Lesnir;

8.12.04

Að vita betur

Ég er nú á mínu þriðja skólastigi, eftir að hafa lokið grunn- og fjölbrautaskólanámi, og á þessum ferli mínum hef ég fengið að kynnast ýmsum viðhorfum sem eru mörg hver mjög sérstök. Í grunnskóla var okkur kennt sitthvað í skrift, málfræði, reikningi, samfélagsfræði og þess háttar. Í framhaldsskóla var þessu aðeins haldið áfram, með athugasemdum frá kennurum þess efnis að enn ættum við ýmislegt ólært, og sumt af því hefði grunnskólinn svikist um að kenna okkur eða við gleymt að leggja á minnið. Þannig var í framhaldsskólanum oft bara verið að endurkenna: frumlag, andlag, umsögn, hljóðvarp, hljóðritun, nefnifall, aukafall, aukaföll, nútíð, þátíð, framtíð, þáframtíð, núþáleg tíð, skildagatíð, þáskildagatíð, fortíð, þágufallsýki, .... Snobbað fyrir fróðleik: þetta áttum við að kunna.

Í Háskóla Íslands tók allt annað við og miklum tíma var varið í að kenna okkur að gleyma sem flestu af því sem við höfðum lært. Í íslensku eru ekki 8 tíðir - það er beinlínis rangt að halda því fram - þær eru bara tvær: nútíð og þátíð. Það er rangt að segja að eitthvað sé málfræðilega rangt ef góður hópur fólks segir það, og þið eruð barasta öll þágufallssjúk, þið kunnið bara misvel að leyna því. Og það er ekkert athugavert við að stökkva milli nútíðar og þátíðar í texta (á hið gagnstæða var mikil áhersla lögð í grunn- og framhaldsskóla) - þvert á móti er það ákaflega íslenskulegt, og eitt sterkasta einkenni ritsmíða, ekki síst Íslendingasagna. Nýyrðasmíð er kjánaleg og lærð orðmyndun eins og 'mótald' gefur skakka mynd af málinu. Þá er allt fallegt og gott í forníslensku ýmist tómar lygar og málfyrning, eða ljót og bjöguð gotneska.

Og þetta er gaman!

Það sem líka er skemmtilegt er að málfræðingar leyfa sér að vita betur en menn sem voru að lýsa tungumálinu sínu og voru uppi fyrir meira en þúsund árum. Á fornri rúnaristu er varðveitt orðmyndin 'harabanar' [þ.e. hrafn] en sá sem skrifaði það skrifaði það vitlaust. Hann ætlaði að skrifa 'hrabnar' - hvers vegna? jú, [sko] vegna þess að [sko] þegar hann var að stafa sig í gegnum orðið [sko] þá bætti hann við óþarflega mörgum a-ristum [sko] Er trúlegt að maður færi að rista fleiri hljóð en hann ber fram? Er það ekki miklu erfiðara? Á þessum ristum má auk þess sjá að þeir eru í vandræðum með pláss oft, sérstaklega ef þeir eru að rista eftir horni, þannig að táknin minnka og minnka eftir því sem þau nálgast heilan hring. Jæja góði - ætlarðu þá að segja að Vernerslögmál sé uppspuni! Veistu ekki að ég er með doktorsgráðu frá Harvard í Verner!

En hvað það er gaman að vita betur!

Ég ætla að leggja fram kenningu. Kenningu þess efnis að -tt- í forníslensku hafi ekki verið borið fram -tt-. Ég geri það í fullri alvöru. Í frumgermönsku ku orðið dóttir hafa verið 'dohter' (með löngu e). Í gotnesku er þetta 'dohtar'. Í þýsku 'Tochter'. Í frumnorrænu sennilega 'dohtir'. Í forníslensku skrifað 'dóttir'. Í nútímaíslensku borið fram 'dóhtir'. Sjáiði hvað ég er að fara? Er þetta trúleg þróun: ht > tt > ht ? Historí rípítíng?

Nei, ég ætla að fá að vita betur en Forníslendingar: þeir skrifuðu þetta vitlaust [sko].

6 skilaboð:

  • mér finnst sem ég heyri suma kennara tala...:)

    Sagði Blogger Regnhlif, kl. 3:43 e.h.  

  • Varstu ekki í leikskóla?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 6:33 e.h.  

  • Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:50 e.h.  

  • Þumalfingur - það sem ég vildi sagt hafa var að ég myndi ekki mikið eftir leikskólanum og að þar hefði ég ábyggilega ekki lært neitt gáfulegt.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:52 e.h.  

  • Aldrei hef ég séð grunninn að húsinu sem ég bý í, en ekki vildi ég vera án hans.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 7:24 e.h.  

  • Og hvaða grunn ætli maður fái svo sem í leikskóla? Það eina sem ég absalút man eftir að hafa lært var að hnýta hengingarhnút, en ein fóstran var svo elskuleg að sýna okkur það.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 8:27 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða