Lesnir;

14.8.07

Af samkynhneigð

Löngum hefur verið í tízku, að yfirlíta fortíðina, í linnulausri leit eftir kynvillu og attaníossisma, eins og það hét hér í denn, en í dag samkynhneigð, en eitthvað annað á morgun, genginna manna, uppdiktaðra jafnt sem óloginna. Dæmi um þetta má nefna frægan meintan hómósexúalisma Gunnars og Njáls. Ég vil ekki láta mitt eftir liggja á því sviði og tilnefni því einn snaröfugan dauðan kall:

Jón Ólafsson Indíafari.

Þessu til sönnunar hef ég eftirfarandi klausu úr reisubók hans:
„En nú með því ég öðlaðist svo góðan stallbróður, fyrst ég fór heiman, sem var Bent Andrésson, sem líkjast mátti við eina góða ektakvinnu í umhyggjusamlegri tilsjón og í öllu því, sem mín daglega nauðsyn útheimti og honum var máttugt af stað að koma mér til góða, svo hann mátti ekki mitt mein í neinu vita né líta. En Guð almáttugur gaf mér og honum góða heilbrigði, svo ég kenndi einskis meins, utan einn dag kenndi ég lítillar köldu, og var honum svo mjög um mig hugað hann þann dag einskis matar neytti. Hann hafði lært fyrri í æskutíma skraddarahandverk. Ei var hann eldri en vel 30 ára.“
(Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara samin af honum sjálfum 1661. II. bindi. Guðbrandur Jónsson gaf út. Reykjavík, 1946. Bls. 93.)

Fyrsta og augljósasta vísbendingin er vitaskuld sú að hann líkir Bent við sína ektakvinnu, þ.e. eiginkonu. „Honum var máttugt af stað að koma“ má túlka á sexúell máta, sé vilji fyrir því. Jón tekur fram að þeir hafi ekki fengið neina kynsjúkdóma fyrir Guðs mildi. Bent missir matarlystina af sorg – eða áhyggjum yfir því að hann sé líka með fransós – þegar Jón leggst með kvef, sem þeir héldu greinilega að væri fransós. Bent var þar að auki klæðskeri, þarf frekari vitnana við? Að lokum er sést að Jón vill gera lítið úr aldursmun þeirra, hann var rétt um þrítugt en Bent, eins og fram kemur, vel rúmlega þrítugur.
Að auki má telja það Jóni til annarlegheita að hann var tvígiftur, en átti þó einungis eitt barn, og það með seinni konu sinni. Það hefur vafalítið eingöngu verið vegna arfamála.
Þessu til frekari sönnunar má benda á að Jón var byssuskytta í liði konungs og hefur því verið svag fyrir einkennisbúningum, og mönnum í einkennisbúningum.

1 skilaboð:

  • Þetta er skarplega athugað og á alveg áreiðanlega erindi inn í kynlífs- og afbrigðilegheitaumræðu bókmenntafræðanna. Megi einhvers staðar finna ergi í íslenskum bókmenntum, væri það kannski hér, svei mér þá! Hm.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:53 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða