Lesnir;

18.2.07

Daginn eftir Þorraþræl

Kæru lesendur. Kæru vinir.
Það var nótt eina fyrir tæpum tveimur árum að ég lá sofandi í herbergi mínu hér í Arkangelsk. Þá bjó ég á þriðju hæð, og á hæðinni fyrir neðan var starfrækt hótel. Það er varla hægt að segja að það sé hljóðbært milli hæða, en ef gólað er hressilega eða hlegið hátt, þá má vel heyra. Þessa nótt vaknaði ég við hópsöng að neðan. Oft er það að við svefnrof að maður er sem milli draums og vöku, og skynjunin fer villur, og að morgni rennur allt saman í þoku. En mér fannst einmitt að í herberginu fyrir neðan mig sætu nokkrir kvæðamenn saman að kyrja hvert erindið af öðru af Þorraþræli Kristjáns Fjallaskálds.
---

Yfir laxalóni
liggur klakaþil,
hlær við hríðarbyl
hamragil.


Það vill svo skemmtilega til að það er einsog að vera í háu, bröttu hamragili að búa hérna uppi á sjöundu hæð. Á milli þess að veðrin ólmast spenna kuldalægðir greipar sínar fastar um byggðina við Hvítahafið ísi lagt. Móðuhvítir arinreykir hlussast uppúr strompunum að morgni, ísing hleðst á símalínur og trjágreinar og er núna fingurþykk. Stöku ísrotta skýzt um, gulbrystar meisurnar hafa ekki sézt í langan tíma. Laxalónið klakaþiljaða hlýtur þá að vera veitubrunnurinn í mýrinni fyrir framan vistina. Í vatnspípunum úr honum í vistina er allt stokkfrosið. Fyrir þremur vikum síðan sprungu nefnilega vatnsleiðslur hér í nágreninu, svo að þrýstingurinn í vatnsveitunni féll. Pípurunum sem sjá um húsnæði háskólans varð það úr að skrúfa fyrir vatnið í ytri álmunum, til þess að halda sæmilegum þrýstingi í sturtunum, sem eru í innri álmunum. Síðan þá hefur ekki runnið í rörunum okkar megin. Stúdentarnir hafa verið beðnir um að sýna þolinmæði og skilning þar til hlýnar í veðri.
En það drepur mann svosem ekki úr leiðindum að skreppa yfir til stelpnanna að hella í kútana sína.

Fyrir tveimur vikum hófst kennsla aftur eftir próf. Á þessari önn lærum við jarðvegs-, erfða-, trjáa-, og traktorafræði, tækniteikningu og tölvuvinnslu mæligagna. Auk þess erum við í íþróttum, stjórnmálafræði og heimspeki.
Í fyrrahaust fórum við í gegnum QBasic-forritunarmálið, um vorið á eðlisfræðiprófi reiknaði ég út hreyfiorku rafeindar sem flýgur úr zinkþynnu við það að á hana skín ljós af vissri bylgjulengd. Í haust sem leið kenndi okkur félagsfræði kommúnisti á áttræðisaldri. Þeir tímar voru ljómandi áhugaverðir og skemmtilegir.
Eða gerir ekki fjölbreyttnin mann gáfaðan? Og menntun er jú alltaf menntun.
Það er annars furðulegt hvað menn svindla mikið hér á prófum. Til dæmis var það í fyrirspurnartíma með kennaranum daginn fyrir vistfræðiprófið núna í janúar, að dósentinn, sem er öldruð kona, sagði okkur að nota aðeins svindlmiða ef við kynnum að nota þá - þ.e. án þess að hún sæi. Og bætti við: ,, ... hvaða máli skipti þá ég, ef þið getið falið miðana?”
Enn furðulegra er svo hvernig ritgerðaskrifum er háttað hér. Til þess að við tileinkuðum okkur efni sem ekki var rúm fyrir í fyrirlestrum vorum við látin skila ritgerð upp á um 20 síður. Okkur var skilvíslega bent á nokkra kafla í tveimur bókum, og uppúr þeim átti ritgerðin að vera. Ég byrjaði á því að streitast við að umorða málsgreinar sem hægt væri svo að skeyta saman í heildstæðan texta. Þetta sögðu krakkarnir mesta óþarfa. Það myndi nægja að lesa síðurnar yfir, merkja við aðalatriðin, og skrifa þau síðan upp orðrétt. Þetta gerðum við svo öll, og hespaðist þetta af á örfáum klukkustundum. Og allir fengu ágætt fyrir.
Allt er enda stöðugt að batna. Almenningur gerist löghlýðnari, yfirvaldið sanngjarnara, ostarnir ódýrari og síldin bragðbetri; innan skamms verður allt orðið svo gott að blóm taka að vaxa úr eyrunum á okkur. Það er af þeim sökum að ég öfunda bæði undanfarandi og eftirfarandi kynslóðir; þær eldri af því að hafa tekist á við á erfiðari, og að sama skapi meira krefjandi veruleika; hinar sem á eftir koma af því að eiga eftir að lifa í enn betri heimi en ég geri.
---
Fyrir nokkru fékk ég sent fréttablað SÍNE, og til að gera langa sögu stutta, þá var þar ásamt auglýsingum í formi bréfhausa frá Landbúnaðarráðuneytinu og Stéttarfélagi verkfræðinga bréfhaus frá exbé. – Hvað er orðið að fallega græntóna axinu, sem táknaði ársældina undir stjórn Framsóknarflokksins?
Einhverntíman kom Guðni Ágústsson með þá hugmynd að skipta axinu út fyrir hvítan hest, en því var góðlátlega ýtt til hliðar, og gárungar sögðu að Guðna hefði jú alltaf langað til að vera prinsinn á hvíta hestinum eða þá einsog í ljóði Davíðs Stefánssonar „Þú komst í hlaðið”. En svo hafa menn núna tekið sig til og búið til svona tákn. Smjörkúkar sem ekkert er hlægilegt við nema stærðin á bindishnútunum þeirra, sitja líklega einhverstaðar í Hafnarfirði og dikta upp þennan viðbjóð.
Hvað á ég þá eiginlega að hafa á tölvuskjáborðinu núna? Mér er spurn.

6.2.07

Lausn í sjónmáli?

Nú hefir um árabil staðið orrahríð milli tveggja fylkinga, hverjar einskis svífast til að vinna málstað sínum brautargengi í hinni illvígu orrustu. Hér er rætt um tvípunktamenn annars vegar og kommumenn hinsvegar, þ.e. þá er setja tvípunkt á eftir nafni höfundar og þá sem setja kommu á eftir nafni höfundar í heimildaskrárfærslum. Margir hafa klórað sér í höfðinu og skilja ekki þessa deilu um keisarans skegg.

En nú þykist ég hafa greint vandann og fundið útgangspunkt frá hverjum má vinna lausn sem við er unandi. Gott er að hefja sátta ferlið á skilgreiningu, og er skilgreining aðferðanna þessi:

1. Þeir er setja tvípunkt hafa höfundinn í hávegum og vilja veg hans sem mestan. Því hefst upptalning ómerkilegri atriða á eftir hans nafni (titill, útgáfustaður, útgáfuár).

2. Þeir er hins vegar setja kommu á eftir nafni höfundar telja hann í engu merkilegri en hin atriðin sem fram þurfa að koma. Því er hann hluti upptalningarinnar en ekki upphaf hennar. Þeir eru því meira móðins í skilningi nútíma bókmenntafræðikenninga (Heimir nefnir þær vonandi í athugasemd við greinarkorn þetta).

Nú, þegar stefnurnar hafa verið skilgreinar er hægt að hefja samræðuna á vitrænum nótum. Mín meining er sú að höfundarverkið sé vissulega verðmætt og eitthvað til vinnandi með því að tryggja að heiðurs höfundar sé gætt þegar verksins er getið. Enda er höfundarverk varið með lögum nr. 73/1972. Ekki er titill verksins lögformleg persóna sem hefur hagsmuna að gæta. Það fylgir því s.s. meiri metnaður og virðing að setja tvípunktinn á eftir nafni höfundar.
Þess vegna tel ég rétt að nota tvípunkt á eftir nafni höfundar í heimildaskrárfærslum.

Spurningin sem eftir stendur er þá þessi: Hvort kom á undan, titillinn eða útgáfuárið? (Án þess að ég ætli að fara út í þá sálma hér þá tel ég titil skilgreina verk betur en árið sem það birtist. Þó svo gagn geti verið að því að sjá strax hversu forna rannsókn vitnað er til tel ég titilinn vera heillavænlegri.)