Lesnir;

23.4.09

Ferð okkar Ívans Kostíns á Súlfat - saga af hættuför í tveimur liðum

Nú, þegar enn eitt vorið lætur á sér kræla, og stéttirnar eru ekki lengur huldar snjó, kom mér til hugar lítill skreppitúr vorið 2007. Hér fer sagan af honum.
---
Undanfarin misseri hafði ég verið að svipast um eftir handlóðum á sæmilegu verði. Og hafði ekkert fundið, því að svo virðist sem að verðlagning í sportvöruverzlunum hér miðist helzt við þykkt múraða kókaínbaróna.
Bekkjarbróðir minn Ívan Kostín er ofan af Holmogorkaupstað, sem umflýzt í vorflóðum hvert ár í þrjár vikur. Alinn upp við kartöfluupptöku og vatnakarfadorg kom hann til náms heilbrigður og óspilltur, en var öllum að óvörum kominn með bjórvömb í febrúar það ár.
Það var því einn góðan fimmtudag að við Ívan glugguðum í smáauglýsingablað, ef vera skyldi að þar mætti finna ódýr lóð. Það varð úr að við hringdum í eitt númerið. Þar voru til margvísleg lóð, fyrir allt að 500 krónur parið, sem er harla gott. Við máttum koma á Dobroljúbovgötu 20 til kl. 5 daginn eftir ef við vildum.
Nú er Dobroljúbovgata á Súlfati. Súlfat er hverfi sem hrúgað var upp í kringum feykilega pappírsverksmiðju, en þar er beðmi unnið með því að sjóða það í brennisteini. Á Súlfati er alltaf skýjað, því að reykirnir úr verksmiðjustrompunum eru svo miklir. Það er þó bara vatnsgufa. Þrisvar á dag er svo hleypt út úr litla strompinum soðreyknum sjálfum, sem gerir það að verkum að á Súlfati er alltaf brennisteinslykt. Ungir menn á Súlfati eru harðir í horn að taka, margir ganga um með hnúajárn á kvöldin. Kvenfólk er þar sæmilega fallegt og heilbrigt útlítandi, má vera að það skýrist að einhverju leyti af brennisteininum - svipað og í Hveragerði. Súlfat er úr alfaraleið. Á Súlfat kemur enginn nema að eiga þangað erindi.
Þennan föstudag áttum við Ívan semsagt þangað erindi. Við fórum með strætisvagni.
Sólin skein bjart, svo að píra varð augun ef litið var í átt að ísnum á ánni. Snjór lá enn víðast hvar, en hafði mikið bráðnað. Vorið hafði nokkru áður bært á sér, hin undarlega vorlykt, sem maður finnur bara einu sinni á ári, en þekkir alltaf aftur, lá í loftinu. Falleg sinan bar sig við stórlimaðar aspirnar sem stóðu fagurlega gulhvítar á börkinn í sólskininu. Í sumum krónunum sátu krákuhreiður, að vísu ennþá tóm. Á stöku polli var hem, í þeim djúpari lá undir grunnu, tæru vatni hvítur klaki. Ég minntist hlákanna og umhleypinganna heima, sem kom við hinar angurværustu taugar. — Ef til vill er málaralistin engu síður fallin til að lýsa ósegjanlegum tilfinningum mannsins en ljóðlist eða tónlist.
Eftir 40 mínútna akstur stigum við út, á Dobroljúbovgötu. Hús númer 20 fundum við eftir skamma stund. Það var eitt af þessum margsambyggðu húsum þar sem ekkert snýr aftur, og allar dyr eru framdyr. Fyrst gengum við inn í varahlutaverzlun fyrir bíla, og spurðum hvort hér væru handlóð til. Afgreiðslumaðurinn hristi bara hausinn. Við gengum að næstu dyrum, aðeins utar. Þar var til húsa móttaka fyrir ljósa málma. Afgreiðslumaðurinn þar var heldur órakaðri en sá fyrri, og benti okkur á næstu dyr utanvið. Þangað gengum við - þar var móttaka fyrir glerflöskur. Tveir rónar stóðu innivið, og glermóttökumaðurinn, sem líktist í flestu rónunum í útliti, nema ef vera skildi sæmilega vakandi augunum, benti okkur á að fara að skúr nokkrum þar rétt hjá, þar myndu lóðin vera.
Við gengum vaskir að skúrnum, og litum innfyrir. Þar stóðu fimm stráklingar, á að gizka elleftubekkingar, allir klæddir í íþróttagalla. Í fasi og útliti líktust þeir svokölluðum gopnikum, en það eru nemendur verknámsskóla. Þeir eru taldir upp til hópa ómenningarlegir; ganga ýmist í ósamstæðum íþróttafötum eða í leðurjakka og með sixpensara. Allir geyma þeir sólblómafræ í vasanum, til þess að hafa eitthvað að gera þegar þeir eru ekki að reykja. Sumir þeirra hika ekki við að fremja smáglæpi fyrir kvöldmatartíma.
Glermóttökumaðurinn, sem reyndist vera lóðasalinn sjálfur, sýndi okkur í kompu sinni hrúgu af ryðguðum lóðum, sem á nóttunni þjónaði sem bæli rottna. En lóðin litu vel út, Ívan valdi sér hentugt par, ég fann mér einnar handar gripstöng með þremur misþungum lausum diskapörum. Við tíndum til seðlana, samtals 250 rúblur, og settum lóðin í töskuna, Ívan hélt á sínum. Lóðasalinn gekk með okkur út, og horfði á bakgarðinn einsog bóndi sem er í heyskaparhugleiðingum. Hann benti okkur á að fara bara beint eftir stíg, sem lá í gegnum órækt þarna að baki húsunum – þannig væri styzt að komast að strætóstoppistöðinni. Við Ívan sáum, að gopninkarnir gengu hægt eftir stígnum, svona 40 metra á undan okkur. Við þökkuðum ráðlegginguna, og gengum beinustu öfugu leið út á götu, og þannig roguðumst við með lóðin lengri leiðina að strætóskýlinu. Enda er margt skemmtilegra hægt að gera en að lenda í handalögmálum úti í mýri við verknema á Súlfati.
Lóðin hafa svo þjónað mér vel. Ívan Kostín fór með sín lóð upp í Holmogora. Af þeim fer ekki fleiri sögum.

4 skilaboð:

  • Ja, ég hlakka til þess þegar þú lýsir Trektarför þinni, tilvonandi, og svæðinu í kringum dómkirkjuna.

    Auga fyrir smáatriðum, því hef ég gaman að --- og af.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:14 e.h.  

  • Páll þú þarft að skrifa oftar, það er svo gaman að lesa texta eftir þig.

    Sagði Blogger Unknown, kl. 12:22 e.h.  

  • Hei, takk Palli, vel af sér vikið.

    -Hallur Karl

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:40 f.h.  

  • Bíddu nú við, "í tveimur liðum"? Er framhald á leiðinni?

    Kafli 2, af æfingartækjum: Reyndust þau þá hlandóð handlóðin.

    -Hallur aftur

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:17 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða