þó enn hærri lerkitré, líklega eldri en 250 ára. Stofnarnir svartir, langir og beinir, þartil efst að krónan tekur að hlykkja sig upp í ljósið. Á slík lerkitré vantar hinn breiða og reglulega faðm greinanna sem einsog taka á móti hinu elskaða sólarljósi – þau gömlu hafa óreglulegan og gisinn brúsk af birtusæknu limi sem kvíslast út í loftið. Undir skóginum óx fölt aðalbláberjalyng og dökkleitir einirunnar sem ná manni í mitti. Hærra teygðu sig reynitré, sem hafa það hlutverk að reka á undan sér hæðarvöxt hinna skógartrjánna.
Við komum loks að þar sem landið tekur að lækka í smáum dölum við ána. Þó sáum við hvorki ána né heyrðum í henni. Stór rjóður voru fyrir ofan lægðirnar, en stígurinn leiddi okkur beint í þann mesta vindfelli sem ég hef séð. Stór tré lágu hvert ofan á öðru. Sum höfðu brotnað um miðjan stofn, önnur höfðu lagst með ræturnar upp, svo að jörðin opnaðist undir þeim. Bolirnir voru ótrúlega sverir, og kuðluðu á milli sín greinar og smærri tré. Við komumst að endingu í gegnum vindfellinn, og á leiðinni rákumst við á moðvolgan bjarnarskít.
Komnir að ánni varð okkur ljós fegurð hennar. Flúðalaus en ekki lygn, með hólmum og grösugum bökkum. Á eyrum og hólmum óx hófsóley, á bakkanum stóð alblómstrandi heggur, í skógareyðunum óð allt í reyrgresi. Rúmlega tuttugu faðma breið áin tók á sig hlykk nokkru fyrir neðan okkur, upp af honum risu skógi vaxnir ásar. Yfir öllu saman flugu hettumávar.
Sólin tók að síga og við gerðum okkur veiðistangir af mjóvöxnum björkum, festum á þær girni með krók, agni og sökku. Yfir blánóttina renndum við fyrir harra; það er fiskur skildur silungi, sem lifir í straumám allt árið, og fer aldrei út í sjó.
Nóttin var lygn og mild. Nema einu sinni; þá sigldi vélbátur niður ána, og við hlupum í skjól, enda gat þetta verið veiðieftirlitsmaður. Émtsu-á er jú banná á þessum slóðum, sérstaklega á þessum tíma þegar harrinn hrygnir.
En fiskurinn lét ekki á sér kræla, og við kveiktum lítin eld okkur til hita. Með molakaffi, harðnað brauð og vatnsblandaðan spíra, sitjandi í háu grasi við áarnið. Skemmtisögur fljóta og augun leita í logana. Uns líða tók að sólarupprás, og okkur var orðið nokkuð kalt.
Ferðin til baka var tíðindalítil, nema ef geta má þess að okkur mættu leðurblökur, litlar og örsnöggar á flugi sínu eftir náttfiðrildum.

Við komum til baka um hálf fjögur leytið. Þá sat enn riðeygður hópur á bekkjunum við varðeldinn.

* Högg|rein er þýðing mín á fyrirbærinu lesoseka, en það er kerfi nokkurra metra breiðra (og oft bílfærra) höggvinna rása, sem liggja stranglega í norður-suður og austur-vestur. Á milli þeirra eru alltaf 2 og 4 km, nema sumstaðar eru þeir 1 og 2. Á milli höggreina eru svo kvartalar, á kvartalamótum eru sérstakir stöplar, sem á er skrifað númer aðliggjandi kvartala. Þetta auðveldar alla skógnýtingu og ferðalög, og getur bjargað fólki sem hefur villzt. Höggreinakerfi þessu er, held ég, haldið við í því sem næst öllum skógum í fyrrum Sovétríkjunum.