Hömlur mannshugans
Í tilefni þess að svo margir álíta jólin andlega hátíð, þá ætla ég að skrifa hérna nokkuð sem líta má á sem andlegt, a.m.k. er það ekki vísindalegt.
Á þriðja jóladag fór ég í afmælisveizlu frænda míns. Það er nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann varð fjögurra ára.
Þar kemur í veizlunni að mér er orðið heitt í framan af kaffidrykkju, og einnig af nokkuð sykraðri og þykkri köku. Við afi erum fyrir tilviljun orðnir einir eftir við sófaholið í stofunni. Þá gengur inn, einsog í leikriti, einhver polli ekki ýkja gamall af hinni ætt afmælisbarnsins. (Ég semsagt kunni engin deili á pollanum.) Og hann segir sísvona við afa hvað það sé skrýtið að heimurinn sé endalaus. Svo minnist hann á það að tíminn sé endalaus líka, með þeim formerkjum, að slíkt sé erfitt að skilja. Svo ganga á milli þeirra pollans og afa spekimál líkt og: hvað Guð sé gamall, hvort maður rekist á eitthvað ef maður ferðast endalaust, hvort einhver hafi skapað Guð, auk vangaveltna um tilvist eilífðarinnar. Samtal þetta mun hafa tekið um hálfa mínútu.
Nú, á sjötta degi jóla velti ég því fyrir mér, hvers eðlis spurningarnar sem þeir slógu upp séu.
Ég kýs að líta á þær með þekkingu minni úr Lifandi Vísindum og Vísindavefnum. Þá fást eftirfarandi fletir á málin:
i. Endaleysi heimsins veltur á ljóshraða. Þetta er því ekki annað en reikningsatriði.
ii. Tíminn er háður efni. Ef efnið er eilíft er tíminn endalaus.
iii. Ef Guð er ekki úr efni, þá hefur tíminn engin áhrif á hann. Aldur hans væri því markleysa.
Í sambandi við þetta er eitt sem skiptir máli – það eru takmarkanir hugans. Ég hef lengi verið að velta fyrir mér takmörkunum hugsunar minnar, allt frá því að ég komst að því hversu erfitt ég átti með að ímynda mér að það væri ekkert fyrir utan alheiminn.
Svo hef ég rekist á nokkur fleiri atriði, s.s. rými í einni vídd, heim án tíma, heim með fleiri en þremur rúmvíddum, lokað rými fyrir þeim sem er innan í því, að ógleymdu engu.
Það er svo, að við erum ekki gerð til að fást við slík atriði. Við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund vitaðan mikinn fjölda, einsog t.d. 100. 5 er auðvelt að hugsa sér, en fyrir mig sjálfan eru málin farin að vandast í kringum 8. Samt getum við gert allt sem við viljum við stórar tölur, notað þær og reiknað með þeim án vandkvæða.
Sumir hafa náð langt í að brjóta hlekki hamlanna af huga sér. Hawking hlustaði á Wagner þegar hann hugsaði í ellefu víddum, svo að konan hans fór frá honum. Margir eðlisfræðingar hafa í gegnum tíðina byggt kenningar og niðurstöður upp, svo úr hefur orðið nokkuð undarleg heimsmynd, s.s. það að ef hlutur er á hreyfingu þá styttist hann.
Þetta er góðs viti.
Hugur okkar tekur nær algerlega mið af því sem hann skynjar. Ef við sæum ekki, þá ættum við erfitt með að hugsa okkur liti, o.s.frv. Ef til vill ættum við auðveldara með að gera okkur grein fyrir heiminum ef við værum búin skynfærum á þyngdarsvið, rafmagn, rafsegulsvið og víðara skynsvið hljóðs og rafsegulbylgna.
Það er því augljóst að við hvaða viðfangsefni sem er eru möguleikarnir kannski fleiri en okkur detta í hug.
Fáránlegir möguleikar eru bara fáránlegir af því að okkur finnst þeir vera það, ekki af því að þeir séu það.
3 skilaboð:
Þetta umræðuefni, sem svo erfitt er að orðræða og orðfæra, en hægara að orðskrýða, er afar heillandi og alveg geipilega áhugavert. Ég segi orðskrýða því mér hefur fundiśt umræða um þessi efni hneigjast mjög gjarna í átt að mælgi um allt og ekki neitt, sem menn með ámóta munnræpu og hoppintegla með svefngalsa viðhafa, í von um að hljóma mælskir og intelektúalir. Hugmyndir þínar og athugasemdir, sérstaklega þær sem snúa að skynjun okkar, eru færðar til röklegrar eða rökréttrar niðurstöðu, þ.e.a.s. óvísindalega og ólögmálsbundið.
Hér er umræðan um ekkert einkar forvitnileg, og það væri gaman að kynna sér frekar orðræður, jafnt að fornu og nýju - og ekki síśt nýju -, um þetta »fyrirbæri«, ef svo má segja. Það sem við ekki skynjum, það eigum við afskaplega bágt með að átta okkur á. Þessar hömlur mannshugans eru það hamlandi að við getum ekki einu sinni gert okkur í hugalund - eða við ættum ekki hægt með það - hvernig lífið - og þar er enn ein orðræðan komin í spilið - mundi blasa við okkur - ef hægt er að segja að eitthvað blasi við eða geti það með réttu, því hvað er slíkt blas annað en einber skynjun okkar og túlkun á því sem við sjáum eða teljum okkur sjá, þegar við erum í raun og veru aðeins að lýsa hugmyndakerfinu -- tungumálinu -- með tungumálinu og öllum þeim sporum og röddum sem hverju orði fylgja inn í þetta óhlutbundna rými hugans - ef við sæum til dæmis allar þær bylgjur sem augum okkar, sem og öðrum skynfærum, eru huldar. Þetta er ekki sagt til að varpa rýrð á fyrri viðleitni okkar til að komast að eðli hlutanna, en mér finnst þó mikilvægt að benda á þessa staðreynd: skynjun okkar og hugsun takmarkast af því sem okkur er unnt að nema. Með margvíslegum hjálpartækjum er vitanlega hægt að komast nær þessu takmarki, en umræðan um ekkert og hugmyndin um slíkt hlýtur að vera okkur býsna fjarlæg.
Þetta með sjónina var prýðisgott dæmi um hversu erfitt það væri að ímynda sér sjón án þess að hafa upplifað hana. Ef við til dæmis hreyfum höndina fyrir aftan bak og reynum að virða fyrir okkur rúmið fyrir aftan okkur með fingurgómunum, þá sjáum við býsna fljótt hvað þessi hamla er mikil og hugmyndin um að eitthvert tiltekið svið skynjunar sé okkur með öllu hulið - þá hugsun get ég ekki hugsað til enda, og hvort tveggja það, að hugsunina get ég ekki hugsað til enda, og ég veit ekki hver hugsunin er (né hvort hún er yfirhöfuð), hún er ærandi.
Sagði Heimir Freyr, kl. 2:00 f.h.
athyglisvert
Sagði Regnhlif, kl. 11:58 f.h.
Þetta er afar áhugavert Sævar, ég held barasta að þér hafi tekist að halda athygli minni óskiptri. Ég sé að ég verð að taka kúrsa hjá þér þegar þú hefur aflað þér tilskilinna réttinda til kennslu - reyndar þyrfti ég ábyggilega að fá undanþágu því ég mun hafa fyrirgert rétti mínum til raunvísindanáms með því að halda mig ekki á "réttri" braut.
Sagði Heimir Freyr, kl. 11:19 f.h.
Skrifa ummæli
<< Forsíða