Lesnir;

17.11.04

Sköpun

Nú nýverið fundust líkamlegar leifar lífveru sem nefnd hefur verið Homo floresiensis eftir eyjunni - Flóres - þar sem þetta uppgötvaðist. Um er að ræða fund á beinum e-s sem virðist hafa verið um einn metri á hæð og með heilabú sem er um þrefalt minna en í nútímamanni. Þessi maður mun hafa verið uppi fyrir ekki meira en 12 þúsund árum herma fregnir. Án nokkurs vafa stórmerkilegur fundur. Hitt er annað mál og undarlegra að menn vilja draga af þessu ýmsar furðulegar ályktanir.

Í DV og á vefsíðunni vísi.is birtist grein með yfirskriftina: Er pláss á himnum fyrir smáfólkið í Flóres? þar sem ýjað er að því að fundurinn falli illa að staðhæfingum Biblíunnar.

Ég viðurkenni fúslega að ég lít ekki hlutlaust á málið en ég vil líka að það sé alveg ljóst að ég lít ekki á Biblíuna sem óskeikult rit sem sé fullkomið og skrifað nákvæmlega eftir forskrift frá Guði sjálfum - þ.m.t. um sköpun heimsins og mannsins. Ég get hins vegar með engu móti skilið af hverju túlka þarf fornleifafundi sem sönnun þess að Biblían hafi á röngu að standa og - í víðara samhengi - að t.a.m. kenningasmiðir eins og Darwin séu ógn við þær hugmyndir sem þar koma fram. Álíta menn sem svo að takist þeim að komast að einhverju sem er að einhverju leyti gagnstætt trú kristinna manna þá hljóti það að vera sannindi því allt sem fram komi í Biblíunni hljóti að vera tilbúningur frá rótum? Það finnst mér bera keim af einhverju allt öðru en vísindum. Þar með væri, býst ég við, hægt að skilgreina sannleik í eitt skipti fyrir öll út frá andhverfu sinni: ekki-sannleik Biblíunnar.

- Hvað mælir gegn því að þessi svokallaði hómó flóresíensis sé einfaldlega afkvæmi manns og apa?
- Gæti verið um erfðagalla að ræða?
- Að hvaða leyti er það gagnstætt kenningum Biblíunnar að það finnist lífverur sem eru útdauðar?
- Hvers vegna er það talið afsanna hugmyndir kristinna manna um sköpun að mörg dýr virðist nátengd og jafnvel að þau hafi þróast hvert í sína áttina út frá sameiginlegum forföður? Er nokkuð nema eðlilegt að þau beri skýr höfundarmerki: einn höfundur, eitt handbragð?

Og hvers vegna hafa þessar hugmyndir ekki komið fram? Er þetta tómt rugl?

(Með þessum vangaveltum mínum er ég e.t.v. kominn eitthvað út fyrir minn umræðuramma, með orðræðu sem hæfir máske ekki (mál)vísindalega þenkjandi einstaklingi eins og mér. Það geri ég þó, í og með a.m.k., með orð Foucaults á bak við eyrað um orðræður og mikilvægi þess að stíga út fyrir orðræðugrundvöll þess samfélags sem maður er hluti af og þora að tjá sig um efni sem kunna að vera umdeild. Ég er líka forvitinn að sjá hvort og þá hvussu ósammála menn eru mér um þetta atriði.)

4 skilaboð:

  • Kenningar Darwins........ jahá... einungis í fortíðinni og í biblíubeltinu er þetta umræðuefni. Þið lesnir menn haldið áfram að vera lesnir og skrifandi í efnum fortíðar.

    Samkvæmt biblíunni er jörðin 6 þúsund ára, tja þ.e.a.s samkvæmt kenningum James Ussher frá 1600 og eitthvað. Því er ósennilegt að svona langt þróunarferli hafi átt sér stað á 6 þusundum árum.
    Maðurinn er skapaður í guðsmynd, er guð margar myndir, margar tegundir? Eða þróast guð í margar myndir einsog menninir?

    Það er ekki hægt að trúa þessu nema maður trúi því að sköpunarsagan sé ævintýri og hitt sé satt.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 7:41 f.h.  

  • - Reiknaði sá með mörghundruð ára langri ævi sumra?

    En sköpunarsagan ævintýri - ég er sannfærður um að svo sé að einhverju leyti. Það er gluggarúðuhugmyndin sem ég hafna, þó að rúðan sé e.t.v. brákuð þá er hún ekki mölbrotin.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:54 f.h.  

  • Já, er það virkilega svo að maður og api geta ekki eignast afkvæmi? En nú ,,eru'' þetta ,,dýr'' af ,,sama stofni'' og að einhverju leyti (erfðafræðilega?) næstum alveg eins (97%?) Nú getur hestur átt afkvæmi með ösnu, svo úr verður múlasni (sem er ófrjór?) - Hvernig stendur þá á þessu með apann og manninn? Hins vegar verðum við að líta til þess að þessi flóresmaður ,,var'' uppi fyrir ,,12.000 árum'' og því hefur maðurinn vafalaust ,,þróast'' heilmikið í ,,millitíðinni''. E.t.v. hefur sá ,,apamaður'' getað átt afkvæmi með ,,venjulegum apa''?

    En hvað er það annars með þessa fornleifafræðinga - núna er verið að tala um eitthvert 25 þúsund ára gamalt grjót með áletrun sem á að sanna tilvist mannsins........ hvað gagnast það eiginlega að aldursgreina grjót? Ég get rispað nafn mitt í þúsund ára gamalt grjót, en það sannar ekki að ég sé þúsund ára gamall!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:35 e.h.  

  • Það fer allt eftir því hvað þú notar til að gera þessa áletrun á grjótið, ef þú notar blóðið úr mammútnum sem þú varst að drepa eða býrð til lit úr jurtum (smbr. sortulyngsblekið sem notað var á miðöldum) þá ætti að vera hægt að framkvæma c14 mælingu.
    En hvað er þetta með að menn og apar geti ekki átt afkvæmi? Ég hef gengið með þá hugmynd í maganum í mörg ár að blanda saman manni og apa til að búa til heimskt vinnudýr svo mannkynið geti einbeitt sér að andlegum efnum og orðið Gáfað! Einnig má benda á að einhversstaðar las ég að erfðamengi asna og hesta væri ekki eins nema sem næmi ca. 70%.

    En varðandi þessa grein þá finnst mér þetta nú full mikill hamagangur, gæti þetta ekki bara verið afbrigði af manninum sem hefur ekki þróast hærra en þetta?
    The early humans, or hominins, shared their home
    with the gigantic komodo dragon and the pygmy
    elephant Stegodon.
    Þetta stendur hér. Báðar þær dýrategundir sem þarna eru nefndar eru í annarlegri stærð miðað við það sem eðlilegt getur talist og því ætti manneskja af óeðlilegri stærð ekki að valda miklum usla.

    En varðandi vísindahyggjufólkið sem stekkur til og afsannar tilvist guðs tuttugusinnum á dag, er þessi fanatík hvað það varðar ekki vísbending um sterka stöðu trúarinnar, s.s. maðurinn er í augnablikinu eins og unglingur á mótþróaskeiði sem berst af hörku á móti foreldrum sínum prinsippsins vegna? Nú hefur kkian og kristnin verið dóminerandi í vestrænni menningu í ca. 1500 ár, er ekki mannkynið með vaxtarverki og unglingaveiki?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:19 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða