Lesnir;

31.12.04

Resilensinn málsins

Ég fagna þeirri nýlegu stefnubreytingu Málnefndarinnar að bekenna nauðsyn þess eður importans, að á Íslandi sé töluð íslendska.1 Samfylkingin hefur sömuleiðis gengiðst við þessari stefnu og bent á að mikilvægt er að lögfesta íslendsku sem ríkismál Íslands. Þessi sinnaskipti málnefndar okkar eru sérstaklega áhugaverð að einu leyti, nefnilega því að nú mun minni áherðsla vera lögð á aðfinnslu- og nöldursmálrækt sem einkenndi störf nefndarinnar allt frá stofnun hennar. Það skiptir ekki lengur máli hvernig íslendska er töluð: „rétt“ íslendska, „röng“ íslendska, norðlendska, austfirðska, latmæli eða höggmæli; aðalatriðið er að hér verði töluð íslendska en ekki erlent mál.

Hvað felst í þessu? Trúlega eitthvað aukin áherðsla á nýyrðasmíð, gagnaðgerðir og viðbrögð við ríkri tilhneigingu til að auglýsa vörur og þjónustu á engskri (ellegar ameríkskri) tungu enda þótt Íslendingar séu markhópurinn, auk enn hægara aðgengis aðfluttra Íslendinga að hagnýtu, ódýru íslendskunámi. Allt er þetta gott upp að því marki að mjög varhugavert er að fordæma með öllu áhrif engsku og annarra erlendra mála á móðurmálið. Tungan okkar er afar sterk og fallakerfið okkar stendur mjög styrkum fótum. Þótt umheimurinn hafi verið einangraður frá okkur, þá hefur hér jafnan verið nokkuð greiður straumur erlendra áhrifa að okkur, t.d. með þýddum bókmenntum. Því er alveg ástæðulaust að láta tökuorð ógna kerfinu, en það gerist óhjákvæmilega ef þeim er ekki veittur skynsamlegur þegnréttur, þau viðurkennd og þau aðlöguð.2

Það þarf að bæta úr þessu, snarlega, og móta fordómalausa stefnu í myndun töku- og aðkomuorða. Nýleg könnun hefur leitt í ljós að fólki finnst mikilvægt að fundin séu upp nýyrði fyrir aðkomuorð, enda þótt það telji sig oftar nota erlendu orðin.3 Það vill eiga orðið „tölvupóstur“ þótt „meill“ eða „ímeill“ séu oft notuð við hliðina á því. Þetta er mjög jákvætt, enda er orðið „meill“ aðlagað orð; óaðlagað væri það „meil“ og „ímeil“ og væri ógn við beygingakerfið (meill-meil-meil-meils, rétt eins og stóll). Það sem málnefndin þarf afsalútlega að gera er að gefa út einhver viðmið um myndun og skráningu aðkomuorða svo að hægt sé að kenna notkun þeirra í skólum, einkum meðal barna á eldri stigum grunnskóla.

Að fordæma orð af því að það á sér ekki aldalanga hefð er í sannleika sagt slæmt viðhorf. Engin prýði er af erlendum slettum en mikill munur er á þeim og töku- og aðkomuorðum. Slík orð verður að laga að málkerfinu þannig að þau séu í samræmi við kerfið eins og það er núna, ekki eins og það var árið 1200. Það þarf m.ö.o. að afnema þær hömlur sem nútímaorðmyndunum hafa verið settar með því að miða við fornmál. Nútímamál virðist leyfa öll ísl. sérhljóð í bakstöðu, fornmál leyfði aðeins a, i og u. Þetta sjáum við á orðum eins og „prófessor“, „mótor“, o.s.frv. -O- var ótækt endingarsérhljóð í físl. Færeyingar hafa gengið lengra í þessu en við og tala t.a.m. um prófessor sem prófessari-prófessara-prófessara-prófessara (sbr. kennari). Þetta, eins og margt annað hjá vinum okkar Færeyingum, mættum við taka okkur til fyrirmyndar.

Erlend orð þurfa að beygjast eftir mynstri þeirra orða sem við höfum nú þegar. Þannig hefur so. downloada fyrir löngu festst í sessi sem veik sögn: downloada - downloadaði - downloadað. Hljóðið -w- er ekki í íslendsku hljóðkerfi og Íslendingar eru mjög gjarnir á að sleppa því í slettum og segja t.a.m.: Vindós með ókringdu vaffi í stað kringds í: Windows. Eins er misjafnt hvort affríkatar (þ.e. tvæhljóð) heyrast hér í tökuorðum, og þar virðist vera munur milli kynslóða. Fólk fætt 1940 og fyrr virðist síður nota affríkata en þeir sem eru yngri og segja t.a.m. gjarna „tjillípipar“, en yngra fólk segir oftar „tsjillipipar“ með affríkata (sbr. ch- í e. church).

Hér þarf því að taka ákvörðun um rithátt slíkra aðkomuorða. Ég hef í titli þessarar hugleiðingar notast við orðið „resilens“ sem er stafsett á e. resilence, þ. Resilenz. Hér koma aðallega til álita rithættirnir „resilens“ og „resilence“. Að mínu mati er „resilence“ sletta. Það freistar að setja e-s konar endingu á það, s.s. resilensur-resilens-resilens-resilens, en ég efast um að ég noti það þannig.

Slík aðlögun er afskaplega mikilvæg þar sem henni verður komið við. Til dæmis er tökulýsingarorðið smart orðið það gamalt í málinu að það er farið að aðlagast málkerfinu í máli velflestra: smart herbergi, smartur kjóll, en kannski síðst: smört stofa. Yngra tökuorð „næs“ aðlagast hins vegar ekki, en úr því þarf að bæta.

Við þurfum með öðrum orðum að læra að aðlaga tökuorð, eins og gert er í þýðsku og dönsku með þeim reglum sem gilda í nútímaíslendsku. Ekki hrátt eftir engsku; ekki með forníslendsku; ekki eftir dönsku. Til dæmis orðið interessant sem notað er endingarlaust: „hann er mjög interessant gaur“ þyrfti að aðlagast: interessantur maður, interessönt kona, interessant barn.

Nú um mundir reynir mjög á þanþol málsins. Þanþolið, eða resilensinn, er nokkuð sem við verðum að gefa gaum að, því ef við vörum okkur ekki sitjum við uppi með beygingarlaust mál. Það þarf að hleypa inn erlendum orðum fordómalaust, á forsendum málsins, með aðferðum sem virða skráðar sem óskráðar reglur þess, hljóðkerfislega duttlunga (hljóðvörp, brottföll, o.þ.h.) og koma festu á rithátt þeirra. Með þessu móti er hægt að móta stefnu sem hægt er að halda sig við, þannig að tökuorð eru ekki lengur ógn við íslendsk málsamfélag. Tökuorð á forníslendsku málstigi voru löguð að því málkerfi. Tökuorð á nútímamálstigi verða að vera löguð að málkerfi nútímamáls.

Í fræðaumræðu getur íslendska verið hamlandi vegna þeirrar fasísku málstefnu sem hér hefur ríkt undanfarin 200 ár, ljóst sem leynt, og slíkt getur haft ógnvænlegar afleiðingar. Það þarf að vera hægt að koma alþjóðlegum rótum inn í kerfið, þannig að þeir hljóti rétta og sanngjarna meðferð. Orðin þurfa ísl. viðskeyti og ísl. beygingarendingar.


1. Stefnuskrá Íslenskrar mánefndar 2002-2005. http://www.ismal.hi.is/Stefnuskra2002-2005.html.

2. Íslensk málnefnd: Aðlögun tökuorða. http://www.ismal.hi.is/maltext.html#A%f0l%f6gun_t%f6kuor%f0a.

3. Þetta var verkefni sem RANNÍS styrkti en niðurstöður hópsins hafa ekki verið kynntar opinberlega. Það mun hafa verið Gallup sem sá um framkvæmd könnunarinnar en markmið verkefnisins var meðal annars að kanna viðhorf Íslendinga, með samanburði við Færeyinga, til aðlögunar töku- og aðkomuorða, slettna o.þ.u.l.

30.12.04

Hömlur mannshugans

Í tilefni þess að svo margir álíta jólin andlega hátíð, þá ætla ég að skrifa hérna nokkuð sem líta má á sem andlegt, a.m.k. er það ekki vísindalegt.
Á þriðja jóladag fór ég í afmælisveizlu frænda míns. Það er nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann varð fjögurra ára.
Þar kemur í veizlunni að mér er orðið heitt í framan af kaffidrykkju, og einnig af nokkuð sykraðri og þykkri köku. Við afi erum fyrir tilviljun orðnir einir eftir við sófaholið í stofunni. Þá gengur inn, einsog í leikriti, einhver polli ekki ýkja gamall af hinni ætt afmælisbarnsins. (Ég semsagt kunni engin deili á pollanum.) Og hann segir sísvona við afa hvað það sé skrýtið að heimurinn sé endalaus. Svo minnist hann á það að tíminn sé endalaus líka, með þeim formerkjum, að slíkt sé erfitt að skilja. Svo ganga á milli þeirra pollans og afa spekimál líkt og: hvað Guð sé gamall, hvort maður rekist á eitthvað ef maður ferðast endalaust, hvort einhver hafi skapað Guð, auk vangaveltna um tilvist eilífðarinnar. Samtal þetta mun hafa tekið um hálfa mínútu.

Nú, á sjötta degi jóla velti ég því fyrir mér, hvers eðlis spurningarnar sem þeir slógu upp séu.
Ég kýs að líta á þær með þekkingu minni úr Lifandi Vísindum og Vísindavefnum. Þá fást eftirfarandi fletir á málin:
i. Endaleysi heimsins veltur á ljóshraða. Þetta er því ekki annað en reikningsatriði.
ii. Tíminn er háður efni. Ef efnið er eilíft er tíminn endalaus.
iii. Ef Guð er ekki úr efni, þá hefur tíminn engin áhrif á hann. Aldur hans væri því markleysa.

Í sambandi við þetta er eitt sem skiptir máli – það eru takmarkanir hugans. Ég hef lengi verið að velta fyrir mér takmörkunum hugsunar minnar, allt frá því að ég komst að því hversu erfitt ég átti með að ímynda mér að það væri ekkert fyrir utan alheiminn.
Svo hef ég rekist á nokkur fleiri atriði, s.s. rými í einni vídd, heim án tíma, heim með fleiri en þremur rúmvíddum, lokað rými fyrir þeim sem er innan í því, að ógleymdu engu.

Það er svo, að við erum ekki gerð til að fást við slík atriði. Við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund vitaðan mikinn fjölda, einsog t.d. 100. 5 er auðvelt að hugsa sér, en fyrir mig sjálfan eru málin farin að vandast í kringum 8. Samt getum við gert allt sem við viljum við stórar tölur, notað þær og reiknað með þeim án vandkvæða.
Sumir hafa náð langt í að brjóta hlekki hamlanna af huga sér. Hawking hlustaði á Wagner þegar hann hugsaði í ellefu víddum, svo að konan hans fór frá honum. Margir eðlisfræðingar hafa í gegnum tíðina byggt kenningar og niðurstöður upp, svo úr hefur orðið nokkuð undarleg heimsmynd, s.s. það að ef hlutur er á hreyfingu þá styttist hann.
Þetta er góðs viti.
Hugur okkar tekur nær algerlega mið af því sem hann skynjar. Ef við sæum ekki, þá ættum við erfitt með að hugsa okkur liti, o.s.frv. Ef til vill ættum við auðveldara með að gera okkur grein fyrir heiminum ef við værum búin skynfærum á þyngdarsvið, rafmagn, rafsegulsvið og víðara skynsvið hljóðs og rafsegulbylgna.
Það er því augljóst að við hvaða viðfangsefni sem er eru möguleikarnir kannski fleiri en okkur detta í hug.
Fáránlegir möguleikar eru bara fáránlegir af því að okkur finnst þeir vera það, ekki af því að þeir séu það.

23.12.04

Gleðileg Jól!

Þverfaglega fræðasamfélagið Lesnir óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári, með þökk fyrir líflegar umræður og góðar viðtökur.

19.12.04

Um jafnvægi

Kæru lesendur.
Í árdaga ævi minnar - ég hef verið í kringum tíu ára aldur - þá voru Radíusbræður með skemmtilega einþáttunga í sjónvarpinu. Mér þóttu þeir afar skemmtilegir, sem og yfirleitt öðrum, jafnt eldri sem yngri.
Seinna, þegar ég rifja þessa þætti upp í huganum, þá sé ég ýmislegt meira en bara grín. Í mörgum þáttum þeirra var sannleikurinn reifaður, sem og ótrúlega nýstárlegar hugmyndir, sem við erum jafnvel ekki enn búin að gera okkur grein fyrir.
Einn þessara þátta var í búningi veðmáls eða nokkursonar sýningar á ótrúlegum atburði. Svo að ég tali skýrt, þá fólst það nákvæmlega í því að Steinn Ármann Magnússon lék bókmenntafræðing sem með tali sínu drap hest úr leiðindum.
Náttúrulega var þetta allt saman leikið, og ég held að engin trúi því í raun og veru að bókmenntafræðingur geti drepið hest úr leiðindum. En í þessu felst samt sannleiksvottur. M.ö.o.: bókmenntafræðingar eru landplágur.
Ég hef sjálfur orðið var við starfsemi bókmenntafræðinga. T.d. las ég í Lesbók Morgunblaðsins eitt sinn merka grein um blogg-væðingu Íslendinga. Þar stóð meðal annars speki á borð við „bloggið verður þannig framlenging á taugakerfi mannsins”. Jæja, og þetta er bara eitt dæmi, ég þorði ekki að fara að leita að fleiri dæmum, því að ég óttaðist sálarheill mína. Og allstaðar sjá þessir bókmenntafræðingar tákn og merkingar. Í stað spádóma byggðum á flugi fugla og innyflum nauta, sem voru tákn frá guðunum, eru nú komnir bókmenntafræðingar sem taka ekki mark á öðru en því sem aðrir menn gera. Eða kannski bara sjálfum sér.
Ég segi því: Bókmenntafræðingur gerir heiminn verri.
Hvenær fáum við annars að sjá hópslys bókmenntafræðinga?
Ef þúsund bókmenntafræðingar væru á skipi, sem væri að flytja þá frá ráðstefnu um tráma delfískrar táknhyggju, og skipið lenti á flugfiskatorfu og sykki. Síðasti bókmenntafræðingurinn, með steyttan hnefa á lofti, með munninn hálfan af sjó, öskrar: „Guð refsi Englandi!” Skilaboð, sem aldrei komust á leiðarenda.
Ég sé samt fyrir mér flugslys, þarsem breiðþota með þúsund bókmenntafræðinga innanborðs brotlendir.
Vitanlega, er eitt í því; við yrðum aldrei vör við afleiðingarnar ef flugvélin lenti einmitt á einum skógfræðingi sem væri á labbi í skóginum.
Þannig myndi það jafnast út.

12.12.04

[?-!]: Undirstöður og takmarkanir

Á leikskóla lærði ég margt sniðugt. Og margt af því sem ég meðtók þar hefur fylgt mér alla tíð. Einnig átti leikskólinn eflaust stóran þátt í því að þroska með mér ýmislegt sem hefur komið að notum síðarmeir, m.a. samskynjun forms, lita og hugtaka, sem gerði það að verkum að þó að fóstrurnar segðu mér að Guð væri gamall með gríðarsítt skegg, þá fannst mér hann í rauninni alltaf ljósblár, í laginu einsog Finnland. Einnig lærðum við um andheiti. Samheiti komu ekki fyrr en í 5. bekk grunnskóla. En ég hef síðar á lífsleiðinni oft rekið mig á það, að það eru til fleiri andheiti sófa en bara stóll. Eins er með spurningar og svör.
Nokkrar athugasemdir voru réttilega gerðar við reifun mína á spurningum og svörum, sumar raunvísindalegar, aðrar félagsvísindalegar. Ég tek því afstöðu til þeirra hér.
Sævar gerir ráð fyrir því að Alheimurinn sé samsettur úr óendanlega smáum einingum. Þannig megi segja að framkvæmd aðferðarainnar [...C¿←C←B¿←B←A¿←A...] (sem er andstæða [...A?→B→B?→C→C?...]) stefni á óendanlegan tíma.
Þetta tel ég í grundvallaratriðum rangt, því að, 1) heimurinn er ekki gerður úr óendanlega smáum einingum, heldur má hugsa sér þá minnstu sem 1, og allar aðrar sem R+∙1, sjálfstæðar, eða byggðar úr öðrum. Og 2): Svör-spurningaraðferðin á ekki sérstaklega við um einingar alheimsins, heldur er hún óhlutbundin aðferð (sbr. heildunar-diffrunarbrandarann) sem fæst við innsta eðli hans.
Sævar bendir einnig réttilega á að ef gert er ráð fyrir því að rétt svar sé í raun 42, þá sé óumflýjanlegt að sá hinn sami og leitaði svarsins verði ekki ánægður og vilji nýtt svar, þar sem svarið segi í raun ekki neitt.
Þessi röksemdafærsla gengur hinsvegar út frá því að lokasvar með aðferðinni [...A?→B→B?→C→C?...] sé 42, en á því eru afar hverfandi líkur.
Jón heldur því fram 1) að það séu til mörg svör, svarið sé ekki takmarkið heldur það að finna lausn á vanda. 2) Að finna spurningu útfrá svari sé auk þess ekki hentug leið því að spurningin geti verið gagnslaus.
Þetta er rétt 1), svar er í sjálfu sér ekki takmark, en allar lausnir eiga það hinsvegar sameiginlegt að vera svör. Þessvegna leitum við svara.
Hvað varðar hina staðhæfinguna 2), þá er það jafn gagnslaust að fara afturábak og áfram, ef maður er ekki á rétta veginum. En ég tel að sé maður á veginum, þá skipti ekki máli hvort maður bakkar að upphafspunkti leiðarinnar eða ekur beint að endastöðinni, það hlýtur að hvorttveggja að vera jafn erfitt ef maður fer útaf.
Í hnotskurn liggur þetta þannig: Smættun á alheimi með spurningum og svörum liggur hvorki frá hinu stóra til þess smáa, né frá hinu smáa til þess stóra. Smættun með spurningum og svörum fæst ekki við hluti, heldur hugtök.

Svars-spurningaraðferðin er ekki nothæf nema svör og spurningar eigi sér upphaf og endi.

En að lokum þá velti ég því fyrir mér hvort það sé ef til vill ekkert lokasvar, og engin lokaspurning, eða jafnvel, að það séu fleiri en eitt lokasvar og lokaspurning.
Ég tel einlæglega að lokasvörin og lokaspurningarnar séu hvor um sig 42.
Framvegis byggi ég átrúnað minn á því að guð og alheimurinn sé 42-einn.

11.12.04

Próf

Ég skrifa alltof sjaldan hérna, en hér er smá bót á því.

Voðalega eru skrifleg próf ónýt aðferð til að mæla þekkingu. Hvernig er hægt að ætlast til þess að marktæk niðurstaða fáist ef maður situr sveittur í 3 tíma að ansa handahófskenndum spurningum úr námsefni síðastliðinna 3 mánaða? Hvað tengist það hæfni manns í viðkomandi fagi?
Miklu nær væri að hafa símat yfir önnina og síðan undir lok kennslu eitthvert stutt spjall við kennarann um hvað maður hafi lært, hvernig það muni nýtast manni o.s.frv. Fyrir utan nú aukna ritgerðarvinnu. Helsti gallinn við þetta er að þá þyrftu kennararnir að vinna vinnuna sína, sem náttúrulega nær engri átt. Einnig fer þetta auðvitað eftir fögum, það er ekki hægt að beita sömu aðferðum við að mæla hæfni í t.d. línulegri algebru og rifrildi sagnfræinga um kalda stríðið (einnig þekkt sem mannkynssaga IV, skelfilegur kúrs). Samt er það gert, í báðum fögum þurfa nemendur að sitja í einhverja 3 tíma og ansa handahófskenndum spurningum, og auðvitað er ómögulegt að bæði kennaranum og manni sjálfum finnist sömu hlutirnir vera aðalatriði, þannig að þetta verður bara einhver tilviljanakennd tala sem mun ráða því hvort maður nær eða fellur.
Eins finnst mér, í minni skor, vera alltof lítil áhersla á aðferðafræði. Megnið af tímanum fer í að læra einhverjar staðreyndir, eða það sem verra er, læra um rifrildi einhverja misdauðra sagnfræðinga um hvað þeim fannst vera staðreyndir, í stað þess að senda mann í verklega kennslu á skjalasöfnum eða álíka stofnunum.
Auðvitað er mikill munur á milli kennara hvað þetta varðar, en yfir heildina litið held ég að það sé stórkostlegt metnaðarleysi á flestum vígstöðvum, og ekki bara þar, heldur hjá nemendum líka. Það er alltof algegnt að fólk sé þarna nánast eingöngu útaf vísindaferðunum. Þær eiga náttúrulega allan rétt á sér, en þær eiga ekki að vera ástæðan fyrir því að fólk fer í háskólanám.
Endilega tjáið ykkur um ykkar skoðanir á þessu öllu saman, er ég bara bitur og nenni ekki að lesa undir próf?

8.12.04

Að vita betur

Ég er nú á mínu þriðja skólastigi, eftir að hafa lokið grunn- og fjölbrautaskólanámi, og á þessum ferli mínum hef ég fengið að kynnast ýmsum viðhorfum sem eru mörg hver mjög sérstök. Í grunnskóla var okkur kennt sitthvað í skrift, málfræði, reikningi, samfélagsfræði og þess háttar. Í framhaldsskóla var þessu aðeins haldið áfram, með athugasemdum frá kennurum þess efnis að enn ættum við ýmislegt ólært, og sumt af því hefði grunnskólinn svikist um að kenna okkur eða við gleymt að leggja á minnið. Þannig var í framhaldsskólanum oft bara verið að endurkenna: frumlag, andlag, umsögn, hljóðvarp, hljóðritun, nefnifall, aukafall, aukaföll, nútíð, þátíð, framtíð, þáframtíð, núþáleg tíð, skildagatíð, þáskildagatíð, fortíð, þágufallsýki, .... Snobbað fyrir fróðleik: þetta áttum við að kunna.

Í Háskóla Íslands tók allt annað við og miklum tíma var varið í að kenna okkur að gleyma sem flestu af því sem við höfðum lært. Í íslensku eru ekki 8 tíðir - það er beinlínis rangt að halda því fram - þær eru bara tvær: nútíð og þátíð. Það er rangt að segja að eitthvað sé málfræðilega rangt ef góður hópur fólks segir það, og þið eruð barasta öll þágufallssjúk, þið kunnið bara misvel að leyna því. Og það er ekkert athugavert við að stökkva milli nútíðar og þátíðar í texta (á hið gagnstæða var mikil áhersla lögð í grunn- og framhaldsskóla) - þvert á móti er það ákaflega íslenskulegt, og eitt sterkasta einkenni ritsmíða, ekki síst Íslendingasagna. Nýyrðasmíð er kjánaleg og lærð orðmyndun eins og 'mótald' gefur skakka mynd af málinu. Þá er allt fallegt og gott í forníslensku ýmist tómar lygar og málfyrning, eða ljót og bjöguð gotneska.

Og þetta er gaman!

Það sem líka er skemmtilegt er að málfræðingar leyfa sér að vita betur en menn sem voru að lýsa tungumálinu sínu og voru uppi fyrir meira en þúsund árum. Á fornri rúnaristu er varðveitt orðmyndin 'harabanar' [þ.e. hrafn] en sá sem skrifaði það skrifaði það vitlaust. Hann ætlaði að skrifa 'hrabnar' - hvers vegna? jú, [sko] vegna þess að [sko] þegar hann var að stafa sig í gegnum orðið [sko] þá bætti hann við óþarflega mörgum a-ristum [sko] Er trúlegt að maður færi að rista fleiri hljóð en hann ber fram? Er það ekki miklu erfiðara? Á þessum ristum má auk þess sjá að þeir eru í vandræðum með pláss oft, sérstaklega ef þeir eru að rista eftir horni, þannig að táknin minnka og minnka eftir því sem þau nálgast heilan hring. Jæja góði - ætlarðu þá að segja að Vernerslögmál sé uppspuni! Veistu ekki að ég er með doktorsgráðu frá Harvard í Verner!

En hvað það er gaman að vita betur!

Ég ætla að leggja fram kenningu. Kenningu þess efnis að -tt- í forníslensku hafi ekki verið borið fram -tt-. Ég geri það í fullri alvöru. Í frumgermönsku ku orðið dóttir hafa verið 'dohter' (með löngu e). Í gotnesku er þetta 'dohtar'. Í þýsku 'Tochter'. Í frumnorrænu sennilega 'dohtir'. Í forníslensku skrifað 'dóttir'. Í nútímaíslensku borið fram 'dóhtir'. Sjáiði hvað ég er að fara? Er þetta trúleg þróun: ht > tt > ht ? Historí rípítíng?

Nei, ég ætla að fá að vita betur en Forníslendingar: þeir skrifuðu þetta vitlaust [sko].

6.12.04

Er þetta lokaspurning?

Þegar ég var tólf ára las ég í skólablaði stutta sögu. Hún var á þessa leið:
Stærðfræðibrjálæðingurinn steig uppí strætisvagn, og sagði við farþegana: „Ha! Nú heilda ég ykkur öll – Og svo diffra ég ykkur! Bwaahahaaa” Mikill óhugur kom á fólkið. Þá sagði Gísli stærðfræðikennari: „Beep, ef maður heildar, og diffrar síðan aftur, þá kemur sama útkoman.”
Já, þetta var nú ómerkileg saga. Samt má leggja dálítið út af henni.
Hún er í sem styztu máli um dreng sem ætlar að heilda og diffra (heildun er þýðing á e. integral, áður þýtt tegrun, diffrun heitir núna deildun, eða afleiða) þ.e. hann vill beita fallrænum aðferðum við hluti, n.t.t. fólk í strætisvagni.

Það er vel þekkt stef, að beita óhlutbundnum aðferðum á hlutbundna hluti. Til dæmis getur Heimir orðræðugreint fólk. Margir guðfræðingar hafa líka reynt að leggja saman heiminn, margfalda hann, eða deila honum upp í heilaga þrenningu. Sumir sjálfmenntaðir áhugamenn um náttúruna hafa jafnvel ætlað að reikna þróun heimsins út. En það er ógerlegt samkvæmt skammtakenningunni.
---
Ég er því stoltur af því að kynna hér enn eina aðferðina: smættun. Þetta er vissulega ekki ný aðferð, en mér hefur tekist að smíða úr henni skemmtilega aðferð við að komast að endimörkum tilverunnar.
Segjum sem svo, að maður beri upp spurningu, sem hljóðar svo: A? Svarið er B. Þá má halda áfram: B? Og svarið verður C, o.s.frv. Þetta er einfalt. Í vísindum er þetta notað, t.a.m. þegar menn spurðu sig í árdaga hvað ylli hinum undarlegu eiginleikum rafs. Og loks fundu menn svarið: rafhleðsluna. Þá spurðu menn náttúrulega hvað rafhleðsla væri, o.s.frv. Það magnaða við þessa aðferð er að allt þetta endar á einhverju loka-svari. Enn sem komið erum við á strengja-stiginu. (Þ.e. strengirnir innan í kvörkunum. Öreindir eru síðan úr kvörkum.) Ef til vill mun okkur auðnast í framtíðinni að búa til eitthvert loka-svar, þar sem allt er samanþætt; strengirnir, óvissulögmálið, Henderson-Hasselbalch og Nernst. En á meðan Evrópusambandinu er stjórnað af Ítölum gerist það ekki.
Þá komum við að smættuninni. Ef við snúum [A? B – B? C] ferlinu við, fáum við þetta: [Svar C – hvaða spurning gefur svarið C(?) – B?, hvaða svar leiðir af sér spurninguna B?(?) - B – o.s.frv.]
Samkvæmt kenningum mínum, ( sem eru svo nýjar að þær eru ekki finnanlegar á google), þá á þetta smættunarferli svara og spurninga að leiða mann að einni loka-spurningu.

Ég tel að sú spurning sé engu minna verð hinu mikla lokasvari.

Þjóðsöngur Íslands

Að undanförnu hefur þónokkuð verið rætt um íslenska þjóðsönginn og nokkrir hafa, opinberlega, sagt að hann sé óskiljanlegur (t.d. Þórarinn Eldjárn í viðtali á Rás 1). Heyrst hefur að það sé bara ágætt að enginn skilji hann því þetta sé slík endemis þvæla hvort eð er.

Ég skil ekki hvað menn eins og Þórarinn skilja ekki.


Ó, Guð vors lands! Ó, lands vors Guð!
Skýring: Þetta er krossbragð þar sem setningarliðnum er snúið við og er alþekkt klassískt stílbragð. Ég skil orðin sem svo að um ákall til Guðs sé að ræða, keimlíkt því sem við förum með í Faðirvorinu: Faðir vor ...

Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Skýring: Þetta samsvarar Faðirvorsins: Helgist þitt nafn. Vér vísar að öllum líkindum til allra íbúa landsins, sbr. ofanvert ákall.

Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.

Skýring: Löngu liðnir fylgismenn sem farnir eru yfir móðuna miklu hafa óslitið lofað Guð sinn. Ef menn skilja þetta sem þyrnikrans þá snýst það við.

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:

Skýring: Í fermingarfræðslunni var okkur kennt - eins og almennt held ég í Biblíuritskýringum - að þúsund ár tákni oftast eilífið í Gamla testamentinu (og þegar vísað er til þess). Þetta er til marks um vanmátt mannsins gagnvart Guði.

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Skýring: Hér er sama uppi á teningnum. Maðurinn má sín lítils gagnvart Guði sínum, sem hann ákallar en deyr að lokum. Þetta er tvíbent, því landið er líka lítið.

Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,

Skýring: Ísland að eilífu? Þetta er tvíbent. Vilji menn túlka þúsund árin bókstaflega þá er það gott og blessað. Þá er þetta öll saga landsins.

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Ó, Guð, ó, Guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,

Skýring: Við áköllum Guð og erum brennandi í andanum.

Guð faðir, vor Drottinn frá kyni til kyns,
Skýring: Endurtekning frá því á undan. Guð allra, lifenda og dauðra.

og vér kvökum vort helgasta mál.
Skýring: Tvíbent. Við biðjum af brennandi sál og/eða eigum fallegt tungumál.

Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
Skýring: Við tilbiðjum þig að eilífu. (Eða hæpið: tvíbent, sbr. að Satan verði laus eftir þúsund ár?)

því þú ert vort einasta skjól.
Skýring: Allt er undir Guði komið.

Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.

Skýring: Við eigum allt undir Guði komið og lifum að Guðs vilja.

Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Skýring: Endurtekning, við eigum allt undir Guði. Við fellum köld tár í myrkum brjóstum sem birta Guðs lýsir upp og vermir.

Ó, Guð vors lands! Ó, lands vors Guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.

Skýring: Endurtekning, við erum vanmáttug, veikbyggð og smá. Án Guðs er ekki neitt.

Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.

Skýring: Endurtekning. Minnumst Guðs hvern morgun og í amstri dagsins og á kvöldin og leiddu okkur í gegnum lífið.

Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á Guðsríkis braut.

Skýring: Bæn fyrir komandi kynslóðum, með einlægri ósk um betri tíma, með minni eymd en vaxandi trú.

Þjóðsöngurinn á fleiri tungumálum hér (á ensku, þýsku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku, frönsku).

2.12.04

Jafnrétti

Það hefur gerst þónokkuð oft að ég hef verið krafinn svara um efni sem hafa með jafnrétti, femínisma, kvenréttindabaráttu og karlrembu að gera. Í gegnum tíðina hef ég farið frjálslega - oft og tíðum helst til frjálslega - um baráttu kvenna fyrir að standa jafnfætis okkur körlunum á öllum sviðum mannlegs samfélags. Í þessu samhengi minnast e.t.v. félagar mínir þess að hafa heyrt mig segjast ekki láta kvenfólk skera hár mitt. Um það atriði væri hægt að hafa orðin „brennt barn forðast eldinn“ því það er vissulega nokkurt áfall fyrir ungan dreng að klippt sé í eyrað á honum á hárgreiðslustofu. (Ég reyni að láta þetta staka atvik ekki hafa áhrif á sýn mína á kvenmenn í heild.)

Eins mikinn áhuga og ég hef nú á jafnrétti kynjanna er mér meinilla við sumar kenningar innan kvennafræða og femínisma sem virðast stefna í allt aðra átt. Innan femínisma eru margvíslegar hugmyndir um stöðu kvenna í mannlegu samfélagi og t.a.m. mikið ágreiningsefni hvort mynda eigi sérstakt hugtakakerfi fyrir konur í bókmenntalegri greiningu, vegna þess að hugtökin sem við höfum séu hluti af „feðraveldinu“ og þeim beri því að hafna. Aðrir vilja meina að aðgreiningin skipti minna máli. Enn aðrir að aðgreiningin skipti engu máli.

Jafnrétti fyrir mér finnst mér eiga að miða að því að gera þann mun sem er á karli og konu sem allra minnstan, þannig að slíkri kynbundinni aðgreiningu sé ekki beitt nema sérstök ástæða sé til þess.

Aðgreining milli kynja virðist t.a.m. skipta máli í íþróttum.

Mér finnst furðuleg sú árátta sumra femínista að vilja viðhalda aðgreiningu kynja í atvinnugreinum og kalla þannig karlkynsskáld skáld en kvenkynsskáld skáldkonur. Að tala um alþingiskonur og alþingismenn. Skólastjóra og skólastýru. Hetju og kvenhetju. Og enn furðulegra - og ég er eiginlega orðlaus yfir þessu - að vilja hafna því að maður geti merkt eitthvað annað en karlmaður og að karlkyn sé við tilteknar aðstæður hægt að nota sem hlutlaust kyn: „vantar EINHVERJA fleiri blöð?“ En það væri mjög furðulegt að nota hvorugkyn og segja: „vantar EINHVER fleiri blöð“. (Þetta hefur þó verið gert, sbr. breytinguna Vinstri-græn á móti Vinstri-grænir sem nú er gerð krafa um.)

Þegar svona er komið finnst mér við eiginlega komin út í óeðlilega mikla aðgreiningu. Kona getur vel verið maður. Ef ég segi t.a.m. að það eigi að bera virðingu fyrir öllum mönnum, eða að þetta sjái hver maður, þá undanskil ég ekki konur. (Mótrök væru reyndar titill bókarinnar Maður og kona e. Jón Thoroddsen, þar sem maður vísar bersýnilega til karlmanns eingöngu).

Í dag fór ég í Blóðbankann í mína fyrstu blóðgjöf og blóðtökufræðingurinn (?) spurði mig hvað ég gerði. Þegar ég sagði henni að ég væri að læra íslensku í Háskólanum þá var henni þetta greinilega efst í huga því hún spurði mig hvað mér fyndist um kynjamálið. Ég þorði náttúrulega ekki annað en að gæta tungu minnar í návist konu með beitta nál og enn síður þegar hún fór að dæla úr mér blóðinu (e.t.v. gæti hún í bræði numið úr mér stærri skammt en almennt er [450 ml]). Henni fannst sem sagt að æskilegt væri að breyta texta Biblíunnar þannig að ávarpað væri í hvorugkyni fleirtölu: Verið sæl, en ekki: Verið sælir ... o.s.frv. Hins vegar fannst henni of langt gengið að krefjast aðgreiningar í skáld og skáldkonu og fannst, eins og mér, að óþarft væri að taka fram að leikari væri kona: leikkona. Við kvöddumst því með miklum virktum.

Þetta var um tungumálið - og duttlungar málsins, hefðin, hefur þar mest að segja. Hefðin er vissulega mótuð af körlum að mestu leyti og því óumdeilanlega hluti feðraveldisins framanaf. Umræða um tungumálið, sem er íhaldssamt í eðli sínu, hlýtur því að tilheyra svolítið öðru sviði en t.a.m. umræða um launakjör og annað í þeim dúr.

Eitt er það - og þetta er rétt í lokin - sem mér finnst mjög ábótavant í samfélagi okkar nú á dögum - og hér tala ég vitanlega sem karl. Ímyndin. Ímynd karlmannsins verður sífellt flóknari og óraunhæfari þannig að mér finnst ég til dæmis engan veginn geta staðið undir þeim kröfum sem mér finnst vera gerðar til mín. Sagt hefur verið að við skilgreinum okkur út frá því sem við erum ekki þannig að allt okkar hátterni miðar að því að festa í sessi þá ímynd sem við höfum ákveðið að tilheyra. Ýmislegt í fari mínu miðast því óhjákvæmilega við andstæðurnar gagnkynhneigður : samkynhneigður annars vegar og hins vegar karllegur : kvenlegur. Um þetta mætti finna ótalmörg dæmi í mínu daglega lífi - sumt sem ég geri mér grein fyrir og annað sem er ómeðvitað, jafnvel dulvitað.

Það hvernig ég geng (ekki) ræðst af þessu. Hvernig ég hef hendurnar (ekki). Hvernig ég ræski mig (ekki). Hvernig ég hósta (ekki). Hvernig ég hlæ (ekki). Hvernig ég greiði mér (ekki). Hvernig gleraugu ég kaupi (ekki) . Hvernig fötum ég klæðist (ekki). Hvaða orð ég nota (ekki). Hvernig fólk ég umgengst (ekki). Hvað ég segi (ekki).

Ég vil aðeins staldra við þetta síðasta atriði. Orðræðuna og hvað ég segi (ekki). Ég stend innan minnar karllegu orðræðu og skilgreini mig eftir þeim gildum sem þar eru. Það væri rangt af mér (innan gæsalappa) - og þetta er raunverulegt dæmi - að mótmæla tveimur ungum konum í strætisvagni sem eru að ræða um karlmann sem þær aka framhjá. Mín orðræða og þeirra skarast að því leyti að ég á að uppfylla karlmannsímyndina. Hvaða þýðingu hefðu mótbárur fremur ólögulegs, rolulegs manns (sem gæti allt eins verið á fermingaraldri) við þessum orðum:

- Vá, sérðu hvað þessi þarna er sætur!
- Hver?
- Þessi þarna sem stendur fjærst.
- Já, vá massaður.
- Já, æ en spáðu í það hann er ekki í skóla - hann er bara að vinna hjá vegagerðinni. Geðveikt leim.
- Samt geðveikt sætur.

Þetta var hávaxinn, ljóshærður maður á mínum aldri. Stæltur og glæsilegur á að líta. Hann var hins vegar verkamaður. „Geðveikt leim“.

Hvað með mig? Ég er ekki „bara að vinna hjá vegagerðinni“ en hin skilyrðin uppfylli ég svo sannarlega ekki. Hverju lýsir þessi orðræða kvennanna um karllega ímynd? Kúgun? Brostinni sjálfsmynd kvennanna sem leita fullkomnunar og styrks í öðrum?

Jafnrétti er ekki bara fyrir konur.