Um kveðskap
Um daginn varð ég vitni að undarlegum misskilningi: „Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.” – Maður nokkur spurði hvernig veikur hlekkur gæti verið sterkari en keðja.
---
En hana nú:
-Orð um vetrarveður-
undir Hinum grænlenzka hætti
Mörk í myrkri
marrar, svarrar.
Nið um næða
nætur dætur
fjúks drift feykja;
fýkur, rýkur.
Senn til sinni
sefa gefa.
Skýring: Í myrkri marrar og brakar (svarrar) í skógi (mörk). Í myrkri (nið) næða dætur nætur (=vindhviður) og feykja snjósköflum (fjúks drift), og [snjórinn] fýkur og rýkur. Skap hugar (sinni[hk.flt.] sefa[kk.et.]) gefur senn undan (gefa til = gefa undan).
Þar með hef ég afgreitt veðrið og áhrif þess á geðheilsuna, á fádæma uppstrílaðan hátt.
Í gegnum tíðina hafa ótrúlega mörg ljóð og kvæði verið samin. Bæði góð kvæði, og leirburður. Stundum eru tvö ljóð nauðalík, ýmist vegna þess að skáldin vissu ekki til hinna, eða þá að annað er stæling á hinu. Svo er til eðlilegur kveðskapur, og afturámóti líka til óeðlilegur kveðskapur; þ.e. sá sem er tyrfinn og ómögulegt að skilja nema að setja sig í sérstök, annarleg spor.
En hvenær hætta menn þessu? Hvenær á mönnum eftir að finnast nóg komið? E.t.v. þegar menn hafa ort um allt. Eða hvað er eftir, þegar búið er að yrkja 1.000.000.000 ljóð um veðrið, annað eins um hesta og vín, og tvöfalt meira um konur? Menn hafa kannski ort ljóð um allavega konur; fráskildar, ljóshærðar, litlar, feitar, grannar, dökkeygðar, hökulágar, með brjóst einsog kókoshnetur, með eyru einsog hestar, og sem blikkuðu einhvern á götuljósum. Hvað er þá eftir? Er þá röðin komin að samkynhneigðarljóðum?
Hvað gerist þegar þau eru öll búin, það veit ég ekki.
Það er aðeins eitt víst: Þegar það verður búið að semja öll möguleg ljóð, þá verða ekki samin fleiri.
Og hér ætla ég að leitast við að finna út hvenær það verður.
Forsendur:
I. Það sem takmarkar fjölda mögulegra kvæða (skst. FMK) er fjöldi orða. Með 10 orðum má gera færri kvæði en með 100.
II. Afgerandi fyrir það hvenær endanlegum FMK verður náð er hraði kveðskapar, þ.e. hve mörg kvæði eru samin á ákveðnum tíma.
Útreikningar:
a. Ég gef mér að með tíu orðum megi gera fjögur ljóð.
b. Þ.a.l. gef ég mér að úr 100 orðum megi gera 4·10 ljóð = 40.
c. Fjöldi orða í íslenzku er áætlaður um 60.000. → 10x = 60.000 => x ≈ 4,778 → FKM með 60.000 orðum er 44,778^6.000 = 7,1·1017261
d. Eitt kvæði á mann á dag (K/P/D) er ≈ 1/63 ≈ 0,0158. Á ári (K/P/Á) er þá 5,797 a.t.t.t. hlaupára.
e. Mælendur íslenzkrar tungu eru álíka margir og búsettir á Íslandi. Fjöldi kvæða á ári er þá 5,797·290.000 = 1.681.130.
FMK2Á/P = 7,1·1017261/1.680.130 = 4,27·1017235 ár, sem dugir langt fram yfir endimörk eilífðar.
---
Athugasemdir:
1. Í útreikningum eru ekki tekin með kvæði sem hafa þegar verið samin, en þau gætu verið 202.895.000, (ef tekið er mið af fjölda fæddra íslendinga skv. fræðimönnum og gefnum meðalaldri 35 árum við fæðingu.) Tala þessi er hverfandi samaborið við heildarútreikninga.
2. FMK og K/P/Á eru algjörlega gefnar stærðir.
3. Ekki er gert ráð fyrir málbreytingu og breytingu á fjölda orða næstu 4,27·1017235 árin.
4. Ekki eru talin með dada-ljóð gerð af tölvum, af siðferðilegum ástæðum.
5. Ekki er talið að veldisaukning mannfjölda á Íslandi (sem nú þegar á sér stað) skipti verulegu máli fyrir heildarfjölda kvæða á ári þar sem semjendum fækkar, og í staðinn munu ljóðin aðeins lengjast, skv. Jóni.