Lesnir;

16.11.07

Hátíðardagskrá Lesinna í tilefni 200 ára afmælis Jónasar Hallgrímssonar

Ávarp

Rétt í þessu barst mér sírenusöngur inn um gluggann á kontór mínum í Árnagarði. Heyrðist mér sungið á íslensku, þó að ekki hafi ég greint lagið. Það er vel við hæfi í dag.

Íslenskan hefur líklega aldrei staðið hallari fæti en einmitt nú á allra síðustu tímum. Eitt örlítið dæmi um það er að hreppstjóra í ágætasta hreppi Suðurlands tókst að láta út úr sér að nú væri að líða að 200 ára ártíð Jónasar. Það eitt og sér væri kannski ekki svo slæmt, en verra var að enginn hló að honum. Á það ber að benda að hreppstjórinn er aðfluttur.

Mikið hefur verið rætt um örar breytingar á tungunni á undangengnum árum, þannig að nú er svo komið að unglingarnir skilja ekki einu sinni lapþynnstu útgáfur/þýðingar Íslendingasagnanna. Eina stærsta orsök til þessa tel ég vera samskiptaleysi millum kynslóða. Börn eru alin upp á stofnunum innan um önnur börn og af niðursoðnu forheimskandi sjónvarpi í annan tíma. Ekki tala þau við eldra fólk sem aftur hefur sitt mál frá eldra fólki og þanninn koll af kolli. Þessu ætti bráðast að breyta.

Einnig má eyða orðum í tal um þá grósku sem verið hefur í ljóðagerð síðustu misserin, en þá gleymist að kiðin sem telja sig til skálda nú til dags kunna ekki að beita ljóðstöfum eða binda í brag. Jafnvel má efast um að þau kunni að telja atkvæði. Að yrkja á íslensku hefur alla tíð frá upphafi byggðar merkt: stuðlar og höfuðstafir. Ef ort er án þeirra er ekki ort á íslensku. Stuðlarnir eru svo samofnir íslenskri tungu að stærilæti þykir mér að hnýta í þá. Vel má hafa gaman af orðum sem raðað er saman án þess að þau séu bundin með bókstafarími en að kalla slíkt ljóð eða kvæði og þann sem það iðkar skáld er á misskilningi byggt. Þessu þarf að finna annað nafn. Endarím er hinsvegar aðflutt sunnan úr álfu og má að meinalausu sleppa, sbr. hina fornu norrænu bragarhætti, sem hafa varðveist á Íslandi einu landa. Rímið er ágætt til síns brúks og getur fegrað lítið ljóð, en nauðsyn tel ég rím ekki vera.

Lesendum lesinna til aflestrar færi ég svo frámunalega fánýtt kvæðakorn kveðið af vanefnum og vanviti. Njótið vel.

Einn á vegi gumi gekk
gulri undir sólu.
Hafði í sínum hærusekk
hundrað ljóð á spólu.

Var hans yndi óðafag,
ætíð valdi stuðla.
Ekki vild’ann vondum brag
vitlaust saman kuðla.

Hann var grýttur, hæddur, svei!
Halló þókti og forn.
Borgarbúar vildu ei
Böðverksmjaðarkorn.

Vísast eru vísur malar
vorsins angan glíkar,
en þó þær fáist falar
finnast engar slíkar
andans völlum virtum á
Virgli og Óðni háum hjá.
Þær dyljast oní djúpri lág
dirfast ei að berast á.

12.11.07

Þegar femínisti hrasar í hugtakaneti sínu

(Nótat: Um leið og ég biðst afsökunar á því að ýta Páli skör neðar hér á Lesnum hvet ég lesendur eindregið til að lesa ágætan pistil hans.)

Margar femínístur [!] leitast eftir því að kyngera tungumáls sitt fram úr hófi, í því augnamiði að lýðum sé það ljóst að þær eru meðvitaðar um kyn sitt og stöðu þess í hinu samfélagslega híerarkíi.
Dæmi um þetta er flótti frá hugtökum á borð við maður, þar eð það orð virðist hafa skipt um merkingu nú í seinni tíð og sérhæfzt á þá leið að tapa helmingi þýðingar sinnar, þ.e. orðið táknar karlmaður í margra munni en útilokar kvenmennina.
Æ oftar rekst maður á þetta, nú síðast í dag. Ég las:

„Verslanamiðstöðin er sjálfstæð og manngerð veröld. Kona þarf ekki lengi að hugsa um Kringluna, árstíðabúninga hennar og þemadaga til þess að eiga auðvelt með að samþykkja samlíkingu Barbers og í þessu samhengi er skemmtilegt að hugsa um slagorð elstu verslanar Kringlunnar, Hagkaupa, að það sé þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla!1

Fyrst þegar ég las þetta skildi ég setninguna ekki. Ég hélt að kona væri hér notað til að leggja áherzlu á verzlunareðli kvenna, glíkt veiðieðli karla, en svo við þriðja lestur uppdagaði ég að hér hafði misritast og átt að standa maður. Kannski þetta sé mislukkuð þýðing? En nóg af flimtan. Við fjórða lestur sá ég eitt sem hafði farið fram hjá mér fram að því; nefnilega setninguna á undan, sem einnig er vitnað til hér að ofan. Manngerð veröld. Hér er greinilega andstæðupar á ferðinni, í huga höfundar (höfundarínunnar? höfundunnar?). Vonda veröldin sem höfundur lýsir (sem vissulega er vond, ég tek undir flest það sem tilvitnaður pistill fjallar um) er handverk karlmanna, en vegna sérvizku höfundar í því að vilja ekki segja: „Maður þarf ekki … “ þá gerbreytir setningin um merkingu. Hún angar af kynjapólitík sem er alls ekki það sem pistillinn fjallar um, nema höfundur hafi viljað koma því fram svona á milli línanna. Þá er nú hreinlegra að segja það hreint út frekar en að valda misskilningi með lélegri íslenzkukunnáttu.

---
1 Unnur María Bergsveinsdóttir: „Hvað er Ævintýraland?“ Í gagnavarpinu: http://hugsandi.is/article/210/hvad-er-avintyraland, sókt 12. nóvember 2007.

10.11.07

Vetrarbyrjun

Kæru lesendur, kæru vinir.
Veðrið hérna er ekki ósvipað veðrinu í Flóanum. Ýmist er frost eða hláka, rigning og skúrir til skiptis við éljagang nema ofankomulaust sé, og alltaf í það minnsta gola. Munurinn er hinsvegar sá, að í Flóanum gengur maður um á grasi. Hér gengur maður í drullu.
Núna eru dagarnir litlausir - laufið allt fallið af trjánum, og ekkert minnir lengur á þróttgræna liti sumarsins, fyrir utan öll grenitrén einhverstaðar langt úti í skógi, þar sem er hvort eð er alltaf myrkur. Þó standa enn mjúkar og gulnaðar nálarnar á lerkitrjánum. Liturinn ljáir þeim í senn virðuleika og yfirskilvitlega fegurð. Ég er handviss um að ef ég sæi stúlku á mínu reki með slíkan hárlit þá gæti ég ekki á heilum mér tekið, ekki fyrr en ég drykki með henni kampavín á nýársnótt.

En þar sem enn er langt í nýár, þá langar mig til að stikla á ýmsu, sem hefur borið við í haust.

Flest er meira og minna við það sama. Heimavistin drekkur. Skólinn er að drepa mig úr leiðindum. Kennararnir nenna varla að setja manni fyrir, nema þeir sem eru komnir yfir sjötugt. Þeir eru vel helmingur kennara okkar. Hér í borginni er líka allt hið sama; verðhækkanir og ónýtt malbik. Í öllu Rússlandi er kyndikerfið í Arkangelsk verst búið undir veturinn. Nýji forsætisráðherrann hundskammaði borgarstjórnina opinberlega fyrir ekki svo löngu. Við fengum ekki heitt vatn fyrr en vel var liðið á október. Í 35 daga fór ég þessvegna ekki í sturtu. Ég er mjög stoltur af því.
Nú erum við Sanja herbergisnautur bæði ísskáps- og sjónvarpslausir. Sjónvarpið og ísskápurinn voru í eigu fyrrverandi bekkjarfélaga okkar, og um daginn kom hann og tók góssið. Annars hef ég áður verið ísskápslaus í hálft ár, það var vorið 2005, og fannst það bara allt í lagi. Og sjónvarpsdagskráin er svo mikið rusl að það er ekki nema gott mál að vera laus við það líka. Verst að ég sé aldrei fréttir.
En það er heldur aldrei neitt í fréttum í þessu landi. Fólk les ekki blöð. Það sem stendur í blöðunum er enda aðallega þvættingur og heimska. Í sjónvarpinu eru mestmegnis stórslys, fjöldamorðingjar, Pútín og ríkissaksóknari. Ég horfði með tífalt meiri ánægju á Stöð 7 en á ríkisfréttastöðvarnar. Á Stöð 7 eru sýndar jaðaríþróttir – fiskidorg, pílukast og póker.
Það verður þá bara meiri tími til námsbókalesturs. Mig langar að geta þess að hér eru námsbækur fríar. Sem eru nokkur viðbrigði frá því sem var í Fjölbrautaskólanum. Við búum til bókalista, og komum með hann í bókasafnið, og ef við höfum skilað öllum bókum síðan á síðustu önn, þá fáum við þær nýju vandræðalaust. Ég er hinsvegar einn fárra sem fékk þær í haust; hinir höfðu allir glatað bókum, og vilja helzt ekki láta sjá sig á bókasafninu.

Ég minntist á verðhækkanir. Já, hér er verðbólga, meiri en á Íslandi. Mest hlýzt það af meintum uppskerubresti á korni, sem spratt illa í sumar. Það sést vel á brauðverðinu; hækkaði úr 11 rúblum síðan í vor, uppí tæpar 16. Sólblómaolía hefur snarhækkað, mjólk, og kartöflur. Ostur hefur tvöfaldazt í verði. Bjór hefur líka hækkað. Það eina sem ekki hefur hækkað er niðursoðið kýrkjöt, þriggja ára gamalt.
Framleiðendur og seljendur drýgja vörur sínar sem aldrei fyrr. Ég heyrði, að brennivínsverksmiðjan Alvíz, hér í borg, væri hætt að kaupa spíra sunnan úr Kákasus til þess að búa til koníak, og væri þess í stað farin að nota etanól unnið úr trjákvoðu með brenninsteinsgegnumleiðingu. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.
– Mér finnst einhvernveginn orðið einsog ég sé kominn aftur á 18. öld; kaupi mjöl á okurverði, gott ef ekki maðkað. Svo étum við grautinn okkar sitjandi á rúmunum, enda búum við í baðstofu. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér að setja skæni í gluggann.

Klukkan var færð um daginn. Þannig fer að birta uppúr fótaferðatíma, en kvöldin eru ótrúlega dimm. Ef það er lágskýjað ljómar himinninn upp af götuljósunum, alveg einsog í Norðurmýrinni, á sunnudagskvöldum í logndrífu. Annars er nóttin gljáandi svört. Þangað til að út úr dimmblárri eldingunni fléttist enn einn hrímgrár morguninn.

4.11.07

Nokkur orð um „kyn“

Þó að „kyn“ hafi á undanförnum árum mátt þola slíka sundurtætandi skilgreiningarútreið af hálfu mistækra spekinga og spekúlanta að nú sé orðið vart nothæft lengur (nema þá í hið minnsta fimm undirgreinum, segja mér fróðir menn), vil ég nú samt gera það, eða birtingarmynd þess, að umtalsefni mínu.

Í nýrri útgáfu Biblíunnar, er kom út á dögunum, er stórt skref tekið í átt til þess sem nefnt er mál beggja kynja. Með því er leitast við að tákna ávarp til beggja kynja með greinilegum hætti í stað þeirrar aldagömlu málvenju að láta karlkyn vera hið hlutlausa kyn (allir í röð!). Sumum einstaklingum eða þjóðfélagshópum mun finnast slíkt orðalag útilokandi gagnvart kvenkyni, sem þeir telji karlkynið ekki ná yfir. Í biblíumáli hefur karlkyn fyrir bæði kynin verið sett, og svo hefur það verið óslitið frá fornu fari. Þetta kemur skýrt fram í Skipan Jóns biskups Sigurðssonar frá 1345:

„Ef finnz af liki kristins manz vti eins huers stadar oc se suo miog* vanadr likaminn at eigi siai getnadarlimina. huort karlmanz lik er edur konv. enn menn viti vist at sa edur su sem vti vard atti at kirkiu at liggia þa a yfir at syngia. Enn þat er eigi greint huort yfir konu skal syngia edur karlmanni. Enn þar sem ef er a huort er. truir eg karlmanz tegvndina þvi hier firir eiga at setiaz. þuiat hun er hueruitna j helgum ritningum firir huort tueggia sett.“ (Dipl. Isl. II, bls. 799, eftir hdr. AM 39 8vo frá um 1470).

Hér kemur fram að sé lík svo illa leikið að ekki megi greina hvort um karl eða konu ræðir, skuli sungið yfir líkinu sem væri það karlmaður, enda sé samkvæmt venju að karlkyn geti náð yfir bæði karl og konu. Þó er hér athyglisvert að ekki er vísað til málvenju heldur til Biblíunnar.

En sagði ekki Kristur sjálfur þegar honum var sagt að móðir hans og bræður stæðu úti og vildu finna hann: „Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því.“? Gamla þýðingin hljóðaði að minnsta kosti svo (Lúkas 8:21). Að vísu er þessi tiltekna notkun ögn annars eðlis, en er þessi skilningur ekki lykillinn að túlkun „frændsemisorðanna“ sem fara svona illa ofan í sumt fólk? Hér þarf varla málvenjunnar við. Mér finnst það eyðileggja stíl texta almennt að vera með eilíf innskot, málalengingar og varnagla, og síst til þess fallið að auka hrifmátt textans.

* 'o' er hér með lykkju uppúr sem örðugt er að tákna.