Lesnir;

15.3.06

Matur gerður

Kæru lesendur. Kæru vinir.

Tónverkasmiðurinn mikli Rossini - maðurinn sem samdi Rakarann frá Sevilla – snéri sér eftir tónskáldsferil sinn að annarri listgrein; matargerðarlistinni.
Eða er þetta ekki göfugt? – að maður sem helgað hefur sig einni af hinum æðstu listgyðjum skuli á efri árum gefa sig að ástundun frum-mannlegra íþrótta á borð við kássur og grauta.
Matargerð er enda samofin sögu mannkyns. Og í raun má líta á matargerð sem hverja aðra vísindagrein. Uppgötvanir hafa verið gerðar, og vitneskja orðið til, og allt hefur þetta ýmist verið samferða framþróun mannsins eða bein orsök hennar. Benda má á þá merkilegu uppgötvun, sem gerð var á Ströndum, að hákarl má éta eftir kæsingu, en það stuðlaði að útbreiðslu hákarlaáts á Íslandi, sem er varla þekkt annarsstaðar í kringum okkur. Og Erlingur Brynjólfsson benti í sögutíma á það stórstökk, þegar menn lærðu að koma korni í brauð og öl.

Í matargerð hafa komið fram ýmsir straumar hugmynda, jafnt í æðri matreiðslu sem lægri. Ég ætla ekki að hætta mér útí nein straumaköst, heldur svamla létt í lónum fræða leikmanns, með þeim hætti að birta hér niðurstöður eigin athugana á matargerð; hugrif af henni; orkanir og meðfæri.
---
Súpur eru hentugar að mörgu leyti. Oft er það svo að tími sem þarf til eldunar fer ekki saman við þann tíma sem raunverulega er fyrir hendi. Og til þess að komast hjá því að þurfa að lifa á brauði og tei einu saman er þægilegt að hafa súpu tilbúna í potti og hita hana upp á stuttum tíma þegar vill. Þannig er hægt að eiga í fáa daga tilbúinn mat í potti.
Í súpuna má hafa kartöflur, hrísgrjón eða pasta og hvaða annan kornkyns mat sem er, þar með taldar baunir. Um daginn sauð ég annars súpu með baunum og kuðungslaga pasta. Þegar ég svo var að matast fannst mér einkar skemmtilegt að sjá hvernig baunirnar höfðu skriðið inn í kuðungana, einsog til þess að fela sig eða að leika eftir fjörukröbbum. Datt mér í hug að þetta fyrirbæri gæti vel kallazt komportamentísk mímikría (atferlishermun). - Súpan er svo hituð upp við tækifæri, eins oft og löngun skreppur til. En eftir nokkra daga þá ætti hún að vera orðin all-þykk. Þykknun súpunnar verður til að mínu mati með þrennum hætti: a) Við austur í skál er yfirleitt tilhneiging að skilja bitana eftir en taka vatnið í ausuna. b) Vatnið gufar af sjálfu sér upp og c) hinir fastari hlutar súpunnar renna saman við vökvann og þykkja hann.
Þá er fátt hentugra en að hella því litla vatni, sem eftir er, af pottinum, skella eftirlegunni á pönnu og steikja súpuna.

-- Loðnusúpa. --
Fyrir nokkru sá ég reykta loðnu úti í búð, í frystipakkningum, og ákvað ég að kaupa hana þar eð ég minntist þess að hún væri ágætis matur. Heima á vistinni steikti ég hana, en aðra eins brælu hef ég aldrei vitað. Líka reyndi ég að hafa hana ofan á brauð; og að hafa hana með spaghettíi og tómatsósu, reyndi jafnvel að éta hana eina og sér og að síðustu með hveitibjór, en allt var það tómt erfiði og árangursleysi. Það var þá sem ég sá að hún myndi henta vel í súpu:
- léttsaltað vatn
- kartöflur ekki skornar smærra en í gúlbita, og þær látnar sjóða.
Þvínæst bætt við graslauk. Þá má láta í súpuna einsog tvær eða þrjár loðnur.
Undursamlegt þótti mér að sjá þær synda um, einsog væru þær lifandi, innan um kartöflur og graslauk. Augu þeirra, svo stór og tóm en um leið döpur, raunaleg og allt að því mannleg, virtu fyrir sér þessa nýju veröld, litla en bjarta (potturinn er hvítur að innan), - munnurinn opinn í undrun, eða kannski slokkningu þorsta tilkomins eftir grimmilega reykingu og frost.
Ég þurfti svo að bregða mér frá að gá að tekatlinum, og þegar ég kom aftur að pottinum voru loðnurnar allar sundurtrosnaðar.
- Þessu næst má brjóta egg beint ofan í pottinn, það soðnar strax og verður að nokkurskonar skýjatjásum eða þokuslæðingi.
Súpan bragðaðist harla vel; án verulegrar kryddunar, góð eintóm, hentar annars með gerlausu brauði eða byggöli - einfaldleikans vegna.

14.3.06

Jarteinasögur

Jarteinasögur eru býsna merkileg fyrirbæri nútímalesendum. Í þessum sögum - sem eiga það til að líkjast ögn sjúkraskýrslum - er bágum aðstæðum einhvers manns eða húsdýrs hans lýst, hann heitir á dýrling - t.d. Þorlák eða Guðmund -- hvernig var það, var Guðmundur opinberlega tekinn í dýrlingatölu? -- sem bætir öll hans mein.

Að undanförnu hef ég aðeins þurft að lesa slíka texta, hvorki af fróðleiksfýsn né skemmtanaþrá, heldur vegna þess að óvíða flóa lindir íslensks máls tærar en einmitt hér.1) Hér er dæmi af slíkri frásögn, all-furðulegri:2)

31. Einarr hét maðr ok var Andrésson.3) Hann tók augnaverk, ok honum var krankt í fæti. Getnaðarlimirnir þrútnuðu, svá at hann varð at hafa klæði neðan undir til léttis, því honum þótti sem slitna mundi ella. Ok einn dag, sem hann var úti hjá sleða sínum, þá vatzt fótrinn undir honum, svá at hann gat ekki við spyrnt. Þá tók hann rim ór sleðanum ok studdist við inn í bæinn. Þá þykkir Einari þyngjast, hefir krankleika í augunum, svá at hann mátti eigi sjá, en í fótunum, svá at hann mátti eigi ganga, sárleik af þrútnan getnaðarlimanna, ok um nóttina fekk hann eigi sofit. Þá kallar hann á Guðmund byskup Arason ok hét at láta syngja þrjár sálumessur fyrir sálum föður ok móður Guðmundar byskups ok þess, at [G]uð gæfi honum aldrs heilsu, ok eftir heitit sofnar hann. Ok um morgininn eftir mátti hann vinna ok fekk alla heilsu sinna meina, ok til marks hér um, at þat eistat, er honum var sárara ok meir niðr sigit, var komit upp í kviðinn, en tómt skinnit eftir, ok svá hefir jafnan verit síðan.4)

Það er merkilegt með margar af þessum kraftaverkasögum - lesendur nú á dögum eiga yfirleitt auðvelt með að finna læknisfræðilegar skýringar á kvillunum sem hrjá viðkomandi mann (eða konu5)). Sumar sagnir eru stórlega ýktar (efasemdamönnum eins og mér), þar sem svöðusár gróa á fáeinum dögum og hverfa jafnvel án ummerkja. Hvernig orkuðu þessar ýkjur á samtímamenn þessa fólks? Kunni það að túlka frásagnirnar „rétt“? Sem svo að talað væri í fígúru, eða öllu heldur að ekki ætti að skilja þetta alveg bókstaflega? Það getur varla verið - í þessu tilviki var jarteinum safnað til að Guðmundur kæmist í dýrlingatölu: þær hafa átt að vera sannar.

En nútímalesandi hugsar vísast sem svo: aumingja maðurinn hefur fengið hettusótt.

1) Lesnir vita vitanlega að þessi orð hafði Jón Helgason um allt annað efni, en það má kannski segja að skilgreining „tærra linda“ hafi tekið nokkrum breytingum frá 1958.
2) Þessi frásögn er hugsanlega orðrétt eftir AM 657 C, 4to. (51v), nærfellt stafrétt eftir Jarteinabók Guðmundar byskups:486.
3) Einar þessi mun fæddur um 1180 samkv. Íslendingabók (hinni „minni“).
4) Jarteinabók Þorláks, sem þessi frásögn er úr, er í Stafrænu handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar, en svo óheppilega vill til að 51v hefur ekki verið mynduð - 51r er þar hins vegar, og hana geta menn lesið sér til yndis og ánægju hér
.

5) Þess ber að geta að í þessum frásögnum er greint milli manna 'karla' annars vegar, og kvenna 'kvenna', þeim til fróðleiks sem áhuga hafa á því. Þessi not eru engin yfirlýsing af minni hálfu.

6.3.06

Lesnir - Fyrstir með fréttirnar

Núna rétt í þessu fannst all snarpur jarðskjálfti á 4. hæð Þjóðarbókhlöðunnar.

4.3.06

Orðafæð

Hvernig er það, afhverju bloggar enginn hérna? Helvítis leti er þetta.

Annars sá ég um daginn að háskólarektor vill að HÍ verði kominn inná top 100 Unis der Welt innan fátta ára.

Rektor er bjartsýnn, ætli hann hafi nokkuð komið í útlenskt Universität?