Lesnir;

18.1.05

Depilhögg: minning þín lifir

Í flest þau skipti sem ég gerði tilraun til að nota semíkommu (depilhögg) í grunn- og framhaldsskóla, fékk ég athugasemd frá kennara um að:

- það væri vandasamt að nota semíkommu og því best að sleppa henni
- flestir væru hættir að nota semíkommu og því best að sleppa henni
- það væri snyrtilegra að nota punkt í stað semíkommu og því best að sleppa henni

Gott og vel; ég játaði mig sigraðan. Einhvern tíma síðar á skólagöngunni hlyti ég að læra að fara rétt með þetta glannalega tákn. Nei, reyndar ekki. Það skrítna við greinarmerkjasetningu er að enginn virðist geta útskýrt nákvæmlega hvenær á að skrifa kommu, hvenær punkt og hvenær semíkommu. Í nýlegri málfræðibókum sem ég hef komist í hefur þetta mál verið leyst einhvern veginn svona:

„erfitt er að gefa leiðbeiningar um rétta notkun á greinarmerkjum því til að skilja slíkt til hlítar þarf yfirgripsmikla kunnáttu í setningafræði“; sumir bæta við: „en glöggir nemendur ættu að átta sig á reglunum með því að taka vel eftir því hvernig hún er notuð hér með því að lesa textann gaumgæfilega.“

Þeim, hins vegar, sem vilja öðlast færni í þessari miklu list að skrifa semíkommu bendi ég á þessa tvo texta sem ég hef skrifað upp.

a) Valdimar Ásmundarson. 1887. Ritreglur. Akureyri:

Semikomma eða semikòlon [hálfdepill] (;), er skilur náskyldar samstæður. Við semikommu er staðið í lestri svo sem svarar hálfu andartaki.


(HFV: til samanburðar má geta þess að: [v]ið kommu er staðið í lestri svo sem svarar fjórðungi andartaks.)

b) Halldór Kr. Friðriksson. 1859. Íslenzkar rjettritunarreglur. Hið íslenzka bókmenntafjelag, Reykjavík:

Um depilhögg (;).
1. Þá skal depilhögg (;) [semíkólon] setja, er málsgrein er á enda, og á eptir kemur bein setning, er alls eigi er leidd af hinni fyrri, en er þó áframhald þess, sem frá er verið að segja, er nafn eða fornafn stendur í upphafi hennar, og verður þó opt vafasamt, hvort setja skuli depilhögg eða depil, og opt hvorttveggja jafnrjett; þannig t. a. m.: „Þetta voru orð hans; Ajant og báðir kallararnir . . . eru hjer til vitnis“. „Hann tók upp hinn fagra hlífskjöld; hann var gerður með miklum hagleik; um kring á honum voru tíu baugrendur af eiri, og tuttugu hvítar bólur af tini, og í miðjunni nöf af svörtu blástáli; á skildinum allt í kring var Gorgó,“ o. s. frv.

2. Þegar bein setning byrjar á sögn, og engu samtengingarorði er sleppt, t. a. m. þá, verður það optast rjettast, að hafa depilhögg á undan; þannig t. a. m.: „Þar stóð gyðjan upprjett, og kallaði bæði hátt og ógurlega; kom hún miklum þrótt í hjarta sjerhvers af Akkeum“. Þó má það stundum verða, að depil skuli setja.

3. Á undan því að verður og rjett að hafa depilhögg, nema því aðeins, að setningin standi í því nánara sambandi við hina undanfarandi; enda er þá lögð áherzla á því, og skal þá setja högg á eptir því; en að rjett sje, að setja depilhögg á undan því að, sjest ljóslega á því, að sleppa má því að, án þess þó að málið haggist að neinu, eða hugsunin verði önnur, en setningin, sem hefst á því að eða því, verður útskýring hins undanfarna, en eigi orsök þess; þannig t. a. m.: „Því næst færði hann sig í brynju þá, sem Kinýras hafði forðum gefið honum að gestgjöf; því (= því að) Kinýras hafði frjett til Kýpur þann mikla frama, að Akkear ætluðu að sigla á skipum til Trójuborgar, og gaf því konunginum brynjuna í vináttuskyni“.

4. Optast skal og depilhögg á undan, er eptirfarandi setning hefst á aptur á móti, þó (eigi: þótt), þrátt fyrir það, því næst, og öðrum fleirum þess konar orðum. Um en hefur áður verið talað.


[HFV: sjá um það 40. grein, athugasemd 4 bls. 240-241, t.d. hér].

Nú ætti enginn að velkjast lengur í vafa um hvernig á að fara með þetta skemmtilega tákn. Það lengi lifi!

4 skilaboð:

  • Semikommu notaði ég líka hjá henni og hún brjálaðist.

    Ekki samt jafn mikið og yfir ritgerð minni um Selfoss þar sem ég sagði: ,,Selfossi er fyrir ,,masókista' sem fá ,,kick'' útúr jarðskjálftum, og best sést það á stjórnunarmönnum bæjarins einsog t.d. skólastjóra Sandvíkurskóla sem er algjör fáviti.''

    Henni fannst þetta ekki sniðug ritgerð og sagði að ég sletti of mikið, væri ekki prúður í orðavali og hefði ekkert fallegt að segja enda fékk ég lægstu einkunn fyrir sem hægt var að fá. Sagði meira að segja hátt yfir bekkinn ÉG GAF FREKAR GOTT FYRIR ÞETTA ÞAÐ FÉKK ENGINN LÆGRA EN X .. JÚ NEMA EINN OG ÞAÐ VARST ÞÚ JÓN, TALA VIÐ ÞIG BETUR Á EFTIR......

    Ég er bara enn bitur...

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 9:30 e.h.  

  • Ég skal segja ykkur það. Slæmar athugasemdir frá kennurum eru alveg stórhættulegar. Ritgerð sem ég skilaði í einhverjum efri bekkjum grunnskóla um nýnasista féll í mjög svo grýttan farveg hjá kennara, sem hafði samband við móður mína og sagði þessi skrif mín, sem mér þóttu velaðmerkja bara alveg hreint ágæt, vera alveg hreint kúffull þannig að uppúr flæddi af "málvillum". Þessi athugasemd - sem snerist aðallega um ranga meðferð mína á dönskuslettum - braut mig allharkalega niður, svo mjög að ég fékk þvílíka óbeit á íslensku að ég hefði aldrei nokkurn tíma trúað því að ég myndi ákveða einungis 5 árum síðar eða svo að leggja þetta sérstaklega fyrir mig.
    Það sem kennarar þurfa að gera er að byggja nemendur upp og þjálfa þá. Ekki benda á það sem miður fer, og jafnvel hæðast að nemendum; niðurlægja þá. Fólk þarf að æfa með margvíslegum aðferðum (lestri, skrift, framsögu) til að það öðlist færni í að tjá sig, munnlega og skriflega, og læri að treysta á málvitund sína. Það er fátt sorglegra en að heyra fólk lýsa því yfir að það tali svo óskaplega vitlaust, eða sé svo lélegt í íslensku. Þetta hafa grunnskólarnir innprentað því. Þessu þarf að breyta.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:17 e.h.  

  • Ég man eftir þessari ritgerð um Selfoss. Ég reit mína á stormasömu kvöldi, var reiður og bitur útí bæjarfélag mitt. Niður á bókfell mitt hripaði ég ófagrar lýsingar á peningaeyðslu ónefndra rakara í gæluverkefni á borð við ,,Sumar á Selfossi" og eitthvað þaðan af verra. Þegar að skuldadögum kom kom í ljós að ég var einn í bekknum með hæstu einkunn, III, og varð þessi ritgjörningur minn svo frægur að koma á borð ákveðins bæjarfulltrúa (þó ekki títtnefnds rakara).
    Nú er oftnefndur rakari ekki lengur bæjarfulltrúi og ,,Sumar á Selfossi" er ekki lengur til.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:44 f.h.  

  • Hahaha; mér fannst þetta nú alltaf skemmtileg hátíð, nóg af ís og pylsum og leiktæki, sértilboð, hlaðborð, basar. Hvað er þetta, Þetta var vel heppnað!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 2:37 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða