Lesnir;

2.5.09

Af ráðstefnu um Pál Lýðsson

Í dag, laugardaginn 2. maí, var haldin í Fjölbrautarskóla Suðurlands ráðstefna um bóndann, félagsmálamanninn og fræðimanninn Pál Lýðsson í Litlu-Sandvík í Flóa.
Persónufylgi Páls er nú rúmu ári eftir andlát hans engu minna en það var meðan hann lifði. Sást það á öllum þeim mannfjölda sem sótti ráðstefnuna, salur fjölbrautarskólans var fullur út úr dyrum. Enda var margt að sækja á ráðstefnunni, um skemmtilega og eftirminnilega menn má segja skemmtilega og eftirminnilega hluti. Enda var hver framsagan annarri skemmtilegri, Óli bóndi í Geirakoti náði að lýsa mannlífinu í Flóanum uppúr miðri síðustu öld, þegar samhjálp og samtrygging átti sitt blómaskeið, með eindæmum vel, gamansögur fundarstjórans Þórs Vigfússonar á milli ræðumanna voru eins og hans er von og vísa stórskemmtilegar, þingmennirnir fyrrverandi Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson áttu stórgóða spretti og fóru þeir mjög vel í sínum ræðum veginn á milli gamansemi og alvöru, kvikmynd Gunnars Sigurgeirssonar um námskeið Páls hjá Fræðsluneti Suðurlands sýndi Pál í essinu sínu sem og lýsing Jóns Hermannssonar af sömu námskeiðum og svo mætti lengi telja. En erlendu gestirnir tveir, Ingrid Westin og Arne Torp stálu eiginlega senunni. Tókst þeim að gera gestrisni íslenska sveitamannsins stórgóð skil, og vöktu um leið athygli á því mikla og góða alþjóðasamstarfi sem fram fer í sveitum landsins.
Yfir ráðstefnunni sveif andi ánægju. Af andlitum gesta skein gleði og augljóst var að öllum sem þarna voru saman komnir þótti miklum mun betur af stað farið en heima setið. Þessi ánægja stafaði af þeim góðu kynnum sem allt þetta fólk átti við Pál, og að geta saman rifjað upp allt hans góða starf.
Eftir Pál liggur mikið efni sem enn er eftir að gera skil. Því verður hann nálægur í sunnlenskum fræðum ekki bara í gegnum þau verk sem hann vann að og lauk í lifanda lífi heldur líka við úrvinnslu allra þeirra sagnaþátta og viðtala auk annars sem bíður í skjalasafninu í Litlu-Sandvík.
Að síðustu er við hæfi að hafa eftir þessa vísu dr. Jóns Forna þjóðskjalavarðar, ort eftir annan mann en er eins viðeigandi nú:
Ótal fræðin afreksmanns
eru á lestrarskránum,
Meira þó í huga hans
hvarf með honum dánum.

3 skilaboð:

  • Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:40 e.h.  

  • (Hér slæddist hjá mér ritvilla að ofan.)

    Já, það virðast allir vera afar ánægðir með ráðstefnuna, enda tókst hún víst mjög vel.
    Ég hlakka mikið til að sjá upptökuna af henni í sumar.

    Sagði Blogger Palli, kl. 2:43 e.h.  

  • Takk fyrir þessa ágætlega skrifuðu samantekt. Greinilegt að af miklu var að missa.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 2:51 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða