Lesnir;

15.8.07

Um golf

Íþróttin golf er í raun ekki íþrótt. Golf er hagfræðiæfing. Golfarinn hefur leik með ákveðna forgjöf, fyrirfram gefna stærð sem skilgreinir markaðsstöðu hans út frá hæfni. Það er eini jafnaðarlegi þáttur golfsins, því hafir þú góða forgjöf er markaðsstaða þín verri. En á móti kemur að vegna þessa er það þér í hag að vera með verri forgjöf en hæfni þín í raun segir til um. Það eina sem hvetur leikmann til að bæta forgjöfina er markaðurinn, þ.e. svo lengi sem það er eftirsóknarvert að hafa góða forgjöf eru meiri líkur til þess að forgjöfin sé réttur mælikvarði á hæfni leikmanna.
Að niðurskipan leikmanna í markaðsstöðu við upphaf leiks lokinni hefst hagfræðiæfingin. Golfarinn reynir að koma sínum bolta (sem er í raun kúla, golfarar tala almennt ekki góða íslensku) í sem fæstum höggum í þar til gerða holu við enda brautarinnar. Þetta er spurning um að besta árangurinn með innleiðingu hagkvæmrar sveiflu sem skilar bæði löngum og nákvæmum höggum. Meðalmaðurinn er skilgreindur út frá ákveðnu „pari“ og frumkvöðlar í útrás golfboltans leggja sig fram um að ná betri árangri, beita verkefnastjórn sinni á boltann á þann hátt að hann verði „undir pari“. Einnig geta þeir gert ytri aðstæður leiks síns þægilegri með stofnun mannauðsdeildar og ráðningar lagerstjóra sem hefur yfirumsjón með úthlutun verkfæra og umsjón tæknideildar (í daglegu tali nefndur „kaddí“, sjá að ofan um málfar golfara).
Golf er í eðli sínu hrokafullt. Golfaðilinn (þ.e. einstaklingurinn sem leikur golfið) leggur undir sig afar stórt landsvæði til að koma afar lítilli kúlu ofan í afar litla holu. Af þessu leiðir að golf er auðmannaíþrótt, enda er nauðsynlegur útbúnaður dýr (og dýrari eftir því sem hann er merktur meira móðins merkjum) og veiðileyfi á golfvöllinn er líka dýrt.
Að leik loknum bera golfaðilar saman umsagnir samkeppnisstofnunar (s.k. „skorkort“) og meta út frá því hver hefur markaðsráðandi stöðu, hefur unnið leikinn.

2 skilaboð:

  • Ja skítlegt er það. Mér skilst aukinheldur að hér í Hollandi sé rasismi þessu samfara; að minnsta kosti er það víst ekki liðið í krikket-„íþróttinni“ --- sem auðvitað er ögn annars eðlis --- að fólk sé af erlendu bergi brotið. Þar er þó ekki sama Jón og síra Jón, þvíað hollensk-útlítandi fólki er reyndar ekki meinaður þar aðgangur ...

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:11 e.h.  



  • Galdramyndir þínar til að giftast unnu mér. Vegna hjónabandar þinnar býð ég að ég er núna giftur. Takk a einhver fjöldi af Doc Hlutir. Ég skulda þér.Viltu samband við Doc ham Hér templeofanswer@hotmail.co.uk eða Whatsapp (+2348155425481)

    Sagði Blogger Healing Broken heart, kl. 2:21 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða