Lesnir;

24.12.06

Gleðilega hátíð!

Menningargagnavarpsmiðillinn Lesnir færir lesendum sínum nær og fjær hugheilar jóla- og nýárskveðjur, nú á fæðingarhátíð Messíasar, sem og á mótum myrkurs og ljóss, gamals og nýs, með þökk fyrir líflegar umræður og skoðanaskipti á árinu sem er að líða.

21.12.06

Undur Gagnavarpsins, eða: dansað kringum Gullkálfinn

Tölvur eru undursamleg tæki. Allar upplýsingar, gögn, skjöl, skrár og heimildir1 heimsins aðgengileg með einum músarsmelli. Sannarlega er enginn ljóður á þessum mikla mætti alheimsvitskunnar. Allt sem fer inn í hið altumlykjandi Gagnavarp blífur þar til hindsta dags. Og sjá viðurkenninguna sem höndlendur lyklanna og skilningsins hljóta af Times tímaritinu, þetta eru menn ársins, þeir sem brúka Gagnavarpið!

Nú tek ég stafrænar ljósmyndir á stafræna myndavél, skrifa lærðar ritgjörðir á mína kjöltutölvu og rita minn fannál af miklum móð. Allt situr þetta öruggt í tryggri umsjá og geymslu í Gagnavarpinu. Tákn rituð á harðan disk tölvunnar minnar eru sem meitluð í stein. Læsileg um alla eilífð. Ekkert fær grandað myndum höluðum upp í erlendar gagnageymslur sem eru tryggari en gullforði íslendska Ríkisins. Aldrei hefur erlend gangageymsla farið á hausinn og hent sínum geymsludiskum. Við getum sofið róleg því skammhlaup, gjaldþrot, skemmdarverk, hrun tölva eru hlutir sem henda ímyndað fólk í flökkusögum og æfintýrum. Gagnatap er þrálátur orðrómur og mýta. Treystum tölvunum, þær eru vinir okkar. Fyrir alla muni ekki taka ljósmyndir á filmur, það er svo hallærilegt. Ekki prenta nokkurt ritað orð út á pappír, það gera bara afar og ömmur, ógó leim. Tölvan er ekki bara vinnslutæki, heldur hin tryggasta geymsla. Passaðu bara að breyta skráarsniðunum og emígrata gögnunum eftir því sem þú uppfærir hugbúnaðinn og skiptir um tölvu. Passaðu bara að hafa flakkara svo til sé varaafrit ef diskurinn skyldi hrynja. Passaðu bara að leita reglulega að vírusum svo enginn fjórtán ára unglingur út í heimi skemmi ekki gögnin þín. Passaðu bara að borga viðgerðamanninum nóg svo hann nenni að laga tölvuna þína. Passaðu bara að missa fartölvuna þína ekki í gólfið svo ritgerðin sem þú ert alveg að verða búinn með glatist ekki.

Er ekki mál að linni? Hversu lengi ætlar fólk að hlusta á þvaðrið í markaðsgúrúunum? Hvenær rennur af almenningi og hann áttar sig á því að tölva er ekkert meir en flókin ritvél? Ef þú vilt geta lesið persónuleg bréf (eða tölvupósta eins og það heitir víst nú orðið) eða önnur skjöl frá þér eftir nokkur ár er þér hollast að setja það á miðil sem krefst einskis annars en augans til að lesa, en ekki tækniundurs sem úreldist á fáum árum og skemmist. Hefur þú reynt að nota gamlan floppý-disk nýlega? Hefur þú reynt að lesa fyrstu skrifuðu geisladiskana þína? Ef augað les það ekki hjálparlaust er því ekki treystandi.

Tölvan er gagnlegt vinnutæki, hljálpartæki jafnvel, en hvorki meira né minna. Varðveitslutæki er hún ekki. Hún er heldur aldrei og alls ekki tilgangur í sjálfu sér.

---
1Hér er orðið 'heimild' notað í rangri merkingu, sbr. athugasemd mína við greinina „Almenningur“ eptir Heimi.

18.12.06

Almenningur

Ég hef lengi furðað mig á þeim hugsunarhætti sem hér er við lýði að til sé einhver hópur fólks með reynslu lífsins sem hafi áhuga á að lesa fræðilegar greinar, eða að sá hinn sami hópur kæri sig um að mæta á ráðstefnur og málþing. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr reynslu lífsins. Það sem ég hins vegar skil ekki er hvaðan sú krafa kemur að þeir sem vilja skrifa um eitthvert atriði innan sinnar fræðigreinar skuli þurfa að skrifa það á máli sem sé þessum fróðleiksfúsa almenningi ekki fullkomlega dulið. Ekki skil ég það mál sem unglingarnir tala í strætisvögnunum - stundum held ég að ég heyri einhverja útlensku en svo eru greinanleg þarna fáein orð sem ég tel mig þekkja - og það er bara allt í lagi; þeir eru að tala um eitthvað sem ég hvorki hef áhuga á né kæri mig um að skilja.

Ég yrði því mjög undrandi á því ef þessi almenningur (sem aldrei lætur sjá sig á opnum ráðstefnum þótt þær séu auglýstar sérstaklega sem slíkar) gerði slíka kröfu sjálfur. Ég yrði líka undrandi á því ef fræðimenn gerðu þetta til þess eins að gera greinar sínar auðlesinni (þar sem það er mun erfiðara að skrifa eitthvað og forðast torkennileg hugtök, og krefst gjarnan meiri skilnings á efninu en annars!)

Eitt skil ég til dæmis ekki: af hverju stafar þessi mikli fjöldi útgáfna fornrita sem eru með öllu ónothæfar? Hvers vegna er til þessi mikli fjöldi misaðgengilegra lestrarútgáfna sem enginn almenningur les ótilneyddur og stundum eingöngu draugar fortíðar með ónákvæmum vinnubrögðum, breytingum, púsluspilsævintýraleiðöngrum og lagfæringum og endurbótum (með góðum vilja þó)? Með þessu eilífa föndri með heimildirnar eyðum við tíma og peningum í óþarfa.

En aftur að málinu, ég skil ekki hvað er athugavert við það orð á borð við transformur, rhetorískur, pragmatískur eða empírískur. Þetta eru orð sem eru notuð daglega en þau mega helst ekki birtast á prenti. Einhverjir segja ástæðuna vera þá að þau lagi sig ekki að íslensku málkerfi (þá þarf einhver bara að taka sig til og laga þau að íslensku málkerfi!):

Rhetorísk vinnubrögð
Rhetorískur hugsunarháttur

Empírísk gögn
Empírískur vinkill
Empírískt flæði

Ég hef áhyggjur af þessum hugunarhætti - ef málið fær ekki að blómstra í öllu sínu veldi þá endar það bara sem stofustáss.

8.12.06

De eruditione eða: skyldur fræðafólks

Ber fólki sem hlýtur háskólamenntun að hluta eða heild fyrir ríkisfé að skila einhverju til samfélagsins umfram eina skitna prófritgerð og svo ekki orð um það meir? Þessi spurning er vandmeðfarin. Hverju ætti slíkt fólk að skila? Það hlýtur að ráðast af menntun fólksins. Ákveðnar deildir háskóla mennta fólk í praktískari hlutum en aðrar, læknar lækna, verkfræðingar byggja, viðskiptafræðingar reikna. Um þátt þess fólks verður ekki rætt frekar.
En fræðilegra nám, theoretískara nám, hvað um það? Ber líffræðingi að stunda rannsóknir eða kennslu, eingöngu, eða á hann auk þess að vera virkur í umræðu m.t.t. síns náms dags daglega? Mér finnst síðari kosturinn augljóst val. En hvað um bókmenntafræðinginn? Á hann að gagnrýna ljóð náungans, með vísan til sinnar sérfræðimentunnar og víðrar yfirsýnar? Á sagnfræðingurinn að leiðrétta samborgarann þegar þekkingarskorts verður vart hjá honum daglegri í umræðu? Já, vitanlega.
En hvernig tekur samfélagið á slíkri gagnrýni, besserwissi, fræðasnobbi, menntahroka? Tilvist þessara orða ein og sér sýnir afstöðu sumra borgara nokkuð vel. En þegar vísindamaðurinn, fræðarinn, nýtir menntun sína í daglegri umræðu á faglegan hátt (hér er ekki verið að ræða um yfirgengilegan hroka og yfirlæti sem allir geta sýnt óháð menntun) vill brenna við að viðkomandi telji sig betri, á þessu sviði, en samborgarann. Þá hlýtur spurningin að vakna: er eitthvað að því? Ef viðkomandi hefur lagt á sig þriggja ára háskólanám eða meira á kostnað skattgreiðenda er hann ekki þá einmitt það, betri en samborgarinn, á því sviði? Og eiga þá ekki bæði skattgreiðandinn og háskólaborgarinn heimtingu á því að sú þekking, sem gerir háskólaborgarann betri en fólk er flest á einhverju afmörkuðu sviði, nýtist og sé nýtt dags daglega, alltaf, daginn út og inn, óháð veðri og vindum, ætíð?
Stutt dæmisaga til samanburðar. Ef bíllinn minn er bilaður og ég ber mig aumlega í samtali við mann sem kemur síðan í ljós að er menntaður bifvélavirki og bendir mér á hvað gera megi til að laga bílinn, kalla ég hann menntahrokagikk í stað þess að þakka góð ráð? Munurinn á bifvélavirkjun og hugvísindum er allnokkur, um það er ekki deilt. En vegna þess að bifvélavirkinn skrúfar „bara“ skrúfur o.s.frv. en hugvísundurinn hefur haslað sér völl á andlega sviðinu vill oft brenna við að fólk finni til minnimáttarkenndar þegar því finnst vegið að hugsun þess. Þetta fólk lítur þó ekki á heildarmyndina, ekki er öllum gefið að nenna/geta setið yfir „gömlum skræðum“ í mörg ár, og að þeim árum liðnum hlýtur fólk að hafa aflað sér einhverrar sérfræðiþekkingar. Það er engin minnkun að því að þiggja ráð eða hljóta leiðréttingu af slíkri manneskju, þvert á móti, þegar rétt er að staðið.
Ég held að snobb fyrir sveitamanninum sem veit sko betur en helvítis auminginn sem aldrei nennti að vinna og sóar bæði tíma og peningum í leikskólanum í Vatnsmýrinni sé plága sem haldi aftur af afrekum andans á sviði hugvísinda. Fólk sem hlýtur sérfræðimenntun í aðferðum hugvísinda, gagnrýnni hugsun og fræðilegum heilindum á ekki að gjalda fyrir menntun sína, heldur vera þakklátt fyrir að hafa hlotið hana og samfélagið á að samgleðjast vegna þess að til er fólk sem leggur það á sig að læra og rannsaka hluti hverra praktísku not skila ekki peningum með hundrað prósenta vöxtum í vasann strax í dag, heldur auðga menningu okkar og andans líf.

2.12.06

Orð sem ættu að vera til

Þau eru ófá, orðin sem ættu að vera til. Orðin sem svo gjarnan mættu vera til. Öll orðin sem við kunnum en notum ekki; orðin sem við höfum á hraðbergi þegar við tölum öðrum tungum og orðin sem við reynum að útskýra með löngum skýringum. Orðin. Orðaforðinn. Það er nefnilega málið, við forðumst orð. Þessi forðun, eða forði, orkar á heilahvelin eins og einhvers konar takmörkun. Orðaforðinn er nefnilega ekki til marks um gnægð, orðagnægð. Nei, orðaforði er beinlínis takmörkun. Orðaforðinn eru endimörk getu okkar til þess að brúka orð.

Hvers vegna segjum við „ekki á morgun heldur hinn“ - „ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn“? Á dönsku getum við sagt „overmorgen“ - „overovermorgen“; svo á einnig við um önnur skyld mál, til dæmis hollensku. Þetta orð kunna Íslendingar, þessa hugsun þekkja Íslendingar, en einhverra hluta vegna notum við þetta klúðurslega orðalag: „ekki á morgun heldur hinn“. Þetta er ófrjótt með endemum.

Englendingar eru okkur þó verri um sumt, verri en við Íslendingar. Við eigum þó orð yfir sama fyrirbæri í fortíðinni: „í fyrradag“ - „the day before yesterday“. Á hollensku má orða þá hugsun á frjóan hátt eins og í íslensku: „eergisteren“. Með herkjum má jafnvel segja „eereergisteren“ en það er jafnvel enn erfiðara á íslensku „fyrrafyrradag“.

Ég vil nota tækifærið og óska hérmeð eftir hentugri þýðingu á „overmorgen“.
Ég óska sömuleiðis eftir þýðingu á „respectively“.

[eytt af skynsemi (ritstj.)]