Lesnir;

23.11.04

Útgáfur handrita

Fjölmörg handrit liggja óútgefin hjá t.d. Árnastofnun og Þjóðskjalasafninu og bíða þess eins að stórhuga fræðimenn geri þau aðgengileg umheiminum. Þetta er slíkur hafsjór af ómetanlegum menningarverðmætum að það er ömurleg tilhugsun að vita af þeim rotnandi í kirfilega læstum hirslum. Sérhver sannur hugvísindamaður vatnar músum í hjarta sínu af ólýsandi angist og hamslausri sortablandinni hyldýpisgremju yfir öllum handritunum sem að eilífu glötuðust í brunanum í Kaupmannahöfn 1728.

Sá hinn sami hlýtur að reyta hár sitt og skegg yfir ótrúlega óvísindalegum aðferðum forvera sinna og lærifeðra og skrifum fram og aftur um réttar aðferðir við útgáfu handrita. Það er óviðunandi að gefa þurfi út sömu handritin aftur og aftur vegna þess að útgefendur geta ekki komið sér saman um rétt vinnubrögð. Það þarf að hætta þessu karpi og reyna að koma þessum handritum út - öllum saman. Hvað munu afkomendur okkar segja ef handritin sem við liggjum á og hafa ekki enn ratað á prent skyldu eyðileggjast?

Ég legg til að flokkunum verði fækkað og aðeins verði miðað við þessar þrjár meginútgáfur:

1. Fyrir fræðimenn: Stafrétt útgáfa. Textinn gefinn út eins og hann er og hverskyns innra ósamræmi haldið. Allar breytingar frá frumtexta verður að sýna skýrt og skilmerkilega. Ef um er að ræða blöndun tveggja eða fleiri handrita er rétt að sýna lesbrigði þannig að sjáist hvaðan breytingarnar eru komnar.

2. Fyrir almennning: Nútímastafsetning. Stafsetningu er þá breytt til samræmis við nútímamál en málinu er ekki breytt að öðru leyti en því að komið er samræmi á innra ósamræmi í rithætti m.t.t. nútímastafsetningar. Þetta þýðir að móðir ykkur verður ekki móðir ykkar - slíkt er þýðing og er óþolandi málgeldingarstefna og sögufölsun og vanvirðing við textann. Útgáfa af þessu tagi nýtist einnig við rannsóknir á forníslensku með t.a.m. orðstöðulyklum.

3. Fyrir aðra: Þýðing. Til dæmis þegar þýtt er frá forníslensku til nútímaíslensku fyrir þá sem hafa áhuga á slíku, auk annarra tungumála eins og færeysku, ensku, þýsku, frönsku o.s.frv. Útgáfur af þessu tagi má ekki kalla útgáfur með nútímastafsetningu. Físl. móðir ykkur er breytt í nísl. móðir ykkar, e. your mother o.s.frv.

Að auki mætti nefna ljósprentanir sem mögulega útgáfu. Ég tel þær ekki upp því þær eru lítið annað en ljósmyndir af handritum sem síðan eru prentaðar eða birtar á vefnum lítt breyttar. Þar sem ég geri hins vegar ráð fyrir ljósprentun sem mögulegri leið finnst mér ástæðulaust að hafa stafréttar útgáfur stafbrigðaréttar.


Ég hafna alfarið:

1. Fyrirbærinu samræmd stafsetning forn. Þessi stafsetning fyrnir í flestum tilvikum málstig útgefinna texta og býr til mállega aðgreiningu sem enginn fótur er fyrir. Samræmd stafsetning forn gefur villandi sýn á verkið þar eð hún miðast við málið eins og fyrsti málfræðingurinn lýsir því, þ.e.a.s. íslensku um 1200. Sömuleiðis hafna ég öllum millistigum samræmdrar stafsetningar fornrar og stafréttrar útgáfu, þar sem sumt er fært til nútímamáls en annað fær að haldast óbreytt. Þetta gerir það að verkum að lesandinn fær skakka mynd af forníslensku.

2. Algengum almenningsútgáfum sem sagðar eru vera „með nútímastafsetningu“ þegar greinilegt er að þær eru mun meira en það. Þær útgáfur sem nemendur eru látnir lesa í grunn- og framhaldsskólum geta ekki flokkast sem neitt annað en þýðingar frá fornmáli yfir á nútímaíslensku.

Það er ekki eðlilegt að 13 ára barn geti áreynslulaust lesið hátt í þúsund ára gamlan texta og það er rangt að telja því trú um að það sé að gera það. Það þarf að gera skýrari greinarmun á þýðingum og útgáfum frumtexta. Það er líka rangt að gefa út texta með blönduðum aðferðum, því það er óhjákvæmilega langt bil milli þýðingar og fræðilegrar útgáfu. Að reyna að gera texta aðgengilegan almenningi og fræðimönnum í sömu útgáfunni - með t.d. nútímastafsetningu og völdum breytingum á málfræði þannig að tilteknum úreltum orðmyndum er haldið lítt eða óbreyttum en öðrum kastað - er ónothæf útgáfa með öllu og til einskis. Hún er ekki nógu góð fyrir fræðimann og fyrir lesanda sem vill aðgengilegan texta sem næst eigin málstigi eru fornlegar orðmyndir fráhrindandi.

2 skilaboð:

  • Of-lesnir? Vel-lesnir? Ó-lesnir?

    Jón

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 10:57 e.h.  

  • Mikið var að einhver vakti máls á þessu og kemur út úr skápnum með það að íslenskan hefur ekki verið eins í zilljón ár. Hví særist hið íslenska hjarta svo auðveldlega við minnstu gagnrýni? Samanber nýlegt dæmi um útlendingin sem hefur horn í síðu okkar Íslendinga af einhverjum (reyndar afar illa rökstuddum) ástæðum og hálf þjóðin stökk upp til varnar sjálfri sér gegn þessum eina littla útlending!
    En nú er ég kominn út fyrir efnið. Útgáfa á fornum textum hefur lengi verið í ólestri. Það er löngu kominn tími á að einhver stórhuga maður eða hópur stígi fram fyrir skjöldu og leggi fram einfaldar og nothæfar reglur samanber þær sem Heimir hefur hér lagt drög að. Hversu dýrt getur það eiginlega verið að láta einhvern sumarkrakka hafa sæmilega stafræna ljósmyndavél og prenta afraksturinn út? Af hverju eru þessar húðir settar á svona háan stall og allt í kringum þær gert margfallt dýrara en það nokkurntíma þarf að vera? Líkleg skýring er sú að ráðamenn og peningaflæðisstjórar hafa engann áhuga á menningu nema á 17. júni þau ár sem enda á xyz4 og stofna trilljón nefndir og ráð í tilefni af hinum og þessum afmælum en ekkert gerist nema hellt er uppá nýtt kaffi af og til! Iconoclasma til handa handritunum! Þau þurfa á því að halda.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:18 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða