Lesnir;

31.5.07

Hvort er enska alþjóðamálið eða alþjóðamálið enska?

Hérna fyrir neðan sjávarmál, þar sem súrefnið í loftinu er meira en gengur og gerist í veröldinni, er hugsunin með allra ferskasta móti, frjóar hugmyndirnar næða um hugann og kunnuglegur ilmurinn af nýslegnu heyi vorsins styrkir og hækkar vitundina.

Tilefnið að þessu sinni er eiginlega ritdómur um bók; það skiptir ekki máli um hvaða bók og það skiptir ekki heldur máli um hvaða ritdóm ræðir. Það sem máli skiptir er enska. Og hver er þessi enska? Enska er móðurmál nokkurra hundruða milljóna manna og enn fleiri læra það mál sem sitt annað mál. Af ensku eru svo ýmis afbrigði, líklega fjögur þau stærstu bandarísk enska, bresk enska, kanadísk enska og áströlsk enska, sem hvert um sig á svo sínar innbyrðis mállýskur.

Hvað með ensku sem alþjóðamál þá, velti ég fyrir mér. Er það svo að býsna stór hluti heimsins notar ensku í samskiptum við aðrar þjóðir, eða talar þessi sami hluti alþjóðamál, sem, fyrir nokkra tilviljun máske, er enska? Í síðari spurningunni felst þá að þetta mál gæti vel verið eitthvert annað mál, svo sem latína, gríska, spænska, kínverska eða færeyska; það vill bara svo til að alþjóðamálið er enska. Eða er alþjóðamálið enska? Hvað er þá enska? Hvað er ekki enska, eða öllu heldur, hvað er ekki alþjóðamálið?

Ef ég læt eitthvað frá mér — ég gef út bók — og ég nota þar alls kyns orð og orðasambönd sem tilheyra strangt tiltekið breskri ensku (en þekkist lítt eða ekki í amerískri ensku), er það þá fullgilt rit uppfyllandi það skilyrði að vera á alþjóðamáli? Alþjóðamálinu ensku?

Hvað ef ég skrifa bók — og nú færist ég nær fyrrnefndum ritdómi — sem er á alþjóðamálinu ensku, en þar er sitthvað sem hvorki þekkist beinlínis í breskri ensku né amerískri, en á þó að sumu leyti rétt á sér. Þetta gætu verið latneskættuð orð sem ekki eru notuð í ensku, svo sem konjúnktíf í stað ensks subjúnktífs (þ.e. 'viðtengingarháttur'), eða einhvers konar orðasambönd sem ekki þekkjast í ensku, e.t.v. með einhvers konar myndmáli, og e.t.v. ættað úr móðurmáli þess sem bókina skrifar. Er sú bók þá á brákaðri ensku? Vafalítið. En er sú bók á brákuðu alþjóðamáli?

Þá má enn spyrja; er það alþjóðamál að segja t.d. 'I always get my sin' ef merkingin er 'ná sínu fram'? (Þetta er óbein tilvitnun í titil samnefndrar hollenskrar bókar um skoplegar enskuvitleysur Hollendinga.) Nú hefur orðið 'sin' aðra merkingu í ensku en þá sem 'zin' í hollensku getur haft og því er þessi setning mjög villandi. Hins vegar ræðst merkingin líklega af samhenginu. Getur þetta þá verið gott og gilt alþjóðamál? Sennilega ekki.

En! Hvað þá ef enska tekur breytingum, sem hún gerir. Eltir alþjóðamálið enskuna? Enskan er jú alþjóðamálið, eða það vill svo til að alþjóðamálið er enska. Eða skiptir ekki máli hvernig David Hasselhoff talar, fyrir alþjóðamálið? Gilda sömu málfræðireglur í alþjóðamálinu og ensku? Hvernig er til dæmis með andlagsfall orðsins who í ensku og í alþjóðamálinu? Nú er ekki ólíklegt að David Hasselhoff noti ekki andlagsfallið whom mikið, en eru það rök fyrir því að í alþjóðamálinu sé einnig ekki (eða ekki alltaf) gerður á þessu tvennu greinarmunur?

Getur Bandaríkjamaður alltaf gert lögmæta athugasemd við hvað telst brákað alþjóðamál ef alþjóðamálið fer í bága við hans tilfinningu fyrir sínu eigin móðurmáli?

Er ekki alþjóðamálið í einhverjum skilningi dautt eða stöðugt mál? Ef svo er ekki, ætti alþjóðamálið þá ekki að vera dautt eða stöðugt tungumál? (Hitt er svo enn annað mál hvort eðlilegt sé að enska sé yfirhöfuð alþjóðamál.)

(Ég biðst auðmjúklega afsökunar ef þetta spurningaflóð heldur fyrir einhverjum vöku í nótt. Mér hefur ekki tekist að koma þessu munnlega frá mér við nálæg fórnarlömb og mér hefur alveg áreiðanlega ekki tekist betur til hér, skriflega. Sorry 'Stine.)

17.5.07

Íslensk þjóðarsál



Myndin hér að ofan, sem fengin er af gagnavarpsrás Morgunblaðsins kl. 16:44 17 . maí 2007 segir ýmislegt um okkur sem þjóð. Nylon, sem NB heitir eftir g e r v i efni, sigrar ríkisstjórn landsins í vinsældarkeppni músarsmellanna.

Sic transit gloria mundi.