Lesnir;

6.12.04

Þjóðsöngur Íslands

Að undanförnu hefur þónokkuð verið rætt um íslenska þjóðsönginn og nokkrir hafa, opinberlega, sagt að hann sé óskiljanlegur (t.d. Þórarinn Eldjárn í viðtali á Rás 1). Heyrst hefur að það sé bara ágætt að enginn skilji hann því þetta sé slík endemis þvæla hvort eð er.

Ég skil ekki hvað menn eins og Þórarinn skilja ekki.


Ó, Guð vors lands! Ó, lands vors Guð!
Skýring: Þetta er krossbragð þar sem setningarliðnum er snúið við og er alþekkt klassískt stílbragð. Ég skil orðin sem svo að um ákall til Guðs sé að ræða, keimlíkt því sem við förum með í Faðirvorinu: Faðir vor ...

Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Skýring: Þetta samsvarar Faðirvorsins: Helgist þitt nafn. Vér vísar að öllum líkindum til allra íbúa landsins, sbr. ofanvert ákall.

Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.

Skýring: Löngu liðnir fylgismenn sem farnir eru yfir móðuna miklu hafa óslitið lofað Guð sinn. Ef menn skilja þetta sem þyrnikrans þá snýst það við.

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:

Skýring: Í fermingarfræðslunni var okkur kennt - eins og almennt held ég í Biblíuritskýringum - að þúsund ár tákni oftast eilífið í Gamla testamentinu (og þegar vísað er til þess). Þetta er til marks um vanmátt mannsins gagnvart Guði.

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Skýring: Hér er sama uppi á teningnum. Maðurinn má sín lítils gagnvart Guði sínum, sem hann ákallar en deyr að lokum. Þetta er tvíbent, því landið er líka lítið.

Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,

Skýring: Ísland að eilífu? Þetta er tvíbent. Vilji menn túlka þúsund árin bókstaflega þá er það gott og blessað. Þá er þetta öll saga landsins.

eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.

Ó, Guð, ó, Guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,

Skýring: Við áköllum Guð og erum brennandi í andanum.

Guð faðir, vor Drottinn frá kyni til kyns,
Skýring: Endurtekning frá því á undan. Guð allra, lifenda og dauðra.

og vér kvökum vort helgasta mál.
Skýring: Tvíbent. Við biðjum af brennandi sál og/eða eigum fallegt tungumál.

Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
Skýring: Við tilbiðjum þig að eilífu. (Eða hæpið: tvíbent, sbr. að Satan verði laus eftir þúsund ár?)

því þú ert vort einasta skjól.
Skýring: Allt er undir Guði komið.

Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.

Skýring: Við eigum allt undir Guði komið og lifum að Guðs vilja.

Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Skýring: Endurtekning, við eigum allt undir Guði. Við fellum köld tár í myrkum brjóstum sem birta Guðs lýsir upp og vermir.

Ó, Guð vors lands! Ó, lands vors Guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.

Skýring: Endurtekning, við erum vanmáttug, veikbyggð og smá. Án Guðs er ekki neitt.

Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.

Skýring: Endurtekning. Minnumst Guðs hvern morgun og í amstri dagsins og á kvöldin og leiddu okkur í gegnum lífið.

Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á Guðsríkis braut.

Skýring: Bæn fyrir komandi kynslóðum, með einlægri ósk um betri tíma, með minni eymd en vaxandi trú.

Þjóðsöngurinn á fleiri tungumálum hér (á ensku, þýsku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku, frönsku).

4 skilaboð:

  • Hver vill þjóðsöng þar sem örsmáum landanum er lýst liggjandi grenjandi og kvakandi bæn í vanmætti sínum?
    Fyrir utan nú það að ekki nokkur maður heldur lagi þegar þetta er sungið (nema kannski Kristján Jóhannsson, en ég held að allir þiggi smá pásu frá honum núna).
    Þessi sálmur(NB) er alltof háfleygur og í fjölmenningarsamfélgi nútímans gengur ekki annað en að sýna smá umburðarlyndi öllum, ekki bara þeim sem eru í þjóðkkiunni.
    Hins vegar finnst mér afleit hugmyndin sem fram hefur komuð um að hafa Ísland er land þitt sem þjóðsöng, ég sé bara Egil Ólafs og Bubba fyrir mér þegar ég heyri það lag, óháð flytjanda.
    Hvað með Til fánans eftir Einar Benediktsson:

    Rís þú unga Íslands merki,
    upp með þúsund radda brag.
    Tengdu' í oss að einu verki
    anda, kraft og hjartarlag.
    Rís þú, Íslands stóri, sterki
    stofn, með nýjan frægðardag.

    Skín þú fáni, eynni yfir
    eins og mjöll í fjallahlíð.
    Fangamarkið fast þú skrifir
    fólks í hjartað ár og síð.
    Munist, hvar sem landinn lifir,
    litir þínir alla tíð.

    Þess skal getið að þetta ljóð er skólasöngur Menntaskólans að Laugarvatni en Einar samdi það sem þjóðsöng og hans hugmynd var einnig sú að hvítbláminn yrði þjóðfáni Íslendinga, því er ég sammála. Það eru víst fleiri erindi, en þau vantar á síðuna þar sem ég sótti ljóðið.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 7:52 e.h.  

  • Þú gleymir fylleríum, hann er mikið sunginn þar. Auk þess þekki ég fá lög sem fylla mig jafn mikilli ættjarðarást og kappsemi og Til fánans (að öllum Laugarvatnstengingum slepptum; Einar Ben var jú látinn nokkru áður en skólinn var stofnaður og ljóðið var samið, eins og áður hefur komið fram, með það í huga að gegna hlutverki þjóðsöngs).

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:58 e.h.  

  • Nei Páll, landa.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:51 e.h.  

  • Fjölþjóð, fjölþjóð. Hvur er þessi fjölþjóð? Er okkar Guð ekki nógu góður fyrir hana?

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:03 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða