Lesnir;

21.8.07

Bragur handa Heimi

Þessir Hollendingar!
Í tilefni af bráðlega lokinni dvöl félaga voss Heimis millum hollendskra, birti ég hér kvæði eptir Gunnar Pálsson prest o.fl. (sjá http://www.aknet.is/oskarutd/kirkja/prestar/hjh/gunphjh.htm) orkt (orkað?) einhvern tímann í gamla daga:

Ísland og Holland

Ef menn vildu Ísland
eins með fara og Holland,
held ég varla Holland
hálfu betra en Ísland.
Auðugt nóg er Ísland
af ýmsu, er vantar Holland.
Eða hví vill Holland
hjálpa sér við Ísland?

(Sigurður Nordal: Íslenzk lestrarbók. 4. prentun. Reykjavík, 1947. Bls. 13.)

Sei sei jú, mikil óskup.

Vermeer var hollenskur.

17.8.07

Meira gúm

Í dag heyrði ég á tal tveggja manna. Fyrst ræddu þeir gnasspiddnu. Sem sumir kalla „koddu-boltanum-frá-þér-með-fótunum-írródd“. Það var, í fullu samræmi við efnið, þunnur þrettándi. En þá tóku þeir upp léttara hjal. Áfengissala í Austurstræti, er umdeild. Vilhjálmur borgarstjóri vill hana burt. En þessir menn höfðu miklu betri lausn: Gúm. (sem þeir reyndar kölluðu gúmmí af ókunnum ástæðum). Gúmið vildu þeir móta í kylfuform og afhenda lögreglunni, m.a. til að hemja ofurölvi miðaldra húsmæður sem þeim fannst plaga miðbæjarlífið að næturlagi.


Af ofangreindum ummælum þessara manna má draga þennan lærdóm: íþrótt og gúm gera manninn ofbeldisfullan.


Að lokum legg ég til að lögreglunni verði færð að gjöf nokkur eintök handbókar húsmæðra svo gúmkylfurnar fái sæmilegt viðhald.

16.8.07

Gott að hafa í huga

Gúm, geymsla. Gúm skal ævinlega geyma í hæfilegum hita. Í miklum hita eða kulda springur gúm.

Gúm, leikföng. Ef geyma á leikföng úr gúmi, á að blása þau ofurlítið upp, áður en þeim er komið fyrir. Uppblásin halda þau betur laginu og rifna síður. Leikföngin endast betur, ef glýserín er borið á þau. Olía og fita skemma gúmí.

Gúm, mýkt. Ef munir úr gúmí eru orðnir harðir, eru þeir látnir í ammoníakvatn og nuddaðir, þar til þeir eru aftur orðnir sveigjanlegir. Þá er þeim brugðið yfir gufu og núnir, þar til þeir eru orðnir gljáandi.
Önnur aðferð við að mýkja hart gúm, er að dýfa því í veika glýserínblöndu fáar mínútur og vefja því síðan í þerriblað.

Handbók húsmæðra, 1000 húsráð eftir ýmsa höfunda. Reykjavík, [1951]. Bls. 71-72.

15.8.07

Um golf

Íþróttin golf er í raun ekki íþrótt. Golf er hagfræðiæfing. Golfarinn hefur leik með ákveðna forgjöf, fyrirfram gefna stærð sem skilgreinir markaðsstöðu hans út frá hæfni. Það er eini jafnaðarlegi þáttur golfsins, því hafir þú góða forgjöf er markaðsstaða þín verri. En á móti kemur að vegna þessa er það þér í hag að vera með verri forgjöf en hæfni þín í raun segir til um. Það eina sem hvetur leikmann til að bæta forgjöfina er markaðurinn, þ.e. svo lengi sem það er eftirsóknarvert að hafa góða forgjöf eru meiri líkur til þess að forgjöfin sé réttur mælikvarði á hæfni leikmanna.
Að niðurskipan leikmanna í markaðsstöðu við upphaf leiks lokinni hefst hagfræðiæfingin. Golfarinn reynir að koma sínum bolta (sem er í raun kúla, golfarar tala almennt ekki góða íslensku) í sem fæstum höggum í þar til gerða holu við enda brautarinnar. Þetta er spurning um að besta árangurinn með innleiðingu hagkvæmrar sveiflu sem skilar bæði löngum og nákvæmum höggum. Meðalmaðurinn er skilgreindur út frá ákveðnu „pari“ og frumkvöðlar í útrás golfboltans leggja sig fram um að ná betri árangri, beita verkefnastjórn sinni á boltann á þann hátt að hann verði „undir pari“. Einnig geta þeir gert ytri aðstæður leiks síns þægilegri með stofnun mannauðsdeildar og ráðningar lagerstjóra sem hefur yfirumsjón með úthlutun verkfæra og umsjón tæknideildar (í daglegu tali nefndur „kaddí“, sjá að ofan um málfar golfara).
Golf er í eðli sínu hrokafullt. Golfaðilinn (þ.e. einstaklingurinn sem leikur golfið) leggur undir sig afar stórt landsvæði til að koma afar lítilli kúlu ofan í afar litla holu. Af þessu leiðir að golf er auðmannaíþrótt, enda er nauðsynlegur útbúnaður dýr (og dýrari eftir því sem hann er merktur meira móðins merkjum) og veiðileyfi á golfvöllinn er líka dýrt.
Að leik loknum bera golfaðilar saman umsagnir samkeppnisstofnunar (s.k. „skorkort“) og meta út frá því hver hefur markaðsráðandi stöðu, hefur unnið leikinn.

14.8.07

Af samkynhneigð

Löngum hefur verið í tízku, að yfirlíta fortíðina, í linnulausri leit eftir kynvillu og attaníossisma, eins og það hét hér í denn, en í dag samkynhneigð, en eitthvað annað á morgun, genginna manna, uppdiktaðra jafnt sem óloginna. Dæmi um þetta má nefna frægan meintan hómósexúalisma Gunnars og Njáls. Ég vil ekki láta mitt eftir liggja á því sviði og tilnefni því einn snaröfugan dauðan kall:

Jón Ólafsson Indíafari.

Þessu til sönnunar hef ég eftirfarandi klausu úr reisubók hans:
„En nú með því ég öðlaðist svo góðan stallbróður, fyrst ég fór heiman, sem var Bent Andrésson, sem líkjast mátti við eina góða ektakvinnu í umhyggjusamlegri tilsjón og í öllu því, sem mín daglega nauðsyn útheimti og honum var máttugt af stað að koma mér til góða, svo hann mátti ekki mitt mein í neinu vita né líta. En Guð almáttugur gaf mér og honum góða heilbrigði, svo ég kenndi einskis meins, utan einn dag kenndi ég lítillar köldu, og var honum svo mjög um mig hugað hann þann dag einskis matar neytti. Hann hafði lært fyrri í æskutíma skraddarahandverk. Ei var hann eldri en vel 30 ára.“
(Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara samin af honum sjálfum 1661. II. bindi. Guðbrandur Jónsson gaf út. Reykjavík, 1946. Bls. 93.)

Fyrsta og augljósasta vísbendingin er vitaskuld sú að hann líkir Bent við sína ektakvinnu, þ.e. eiginkonu. „Honum var máttugt af stað að koma“ má túlka á sexúell máta, sé vilji fyrir því. Jón tekur fram að þeir hafi ekki fengið neina kynsjúkdóma fyrir Guðs mildi. Bent missir matarlystina af sorg – eða áhyggjum yfir því að hann sé líka með fransós – þegar Jón leggst með kvef, sem þeir héldu greinilega að væri fransós. Bent var þar að auki klæðskeri, þarf frekari vitnana við? Að lokum er sést að Jón vill gera lítið úr aldursmun þeirra, hann var rétt um þrítugt en Bent, eins og fram kemur, vel rúmlega þrítugur.
Að auki má telja það Jóni til annarlegheita að hann var tvígiftur, en átti þó einungis eitt barn, og það með seinni konu sinni. Það hefur vafalítið eingöngu verið vegna arfamála.
Þessu til frekari sönnunar má benda á að Jón var byssuskytta í liði konungs og hefur því verið svag fyrir einkennisbúningum, og mönnum í einkennisbúningum.

13.8.07

Ómenning

Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld, sunnudaginn 12. ágúst, var sagt frá því að í skjalasafni í Magdeburg í Þýskalandi hafi fundist skjal frá 1973, sem sanni að landamæraverðir í Austur-Þýskalandi hafi fengið beina skipun um að skjóta þá sem reyndu að flýja yfir til vestursins. (Einnig að finna hér: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item166248/)
Það hlýtur óneitanlega að skipta allnokkru máli fyrir aðstandendur þeirra u.þ.b. 1.245 sem myrtir voru á flótta að fá vissu fyrir því að það var ekki uppátæki eins gikkgraðs hermanns heldur opinber skipun og ákvörðun ríkisins sem varð hinum látna að bana.
Mér þókti því heldur óskemmtileg tímasetning á auglýsingu eins fyrirtækis fyrir fréttatímann. Fyrirtækið heitir Gagnaeyðing ehf. og sérhæfir sig í „eyðingu trúnaðarskjala og annarra gagna“ eins og segir á heimasíðu þess, www.gagnaeyding.is.
En þetta er ekki allt! Ég ætlaði í upphafi að láta nægja að tíunda þessa óheppilegu tengingu auglýsingar og fréttar. En þegar ég skoðaði heimasíðu fyrirtækisins þá fann ég þessa „frétt“:
---
16.05.07
Gögn Stazi endurheimt með tölvum og opinberu fé
Þegar Berlínarmúrinn féll 1989 var gríðarlegu magni af skjölum eytt af leynilögreglu Austur Þýskalands. Eftir samruna Þýskalands 1990 fundust pokar með 45 milljón tættum og rifnum skjölum sem í 12 ár hefur verið unnið að því að endurheimta. Tengill á grein.
________________________________________
Þau gögn sem Gagnaeyðing tekur til eyðingar eru tætt í smáar flögur (hámark 2 x 2 sm) og þær pressaðar í 500 kg balla og þeir fluttir erlendis til endurvinnslu.
---
Fyrir utan stafsetningarvilluna (Stasi er skammstöfun á Staatssicherheit, og zeta því ekki viðeigandi) lýsir þessi frétt óhóflegu skeytingarleysi fyrir réttindum borgaranna. Aðstandendur Gagnaeyðingar virðast telja sér það til hróss, að ef Stasi hefði leitað til þeirra með eyðingu njósnaskýrslna sinna væru þessir andsk. skjalaverðir og sagnfræðingar ekki að hnýsast í þetta og veita þeim sem njósnað var um aðgang að skýrslum um sig.
Samhljómur virðist vera með áðurnefndri skipun til landamæravarðanna og samvizku(leysi) Gagnaeyðingar, „Zögern Sie nicht mit der Anwnedung der Schusswaffe“ – „hikið ekki við að beita skotvopnum“ – eða tæturum.