Lesnir;

21.11.04

Ný hugsun, enn nýrri hugmyndir

Mestu framfarirnar liggja oft í því að við köstum eldri hugmyndum fyrir róða.
Kæru vinir! Hefur þetta nokkurn tíman verið eins satt og nú?
Hvern langar ekki annars í ljóstölvu?

Tími tannhjólatölvunnar er liðinn. Hún eyðilagðist þegar Gunnar flækti skegg sitt í henni. Sjónvarpslampatölvan er úrelt. Kísilsmáratölvurnar eru einsog olíutraktorar. Skammtapunktatölvur eru handan nánustu framtíðar. En jafnvel skammtapunktatölvurnar blikna í samanburði við ljóstölvu. Tæki, þar sem sjálft ljósið er beizlað, og leysir þannig hina ótrúlegustu útreikninga.

En tölvur? Hvað er ég að skrifa um hina steingerðu hluti, þegar ég hef sjálfur nokkuð mun fremra bakvið augu mín? Hliðrænan heila sem býr yfir skrilljónfaldri getu á við þá beztu af þessum stafrænu steingervingum. Tölvur eru okkur aðeins heimskulegar minnisblokkir.

En ný hugsun er möguleg. Ég kynni til sögunnar ljósmanninn.
Ljósmaður. Fyrst líf er úr kolefni, og tölvur úr kísli, og tölvur úr kísli alveg eins úr ljósi, þá er ljósmaður ekkert óhugsandi form.
Við jarðneskir menn erum úr kolefni. Kóðar okkar til kynslóðanna eru úr niturbösum og flóknum sýrum. Hjarta okkar dælir blóði, sem er í grunninnn járn til þess gert að flytja súrefni í hægan bruna í frumunum, þar sem orkan er bundin í fosfórtengjum.
Hjarta ljósmannsins er kalt natrínský, sem hamlar hraða ljóssins í gullnum æðum hans. (Þið skuluð samt ekki halda að ljósmenn hafi eitthvað með gyllinæð að gera.) Nýru hans eru úr kvarsstrendingum, og hann svitnar útvarpsbylgjum.
Ef til vill eru sumar geimverur úr ljósi. Það hljóta þá líka að vera til geimverur úr tannhjólum, lampadíóðum og skammtapuntkum. Og þær lifa einhverstaðar þar sem eru heppileg fæðuskilyrði. Ljósmenn lifa a.ö.l. á ljósi.
Hér að lokum er lítill óður til ljósmanna.

Ljósmaður. Ljósmaður.
Lýstu mér veg á heimsenda.
Þótt ég sé gerður úr elektrónum
en þú úr fótónum
þá erum við samt báðir úr kvörkum
og búum í söðulbökuðu rými.

2 skilaboð:

  • Yrkir þú undir ljóðahætti um framtíðina? Forn þykir mér þú fóstri.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:07 e.h.  

  • Þetta er eitt af þessu gáfumannabloggum

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 11:04 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða