Lesnir;

23.1.05

Um kveðskap

Um daginn varð ég vitni að undarlegum misskilningi: „Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.” – Maður nokkur spurði hvernig veikur hlekkur gæti verið sterkari en keðja.
---
En hana nú:
-Orð um vetrarveður-

undir Hinum grænlenzka hætti

Mörk í myrkri
marrar, svarrar.
Nið um næða
nætur dætur
fjúks drift feykja;
fýkur, rýkur.
Senn til sinni
sefa gefa.

Skýring: Í myrkri marrar og brakar (svarrar) í skógi (mörk). Í myrkri (nið) næða dætur nætur (=vindhviður) og feykja snjósköflum (fjúks drift), og [snjórinn] fýkur og rýkur. Skap hugar (sinni[hk.flt.] sefa[kk.et.]) gefur senn undan (gefa til = gefa undan).

Þar með hef ég afgreitt veðrið og áhrif þess á geðheilsuna, á fádæma uppstrílaðan hátt.

Í gegnum tíðina hafa ótrúlega mörg ljóð og kvæði verið samin. Bæði góð kvæði, og leirburður. Stundum eru tvö ljóð nauðalík, ýmist vegna þess að skáldin vissu ekki til hinna, eða þá að annað er stæling á hinu. Svo er til eðlilegur kveðskapur, og afturámóti líka til óeðlilegur kveðskapur; þ.e. sá sem er tyrfinn og ómögulegt að skilja nema að setja sig í sérstök, annarleg spor.
En hvenær hætta menn þessu? Hvenær á mönnum eftir að finnast nóg komið? E.t.v. þegar menn hafa ort um allt. Eða hvað er eftir, þegar búið er að yrkja 1.000.000.000 ljóð um veðrið, annað eins um hesta og vín, og tvöfalt meira um konur? Menn hafa kannski ort ljóð um allavega konur; fráskildar, ljóshærðar, litlar, feitar, grannar, dökkeygðar, hökulágar, með brjóst einsog kókoshnetur, með eyru einsog hestar, og sem blikkuðu einhvern á götuljósum. Hvað er þá eftir? Er þá röðin komin að samkynhneigðarljóðum?
Hvað gerist þegar þau eru öll búin, það veit ég ekki.
Það er aðeins eitt víst: Þegar það verður búið að semja öll möguleg ljóð, þá verða ekki samin fleiri.
Og hér ætla ég að leitast við að finna út hvenær það verður.

Forsendur:
I. Það sem takmarkar fjölda mögulegra kvæða (skst. FMK) er fjöldi orða. Með 10 orðum má gera færri kvæði en með 100.
II. Afgerandi fyrir það hvenær endanlegum FMK verður náð er hraði kveðskapar, þ.e. hve mörg kvæði eru samin á ákveðnum tíma.
Útreikningar:
a. Ég gef mér að með tíu orðum megi gera fjögur ljóð.
b. Þ.a.l. gef ég mér að úr 100 orðum megi gera 4·10 ljóð = 40.
c. Fjöldi orða í íslenzku er áætlaður um 60.000. → 10x = 60.000 => x ≈ 4,778 → FKM með 60.000 orðum er 44,778^6.000 = 7,1·1017261
d. Eitt kvæði á mann á dag (K/P/D) er ≈ 1/63 ≈ 0,0158. Á ári (K/P/Á) er þá 5,797 a.t.t.t. hlaupára.
e. Mælendur íslenzkrar tungu eru álíka margir og búsettir á Íslandi. Fjöldi kvæða á ári er þá 5,797·290.000 = 1.681.130.

Þá er það komið. Með því að deila FMK með K/P/Á fæst árafjöldi þangað til öll kvæði hafa verið samin:

FMK2Á/P = 7,1·1017261/1.680.130 = 4,27·1017235 ár, sem dugir langt fram yfir endimörk eilífðar.
---
Athugasemdir:
1. Í útreikningum eru ekki tekin með kvæði sem hafa þegar verið samin, en þau gætu verið 202.895.000, (ef tekið er mið af fjölda fæddra íslendinga skv. fræðimönnum og gefnum meðalaldri 35 árum við fæðingu.) Tala þessi er hverfandi samaborið við heildarútreikninga.
2. FMK og K/P/Á eru algjörlega gefnar stærðir.
3. Ekki er gert ráð fyrir málbreytingu og breytingu á fjölda orða næstu 4,27·1017235 árin.
4. Ekki eru talin með dada-ljóð gerð af tölvum, af siðferðilegum ástæðum.
5. Ekki er talið að veldisaukning mannfjölda á Íslandi (sem nú þegar á sér stað) skipti verulegu máli fyrir heildarfjölda kvæða á ári þar sem semjendum fækkar, og í staðinn munu ljóðin aðeins lengjast, skv. Jóni.

20.1.05

Efnistakagreining með Dewey-kerfi

Kæru lesendur.
Hver kannast ekki við að hafa heyrt eða lesið pistil sem er ekki um neitt. Einhver bullar, og maður er svo vitlaus að leggja eyrun við. Svo er líka til í dæminu að tveir tali saman um ekki neitt. En hvað er fólk að tala um þegar það talar um ekki neitt?
Ef til vill veðrið, en það hefur bjargað mörgum stirðum samræðum hjá mér.
Til þess að vita um hvað maður er að tala er gott að flokka það eftir efnisflokkunarkerfi Deweys; því sama og notað er á bókasöfnum.

Aðalflokkar Dewey-flokkunarkerfisins eru þessir:
000 Almennt efni, tölvufræði, safnfræði
-undir þennan flokk falla einnig yfirgripsmiklar samsæriskenningar.
100 Heimspeki, sálfræði.
200 Trúarbrögð.
300 Félagsvísindi.
400 Tungumál
-þjóðsögur og sagnaþættir líka.
500 Raunvísindi.
600 Tækni (hagnýt vísindi), iðnaður
-hér er læknisfræði, heilsa, tantra og kama sutra.
700 Listir, skemmtanir, íþróttir
-bridds, skák, lúðrasveitir.
800 Bókmenntir og stílfræði
900 Landafræði, ævisögur og sagnfræði.
---
Ég hef, sökum þess að ég verð mjög fyrir áhrifum af Flog-i; þar sem margskonar greining er stunduð; og einnig af Sævari Öfjörð, sem skrifar helzt ekki um annað en blogg, þá hef ég flokkagreint Lesna frá upphafi:
000 [1]
--093 Meðferð texta [1]
100 [4]
--117 Bygging heimsins [2]
--119 Tölur og jafnvægi [1]
--121 Kenningar um vizku [1]
300 [3]
--370 Menntun [2]
--371 Skólastjórn/sértæk efni um menntun [1]
400 [4]
--402 Félagsleg málfræði [1]
--404 Greinamerkjasetning og stafsetning [1]
--407 Menntun og rannsóknir í málfræði [1]
--418 Málnotkun og hagnýt málfræði [1]
500 [3]
--573 Líffræðileg mannfræði [2]
--577 Grundvallarnáttúra lífs [1]
600 [2]
--608 Uppfinningar og lausnir [2]
800 [6]
--807 Menntun og rannsóknir í bókmenntum [1]
--809 Greining á bókmenntum [1]
--811 Ljóð og kvæði [3]
--821 Ensk ljóðlist [1]
900 [2]
--907 Menntun og rannsóknir í sagnfræði [1]
--920 Ævisögur og æviskrár manna[1]

Hér sést glögglega hve fjölbreytt efnistökin hafa verið. Helzt vantar 200 flokkinn (trúarbrögð) og 700 (listir, skemmtanir, íþróttir), og mikið efni hefur flokkast undir bókmenntaflokkinn, 800. En dreifingin, sú sem er til staðar, er tiltölulega jöfn.
En hvað merkir þessi dreifing? Er dreifing eftir Dewey-kerfi markverðari en önnur dreifing? Það er rétt að þetta dreifirit lýsir ekki hvernig er skrifað - heldur nefnilega því, hvað er skrifað. Og ég tel því að þessi framsetning eigi fullan rétt á sér.
Hér hef ég því fyllilega leitt lesendum, (sem e.t.v. héldu að Lesnir væru fátóna rit), fyrir sjónir hversu fjölbreytt efnistök Lesinna eru, með viðurkenndum aðferðum.

18.1.05

Depilhögg: minning þín lifir

Í flest þau skipti sem ég gerði tilraun til að nota semíkommu (depilhögg) í grunn- og framhaldsskóla, fékk ég athugasemd frá kennara um að:

- það væri vandasamt að nota semíkommu og því best að sleppa henni
- flestir væru hættir að nota semíkommu og því best að sleppa henni
- það væri snyrtilegra að nota punkt í stað semíkommu og því best að sleppa henni

Gott og vel; ég játaði mig sigraðan. Einhvern tíma síðar á skólagöngunni hlyti ég að læra að fara rétt með þetta glannalega tákn. Nei, reyndar ekki. Það skrítna við greinarmerkjasetningu er að enginn virðist geta útskýrt nákvæmlega hvenær á að skrifa kommu, hvenær punkt og hvenær semíkommu. Í nýlegri málfræðibókum sem ég hef komist í hefur þetta mál verið leyst einhvern veginn svona:

„erfitt er að gefa leiðbeiningar um rétta notkun á greinarmerkjum því til að skilja slíkt til hlítar þarf yfirgripsmikla kunnáttu í setningafræði“; sumir bæta við: „en glöggir nemendur ættu að átta sig á reglunum með því að taka vel eftir því hvernig hún er notuð hér með því að lesa textann gaumgæfilega.“

Þeim, hins vegar, sem vilja öðlast færni í þessari miklu list að skrifa semíkommu bendi ég á þessa tvo texta sem ég hef skrifað upp.

a) Valdimar Ásmundarson. 1887. Ritreglur. Akureyri:

Semikomma eða semikòlon [hálfdepill] (;), er skilur náskyldar samstæður. Við semikommu er staðið í lestri svo sem svarar hálfu andartaki.


(HFV: til samanburðar má geta þess að: [v]ið kommu er staðið í lestri svo sem svarar fjórðungi andartaks.)

b) Halldór Kr. Friðriksson. 1859. Íslenzkar rjettritunarreglur. Hið íslenzka bókmenntafjelag, Reykjavík:

Um depilhögg (;).
1. Þá skal depilhögg (;) [semíkólon] setja, er málsgrein er á enda, og á eptir kemur bein setning, er alls eigi er leidd af hinni fyrri, en er þó áframhald þess, sem frá er verið að segja, er nafn eða fornafn stendur í upphafi hennar, og verður þó opt vafasamt, hvort setja skuli depilhögg eða depil, og opt hvorttveggja jafnrjett; þannig t. a. m.: „Þetta voru orð hans; Ajant og báðir kallararnir . . . eru hjer til vitnis“. „Hann tók upp hinn fagra hlífskjöld; hann var gerður með miklum hagleik; um kring á honum voru tíu baugrendur af eiri, og tuttugu hvítar bólur af tini, og í miðjunni nöf af svörtu blástáli; á skildinum allt í kring var Gorgó,“ o. s. frv.

2. Þegar bein setning byrjar á sögn, og engu samtengingarorði er sleppt, t. a. m. þá, verður það optast rjettast, að hafa depilhögg á undan; þannig t. a. m.: „Þar stóð gyðjan upprjett, og kallaði bæði hátt og ógurlega; kom hún miklum þrótt í hjarta sjerhvers af Akkeum“. Þó má það stundum verða, að depil skuli setja.

3. Á undan því að verður og rjett að hafa depilhögg, nema því aðeins, að setningin standi í því nánara sambandi við hina undanfarandi; enda er þá lögð áherzla á því, og skal þá setja högg á eptir því; en að rjett sje, að setja depilhögg á undan því að, sjest ljóslega á því, að sleppa má því að, án þess þó að málið haggist að neinu, eða hugsunin verði önnur, en setningin, sem hefst á því að eða því, verður útskýring hins undanfarna, en eigi orsök þess; þannig t. a. m.: „Því næst færði hann sig í brynju þá, sem Kinýras hafði forðum gefið honum að gestgjöf; því (= því að) Kinýras hafði frjett til Kýpur þann mikla frama, að Akkear ætluðu að sigla á skipum til Trójuborgar, og gaf því konunginum brynjuna í vináttuskyni“.

4. Optast skal og depilhögg á undan, er eptirfarandi setning hefst á aptur á móti, þó (eigi: þótt), þrátt fyrir það, því næst, og öðrum fleirum þess konar orðum. Um en hefur áður verið talað.


[HFV: sjá um það 40. grein, athugasemd 4 bls. 240-241, t.d. hér].

Nú ætti enginn að velkjast lengur í vafa um hvernig á að fara með þetta skemmtilega tákn. Það lengi lifi!

12.1.05

Falsanir og heimildaútgáfa

Þessa dagana líður mér eins og ómerkilegum falsara og ræningja. Ég er að vinna verkefni sem felst í því að skrifa upp texta frá 17. öld. Nánar tiltekið úr prestastefnubókum Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1670. Það er í sjálfu sér afar þarft og gott verk, en fyrirmælin voru þau að gera þetta orðrétt, þ.e. með nútímastafsetningu. Ja svei. Það eina sem heldur lífinu í mér er vissan um að ég þarf að skrifa sama texta aftur síðar, en þá stafrétt, í sama námskeiði.
Hér fylgir eitt dæmi svo fólk sjái hvað ég á við.
(Rétt er að benda á að það sem leyst er úr böndum er skáletrað og það sem skrifari skammstafar er innan sviga með þeirri stafsetningu sem líklegt er að skrifari hefði notað hefði hann skrifað orðið fullum fetum. Hér er ekki gerður greinarmunur á mismunandi gerðum sama stafs (t.d. löngu og stuttu s-i) vegna leturgerðavandræða í fannála-forritinu. Orð á latínu eru þýdd í orðréttu útgáfunni. Einnig er rétt að benda á að í orðinu samþyckt er í heimildinni skrifað samþycktar, en -ar er yfirstrikað, enda fellur það ekki að íslensku beygingarkerfi. Þetta blessaða fannála-forrit ræður ekki við yfirstrikun svo þessum stöfum er sleppt hér.)

„Effter þad s(iera) Einar var frafalinn ad sogn s(iera) Magnúsar þann 7 Martii, tiá forfoll ad byskupsens ej haffa gietad leitad vmm profastinn eda neirn J hanns stad ad setia vegna hardrad og sniosamrar vedrattu, kiosa þui sialffer s(iera) Asgeir Einarβon J profstsens stad ad vera J trausti yffervalldsens; þeβa sijna kollun ad frammkuæma huad hann og giort heffur sem hans samþyckt vnderskriffud J audmiuku trausti vid yffervalldid...“

„Eftir það séra Einar var fráfalinn að sögn séra Magnúsar þann 7. mars, tjá forföll að biskupsins ei hafa getað leitað um prófastinn eða neinn í hans stað að setja vegna harðrar og snjósamrar veðráttu, kjósa því sjálfir séra Ásgeir Einarsson í prófastsins stað að vera í trausti yfirvaldsins, þessa sína köllun að framkvæma hvað hann og gjört hefur sem hans samþykkt undirskrifuð í auðmjúku trausti við yfirvaldið...“

Hér er greinilegur munur, og í rauninni hef ég falsað heimildina með því að troða minni túlkun og þeirri stafsetningu sem tilheyrir upphafi 21. aldarinnar inn í hana. Það vantar bara að ég breyti orðalaginu og í rauninni þýði textann. Þar með hef ég litað þær ályktanir og túlkanir sem lesandinn kann að draga af heimildinni og missir hún að miklu leyti gildi sitt fyrir vikið. Auðvitað verður ekki hjá einhverri túlkun komist við heimildaútgáfu, s.s. við lestur máðra eða illa skrifaðra orða (oft þarf að ráða merkinguna út frá samhenginu) og við upplausn úr böndum, en mín skoðun er sú að þeirri túlkun ætti að halda í lágmarki. Það má jafnvel færa rök fyrir því að leysa ekki úr böndum heldur prenta þau eins og þau koma fyrir í heimildinni.

11.1.05

Hag-þeinkir

Ég komst stóráfallalaust í gegnum grunnskóla og gekk meira að segja alveg þokkalega. Námsins naut ég hins vegar ekki og það afvegaleiddi mig. Hvers vegna var það? hlýt ég að spyrja mig.

Það var mér nokkur opinberun að lesa Hag-þeinki eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1737). Þetta rit ætti að vera skyldulesning sérhverjum upprennandi kennara og raunar landsmönnum öllum. Þótt ekki sé Hag-þeinkir gallalaus og beri mjög ljós merki þess að vera ekki skrifaður á okkar tímum þá er fjölmargt í honum sem á mikið erindi inn í menntakerfið og ekki síst í grunn- og framhaldsskólana.

Strax í grunnskóla varð ég vitni að því hvernig sumir samnemendur mínir voru afgreiddir sem vitlausir kjánar sem ekkert gætu lært. Þetta var ekki þeim að kenna. Þvert á móti. Menntakerfið brást þessum vinum mínum með því að höfða ekki nógsamlega til þess sem þeir höfðu áhuga á. Það finna sig ekki allir í raunvísindum, hugvísindum eða iðngreinum. Allra síst á öllum þessum sviðum í senn. Jón Grunnvíkingur orðar þetta svo:


(Jón Ólafsson úr Grunnavík. Hag-þeinkir: 20)

Okkur Jóni finnst miklu máli skipta að allir nemendur læri fyrstu árin helstu grunnatriði náms. Að á tíunda eða ellefta hið allra síðasta hafi neminn:


(Sama rit: 20)

Það er hér sem núverandi menntakerfi bregst og vinnur markvisst að því að móta alla nemendur í sama mót, óháð því hverjir hæfileikar þeirra eru og áhugasvið. Strax í fyrstu bekkjum grunnskóla fékk ég t.a.m. athugasemdir á einkunnaspjaldið mitt: fær í íslensku og ritun en árangur þarf að bæta í stærðfræðinni. Það lá með öðrum orðum ljóst fyrir strax í 1., 2., 3. og 4. bekk að ég hneigðist til hugvísinda fremur en raunvísinda. Enda brást námið mér.

Áhugaverða menntun í íslensku fékk ég ekki fyrr en ég var á mínu síðasta ári í framhaldsskóla, þá 19 ára gamall, en slíka kennslu fékk ég aðeins vegna þess að undanfarin 3 ár hafði ég kropið fyrir áfangastjóra og aðstoðarskólameistara. Í staðinn hafði ég fengið heiladauða og þvælna kennslu í þeim þáttum málfræði sem ég hafði síst þörf fyrir, t.a.m. stafsetningu. Áhugi minn á íslensku var myrtur í fæðingu og hann endurheimti ég ekki fyrr en ég las Ofvitann 17 ára.

Það þarf að bjóða nemendum upp á val strax í 5. bekk. Þeir sem hneigjast til handverka skulu fá að reyna sig í slíku; þeir sem vilja raunvísindi skulu fá það og hugvísindamenn skulu fá tækifæri til að læra þar undirstöðuatriði. Þó verður allt nám að skarast meira og minna. Hér er ekki um það að ræða að þeir sem ekki hafi áhuga á yfirlegu bóka komist hjá því að lesa bækur, eða að raunvísindamenn komist hjá því að læra matreiðslu eða að prjóna. Heldur það að frá og með 5. bekk séu áfram kennd grunnfög en allt þar umfram gefið frjálst.

Þarna greinir okkur Jón ofurlítið á því hann segir um nemann:


(Sama rit: 20)

Iðnnám og annað verklegt nám er alltaf að einhverjum hluta bóklegt. Það hlýtur því að skarast við annað nám sem kallað er bóknám upp að því marki. Jón virðist líka gera ráð fyrir því að þá sem hneigjast til handverksins eigi hér, við 10-11 ára aldurinn, að skilja frá hinum og mennta í handverkinu eingöngu. Þetta finnst mér vera óþarfi. Hins vegar væri heppilegast að þeir sem deili sama áhugasviði séu á sömu námsleið og ekki sé því verið að íþyngja þeim sem hafa brennandi áhuga á sagnfræði með óhagnýtu málfræðiþvaðri, og öfugt.

Það menntakerfi sem við búum við hentar engum. Það gefur grunna þekkingu á öllum námsgreinum, íþyngir áhugasömum nemendum með stagli en pínir aðra með einhverju sem nýtist þeim lítið eða ekkert. Þetta er kerfi sem gerir bóknámi hátt undir höfði en birtir iðnnám sem annars flokks nám með því að reyna ávallt fyrst að beina þeim sem hneigjast til handverks inn í bóknám. Þegar þessir iðnnemar hafa loksins fengið nám við sitt hæfi í iðnskólum er búið að brjóta þá niður, níðast á þeim og gefa þeim mörgum hverjum neikvæða lífssýn á sjálfa sig og nám.

Ef nám á að skila árangri þá þarf það að vera áhugavert. Það má vel vera bland í poka en það er ómögulegt ef námið á að bera einhvern árangur að selja allt nám niðursoðið í nákvæmlega sömu dósir. Það vantar enn fjölbreytnina.


Heimild
Jón Ólafsson úr Grunnavík. 1996. Hag-þeinkir, skrifat at fyrstu 1737. JS 83 fol. Þórunn Sigurðardóttir sá um útgáfuna og ritaði inngang. Góðvinir Grunnavíkur-Jóns og Hagþenkir, félag höfunda og kennslugagna. Árnastofnun, Reykjavík.

9.1.05

Saknaðarkveðskapur í janúar

Í tilefni af því að nú er ég ekki lengur í skólanum, og hef því ekki rjóma hins fegurra kyns fyrir augunum heilu og hálfu dagana, þá blés vetrarmyrkrið mér þessum þunglyndishugleiðingum í brjóst.

Löngum hef ég lónað um
lífsins skólaganga.
Fangaði mig úr fjarskanum
fegurð auðarspanga.

Ægi-fagrar, alltaf hef,
öndurdísir tignað,
aldrei þó ég ástarbréf
undir hafi signað.

Að nálgast kvenfólk er mér kvöl
kárnar allt þá gaman;
svitnar hörund, hönd er þvöl,
hné mín bogna saman.

Ólmast hjarta, æðar slá,
augasteinar stækka,
- vanadís er vekur þrá -
vits míns gengi lækka.

Enda hef ég aldrei reynt
allt sem get ég sjálfur.
Kvenmannslaus, það fer ei leynt,
labba ég ætíð hálfur.

6.1.05

Heimspekideild - Hugvísindadeild

Nú rétt í þessu barst mér til augna sú fregn að nafni heimspekideildar hefur verið breytt í hugvísindadeild. Það er vel að mínu mati og er í rauninni löngu tímabært. Landlægt hefur verið að rugla saman heimspekideild og heimspekiskor, og margt annað en heimspeki er kennt í hugvísindadeildinni. Það eina sem réttlætt gæti gamla nafnið væri phílan sem sameiginleg er öllum þeim sem stunda nám við deildina, en nýja nafnið er miklu lógískara. Það væri kannski ráð á þessum tímamótum að stilla rhetóríkinni upp við hliðina á phílunni sem skildugrein?
Áhugasömum bendi ég á þessa grein Önnu Agnarsdóttur sagnfræðings.