Lesnir;

11.12.04

Próf

Ég skrifa alltof sjaldan hérna, en hér er smá bót á því.

Voðalega eru skrifleg próf ónýt aðferð til að mæla þekkingu. Hvernig er hægt að ætlast til þess að marktæk niðurstaða fáist ef maður situr sveittur í 3 tíma að ansa handahófskenndum spurningum úr námsefni síðastliðinna 3 mánaða? Hvað tengist það hæfni manns í viðkomandi fagi?
Miklu nær væri að hafa símat yfir önnina og síðan undir lok kennslu eitthvert stutt spjall við kennarann um hvað maður hafi lært, hvernig það muni nýtast manni o.s.frv. Fyrir utan nú aukna ritgerðarvinnu. Helsti gallinn við þetta er að þá þyrftu kennararnir að vinna vinnuna sína, sem náttúrulega nær engri átt. Einnig fer þetta auðvitað eftir fögum, það er ekki hægt að beita sömu aðferðum við að mæla hæfni í t.d. línulegri algebru og rifrildi sagnfræinga um kalda stríðið (einnig þekkt sem mannkynssaga IV, skelfilegur kúrs). Samt er það gert, í báðum fögum þurfa nemendur að sitja í einhverja 3 tíma og ansa handahófskenndum spurningum, og auðvitað er ómögulegt að bæði kennaranum og manni sjálfum finnist sömu hlutirnir vera aðalatriði, þannig að þetta verður bara einhver tilviljanakennd tala sem mun ráða því hvort maður nær eða fellur.
Eins finnst mér, í minni skor, vera alltof lítil áhersla á aðferðafræði. Megnið af tímanum fer í að læra einhverjar staðreyndir, eða það sem verra er, læra um rifrildi einhverja misdauðra sagnfræðinga um hvað þeim fannst vera staðreyndir, í stað þess að senda mann í verklega kennslu á skjalasöfnum eða álíka stofnunum.
Auðvitað er mikill munur á milli kennara hvað þetta varðar, en yfir heildina litið held ég að það sé stórkostlegt metnaðarleysi á flestum vígstöðvum, og ekki bara þar, heldur hjá nemendum líka. Það er alltof algegnt að fólk sé þarna nánast eingöngu útaf vísindaferðunum. Þær eiga náttúrulega allan rétt á sér, en þær eiga ekki að vera ástæðan fyrir því að fólk fer í háskólanám.
Endilega tjáið ykkur um ykkar skoðanir á þessu öllu saman, er ég bara bitur og nenni ekki að lesa undir próf?

12 skilaboð:

  • Próf eru náttúrulega eina leiðin til þess að fá fólk til að vinna. Minni ritgerðir skrifa flestir 1-2 dögum fyrir skiladag. Góð prófatörn tryggir að nemandinn liggur sveittur yfir bókunum og eitthvað hlýtur að síast inn í kollinn á honum. Hinsvegar eru fjöldamörg þeirra prófa sem ég hef tekið í seinni tíð eins konar ritgerðir þar sem nemandinn fær tiltekið viðfangsefni en ræður að öðru leyti um hvað hann ræðir og hvernig hann fer að því. Þetta á síður við um málfræðina, þar sem meira er lagt upp úr frjóum skilningi (gáfum) en utanbókarlærdómi sem menn læra eins og páfagaukar (páfum).

    Ég get ekki neitað því að það er alveg drepleiðinlegt að lesa undir próf. Hins vegar er það yfirleitt við prófalesturinn sem maður áttar sig á því að námsefnið er nú bara hreint ekki eins þurrt og óárennilegt og maður taldi í fyrstu. Ég held því að aukin ritgerða- og verkefnaskil séu ekki vænlegustu kostirnir.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:18 e.h.  

  • En ég legg áherslu á símat yfir alla önnina, það tryggir að nemandinn les ekki bara síðustu 3 dagana fyrir próf, heldur alla önnina.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:31 e.h.  

  • En alla önnina les nemandinn námsefnið í pörtum. Fyrir próf neyðist hann til að fá heildaryfirsýn yfir flest það sem rætt var í námskeiðinu og leggja á minnið öll helstu aðalatriði. Án prófs er sýnin því brotakennd(ari).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:34 e.h.  

  • önnin er nú ekki það löng, og með rúmlega vikulegum kennslustundum er ekki mikil hætta á því að allt fari til fjandans

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:37 e.h.  

  • Það er ekki satt. Ef þú lest t.d. bók einu sinni þá áttarðu þig ekki á nærri því öllum atriðunum sem vísuðu fram. Þannig er það sem þú lest fyrst á önninni ekki nándar nærri eins skýrt og það sem síðar kom, og öfugt af öfugri ástæðu.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:39 e.h.  

  • en það er einmitt málið, þetta stendur allt í einhverjum bókum svo það skiptir engu hvort maður muni einhverja staðreyndabunu. Þessvegna á að leggja alla áherslu á verklega beitingu þeirra aðferða sem maður er að læra

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:42 e.h.  

  • Það er ástæðulaust að finna upp hjólið í hvert sinn sem það á að gera eitthvað. Hugsaðu þér t.d. ef það þyrfti fyrst að finna upp setningarliði í hvert sinn sem gera ætti grein fyrir krossbragði. Það er ágætt að byggja upp páfurnar, fara vel yfir þær og skoða þær gaumgæfilega í loftköstum á nokkrum dögum til að fá heildarsýn á þær. Geta síðan beitt þeim skynsamlega á prófinu og síðan er hægt að brúka þær rökrænt síðar.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:45 e.h.  

  • Sko ég veit ekki með ykkur, en ég þarf að læra miklu meira til þess að gera eina stutta ritgerð heldur en fyrir eitt stutt próf. Þegar maður gerir ritgerðir þá neyðist maður til að kynna sér viðfangsefnið gaumgæfilega og skilja það vel til þess að geta komið því frá sér. Gallinn við þetta námsmatsform er sá að þá kann maður bara þetta ákveðna viðfangsefni vel en ekki neitt annað.
    Mér finnst fyrirkomulagið í flestum íslensku málfræðikúrsunum mjög gott. Mörg stutt verkefni sem eru svo stutt að maður tekur eiginlega ekki eftir því að maður þurfi að læra fyrir þau. En eftir að maður er búin að gera þau öll fattar maður að maður er búinn að læra fullt án þess að hafa kvalist mjög mikið yfir því. Það góða við þessi verkefni er að maður hefur svigrúm til þess að gera einhverjar villur án þess að maður lækki mikið í einkunn. Og svo er próf þar sem maður verður að sýna fram á að maður hafi lært eitthvað af verkefnunum.
    Þess vegna finnst mér best að hafa bæði mikla verkefnavinnu og próf. En reyndar er ég algörlega á móti "páfa" prófunum, og finnst að maður ætti alltaf að mega hafa heimildir, þá væri þetta próf í því hvort maður skilji námsefnið, en ekki í því hvort maður geti lagt það á minnið.

    Sagði Blogger Regnhlif, kl. 5:20 e.h.  

  • Heyrðu Hlíf, við kennum bara fornamálið næst! Núverandi (og fyrrverandi) fyrirkomulag er tóm della.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 5:38 e.h.  

  • haha, rétt:)
    við myndum hafa geðveikt skemmtilegt námskeið:)

    Sagði Blogger Regnhlif, kl. 8:52 e.h.  

  • Því miður fer heldur minna fyrir aðferðafr. en páfinu, þó er vissulega afar mikill munur á milli kennara hvað þetta varðar. Sumum finnst aðferðafræði aðallega snúast um rifrildi annarra sagnfr. um eitthvað efni meðan aðrir eru heldur praktískari (einbeita sér t.d. frekar að heimildagagnrýni, ritgerðasmíð o.s.frv.), og svo eru þeir sem páfast bara í gegnum eitthvert lágmarksefni og segja það gott. Það er mikill minnihluti sagnf.nema sem hafa tækifæri til alvöru verklegra æfinga, t.d. á Þjóðskjalasafni. Þetta verkefni sem ég tók þátt í í sumar var algjört einsdæmi.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:44 f.h.  

  • Mikill sannleikur á ferðinni þarna. Einnig sú staðreynd (smbr. síðustu glæruna) að mannkynið er alltaf að hjakka í sama farinu, það er ekkert nýtt undir sólinni. Ég kenni bókasafnsbrunanum í Alexandríu um.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:36 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða