Lesnir;

2.12.04

Jafnrétti

Það hefur gerst þónokkuð oft að ég hef verið krafinn svara um efni sem hafa með jafnrétti, femínisma, kvenréttindabaráttu og karlrembu að gera. Í gegnum tíðina hef ég farið frjálslega - oft og tíðum helst til frjálslega - um baráttu kvenna fyrir að standa jafnfætis okkur körlunum á öllum sviðum mannlegs samfélags. Í þessu samhengi minnast e.t.v. félagar mínir þess að hafa heyrt mig segjast ekki láta kvenfólk skera hár mitt. Um það atriði væri hægt að hafa orðin „brennt barn forðast eldinn“ því það er vissulega nokkurt áfall fyrir ungan dreng að klippt sé í eyrað á honum á hárgreiðslustofu. (Ég reyni að láta þetta staka atvik ekki hafa áhrif á sýn mína á kvenmenn í heild.)

Eins mikinn áhuga og ég hef nú á jafnrétti kynjanna er mér meinilla við sumar kenningar innan kvennafræða og femínisma sem virðast stefna í allt aðra átt. Innan femínisma eru margvíslegar hugmyndir um stöðu kvenna í mannlegu samfélagi og t.a.m. mikið ágreiningsefni hvort mynda eigi sérstakt hugtakakerfi fyrir konur í bókmenntalegri greiningu, vegna þess að hugtökin sem við höfum séu hluti af „feðraveldinu“ og þeim beri því að hafna. Aðrir vilja meina að aðgreiningin skipti minna máli. Enn aðrir að aðgreiningin skipti engu máli.

Jafnrétti fyrir mér finnst mér eiga að miða að því að gera þann mun sem er á karli og konu sem allra minnstan, þannig að slíkri kynbundinni aðgreiningu sé ekki beitt nema sérstök ástæða sé til þess.

Aðgreining milli kynja virðist t.a.m. skipta máli í íþróttum.

Mér finnst furðuleg sú árátta sumra femínista að vilja viðhalda aðgreiningu kynja í atvinnugreinum og kalla þannig karlkynsskáld skáld en kvenkynsskáld skáldkonur. Að tala um alþingiskonur og alþingismenn. Skólastjóra og skólastýru. Hetju og kvenhetju. Og enn furðulegra - og ég er eiginlega orðlaus yfir þessu - að vilja hafna því að maður geti merkt eitthvað annað en karlmaður og að karlkyn sé við tilteknar aðstæður hægt að nota sem hlutlaust kyn: „vantar EINHVERJA fleiri blöð?“ En það væri mjög furðulegt að nota hvorugkyn og segja: „vantar EINHVER fleiri blöð“. (Þetta hefur þó verið gert, sbr. breytinguna Vinstri-græn á móti Vinstri-grænir sem nú er gerð krafa um.)

Þegar svona er komið finnst mér við eiginlega komin út í óeðlilega mikla aðgreiningu. Kona getur vel verið maður. Ef ég segi t.a.m. að það eigi að bera virðingu fyrir öllum mönnum, eða að þetta sjái hver maður, þá undanskil ég ekki konur. (Mótrök væru reyndar titill bókarinnar Maður og kona e. Jón Thoroddsen, þar sem maður vísar bersýnilega til karlmanns eingöngu).

Í dag fór ég í Blóðbankann í mína fyrstu blóðgjöf og blóðtökufræðingurinn (?) spurði mig hvað ég gerði. Þegar ég sagði henni að ég væri að læra íslensku í Háskólanum þá var henni þetta greinilega efst í huga því hún spurði mig hvað mér fyndist um kynjamálið. Ég þorði náttúrulega ekki annað en að gæta tungu minnar í návist konu með beitta nál og enn síður þegar hún fór að dæla úr mér blóðinu (e.t.v. gæti hún í bræði numið úr mér stærri skammt en almennt er [450 ml]). Henni fannst sem sagt að æskilegt væri að breyta texta Biblíunnar þannig að ávarpað væri í hvorugkyni fleirtölu: Verið sæl, en ekki: Verið sælir ... o.s.frv. Hins vegar fannst henni of langt gengið að krefjast aðgreiningar í skáld og skáldkonu og fannst, eins og mér, að óþarft væri að taka fram að leikari væri kona: leikkona. Við kvöddumst því með miklum virktum.

Þetta var um tungumálið - og duttlungar málsins, hefðin, hefur þar mest að segja. Hefðin er vissulega mótuð af körlum að mestu leyti og því óumdeilanlega hluti feðraveldisins framanaf. Umræða um tungumálið, sem er íhaldssamt í eðli sínu, hlýtur því að tilheyra svolítið öðru sviði en t.a.m. umræða um launakjör og annað í þeim dúr.

Eitt er það - og þetta er rétt í lokin - sem mér finnst mjög ábótavant í samfélagi okkar nú á dögum - og hér tala ég vitanlega sem karl. Ímyndin. Ímynd karlmannsins verður sífellt flóknari og óraunhæfari þannig að mér finnst ég til dæmis engan veginn geta staðið undir þeim kröfum sem mér finnst vera gerðar til mín. Sagt hefur verið að við skilgreinum okkur út frá því sem við erum ekki þannig að allt okkar hátterni miðar að því að festa í sessi þá ímynd sem við höfum ákveðið að tilheyra. Ýmislegt í fari mínu miðast því óhjákvæmilega við andstæðurnar gagnkynhneigður : samkynhneigður annars vegar og hins vegar karllegur : kvenlegur. Um þetta mætti finna ótalmörg dæmi í mínu daglega lífi - sumt sem ég geri mér grein fyrir og annað sem er ómeðvitað, jafnvel dulvitað.

Það hvernig ég geng (ekki) ræðst af þessu. Hvernig ég hef hendurnar (ekki). Hvernig ég ræski mig (ekki). Hvernig ég hósta (ekki). Hvernig ég hlæ (ekki). Hvernig ég greiði mér (ekki). Hvernig gleraugu ég kaupi (ekki) . Hvernig fötum ég klæðist (ekki). Hvaða orð ég nota (ekki). Hvernig fólk ég umgengst (ekki). Hvað ég segi (ekki).

Ég vil aðeins staldra við þetta síðasta atriði. Orðræðuna og hvað ég segi (ekki). Ég stend innan minnar karllegu orðræðu og skilgreini mig eftir þeim gildum sem þar eru. Það væri rangt af mér (innan gæsalappa) - og þetta er raunverulegt dæmi - að mótmæla tveimur ungum konum í strætisvagni sem eru að ræða um karlmann sem þær aka framhjá. Mín orðræða og þeirra skarast að því leyti að ég á að uppfylla karlmannsímyndina. Hvaða þýðingu hefðu mótbárur fremur ólögulegs, rolulegs manns (sem gæti allt eins verið á fermingaraldri) við þessum orðum:

- Vá, sérðu hvað þessi þarna er sætur!
- Hver?
- Þessi þarna sem stendur fjærst.
- Já, vá massaður.
- Já, æ en spáðu í það hann er ekki í skóla - hann er bara að vinna hjá vegagerðinni. Geðveikt leim.
- Samt geðveikt sætur.

Þetta var hávaxinn, ljóshærður maður á mínum aldri. Stæltur og glæsilegur á að líta. Hann var hins vegar verkamaður. „Geðveikt leim“.

Hvað með mig? Ég er ekki „bara að vinna hjá vegagerðinni“ en hin skilyrðin uppfylli ég svo sannarlega ekki. Hverju lýsir þessi orðræða kvennanna um karllega ímynd? Kúgun? Brostinni sjálfsmynd kvennanna sem leita fullkomnunar og styrks í öðrum?

Jafnrétti er ekki bara fyrir konur.

6 skilaboð:

  • Nú las ég mikið af lélegum unglingasögum skrifaðar af miðaldrakonum....
    tungutak þitt (hjá unglingstúlkunum) hljómaði ansi svipað.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 10:56 e.h.  

  • Þetta var 5E þannig að það sást ekki. Hins vegar voru þær á háskólaaldri þessar stelpur.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 9:03 e.h.  

  • snúa vörn í ofsókn, hehe.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:24 f.h.  

  • 5E vagninn er eins útlítandi og 100-vagnarnir sem eru með hinni mjög svo skondnu ábendingum um að gluggarnir hægra megin séu "neiðarútgangar" og aftan á stólbökum eru menn vinsamlega beðnir um að hafa ekki "fæturnar". Þetta eru semsagt nokkuð nýlegir vagnar og eru þéttsetnari en þessir gömlu. Þ.a.l. er mjög erfitt að virða fyrir sér kálfa og hné í Fimm-E. Í 5C væri það hinsvegar leikur einn

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:18 e.h.  

  • Ertu að tala um nýju lággólfsvagnana?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:33 e.h.  

  • Ég veit ekki alveg hvað þú átt við með lággólfsvagn. Einu slíkir sem ég man eftir eru vetnisvagnarnir. Þeir eru mjög óskemmtilega innréttaðir en betur til þess fallnir að stúdera fótleggi, án þess að ég hafi gert neina sérstaka úttekt á því.

    Nei, það sem ég átti við var elstu vagnarnir eru mjög illa nýttir og bara ein sætaröð t.d. vinstra megin. Ég sat hins vegar ekki í slíkum vagni heldur í vagni sem er með tvíhliða byggingu, langsum og þversum að nokkru leyti. Þó eru sætin ekki spegluð nema þau næstöftustu. Þá eru öftustu sætin eins og í venjulegri 40 sæta langferðabifreið. Þessi næstaftasti bekkur er þó ekki speglaður nema hægra megin og það kemur sennilega til af þeim ástæðum að hægara er að hleypa fólki út um innganginn (að aftanverðu) ef þeim er snúið öfugt. Ég sat semsagt vinstra megin, á næstaftasta bekk, með fjórfalda rýmið fyrir framan mig þannig að önnur stelpan sat gegnt mér en hin skyggði á hana. Hefðu þær báðar setið andspænis mér (þ.e. öfugt) þá hefði ég vafalaust getað stúderað þær betur. Svona eru 5E semsagt innréttaðir. Síðan má geta þess, innan sviga, að fáir vita af bekknum hjá hjólagrindinni (sem jafnvel enn færri vita af).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:18 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða