Lesnir;

25.1.06

Getraun V

Í paläografíunni lásum við um daginn málsskjal frá 1680. Þarna var um að ræða kæru gegn konu sem hafði haldið vanfærni sinni leyndri, og svo borið barnið út. Spurningin er tvíþætt: Hvaða dóm hefði konan hlotið á Íslandi á þessum tíma, og hvaða dóm hlaut hún í raun?

24.1.06

Óorð ársins

Í Þýskalandi velja sprokviskuskaftarar og -ínur óorð ársins, Unwort des Jahres. Í ár varð Entlassungsproduktivität fyrir valinu.
Það þýðir: Hagræðing með uppsögnum. Bein þýðing væri u.þ.b. Uppsagnaframleiðni.

Gott ef ég er bara ekki sammála þessu.

Listi yfir gömul Unwort des Jahres má finna hér.

19.1.06

Draumur

Mig dreymdi í nótt að ég væri að tala við þjóðverja um eitthvað sem ég man ekki hvað var. En svo áttaði ég mig á því að ég var að tala á íslensku, afsakaði mig pent og skipti snarlega yfir á þýsku.

13.1.06

Íslenskt hirðlíf

Ég hef löngum velt fyrir mér hvernig skuli standa á því að það er svona óskaplega erfitt að vera kurteis á íslensku. Í þýsku er þetta ekkert mál; maður skýtur inn 'mal' einhvers staðar, og setur 'bitte' aftast. Í ensku má segja 'please'. End of story. Hérna er eins og kurteisi sé ekki sjálfsagt mál, og meira að segja eru flest, ef ekki öll, kurteisisyrði tvíræð, þannig að þau má skilja hvortheldursemer sem vingjarnlega kurteisi eða hina mestu skapvonsku af hálfu mælanda.

Orðið 'vinsamlega/st' er mjög óheppilegt t.a.m. Það hljómar oft hreint ekkert vinsamlega að segja t.d. 'Viltu vinsamlegast opna gluggann?' Þetta fær á sig einhvern kröfu-blæ, hálfgerð skipun. Það dirfist enginn að segja 'nei' við slíkri beiðni.

Að segja 'viltu gjöra svo vel að ...' er alls ekki betra og skilst jafnvel enn síður sem eitthvað vingjarnlegt.

Okkur vantar eitthvað til að hengja aftan á setningar. 'Ef þú vilt vera svo væn/n' getur gengið en hljómar hálf tilgerðarlega. Við höfum þó möguleika á að setja sagnir í viðtengingarhátt til að láta þær hljóma kurteislegar, t.d.: 'vildirðu' opna gluggann? 'gætirðu' lánað mér jeppann þinn? 'hefðirðu' nokkuð á móti því að ... o.s.frv. Þetta er þó aðferð sem fer senn að líða undir lok, ef marka má þetta hér).

Mér hefur virst hinn dæmigerði Reykvíkingur hafa um tvær gerðir „vinsamlegrar“ bónar að velja þegar svo óheppilega vill til að vagnstjóra láist að opna vagndyrnar fyrir honum. Gerðirnar eru þessar:

(a) Bíddu, á ekki að opna, eða!?!
(b) Hey, opna að aftan?!?

Þvínæst er ætt út.

Ekki getum við þérað til að færa okkur upp um svo sem eitt kurteisisþrep (gerðir (a,b) bjóða ekki einu sinni upp á það).

Til þess að gera þessi dæmi kurteislegri mætti kannski skjóta inn 'nokkuð' og viðtengingarhætti: gætirðu nokkuð ... Það hljómaði strax skár.

Eru fleiri möguleikar?

(c) Fyrirgefðu, heldurðu að þú opnir að aftan? (..., takk?)

Síðan er eitt sem er jafnvel enn verra: skortur á 'you're welcome'. Við viljum alltaf vera að draga úr og segjum 'það var nú lítið', 'ekkert að þakka', 'minnst' ekki á það', 'minna gat það (nú) ekki verið' ... svo er 'verði þér að því [verðiðér aððí]', 'gjessovel' (sem íslenskunemar geta ekki brúkað), ...? Fleiri uppástungur?

Það læðist að mér sá grunur að það sé alls engin tilviljun - alls engin tilviljun - að við notum orðið 'kurteisi' um það að kunna sig; við lítum á almenna kurteisi sem eitthvað sem á að viðhafa við hirðir, 'courtois', en ekki þegar við ræðum við manninn í næsta húsi.

Niðurstaða: samfellan í íslensku máli er fyrir löngu rofin - og ekki nóg með það, málið er ónothæft!