Lesnir;

31.12.04

Resilensinn málsins

Ég fagna þeirri nýlegu stefnubreytingu Málnefndarinnar að bekenna nauðsyn þess eður importans, að á Íslandi sé töluð íslendska.1 Samfylkingin hefur sömuleiðis gengiðst við þessari stefnu og bent á að mikilvægt er að lögfesta íslendsku sem ríkismál Íslands. Þessi sinnaskipti málnefndar okkar eru sérstaklega áhugaverð að einu leyti, nefnilega því að nú mun minni áherðsla vera lögð á aðfinnslu- og nöldursmálrækt sem einkenndi störf nefndarinnar allt frá stofnun hennar. Það skiptir ekki lengur máli hvernig íslendska er töluð: „rétt“ íslendska, „röng“ íslendska, norðlendska, austfirðska, latmæli eða höggmæli; aðalatriðið er að hér verði töluð íslendska en ekki erlent mál.

Hvað felst í þessu? Trúlega eitthvað aukin áherðsla á nýyrðasmíð, gagnaðgerðir og viðbrögð við ríkri tilhneigingu til að auglýsa vörur og þjónustu á engskri (ellegar ameríkskri) tungu enda þótt Íslendingar séu markhópurinn, auk enn hægara aðgengis aðfluttra Íslendinga að hagnýtu, ódýru íslendskunámi. Allt er þetta gott upp að því marki að mjög varhugavert er að fordæma með öllu áhrif engsku og annarra erlendra mála á móðurmálið. Tungan okkar er afar sterk og fallakerfið okkar stendur mjög styrkum fótum. Þótt umheimurinn hafi verið einangraður frá okkur, þá hefur hér jafnan verið nokkuð greiður straumur erlendra áhrifa að okkur, t.d. með þýddum bókmenntum. Því er alveg ástæðulaust að láta tökuorð ógna kerfinu, en það gerist óhjákvæmilega ef þeim er ekki veittur skynsamlegur þegnréttur, þau viðurkennd og þau aðlöguð.2

Það þarf að bæta úr þessu, snarlega, og móta fordómalausa stefnu í myndun töku- og aðkomuorða. Nýleg könnun hefur leitt í ljós að fólki finnst mikilvægt að fundin séu upp nýyrði fyrir aðkomuorð, enda þótt það telji sig oftar nota erlendu orðin.3 Það vill eiga orðið „tölvupóstur“ þótt „meill“ eða „ímeill“ séu oft notuð við hliðina á því. Þetta er mjög jákvætt, enda er orðið „meill“ aðlagað orð; óaðlagað væri það „meil“ og „ímeil“ og væri ógn við beygingakerfið (meill-meil-meil-meils, rétt eins og stóll). Það sem málnefndin þarf afsalútlega að gera er að gefa út einhver viðmið um myndun og skráningu aðkomuorða svo að hægt sé að kenna notkun þeirra í skólum, einkum meðal barna á eldri stigum grunnskóla.

Að fordæma orð af því að það á sér ekki aldalanga hefð er í sannleika sagt slæmt viðhorf. Engin prýði er af erlendum slettum en mikill munur er á þeim og töku- og aðkomuorðum. Slík orð verður að laga að málkerfinu þannig að þau séu í samræmi við kerfið eins og það er núna, ekki eins og það var árið 1200. Það þarf m.ö.o. að afnema þær hömlur sem nútímaorðmyndunum hafa verið settar með því að miða við fornmál. Nútímamál virðist leyfa öll ísl. sérhljóð í bakstöðu, fornmál leyfði aðeins a, i og u. Þetta sjáum við á orðum eins og „prófessor“, „mótor“, o.s.frv. -O- var ótækt endingarsérhljóð í físl. Færeyingar hafa gengið lengra í þessu en við og tala t.a.m. um prófessor sem prófessari-prófessara-prófessara-prófessara (sbr. kennari). Þetta, eins og margt annað hjá vinum okkar Færeyingum, mættum við taka okkur til fyrirmyndar.

Erlend orð þurfa að beygjast eftir mynstri þeirra orða sem við höfum nú þegar. Þannig hefur so. downloada fyrir löngu festst í sessi sem veik sögn: downloada - downloadaði - downloadað. Hljóðið -w- er ekki í íslendsku hljóðkerfi og Íslendingar eru mjög gjarnir á að sleppa því í slettum og segja t.a.m.: Vindós með ókringdu vaffi í stað kringds í: Windows. Eins er misjafnt hvort affríkatar (þ.e. tvæhljóð) heyrast hér í tökuorðum, og þar virðist vera munur milli kynslóða. Fólk fætt 1940 og fyrr virðist síður nota affríkata en þeir sem eru yngri og segja t.a.m. gjarna „tjillípipar“, en yngra fólk segir oftar „tsjillipipar“ með affríkata (sbr. ch- í e. church).

Hér þarf því að taka ákvörðun um rithátt slíkra aðkomuorða. Ég hef í titli þessarar hugleiðingar notast við orðið „resilens“ sem er stafsett á e. resilence, þ. Resilenz. Hér koma aðallega til álita rithættirnir „resilens“ og „resilence“. Að mínu mati er „resilence“ sletta. Það freistar að setja e-s konar endingu á það, s.s. resilensur-resilens-resilens-resilens, en ég efast um að ég noti það þannig.

Slík aðlögun er afskaplega mikilvæg þar sem henni verður komið við. Til dæmis er tökulýsingarorðið smart orðið það gamalt í málinu að það er farið að aðlagast málkerfinu í máli velflestra: smart herbergi, smartur kjóll, en kannski síðst: smört stofa. Yngra tökuorð „næs“ aðlagast hins vegar ekki, en úr því þarf að bæta.

Við þurfum með öðrum orðum að læra að aðlaga tökuorð, eins og gert er í þýðsku og dönsku með þeim reglum sem gilda í nútímaíslendsku. Ekki hrátt eftir engsku; ekki með forníslendsku; ekki eftir dönsku. Til dæmis orðið interessant sem notað er endingarlaust: „hann er mjög interessant gaur“ þyrfti að aðlagast: interessantur maður, interessönt kona, interessant barn.

Nú um mundir reynir mjög á þanþol málsins. Þanþolið, eða resilensinn, er nokkuð sem við verðum að gefa gaum að, því ef við vörum okkur ekki sitjum við uppi með beygingarlaust mál. Það þarf að hleypa inn erlendum orðum fordómalaust, á forsendum málsins, með aðferðum sem virða skráðar sem óskráðar reglur þess, hljóðkerfislega duttlunga (hljóðvörp, brottföll, o.þ.h.) og koma festu á rithátt þeirra. Með þessu móti er hægt að móta stefnu sem hægt er að halda sig við, þannig að tökuorð eru ekki lengur ógn við íslendsk málsamfélag. Tökuorð á forníslendsku málstigi voru löguð að því málkerfi. Tökuorð á nútímamálstigi verða að vera löguð að málkerfi nútímamáls.

Í fræðaumræðu getur íslendska verið hamlandi vegna þeirrar fasísku málstefnu sem hér hefur ríkt undanfarin 200 ár, ljóst sem leynt, og slíkt getur haft ógnvænlegar afleiðingar. Það þarf að vera hægt að koma alþjóðlegum rótum inn í kerfið, þannig að þeir hljóti rétta og sanngjarna meðferð. Orðin þurfa ísl. viðskeyti og ísl. beygingarendingar.


1. Stefnuskrá Íslenskrar mánefndar 2002-2005. http://www.ismal.hi.is/Stefnuskra2002-2005.html.

2. Íslensk málnefnd: Aðlögun tökuorða. http://www.ismal.hi.is/maltext.html#A%f0l%f6gun_t%f6kuor%f0a.

3. Þetta var verkefni sem RANNÍS styrkti en niðurstöður hópsins hafa ekki verið kynntar opinberlega. Það mun hafa verið Gallup sem sá um framkvæmd könnunarinnar en markmið verkefnisins var meðal annars að kanna viðhorf Íslendinga, með samanburði við Færeyinga, til aðlögunar töku- og aðkomuorða, slettna o.þ.u.l.

3 skilaboð:

  • Ég á það til að vera slíkur sveimhugi að ég er ekkert allt of sammála þessum skoðunum mínum þessa stundina. En ef ég á að lýsa betur þankagangi mínum þegar hugleiðingin var skrifuð þá var það já skoðun mín að heppilegra væri fyrir málið okkar ef notuð væru erlend fræðiheiti í stað þýddra. Þessi þýddu hugtök þarf iðulega að skýra út með alþjóðlegum afbrigðum þeirra til þess að þau séu skiljanleg, auk þess sem fræðiheitaforðinn dynur á hérlendum nemendum af tvöföldum þunga m.v. það sem lagt er á aðra. Sem dæmi um þetta mætti nefna að orðið 'phoneme' hefur verið þýtt 'hljóðungur, hljóðan' og einnig aðlagað 'fónem'. Þetta gerir það að verkum að nemendur þurfa að þekkja öll þessi þrjú afbrigði sama hugtaks. Orðið 'différance' var lengi vel þýtt 'misfrestun' en frá og með 1990 er það oftar kallað 'skilafrestur'. Þetta þurfa hérlendir nemendur að vera með á hreinu. Ég veit ekki hve oft ég hef heyrt nemendur dæsa og andvarpa þegar kennarinn notar innlend hugtök og spyrja mæðulega: "æ, bíddu, var það ekki [alþjóðlegt fræðaheiti]?" Ég kýs heldur að styrkja kerfið á kostnað orðaforðans því mér finnst það vera verðmætara. Íslendingar þurfa að kunna að beygja erlend fræðaheiti, kunna að aðlaga þau og bera þau fram samkv. ísl. hljóðkerfi.

    Núna legg ég hins vegar til að ötullega verði unnið að því að snara erlendum hugtökum yfir á vort móður mál, fegurst allra tungna.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:41 e.h.  

  • Við eigum helst að þekkja alþjóðlegu orðin. Þeir kennarar sem hafa kennt mér nota flestir íslensku hugtökin í tímum. Ef við notum erlendu hugtökin líka í verkefnum og prófum þá sýnir það að við höfum lesið handbækurnar (sem oftast eru á ensku, norsku eða dönsku). Þannig t.d. epizeuxis, første person fortæller, omlyd, Sublimerung ... Það að námsefnið sé yfirleitt ekki á íslensku hefur það auðvitað í för með sér að nemendur temja sér frekar erlendu hugtökin, en kynnast íslensku þýðingunum í tímum. Þannig voru t.d. í bókmenntafræðinni lesnar greinar á ensku og ef kennarinn minntist á þær í tímum fengum við íslensku hugtökin. Eins ef greinin var á íslensku þá var okkur sagt, ef hún var tekin fyrir, hver hugtökin voru á frummálinu.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 5:23 e.h.  

  • Eitt: það er hinsvegar fremur óalgengt að kjánaleg hugtök eins og "hljóðan" og "myndan" séu notuð, fyrir þau eru notuð fónem og morfem. Þetta virðist reyndar ekki hafa vera gert í bókmenntafræðinni, þar eru t.d. hugtökin signifier og signified þýdd táknmynd og táknmið, sem er ruglingslegt. Táknmynd = það sem táknar, táknmið = það sem er táknað.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 5:26 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða