Lesnir;

13.8.07

Ómenning

Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöld, sunnudaginn 12. ágúst, var sagt frá því að í skjalasafni í Magdeburg í Þýskalandi hafi fundist skjal frá 1973, sem sanni að landamæraverðir í Austur-Þýskalandi hafi fengið beina skipun um að skjóta þá sem reyndu að flýja yfir til vestursins. (Einnig að finna hér: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item166248/)
Það hlýtur óneitanlega að skipta allnokkru máli fyrir aðstandendur þeirra u.þ.b. 1.245 sem myrtir voru á flótta að fá vissu fyrir því að það var ekki uppátæki eins gikkgraðs hermanns heldur opinber skipun og ákvörðun ríkisins sem varð hinum látna að bana.
Mér þókti því heldur óskemmtileg tímasetning á auglýsingu eins fyrirtækis fyrir fréttatímann. Fyrirtækið heitir Gagnaeyðing ehf. og sérhæfir sig í „eyðingu trúnaðarskjala og annarra gagna“ eins og segir á heimasíðu þess, www.gagnaeyding.is.
En þetta er ekki allt! Ég ætlaði í upphafi að láta nægja að tíunda þessa óheppilegu tengingu auglýsingar og fréttar. En þegar ég skoðaði heimasíðu fyrirtækisins þá fann ég þessa „frétt“:
---
16.05.07
Gögn Stazi endurheimt með tölvum og opinberu fé
Þegar Berlínarmúrinn féll 1989 var gríðarlegu magni af skjölum eytt af leynilögreglu Austur Þýskalands. Eftir samruna Þýskalands 1990 fundust pokar með 45 milljón tættum og rifnum skjölum sem í 12 ár hefur verið unnið að því að endurheimta. Tengill á grein.
________________________________________
Þau gögn sem Gagnaeyðing tekur til eyðingar eru tætt í smáar flögur (hámark 2 x 2 sm) og þær pressaðar í 500 kg balla og þeir fluttir erlendis til endurvinnslu.
---
Fyrir utan stafsetningarvilluna (Stasi er skammstöfun á Staatssicherheit, og zeta því ekki viðeigandi) lýsir þessi frétt óhóflegu skeytingarleysi fyrir réttindum borgaranna. Aðstandendur Gagnaeyðingar virðast telja sér það til hróss, að ef Stasi hefði leitað til þeirra með eyðingu njósnaskýrslna sinna væru þessir andsk. skjalaverðir og sagnfræðingar ekki að hnýsast í þetta og veita þeim sem njósnað var um aðgang að skýrslum um sig.
Samhljómur virðist vera með áðurnefndri skipun til landamæravarðanna og samvizku(leysi) Gagnaeyðingar, „Zögern Sie nicht mit der Anwnedung der Schusswaffe“ – „hikið ekki við að beita skotvopnum“ – eða tæturum.

3 skilaboð:

  • Er ekki hægt með einu pennastriki að eyða Gagnaeyðingu? Svona athæfi hlýtur að vera ólöglegt!, eða hvaða gögnum *má* eyða? Mig rámar í að hafa séð frétt einmitt um þessi skjöl á sínum tíma, sem þýska leynilögreglan hafði tætt. Einhverjir fræðingar voru þar að reyna að líma þetta drasl saman.

    (Það er ásláttarvilla í þýsku tilvitnuninni sem ég leyfi þér sjálfum og öðrum áhugasömum að finna.)

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 8:25 e.h.  

  • Já! Skarplega athugað. N-ið er tilkomið vegna þess að ég kóperaði þetta beint af fréttasíðu Ríkisútvarpsins.

    Skv. íslenzkum lögum er harðbannað að eyða nokkru því skjali sem verður til í opinberri stjórnsýslu, en einkafyrirtæki mega farga öllu því sem þau vilja, nema bókhald þurfa þau að varðveita í sjö ár.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:33 e.h.  

  • Ég tel þetta vera meið af því þegar fólk nú um stundir gerir (í hugsunarleysi) ríkjum, og þá sérstaklega kommúnistaríkjum, upp ýmsa helztu eiginleika einkafyrirtækis. Þetta liggur djúpt í hugsanagangi fólks, og kemur í ljós við auglýsingagerð sem þessa.

    Sagði Blogger Palli, kl. 4:40 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða