Lesnir;

19.5.08

Til baka

Úr barnæsku minni á ég sælar minningar úr fjósinu í Sandvík með afa og ömmu.
Ég man eftir kúnni Randalín í gamlafjósi. Og líka eftir því, hvernig afi hreinsaði opinn flórinn með kústinum og skíturinn rann ofan í gatið á flórendanum. Úr nýjafjósi, sem var verið að byggja um það leyti sem ég var fjögurra ára, eru kannski fyrstu minningarnar frá því þegar mjólkurbíllinn kom, og ég fékk að standa uppi á hvolfdri fötu uppivið mjólkurtankinn, og horfði á hvernig stúturinn saug mjólkina uppúr honum. Stúturinn var með hvítu plasti í breiðum hring á endanum, og mér finnst einhver líkindi vera með því, hvernig hann saug upp mjólkina, og því hvernig kálfar drekka úr fötu – þeir stinga grönunum á kaf, og mjólkin freyðir í snöggu hárinu við ginið og munnvikin.

Svo man ég líka eftir því þegar mamma sagði mér að borða ekki snjóinn af hlaðinu. En það var miklu fyrr. Svo kenndi hún mér seinna að þekkja blómin úti í Engjum; nokkuð sem ég hef alltaf búið að.
---

Þessa dagana er snjór í Arkangelsk. Það var hérna nokkuð hlýtt í veðri um skeið – en á þriðjudaginn fór að kólna, og á fimmtudagskvöldið snjóaði fyrir alvöru. Sá snjór liggur enn.

Ég var núna í vor ofurlítið heima – það hef ekki verið, á þessum árstíma, síðan vorið 2004. Fuglarnir voru komnir. Lóurnar góluðu um allan Flóann og tjaldurinn hópaðist að stinga nefinu niður í túnin. Allir sýndust mér fuglarnir kátir og gáskafullir, einsog krakkar sem eru nýkomnir í útilegu. Það er áður en fer að gæta þreytu – hversu mörg síðsumur hef ég ekki séð mófuglana stygga, hrædda og eirðarlausa yfir lítt fleygum ungum sínum?
Vorstund við blaut tún undir endalausum skýjabökkum getur sætt mann við hvaða mollusumar sem örlögunum þóknast að leggja á herðar manni.

Það var annarskonar veður, þegar við Gunnar fengum okkur sæti á grasinu í einum af hallargörðum Kaupmannahafnar, nú í apríllok. Laufið á trjánum var nýútsprungið, við hallarsíkin stóðu framandi tré alblómguð. Dönsku stelpurnar drápu tímann lausar við allar yfirhafnir, með sólgleraugu og reyktu. Daginn eftir var ég svo kominn til Pétursborgar. Þar var veðrið eins, nema heldur þyngra og heitara. Sólin skein, og mig langaði til að stökkva út á engin milli bjórverksmiðjanna og vökva runnana.
Þegar flugvélin svo var að lækka flugið til innlendingar við Arkangelsk, flaug hún í hálfhring yfir nálæga borg – Séverodvínsk. Þar sem ég sat við gluggann undraðist ég fegurð skóganna og litlu bæjanna, og kom á óvart hreinleiki borgarinnar úr lofti. Enda eru þar baðstrandir og vel rekin skipasmíðastöð. Sem vélin sveigði í átt að flugvellinum, þannig að sjá mátti yfir allan nyrðri hlutann af hinni grænu og sundurteygðu Arkangelsk, bar mest á fjólubláum skugga, sem lagði yfir heilu hverfin. Það var alltsaman reykur úr kolakyndiverinu.
Og þá var ég nú kominn í mína - heimaborg. Sandur á götunum, vörubílar sem ganga fyrir 68-oktana bensíni. Flugvöllurinn vaxinn skítugri sinu á milli steypubitanna, gamall bárujárnskofi að hruni kominn á flugbrautareyju. Í lofti var brunalykt. Sem tónaði síðan út í kunnuglegan ilm af heyskap á þurru og hlýju hásumarkvöldi.

Á heimavistina kom ég og tók eftir því, að í tyggjóklessuna þar sem einn hnappinn í lyftunni vantar, hafði einhver hafði stungið fífli.

9.5.08

Rós á heiði

Mér leiddist í dag svo ég ákvað að þýða ljóðið Heidenröslein e. Jóhann. Í tilefni fjörugra umræðna um ljóðlist hér á Lesnum þókti mér ekki úr vegi að birta afraksturinn. Njótið vel.

Sá einn rósu stauli standa,
stóð á víðri heiði.
Morgunjómfrú æskuanda,
æstur rann, að sjá, á skeiði,
auga bar'hann, særður seiði.
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

Sláni mælti: "nú slít eg þig,
sléttri, rós, á heiði."
Sagði rósa: "þá særi'eg þig,
svo þú æ munt hugs'um mig,
og mig ærir enginn leiði."
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

Sá þá æsti seggur sleit
sanna rós á heiði;
rósin barðist um og beit,
brugðust hennar köll, ég veit;
hitti fyrir rósa reiði.
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

Fyrir áhugasama samanburðarljóðfræðinga er hér svo orginallinn:

Sah ein Knab' ein Röslein stehn,
Röslein auf der Heiden,
War so jung und morgenschön,
Lief er schnell es nah zu sehn,
Sah's mit vielen Freuden.
Röslein, Röslein, Röslein rot,
Röslein auf der Heiden.

Knabe sprach: "Ich breche dich,
Röslein auf der Heiden."
Röslein sprach: "Ich steche dich,
Daß du ewig denkst an mich,
Und ich will's nicht leiden."
Röslein, Röslein, Röslein rot,
Röslein auf der Heiden.

Und der wilde Knabe brach
's Röslein auf der Heiden;
Röslein wehrte sich und stach,
Half ihm doch kein Weh und Ach,
Mußt' es eben leiden.
Röslein, Röslein, Röslein rot,
Röslein auf der Heiden.

3.5.08

Af ljóðum og ljóðum

Óhefðbundin ljóð, án stuðla og/eða ríms, vildu sumir e.t.v. meina að væri nokkur ljóður á máli, ef svo má að orði komast. Í ljósi þess, væri þá ekki gráupplagt að kalla hefðbundin ljóð, rímuð, stuðluð og ort undir háttum ljóð, en skipta hins vegar um kyn á orðinu þegar það er notað um óhefðbundin ljóð og hafa það í karlkyni: ljóður

Vegna þessa skemmtilega samfalls orðmyndanna (í þolfalli, þágufalli eintölu, og þágufalli fleirtölu), geta skáld sem ekki vilja yrkja hefðbundin ljóð kvaðst hafa ort ljóð — en við unnendur hefðbundinna ljóða getum þá kímt örlítið og sagt: Já, gott hjá þér, og er hann góður? 

Slík skáld eru eftir sem áður ljóðskáld, og við getum fræðst um fegurðina og annað dægilegt í ljóðum þeirra, sem fyrr.