Menn í árdaga
Í kvöld sá ég fallegan, franskan þátt í sjónvarpinu um samskipti áa núverandi eina mannkyns, og Neanderdalsmannsins. Þetta var fagurlega leikið; Neanderdælingarnir töluðu eitthvað sem líktist ótrúlega mikið þýzku, og girntust mjög hinar fagurleggjuðu konur manna. Mannkonurnar litu svo út einsog paradísarfuglar, með hné og kálfa einsog Laxness hefði lýst þeim. Og þær klæddust stuttum pilsum og toppum, einsog þeim sem ég á eftir að skrifa um í verðlaunabókum mínum í framtíðinni, með munúðarfullum hætti.
Í þættinum var einnig sagt að margt í menningu okkar hefðum við frá Neanderdalsmanninum, þó svo að tegundir okkar hafi ekki getað blandað blóði. Sem dæmi var nefnd trú, og greftrunarsiðir.
Er það ekki yndislegt að við skulum enn þann dag í dag minnast menningar frænda okkar með því að stunda trúarbrögð af kappi? Jafnvel einföldustu jóla- og páskahátíðir trúleysingja bera frændaást okkar fagurt vitni.
En þá má spyrja enn. Hvað höfum við fleira frá Neanderdalsmanninum? Hvað höfum við frá Cro-Magnonmanninum, og hvað frá Flóresmanninum? Voru þeir ef til vill alltof heimskir til þess að við gætum nokkuð skemmtilegt lært af þeim?
Og hvað með tungumálin? Ég velti því fyrir mér hvort einhverra áhrifa frá Neanderdalsmanninum gæti í tungumálum okkar. Ef hann dó út fyrir 40.000 árum, og var talandi, einsog við, og átti samskipti við okkur, þá ætti að hafa orðið samgangur á milli tungumála, einsog annara menningarþátta.
---
Af öllu þessu hugsuðu, hef ég smíðað tvær litlar og snotrar tilgátur. 1. Hún er í grófum dráttum sú að hljóðið [n] sé komið frá Neanderdalsmönnum. 2. Það að sjúga upp í nefið er komið frá Cro-Magnonmanninum.