Lesnir;

19.12.04

Um jafnvægi

Kæru lesendur.
Í árdaga ævi minnar - ég hef verið í kringum tíu ára aldur - þá voru Radíusbræður með skemmtilega einþáttunga í sjónvarpinu. Mér þóttu þeir afar skemmtilegir, sem og yfirleitt öðrum, jafnt eldri sem yngri.
Seinna, þegar ég rifja þessa þætti upp í huganum, þá sé ég ýmislegt meira en bara grín. Í mörgum þáttum þeirra var sannleikurinn reifaður, sem og ótrúlega nýstárlegar hugmyndir, sem við erum jafnvel ekki enn búin að gera okkur grein fyrir.
Einn þessara þátta var í búningi veðmáls eða nokkursonar sýningar á ótrúlegum atburði. Svo að ég tali skýrt, þá fólst það nákvæmlega í því að Steinn Ármann Magnússon lék bókmenntafræðing sem með tali sínu drap hest úr leiðindum.
Náttúrulega var þetta allt saman leikið, og ég held að engin trúi því í raun og veru að bókmenntafræðingur geti drepið hest úr leiðindum. En í þessu felst samt sannleiksvottur. M.ö.o.: bókmenntafræðingar eru landplágur.
Ég hef sjálfur orðið var við starfsemi bókmenntafræðinga. T.d. las ég í Lesbók Morgunblaðsins eitt sinn merka grein um blogg-væðingu Íslendinga. Þar stóð meðal annars speki á borð við „bloggið verður þannig framlenging á taugakerfi mannsins”. Jæja, og þetta er bara eitt dæmi, ég þorði ekki að fara að leita að fleiri dæmum, því að ég óttaðist sálarheill mína. Og allstaðar sjá þessir bókmenntafræðingar tákn og merkingar. Í stað spádóma byggðum á flugi fugla og innyflum nauta, sem voru tákn frá guðunum, eru nú komnir bókmenntafræðingar sem taka ekki mark á öðru en því sem aðrir menn gera. Eða kannski bara sjálfum sér.
Ég segi því: Bókmenntafræðingur gerir heiminn verri.
Hvenær fáum við annars að sjá hópslys bókmenntafræðinga?
Ef þúsund bókmenntafræðingar væru á skipi, sem væri að flytja þá frá ráðstefnu um tráma delfískrar táknhyggju, og skipið lenti á flugfiskatorfu og sykki. Síðasti bókmenntafræðingurinn, með steyttan hnefa á lofti, með munninn hálfan af sjó, öskrar: „Guð refsi Englandi!” Skilaboð, sem aldrei komust á leiðarenda.
Ég sé samt fyrir mér flugslys, þarsem breiðþota með þúsund bókmenntafræðinga innanborðs brotlendir.
Vitanlega, er eitt í því; við yrðum aldrei vör við afleiðingarnar ef flugvélin lenti einmitt á einum skógfræðingi sem væri á labbi í skóginum.
Þannig myndi það jafnast út.

9 skilaboð:

  • Þetta er besta bloggið sem ég hef lesið hér þó ég sé alls ekki sammála þessu. En þetta er afskaplega fyndið og ég hló nú ĺíka þegar ég heyrði þessa hugmynd frá þér fyrst.

    Verð þó að játa að flugvélahugmyndin um status quo ef þúsund bókmenntafræðingar dræpust á einum skógfræðingi var mín víst........ en það er ekki þar með sagt að ég styðji hana!

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 6:41 e.h.  

  • Fyrst drap bókmenntafræðin höfundinn. Hvenær kemst karmískt jafnvægi á?
    Allir höfundar sem hlotið hafa vonda gagnrýni sameinist!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:42 f.h.  

  • Ég hef lítið dálæti á bókmenntafræði (no. littererelære) og enn minna á bókmenntafræðikenningum (fr. theories des livres). Á eitt vil ég þó benda (e. point out (einkum átt við staðreyndir, da. faktum). Dauði höfundarins (þ. der Tod des Verfasser) er hvorki afmarkað né smættanlegt (e. reducible) fyrirbæri (þ. Phänominenz) innan nokkurrar hugmyndafræði orðræðna (fr. descours) um túlkunarlegt mikilvægi slíks táknmiðs (e. importance of the signified). Listformið sem slíkt hefur ekki upp á annað en eigið sjálfsvísandi málkerfi (fr. langue) er ákvarðar og skilyrðir þá þegar yfirbyggingu tiltekins grunns merkingar að bjóða. Talið flæðir eftir staðkvæmri röð og felur þannig í sér töf og afmiðjun og - þetta er mikilvægt - merkingin er ávallt á skilafresti (fr. différance [≠ e. difference]) per se. Það rof sem hér myndast er lýsandi fyrir innbyrðis formgerðarafstæður framaðrar jöðrunar innan raðkvæmra tengsla mýtems. Vensl eininganna eru gjörningur (e. act) og þar fer fram minnsti merkingarbæri leikur (fr. jeu) verks (fr. oeuvre). Hin yfirskilvitlegu táknmið sem færast undan umtúlkun eru í eðli sínu dregin í efa og göfguð (da. sublimeret) en skilja eftir sig spor (fr. pas) tákna úr fyrri skrifum (einkum innan hugmyndafræðitækja feðraveldisins). Ekkert er utan tungumálsins og tungumálið sem er síkvikt ferli hnikar sér sífellt undan táknmiði táknmyndarinnar. Allt umhverfis okkur er texti sem býður þess að vera fangaður (e. entrapped) í verk til þess að túlkunarhringurinn geti haldið áfram innan skynheildarinnar. Það er heimssýn textans sem ákvarðar heild (þ. Totalität) brigðgengisins. Þetta felur óhjákvæmilega í sér viðbót (e. extension).

    Höfundurinn ekki persóna af holdi og blóði. Það er þeirri hugmynd sem er hafnað. Höfundarhugtakinu sem slíku er ekki hafnað; það er einfaldlega endurskilgreint. Það er alltaf eitthvert afl að baki textanum. Það sem bókmenntafræðikenningar sem aðhyllast ekki ævisögulega rýni hafna er þessi rómantíska, draumkennda ofur-mynd mannsins sem er í miðjunni og allt annað fyrir utan. Texti er alltaf bergmál fyrri texta, fyrri hugmyndafræði, fyrri orðræðu og því er fráleitt að byggja túlkun á einstaklingnum sem slíkum. Hér er frekar um skrásetjara að ræða.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:34 e.h.  

  • Palli hefur sérstaka hæfileika í að fela boðskap (punchline).... hérna er punchlineið.

    Ef þúsundir bókmenntafræðinga deyja þá verður allt betra. Ef einn skógfræðingur deyr þá verður allt verra. Ef þúsund bókmenntafræðinga myndi brotlenda á einum skógfræðingi, þá myndist status quo haldast.

    Vona að þið skiljið núna.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:58 f.h.  

  • Ég er herra óþekktur

    Jón Örn óþekki

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:06 f.h.  

  • Já Palli minn.....

    Sannfærir mig enn meira um það sem ég hef sagt áður -
    ,,Það mikilvægasta sem þú lærir í framhaldsskóla -
    er að gleyma því sem þér er kennt þar''

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:48 e.h.  

  • Ég held að ef 1000 bókmenntafræðingar myndu hrapa á einn skógfræðing yrðu afleiðingarnar þessar:
    1) Hart yrði í ári í kaffihúsabransanum.
    2) Miklu fleiri rithöfundar myndu telja sig eiga ,,sjens" á útgáfu.
    3) Forleggjarar ættu í erfiðleikum með að greina vonda rithöfunda frá góðum, ergo fleiri jólabækur yrðu gefnar út.
    4) Það væri enginn pappír eftir til að prenta allar þessar bækur, og við myndum kafna úr trjáskorti eftir 2 eða 3 jól.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:41 f.h.  

  • Nei, öll trén væru búin vegna útgáfu lélegra bóka og við öll köfnuð því ekkert væri eftir til að endurvinna CO2-ið.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:59 e.h.  

  • Ég er annars á móti svona heimspekilegu spjalli og vil að við sem vísindamenn, beitum megindlegum aðferðum, ekta positivisma og framkvæmum þetta.

    Í einu landi drepum við einn skógfræðing og þúsund bókmenntafræðinga og í öðru þúsund skógfræðinga og einn bókmenntafræðing og sjáum svo muninn.....

    Reyndar til að gera þetta enn vísindalegra þyrftum við fleiri lönd svo kannski ættum við að taka 100 lönd, skipta í tvo hópa og prófa okkur áfram.

    En ég nenni þessu ekki sjálfur......
    svo finnst mér svo vænt um marga bókmenntafræðinga að ég vil ekki koma nálægt þessu, en flestir skógfræðingar eru dreyfbýlispakk sem hanga ekkert á sömu kaffihúsum og ég svo mér er slétt sama um þá.
    Svona menn sem fara á kaffihús og segja við afgreiðsludömuna ,,Þarf ég að skoða matseðilinn?'' ,,Ekkert frekar'' ,,Nú? Til hvers er hann þá?''

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða