Lesnir;

20.6.10

Ís í hádeginu. Bjór á kvöldin

Allt er eins. Vorið kom og sólin skein fyrir utan stutta nóttina.
Hið besta sem hægt var að gera þegar kvöldið er dimmt og skýjin liggja lágt, var að taka sér kvöldgöngu að götusjoppunni og fá sér lítinn bjór á leiðinni heim. Það er svo ... náttúrulegt.
Þegar strætisljósin skinu með gulrauðum ljósum í skýjunum, hugsaði ég um það hve gott væri ef öspin væri þegar laufguð. Þá var hún ennþá nakin. En ég var hræddur um, að seinna, eftir að öspin laufgaðist, yrði orðið of bjart til að finna fyrir ljóðrænunni. Það gerðist einmitt þannig. Svo er heldur ekki leyft að fara út af heimavistinni eftir kl. 12 á miðnætti.
— Veturinn leið allur. Varla hafði nokkur maður komið út í skóg síðan í fyrrasumar. Fyrir utan auðvitað þá fiskiglöðu. Ég eyddi tímanum í skólamatsalnum, og hugsað um búrekstur og stelpur og tók þátt í mali um allt og ekki neitt með bekkjarsystkinum mínum.
Í matsalnum vinnur líka Olga. Hún er með rautt litað hár að öxlum, sviphrein og með bráðföla húð einsog hitasóttarsjúklingur. Þegar hún lætur fram þorsk á diskinn er hún til augnanna einsog Jónas frá Hriflu, en það vottar fyrir brosi í munnvikunum.

Í maí gekk á með þrumuveðri. Fyrst dökknar allt af skýjum, svo hefjast eldingar hingað og þangað um himininn. Ef þær eru nógu nálægt og þrumurnar nógu háværar, vakna oft margar bílþjófavarnir í einu. Eftir svona hálftíma-klukkutíma byrjar himinninn að lýsast, einsog birtan af eldingunum sitji eftir í skýjunum. Það er nú samt bara skynvilla, því að skýjin sjálf hafa losnað við þrumusortann og fá á sig aftur sinn venjulega lit.

Lúðrasveitin spilaði fyrir dansi einn daginn. Kannski var fullt tungl, en eftir fyrra hlé báru tveir hljóðfæraleikarar að nóturnar dönsuðu á línunum fyrir sér. Ég heyrði á tal annars þeirra við stjórnandann:
„Nú, þú skilur Volodja, ég bara sé ekki neitt hvað ég er að spila...”
„ — það getur komið fyrir” svaraði Volodja.
Síðan fóru þeir drukknu upp í herbergi að reykja, og pældu mikið í því hvernig þeir kæmust heim til sín.

Fyrir nokkru brotnaði lágt skarð í bollann minn. Það er fátt heimilislegra en að drekka molakaffi úr skörðóttum bolla. Verst að skarðið er með sprungu í aðra áttina, og ég óttaðist að yfirvaraskeggið gæti fest sig í bollanum. Þannig að ég rakaði það af, og drakk síðan kaffi áhyggjulaus með fæturna uppi í gluggakistunni.

1 skilaboð:

  • Hugmyndir. Svipmyndir. Innsýn og út-. Tvö síðustu skrif þín hér hafa fullkomlega farið framhjá mér. (Tilkynningarskyldan brást.) Skóg-gangur. Er ekki óskörðóttur dreitill afleitur?

    Sagði Anonymous Heimir, kl. 9:21 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða