Lesnir;

29.3.05

Þar sem þokan er hvít

Kæru lesendur.
Hratt flýgur stund. Samt er ekki enn farið að hlýna upp fyrir frostmark hér. Blámeisurnar standa enn í trjánum, og krákurnar róta í ruslinu. Snjórinn liggur, og þar sem fólk hefur gengið á honum í vetur, og myndað brautir og stíga, er nú þykkt svell.
Um daginn keypti ég mér reiknivél. Hún kostaði 400 krónur. En það tók óratíma að ganga frá kaupunum, því að útbúa varð ábyrgðarskírteini. Ábyrgðin á þessari forláta reiknivél er heilt ár.
Já, ég hef aldrei áður keypt reiknivél með ábyrgð, en einu sinni er nú allt fyrst. Um daginn smakkaði ég loðnu, þurrkaða og reykta, sem við herbergisnautar mínir notuðum sem meðlæti. Og ég sem hélt að öll loðna væri brædd í lýsisfóður handa búfé. Þetta er hinsvegar ódýr og bragðgóður matfiskur, eftir því sem ég hef lært núna.
Með loðnunni fengum við okkur í staupinu. Vodkinn hét „Svarta gull”, unninn í kolanámuborg norður á reginheiðum, af Bjórverksmiðjunum í Vorkúta. Ég sem hélt að vörumerki ættu að vera traustvekjandi.
Við sama tækifæri fór ég með ruslið í ruslarennuna. Og úr ruslarennunni heyrði ég frábæra latneska danstónlist. Ekki veit ég hvaðan hún kom. En þetta er með því allra ljóðrænasta sem hefur komið fyrir mig hér, ásamt því þegar ég sá þrjá glóbrystinga á trjágrein fyrir tveimur vikum.
Um daginn varð vatnslaust á vistinni. Hjá okkur er vatnið komið á, en í sumum hlutum blokkarinnar hefur verið vatnslaust í heila viku. En hvað um það, vatnið er hvort sem er ekki svo gott. Klóri er bætt í það, og sérstaklega núna að vori til, svo að bæði kalda og heita vatnið er grátt að lit. Ég reyni að gleyma því með því að hafa bara teið nógu sterkt.
Til þess að fara á internetkaffihúsið þarf að fara í gegnum eftirlit. Þar er kerling sem skoðar vegabréfin hjá fólki, og skrifar í stóra bók eftirnafn og vegabréfsnúmar allra sem koma inn í bygginguna. (sem er 22 hæðir.) Um daginn leit hún á aðalsíðu vegabréfs míns, og spurði hvort eftirnafn mitt væri ekki örugglega Krázner. (!) Líklega hefur hún óvart lesið þar sem stendur fæðingardagur og ár.
En ekki meira þrugl að sinni.
Ykkar Flóamaður í Arkhangelsk - Palli

22.3.05

Lærð skrif

Í lærðu lífi lærlingsins, er nemur spakleg fræði á æðri skólastigum, eru skrif snar þáttur. Sérhverjum nema verður að vera ljóst mikilvægi þess, að skrifin séu á því máli, er efni og stað hæfir, en eigi þess tíma tízkumælis og skrílsyrðum — heldur séu þau á vönduðu máli og tímalausu, sem laus eru við hvers kyns nútímalegar ambögur, rangmæli og brákað mál.

Kunnáttu lærðra manna í Norðurlandamálunum, og einkum dönsku, fer mjög þverrandi. Svo mjög er henni ábótavant, að sumir bera alls ekkert skynbragð á, hvað hreint er og íslenzkt, óbjagað og eigi aflagað; jafnvel skynsömustu menn fremja viljanda vanvits slíka misgerð, því þeir telja, að hið fáheyrða og lítt nýtta orðalag hljóti að bera vitni víðlæsis og frjógrar hugsunar.

Fjarri fer því. Með dönskuskotnu málfari hafa þeir afhjúpað fáfræði sína lesendum, er þaðan af geta eigi áreynslulaust lesið ritgerðina sér til fróðleiks, heldur aðeins til athlægis og skopskyni sínu til næringar, en fræðilegri umræðu til óþurftar og menntamönnum til mestu minnkunar og samfélaginu öllu til vanvirðingar. Sínu verri eru þó enskusletturnar, sem hverju mannsbarni ætti að vera hægt, að hliðra sér hjá; slíkar villur eru sannarlega ófyrirleitnastar.

Hvaða nauðsyn rekur óreynda æskuna til voðaverka þeirra, sem hér hafa upp verið talin? Hvers eðlis er sú slettuduld, sem hún er haldin? Duld, sem þrátt fyrir að fara leynt handan snotrar snoppunnar, birtist þó ljóst í verkum hennar og brytjar niður sjónina svo að vér sjáum ekkert nema depla og strik.*

„Þér skuluð eigi  [. . .]  rita“
Villuræflunum kann nú að vera spurn: „Viltu meina að orð sem eru í málinu í dag og hafa vel að merkja verið í málinu í árhundruð séu dönsku- og enskuslettur? Og ekki nóg með það heldur gengurðu út frá því að við séum „fáfróð“. Það er um að geraslá einhverju svona föstu og stilla sér upp eins og alvitur siðapostuli eða svo að segja. Það er sláandi hvað þú berð þig að með miklum hroka. Þetta hefur ekkert að gera með fræðileg skrif. Ég hef á tilfinningunni að skrifin þín séu aldeilis hagsmunum fræðasamfélagsins óviðkomandi! Þvert á móti hefur ekkert að segjareikna með að venjuleg manneskja geti fundið út úr því hvaðan orðin koma. Ég vil undirstrika að það er hvergi stemning fyrir svona dillum. Þú sleppur með skrekkinn í þetta sinn en ef þú svo mikið sem segir múkk um þetta í framtíðinni skal ég sýna þér hvar Davíð keypti ölið!

(áherslur mínar)

Í þessari stuttu athugasemd, sem einhver bögubósanna hefði hæglega getað mælt — ef ekki í gær og ekki í dag, þá e. t. v. á morgun, er nær helmingur orðanna eða orðasambandanna danskættaður.

Gætum tungunnar! Mengum ekki málið. Forðumst  æ t í ð  útlenzk orð, klisjur, tuggur og götumál, svo sem ritað er (** og ***):


að stilla út ... (utstille)
aðvara, aðvörun ... (advarsel)
afgerandi ... (afgørende)
aldeilis ... (aldeles)
auðmýkja ... (ydmyg)
auðmýkt ... (ydmyghed)
árhundruð ... (århundred)
bera sig að ... (bære sig ad)
byggja ... (bygge)
(upp)bygging ... (building)
byrja með: til að byrja með ... (til at begynde med, to begin with)
dýrka ... (dyrke)
e-ð er sláandi ... (er slående)
e-ð liggur fyrir ... (noget foreligger)
e-ð þýðir ... (det betyder)
eins og aldrei áður ... (som aldrig før)
ekki að tala um ... (ikke at tale om)
ekki nóg með það ... (ikke nok med det)
eyðileggja ... (ødelægge)
finna út úr e-u ... (finde ud af noget)
forgengilegur ... (forgængelig)
framúrskarandi ... (fremragende)
gamaldags ... (gammeldags)
ganga út frá e-u ... (gå ud fra noget)
ganga yfir til e-s ... (gå over til)
grundvöllur ... (grundvold)
hafa á tilfinningunni ... (have noget på følelsen)
hafa yfirtökin ... (have overtaget)
hanga saman við ... (hænge sammen ved)
hefur ekkert að gera með ... (har intet med at gøre)
hefur ekkert að segja ... (har intet at sige)
heldur ekki ... (heller ikke)
hljóða upp á ... (lyde på)
innleiða ... (indlede)
(allt) í allt ... ((alt) i alt)
í ár ... (i år)
í dag ... (today)
í framtíðinni ... (i fremtiden, in the future)
koma inn á e-ð ... (komme ind på noget)
kringumstæður ... (omstændighed)
meining ... (mening, meaning)
móttaka ... (modtage)
múkk ... (muk)
mögulegur ... (muglig)
nærvera ... (sbr. nærværende)
óviðkomandi ... (uvedkommende)
reikna með ... (regne med)
samhangandi ... (sammenhængende)
sálusorg ... (sjælesorg)
sem oftast ... (som oftest)
ske ... (ske)
slá e-u föstu ... (fastslå)
sleppa með skrekkinn ... (danskt orðtak)
spursmál ... (spørsmål)
staðsettur ... (enskulegt)
stemning fyrir e-u ... (det er stemning for noget)
stilla e-u upp ... (stille op)
svo að segja ... (så at sige)
svo mikið sem ... (så meget som)
sýna e-m hvar Davíð keypti ölið! ... (danskt/þýzkt orðatiltæki)
taka á móti ... (tage imod)
taka e-ð yfir / yfirtaka e-ð ... (overtage, take over)
teikna ... (tegne)
tilfelli ... (tilfælde)
til staðar ... (til stede)
um að gera ... (om at gøre)
undirstrika ... (understrege)
uppfylla ... (opfylde)
uppstilling ... (stille op, opstillning)
utan að ... (udenad)
útnefna ... (udnævne)
varðandi ... (tugga)
vel að merkja ... (vel at mærke)
vilja meina ... (ville mene)
voru mættir/var mættur (á fundinn) ... (var mødt)
yfirbjóða ... (overbyde)
yfirhöfuð ... (overhovedet)
yfirleitt ... (tugga)
það gengur ekki ... (det går inte)
það gengur út á ... (det går ud på)
það liggur í ... (det ligger i)
þvert á móti ... (tværtimot)
æfa ... (øve)

- Notum ekki strik í hálfkæringi; höldum bandstrikum -, hálfstrikum – og þankastrikum — aðgreindum!

- Setjum ekki eintöluorð í fleirtölu (og öfugt)

* Svava Jakobsdóttir. 1969. Leigjandinn. [bls. 116]. Helgafell, Reykjavík.
** Halldór Kiljan Laxness. 1939. „Ill danska“. Tímarit máls og menningar, 33-35.
*** Dönsk-íslensk / íslensk dönsk orðabók. 1989. Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Svanhildur Edda Þórðardóttir (ritstj). Orðabókaútgáfan.




(Þær hugmyndir sem settar eru fram í þessari grein endurspegla ekki skoðun höfundar).

7.3.05

Réttritunarreglur

Er í raun nauðsynlegt að binda stafsetningu niður í fastmótað form? Hvers vegna eru sett af alþingi lög þess efnis að ég megi ekki skrifa „Grítubackahreppur“? Þessi ritháttur er fullt eins skiljanlegur og hinn hefðbundni „Grýtubakkahreppur“. Það er mín skoðun að takmörkun á frelsi til stafsetningar sé bæði forheimskandi og hefti skapandi hugsun. Einnig má benda á það að fólk virðist nota hvert tækifæri til þess að beita þessum reglum ekki, þ.e. í tölvusamskiptum etc. en þegar skrifin eru fyrir skóla eða annað verða allar reglur voða heilagar. Stafsetningarreglur eru heftunartæki skrifræðisins!
En benda skal á að meginmunur er á stafsetningu og málfræði. Stafsetning er birtingarmynd málfræðinnar, en um leið og málfræðinnni er brenglað af ritara fer skilningur lesanda á textanum fljótlega þverrandi og því ber að verja okkar fögru málfræði með kjafti og klóm.
Sem dæmi um muninn á málfræði og stafsetningu eru eftirfarandi setningar:

Lauphei faeddizt í Grítubackahrepp.
Laufeyjar fæddur í Grýtubakkahreppur.

Fyrri setningin er málfræðilega rétt en kolbandvitlaust stafsett, en sú seinni inniheldur enga stafsetningarvillu en er málfræðilega með öllu óskiljanleg. Hvor setningin finnst þér, lesandi góður, skiljanlegri? Að endingu vil ég færa í orð þá sannfæringu mína, að ef stafsetning yrði gerð frjálsari en þeim mun meira hlúð að málfræði, verði almenn málvitund og málskilningur fólks þeim mun meiri.

Þakka þeim, er hlýddu.

1.3.05

Enn frá Arhangelsk

Jæja, þá er maður vaknaður aftur.
Og Framsóknarflokkurinn enn í ruglinu.
Hvenær endar þetta?

Kaffið hér er hreinasti viðbjóður. Í kaffistofunni í skólanum er selt kaffi. Ég bað um sykurlaust kaffi með mjólk. Í eitt skiptið var ekki til mjólk. En núna er alltaf til mjólk. Verst að það er þykkt og sykruð mjólk. Svo að ef maður biður um sykurlaust kaffi með mjólk, þá fær maður sæt kaffi. Og allt kaffid er neskaffi. Ódýrasta kaffið er fínmalað duft; Kafe Pele.
Rússar nota svo mikinn sykur með teinu, að ég held að það þyrfti að þvo glösin með bráðnu blýi til þess að ná sætukeimnum úr þeim.
En þetta er annars allt alveg ágætt. Maður lærir af þessu nægjusemi.

Mjólkin venst furðu-vel. En ég er samt í auknum mæli farinn að snúa mér að osti.

En fyrst menn voru að spyrja um málfarsstefnu, þá get ég gert örlitla grein fyrir henni í stuttu máli. Í rússnesku er mýgrútur af erlendum orðum. Jafnt tæknileg orð sem ótæknileg eru tekin og hafa verið tekin upp í tungumálið síðustu aldirnar. Dæmi: (этаж) etazh – hæð (í húsi), (штраф) shtraf - sekt (úr þýzku, schtraf), (ликвидация) likvidatsia – mildun aðstæðna.
En öll eru orðin beygð eftir kúnstarinnar reglum, svo að erfitt getur verið að sjá hvaðan orðin eru komin.
Enn má tala um miðmyndarsagnir. Þær eru margar í rússnesku, og haga sér glettilega líkt og íslenskar miðmyndarsagnir. Dæmi um innfluttan stofn miðmyndarsagnar er sögnin adaptirovatsja (адаптироваться) – aðlagast. Hér er miðmyndarendingin –sja. Og öll beygist sögnin léttilega eftir öllum horfum og tíðum.
Allalgengt er að heiti á fyrirtækjum og slíku séu tekin hrá upp úr ensku. Og er þá stundum jafnvel notast við latneskt letur. En það er sjaldan.
Við upptöku orða í rússnesku verður að hafa í huga að framburður og hljóðan breytist oft nokkuð. En þareð ræussneskan hefur yfir að ráða mörgum stöfum sem tákna [s] og slík hljóð, þá er minnsta mál að koma þýzkum, frönskum og enskum orðum á smekklegan hátt í umferð.
Og að lokum, endingin –tsia í uppteknum nafnorðum samsvarar endingunni –tion í ensku og fleiri málum.

En nóg um málfræði. Hér er ofurkuldi, með léttri snjókomu, því að stórt hitaveiturör sprakk í miðbænum fyrir tveimur dögum og gufan hefur legið yfir bænum síðan, í formi hríms og snjós. Herbergisnautar mínir drekka sultu, sem sagt er, og enda á fylleríi um það bil þrisvar í viku. Skólinn gengur sinn vanagang, og lúðrasveitirnar taka frá tíma fimm sinnum í viku. Í gær fórum við ásamt stelpum tveim á bar, og þar dönsuðum við villt og galið.
o.s.frv.

Palli