Lesnir;

21.4.05

Ofan af þriðju hæð

Kæru lesendur.
Mér þykir leitt að geta ekki veitt jafn ríkulega úr viskubrunni námsgreinar minnar og sumir, enda er ég bara á undirbúningsdeild tækniháskóla. En hvað um það.
Og gleðilegt sumar.
Ég fékk einmitt sms frá litla-bróður, með sumarkveðju. Mér þótti afar vænt um það. Ég ætlaði að spá í sumartunglið, en það er svo vont veður að það sést ekki í himininn, hvað þá tunglið sjálft.

En hvað um það. Talandi um veður, þá hef ég stundum hrósað í hljóði skýjafegurðinni hér í Arkhangelsk. En ekki meir. Ég fór um daginn á aðalbrautarstöðina, og sá þrjá reykháfa í fjarskanum, sem uppúr ruku hvítir reykir, einmitt einsog skýin eru. Og ef vel er að gáð, þá má sjá að mest allt veður hér í borg er ættað úr þremur trénis-pappírsverksmiðjukombínötum sem standa rétt austan við borgarmiðjuna.
Á vistinni gengur allt sinn vanagang. Díma herbergisnautur lætur ekki námið setja sér stólinn fyrir dyrnar að fá sér bjór öðru hvoru. Reyndar hefur hann ekki mætt nema einu sinni í skólann síðan í byrjun febrúar; það var um daginn. Hann hafði lagt viku-vinnu í að snúa sólarhringnum aftur rétt, og mætti svo í fyrsta tíma, og gafst upp í öðrum.

Ég gerði súpu um daginn úr byggi. Það hafði enginn sagt mér að bygg væri ekki notað nema sem súpuþykkir og skepnufóður. En í súpunni minni voru 400 gr. af byggi. Ég henti henni eftir þrjá daga. Þetta minnir mig á sögu af gömlum bónda í Flóanum. Orð hans um að sér þætti „nú sambandsmélið betra,” voru túlkuð á þá leið að hann gerði sér súpu úr méli, og ætti þá við að KÁ-mélið væri mun bragðverra en SÍS-mélið.

Þareð ég umgengst mjög fólk á mínu reki, er ég orðinn afar fær í slangri. Jafnvel svo, að mér veitist stundum léttara að segja það sem mér býr í brjósti á afar ómenningarlegan hátt, með orðum einsog „limlegt” og þessháttar orðalagi. Ég er logandi hræddur um að einn góðan veðurdag muni ég missa útúr mér við kennara eða einhvern álíka, setningu á borð við „Ég skil ekki typpi í þessu hórdóms dæmi, það er staðreynd, tík.”

Um daginn átti ég afar merkilegt samtal við kennara minn, konu á miðjum aldri. Þar eð ég var sá eini sem mætti í tíma, spjölluðum við um daginn og veginn drjúga stund. Þar kom að hún spurði mig hvort ég hefði nokkuð á móti því að kvænast hér í Arkhangelsk. „Ætli það nokkuð,” svaraði ég. Og svo benti hún á það hve góðar eiginkonur væri hægt að finna hér, og að ég ætti, þar fyrir utan, endilega að sækja mér eiginkonu út fyrir Ísland, þareð við Íslendingar værum áreyðanlega þjakaðir að margra alda skyldleika. Sem dæmi um úrkynjun af völdum skyldleika nefndi hún Þjóðverja: Sökum aría-kenninga nazista þá væru margir Þjóðverjar nú á dögum bæði magrir og hökusmáir. Svo sagði hún mér að margar stelpur væru á skógfræðideildinni. „En, til hvers þér skógfræðistúdínu? Allra beztar eru hagfræði- eða lögfræðistúdínurnar.”
Þar hef ég það, allt einsog opin bók.
Snjórinn beljar, og vindarnir gnauða. Hundarnir eru horfnir inn, nema þessir stóru villtu, með höfuð einsog á nauti og lafandi tungu.
Með sumarkveðju
Palli

17.4.05

Bókmenntir

Þar sem sú námsleið sem ég valdi mér er oft álitin skilgetinn undanfari þess að mennta æskuna, hef ég óhjákvæmilega velt fyrir mér hvaða tökum ég tæki kennslu á mínu sérsviði. Hér er ofurlítil vangavelta um bókmenntirnar á neðri stigum skólakerfisins, n.tt. um fornbókmenntirnar. Með neðri stigum á ég einkum við efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár almenns framhaldsnáms.

Fyrsta Íslendingasagan sem við vorum látin lesa var Hrafnkels saga Freysgoða. Hún var tekin þvílíkum vettlingatökum að það er ekki nema von að hnussi í æskunni þegar hún heyrir á þessar perlur minnst. Um þessa merkilegu sögu hefur margt verið skrifað og í fyrstu yfirlitsnámskeiðunum í bókmenntum í Háskóla Íslands var farið ofan í kjölinn á nokkrum sérvöldum sögum, þessi þ.m.t. Til dæmis var bent á mikil líkindi við dæmisögur Biblíunnar sem og hugmyndir um uppruna, og eins ýmislegt skoðað sem er athugavert í sambandi við landslýsingar og annað. Áherslan hér: efnið. Í grunnskóla lásum við hins vegar söguna, jújú. En við vorum látin teikna upp ættartré og persónutengslatöflur til að læra fyrir próf; látin muna hve lengi einhver ferð tók; hver væri amma þessa og móðir hins; hvað hesturinn héti; hver væru orð Hrafnkels og hvað vinnumaðurinn héti. - En hverju skiptir það? Þetta stendur í sögunni ef einhver skyldi gleyma þessu; það má fletta upp á svona atriðum.

Hvers vegna er það alltaf þannig í grunn- og framhaldsskóla að nemendur eru ævinlega spurðir út í merkingarlaus smáatriði? Hvers vegna ætti nemandinn að muna hvussu lengi eitthvert ferðalag tók ef lengd ferðalagsins sem slíks hefur engu hlutverki að gegna? Í rauninni skiptir skilningur nemandans á sögunni engu máli; á hann reynir ekkert í þessum prófum. Er nema von að skólar útskrifa árlega þúsundir nemenda sem munu aldrei líta í þessar bækur. Þeir hafa ekki forsendur til annars en að líta á þær sem staglsama ættfræði og statistík.

Það þarf að kynna þennan heim fyrir nemendum. Útskýra af hverju það stendur í þeim sem stendur í þeim. Útskýra tengsl þessarar hefðar við frásagnir í öðrum menningarheimum, þar sem finna má líkindi. Sýna þeim hvað tengir þessar sögur saman. Útskýra hugmyndir um munnmælahefð og frásagnarformúlur. Útskýra tengsl við heiðni og kristni. Útskýra tengsl við uppruna okkar og þessara sagna. Útskýra varðveislu, fyrr og síðar. - Ef kennurum finnst ekki hægt að ræða þessi atriði í grunnskóla, þá á heldur ekki að láta nemendur lesa sögurnar.

Í framhaldsskólanum verður að fara dýpra ofan í efnið. Það þarf að kynna nemendur fyrir fleiri flokkum: Íslendingasögum, fornaldarsögum Norðurlanda, riddarasögum, konungasögum, byskupasögum (kynna þær, ekki endilega láta þá lesa heilar bækur á þessu stigi - það má gera í góðu tómi síðar).

Á þessum aldri hafa nemendur gaman af klúrum lýsingum; tilvalið að láta þau lesa Bósa sögu. Ég er alltaf hálfgramur út í einn kennara í íslensku þegar ég var í framhaldsskóla fyrir að nefna hana ekki einu sinni þegar unglingsstúlka á 1. ári var að kvarta yfir að það vantaði allt um ást og kynlíf.

Auðvitað er gott að láta nemendur lesa frægustu sögurnar og að þeir muni vel alla helstu atburði og helstu persónur (Njáls sögu, Laxdælu, Grettis sögu, o.fl.) en það þarf að setja þessar sögur í samhengi. Margar sögurnar hafa verið rannsakaðar það ítarlega að það er synd að nemendur sjái ekkert nema blóðuga bardaga, statistík og ættfræði í þeim.

Í Njálu má benda á lýsingar á göldrum sem hafa áhrif á stærð tiltekins lims og vandkvæði því tengd og skýra jafnframt hvað mönnum kynni að hafa fundist um slíkar lýsingar. Til að sýna þetta væri tilvalið að skoða þýdda riddarasögu á b.v. Tristrams sögu og sýna muninn á íslenskuðu gerðinni og þeim erlendu, þar sem Íslendingum hefur fundist nóg um ítarlegar kynlífslýsingar og allt slíkt er stytt til muna. Einnig þarf að skoða galdra í sögunum, hvaða augum kirkjan leit galdra. Muninn á göldrum og kraftaverkum ýmiss konar, o.sfrv. o.s.frv.

Er þetta ekki sjálfsagt? Af hverju er enn verið að semja páfapróf sem nemendur verða að páfa sig í gegnum? Límheilarnir skora hátt - þeir sem hafa gaman af sögunum og lýsingunum fá hins vegar ekki að njóta sín. - Ritgerðarspurningar, takk fyrir. Burt með krossapróf.

9.4.05

Varist áhlaupi póstmódernisma að sagnfræðinni

Í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið meðal íslenskra söguspekúlanta (m.a. hér) birti ég lítinn pistil til varnar hefðbundinni sagnfræði.
Það er gott að hefja svona greinar á tilvitnun og brúka sem útgangspunkt:

History, contrary to popular theories, is kings and dates and battles.

Hvað segja þessar vinsælu kenningar að sagan sé ef hún er ekki akkúrat þeir hlutir sem móta hana sem mest? Ef vitnað er í einn virkasta íslenska pómóistann þá segir hann „að fortíðin er ekki einhver fasti á formi upphaflegrar einingar sem hægt er að fanga og sagnfræðingar reyna að grafa upp með öllum tiltækum ráðum.“ Ég er hjartanlega ósammála þessari skilgreiningu. Fyrst skulum við líta á þann akur hvaðan sagan kemur, en það hlýtur að vera heimildaforðinn. Hann er takmarkaður við þau skjöl og fornminjar sem til eru frá þeim tíma sem í athugun er. Ef hinsvegar farið er að túlka t.d. einhvern atburð útfrá okkar tíma og kalla þá túlkun sannleik í dag en ósannindi á morgun; þá er það skáldskapur, ekki sagnfræði. Sagan, eins og við getum endurskapað hana, er eingöngu varðveitt í heimildunum og ef eyða er í þeim þá er það sagnfræðingsins að, útfrá þeim heimildum sem til eru, móta líklega kenningu sem stoppað gæti í það gat. En þetta gerir hann eingöngu að þeirri forsendu gefinni að það sé lesandandum fyllilega ljóst að hér sé um tilgátu að ræða en ekki skjalfestan vitnisburð eða samtímaheimild.
Póstmódernistar fullyrða að „[f]ortíðin sem slík hefur aldrei verið til en eftirmyndir hugmyndarinnar að fortíðinni lifa. Setjum upp einfalt dæmi. Einstaklingur A situr við borð og fyrir framan hann er tómt sælgætisbréf og hann sjálfur ataður súkkulaði um munn og hendur. Hefur þessi einstaklingur sem slíkur aldrei borðað súkkulaði og er bréfið og kámið eingöngu eftirmyndir hugmyndar um sælgætisát?
Þetta í sjálfu sér er voða skemmtilegur útúrsnúningur, en marklaus í sjálfu sér. Svona hugtakaæfingar eru gagnlegar til að stytta mönnum stundir í skammdegismyrkri en skila fræðunum í sjálfu sér engu. Því enn þarf að gefa heimildirnar út, og ekki allir hafa nennu til að eltast við úrelt hugtök sem enginn skilur. (Jú, póstmódernisminn er úreltur, ég skrifa kannski um það síðar)