Lesnir;

30.1.09

Ávítur til auðmanna frá miðöldum

Á ótilteknum stað, fyrir ótiltekinn hóp áheyrenda, hefur ótilteknum manni þótt ástæða til þess að koma eftirfarandi á framfæri við samlanda sína. Þetta var á 12. öld, þá snarað úr latínu yfir á norrænu. Síst minni ástæða er nú til þess að leyfa þessum sama manni að taka til máls, til hægðarauka með nokkrum síðari alda málsbótum og ríkisrekinni stafsetningu:

Mikil synd er óstillt eigingirni, að vilja eiga meira en sjálfur komi nytjum á. En það verður ekki að byrði þótt maður hafi slíkt er til skyldra klæða þarf, eða annarrar atvinnu, ef ekki girnist hugurinn á það sem óskylt er. En ef maður á meira, þá er skylt að það verði að gagni vanheilum og öreigum; því að hver sá maður, er ágjarnlega hirðir auðæfi svo að hann ætlar ekki að neyta þeirra, þá er sem öllu ræni hann því, auma menn og ölmusur.


Sjá: Leifar fornra kristinna frœða íslenzkra, s. 16-17, útg. Þorvaldur Bjarnarson, Kaupmannahöfn, 1878. 

Áhugasamir geta einnig lesið textann ómengaðan af málfari 21. aldar með því að smella hér (4,7 MB, pdf).

15.1.09

„Vörnin er þeim nógu sterk, hjá flestum manna múga.“

Þessi grein birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag, 15. janúar.

„Hófu þeir nú göngu sína og héldu í útnorður; sagði Þórður þá Eggerti frá afreksverkum sínum í Noregi og áflogum í Hafursfjarðar orrustu, en Eggert sagði Þórði aptur frá sínum afreksverkum, og svo ógurlegar verzlunarsögur að öll hárin risu á höfði Þórðar nema eitt, það stóðst ofraunina og lá í kyrð bak við eyra Þórðar. Kvaðst Eggert hafa lánað penninga út á allar jarðir á landinu nema fáeinar, og kvað bændur eigi vera meðalsnápa, er þeir kveinkuðu sér við að lána tíu krónur í silfurpenningum, en lánuðu jarðirnar svo þúsundum króna skipti.“ (Benedikt Gröndal, Þórðar saga Geirmundssonar. 1891.)

Eggert í frásögninni hér að ofan hljómar kunnuglega. Við vitum líka hvað gerist næst, lán á lán ofan sem byggja á síhækkandi jarða- eða húsnæðisverði hljóta að koma í bakið á manni þegar verðhækkanir hætta. Þá fer Eggert á hausinn.

En hvað ber stjórnvöldum að gera þegar Eggert er farinn á hausinn? Ef Eggert átti banka er það skýrt. Almenningi er gert að greiða skuldir hans. Þá er ljóst að Eggert hagaði sér nákvæmlega eins illa og hann komst upp með. Því er sektin ekki einungis hans, heldur og þeirra sem settu reglurnar.

Þegar minkurinn kemst í hænsnabúið er ekki nóg að skjóta minkinn. Bóndinn á að bera ábyrð, og reisa betri girðingar. Reyndar virðist svo vera að bóndinn hafi hleypt minknum inn, og einnig virðist svo vera að viðbrögð bóndans séu þau að tryggja minknum áfram greiða leið inn í hænsnabúið. Áður en svo verður ber bóndanum að segja af sér.

En hvernig gerum við bóndanum ljóst að starfskrafta hans er ekki lengur óskað? Við mótmælum. Nú þegar strætó gengur oft á dag frá Selfossi til Reykjavíkur er engin afsökun eftir fyrir Selfyssinga og nærsveitarmenn sem horfa upp á vinnutap og verðbætur að fjölmenna ekki á fundina á Austurvelli á laugardögum og önnur tilfallandi mótmæli. Einnig er sjálfsagt að halda áfram því góða starfi sem verið hefur í skipulagningu mótmæla í heimabyggð.

Það eina sem þarf til að vondir menn komist upp með sín myrkraverk er að góðir menn geri ekkert.

Þeir sem seilast aðra á,
orga, deila, stinga, slá,
strjúka, stela, ljúga,
og útlegðar vinna verk,
vörnin er þeim nógu sterk
hjá flestum manna múga.
(Stefán Ólafsson frá Vallanesi)

Einhverjum kann að þykja viðbrögð stjórnvalda hin bestu mögulegu. Við þann segi ég: Ráðamenn sem segja mótmælendur ekki tala fyrir þjóðina, skilja ekki áhrif verðtryggingar á venjulegt fólk, átta sig ekki á neyð námsmanna erlendis, fara í mánaðarlangt jólafrí, neita að horfast í augu við mistök sín, hugsa um eigin hagsmuni fyrst, þá flokkshagsmuni og síðan mögulega í þriðja sæti eða enn neðar hagsmuni þjóðarinnar eru á engan hátt frábrugðnir aðalskonunni Maríu Antoinette Frakkalandsdrottningu sem á að hafa spurt afhverju fólkið sem gerði að henni hróp vegna brauðleysis æti ekki bara kökur í staðinn. Þeir sýna hroka þeirra sem hafa búið við of mikið vald of lengi. Flokkurinn sem eitt sinn kallaði: Stétt með stétt! sýnir hegðun sem myndi hæfa hvaða úrkynjaða aðalsmanni sem er. Það er óviðunandi.

En það er kannski ekki svo skrítið að þessi flokkur sýni af sér þennan hroka. Valdastétt Íslands hefur fylkt sér undir merki hvíts fálka á bláum feldi síðan að minnsta kosti á 16. öld þegar Svalbarðsætt hafði það merki sem skjaldarmerki sitt. Sú aðalsætt átti í margar kynslóðir biskupa, lögmenn, sýslumenn og presta. Eru 500 ár ekki nægur tími fyrir sama merki drottnunar fárra yfir fjöldanum á Íslandi? Sérstaklega nú þegar við eigum að heita lýðræðisríki?

8.1.09

Gott strand

Áhugasömum bendi ég á þessa grein eftir mig í Dagblaðinu Nei.

http://this.is/nei/?p=2138