Lesnir;

17.10.09

Þetta var haustið 2008

Það er yndislegt að uppgötva fyrir sér skáld.
Á steini við Dettifoss las ég brot úr kvæði eftir Kristján Fjallaskáld. Seinna lærðist mér að meta ljóð Jóhanns Sigurjónssonar.

Það var í fyrrasumar, á rigningareftirmiðdegi á Rangárvöllum, að ég ákvað að nenna ekki að vinna meira þann daginn. Tók saman tommustokkinn og snærið og henti því inn í bílinn og ók af stað niður að Gunnarsholti. Hlustaði á Víðsjá í útvarpinu. Sem ég brunaði niður Rangvellingabraut í ölduköstum um mela og sandhaga, lullaði þátturinn áfram. Fjallað var um komandi ljóðakvöld Nýhils fyrir menningarnótt. Svo las Kristín Eiríksdóttir upp.
Hún var útivið. Ljóðið var Leiðin.
Allt byrjaði þetta án þess að ég legði eyrun sérstaklega við. „Enn einhver Reykvíkingurinn að bulla“ – hugsaði ég. Og þó. Röddin gáfuleg en áreynslulítil. Stefið varð sterkara með hverju lagi. Loks var sem orðin ægðu saman í einn stóran flaum, í senn kraftmikinn og hægfara.
Hvaðan kom þetta? Hjartað sló hægar og blóðið gekk í takti um æðarnar. Ég ók, og andaði þungt og hægt, með opinn munninn án þess að taka eftir því.
Svo flaug flugvél yfir Reykjavíkurhöfn, svo að ekki heyrðist meira. Útvarpið lét það gott heita og snéri sér að öðru, enda bráðlega komið að sexfréttum.

Á menningarnótt fór ég á ljóðakvöld í þjóðleikhúskjallaranum ásamt tveimur vinum mínum sem ekki verða taldir neinir sérstakir nýljóðaunnendur. Við komum að vísu ekki fyrren eftir að upplesturinn var byrjaður. Þannig þurftum við að feta með rauðvínsglösin framhjá ljóðaliðinu sem sat og másaði í sætunum og horfði með áfergju á upplesarann. Svo settumst við í laus sæti aftarlega í dimmum salnum. Aldrei hafði ég áður komið á svoleiðis viðburð. Þar var þungt og tilkomumikið andrúmsloft. Á listilegan stökk kynninum ekki bros þó að í gestunum kraumaði hláturinn.
Atriðin voru, eins og gengur, mis eftirminnileg. Sjálfsagt fer það líka eftir hverjum og einum, hvað honum finnst. Þessvegna felli ég engan dóm um neitt.
Þá steig upp Kristín Eiríksdóttir.
Við sátum svo aftarlega í salnum, að eins hvefði hún getað verið að lesa upp í útvarpinu. En röddin og upplestrarfasið var hið sama.
Það var annað ljóð. Stóri hvíti maður. Það byrjaði grunnrist. Óræð böndin bárust að einhverju sem létu mig snöggvast halda að þetta væri and-karllægur róður; að hún væri að segja eitthvað það, sem svo oft áður hefur verið sagt. Þegar tók að líða á ljóðið sótti á önnur tilfinning. Endalausar myndir, óljósar og umlykjandi. Það var erfitt að festa hendur á. En það var gott.
Nokkru áður en ég hvar af landi þetta haust, kom ég eitt kvöld til vinar míns, manns sem telja má framsækinn í menningarmálum. Á meðan hann baukaði í tölvunni, leit ég yfir bókastaflann, og rak augun í Kristínu Eiríksdóttur. Bókina Húðlit auðnin. Myrkar teikningar og texti sem ég teigaði í mig sitjandi á rúmstokknum. Þar hafði ég það. Loksins hafði ég í særóti líðandi stundar fundið mitt skáld. Skáld af minni kynslóð. Mitt í allri Lesbókinni, ofmetna krúttskáldskapnum og sniðugheitunum. Laus við skáldadrýldni og falska hljóma. Kórall í sjó.
Það er satt, að yfirhöfuð botna ég ekkert í því hvert Kristín Eiríksdóttir er að fara í ljóðunum. Þau eru mér í raun gersamlega óskiljanleg. En ég hef líka alltaf haft óbeit á þeim, sem heimta túlkun og skilning á öllum hugverkum. Mætti ég fá að skyggnast í heilabúið þegar fólkið skoðar óhlutrænar myndir?

Í síðustu ferð minni í bókabúð fyrir brottför náði ég í Annars konar sælu. Kom með hana uppá heimavistina, en þorði ekki að opna hana fyrren ég var búinn að lesa mig óþyrstan af öðru.
Eftir fjórar vikur tók ég plastið varlega af og fletti. Las hvert ljóð með hléum.
Hversu glöð verðum við ekki þegar við höfum leitað að einhverju sem við höfum fengið af óljósan þef, en finnum svo aftur og getum sökkt vitunum í? Og orðið ekki fyrir vonbrigðum? Skáld, sem gerði mig fullkomlega sáttan við það, að ég hef sjálfur ekki ort neitt. Því að þetta er það sem ég vildi hafa sagt, og vildi heyra.

4 skilaboð:

  • Til gamans athugaði ég hvað til er eftir hana á Bókasafni Árborgar, en ég vinn þar orðið. Húðlit auðnin (811 Kri Húð) er til, ásamt bókinni Hundshaus (813 Ram Hun)eftir Morten Ramsland, hún virðist hafa þýtt hana.
    Hallur Karl

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:15 e.h.  

  • Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:38 e.h.  

  • Fyrri athugasemd mín átti vissa heimtingu á túlkun og ætluðum skilningi, en til þess að forðast misskilning fjarlægði ég hana.
    Af virðingu við lesandann er hún hér þó endurtekin, orðrétt: Má það vera? Og ég vildi bæta við:

    En þú lætur það ekkert á þig fá.

    Þú skrifar samt.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:49 e.h.  

  • Já Hallur, það var semsagt einmitt sú KE sem þýddi Hundshaus. Ljómandi góð bók, ég las hana nú í haust.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 7:50 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða