Lesnir;

12.1.05

Falsanir og heimildaútgáfa

Þessa dagana líður mér eins og ómerkilegum falsara og ræningja. Ég er að vinna verkefni sem felst í því að skrifa upp texta frá 17. öld. Nánar tiltekið úr prestastefnubókum Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 1670. Það er í sjálfu sér afar þarft og gott verk, en fyrirmælin voru þau að gera þetta orðrétt, þ.e. með nútímastafsetningu. Ja svei. Það eina sem heldur lífinu í mér er vissan um að ég þarf að skrifa sama texta aftur síðar, en þá stafrétt, í sama námskeiði.
Hér fylgir eitt dæmi svo fólk sjái hvað ég á við.
(Rétt er að benda á að það sem leyst er úr böndum er skáletrað og það sem skrifari skammstafar er innan sviga með þeirri stafsetningu sem líklegt er að skrifari hefði notað hefði hann skrifað orðið fullum fetum. Hér er ekki gerður greinarmunur á mismunandi gerðum sama stafs (t.d. löngu og stuttu s-i) vegna leturgerðavandræða í fannála-forritinu. Orð á latínu eru þýdd í orðréttu útgáfunni. Einnig er rétt að benda á að í orðinu samþyckt er í heimildinni skrifað samþycktar, en -ar er yfirstrikað, enda fellur það ekki að íslensku beygingarkerfi. Þetta blessaða fannála-forrit ræður ekki við yfirstrikun svo þessum stöfum er sleppt hér.)

„Effter þad s(iera) Einar var frafalinn ad sogn s(iera) Magnúsar þann 7 Martii, tiá forfoll ad byskupsens ej haffa gietad leitad vmm profastinn eda neirn J hanns stad ad setia vegna hardrad og sniosamrar vedrattu, kiosa þui sialffer s(iera) Asgeir Einarβon J profstsens stad ad vera J trausti yffervalldsens; þeβa sijna kollun ad frammkuæma huad hann og giort heffur sem hans samþyckt vnderskriffud J audmiuku trausti vid yffervalldid...“

„Eftir það séra Einar var fráfalinn að sögn séra Magnúsar þann 7. mars, tjá forföll að biskupsins ei hafa getað leitað um prófastinn eða neinn í hans stað að setja vegna harðrar og snjósamrar veðráttu, kjósa því sjálfir séra Ásgeir Einarsson í prófastsins stað að vera í trausti yfirvaldsins, þessa sína köllun að framkvæma hvað hann og gjört hefur sem hans samþykkt undirskrifuð í auðmjúku trausti við yfirvaldið...“

Hér er greinilegur munur, og í rauninni hef ég falsað heimildina með því að troða minni túlkun og þeirri stafsetningu sem tilheyrir upphafi 21. aldarinnar inn í hana. Það vantar bara að ég breyti orðalaginu og í rauninni þýði textann. Þar með hef ég litað þær ályktanir og túlkanir sem lesandinn kann að draga af heimildinni og missir hún að miklu leyti gildi sitt fyrir vikið. Auðvitað verður ekki hjá einhverri túlkun komist við heimildaútgáfu, s.s. við lestur máðra eða illa skrifaðra orða (oft þarf að ráða merkinguna út frá samhenginu) og við upplausn úr böndum, en mín skoðun er sú að þeirri túlkun ætti að halda í lágmarki. Það má jafnvel færa rök fyrir því að leysa ekki úr böndum heldur prenta þau eins og þau koma fyrir í heimildinni.

8 skilaboð:

  • Ég held nú að forritið þitt leyfi þér að gera gegnumstrikun án teljanlegra vandræða. «p»«strike»«/strike»«/p» til dæmis.

    En þetta er rétt með fölsunina og það er óviðunandi með öllu að ekki sé getið um uppleyst bönd og styttingar. Til dæmis mun víðast standa í Íslendingasögum: s. [nafn á manni] - og þá er ómögulegt fyrir þann sem ætlar að birta handritið með leyst bönd að vita hvort þar stendur "segir" eða "sagði". Eins hefur hann ekki hugmynd um hvort skrásetjarinn ætlaði sér að segja góðligur eða góðlegur því oftast mun þetta vera stytt góðl. eða með einhverjum öðrum hætti. Það er því svívirða og í raun ótrúlegt að nokkrum manni hafi látið sér detta önnur eins útgáfa í hug og t.a.m. útg. Finns og Guðna, að ógleymdum útgáfum Laxness o.fl.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:01 e.h.  

  • Jammi jammi.
    Takk.

    Amen.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:38 e.h.  

  • Þrátt fyrir samræmingartilburði Finns og Sigurðar er himinn og haf á milli þeirra útgáfa annarsvegar og útgáfna Guðna og Laxness hinsvegar, maður þarf ekki annað en að lesa innganga þeirra Finns og Sigurðar til að sjá það. Þó þeir séu að vissu leyti börn síns tíma er sú útgáfa enn sú skásta (af heildarsafni Íslendingasagnanna amk) ef mér skjöplast ekki þeim mun meira. Svo má aftur velta fyrir sér hvort rétt sé að setja allar sögurnar undir sama hatt, því þær urðu jú til á misjöfnum stöðum á misjöfnum tímum.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:48 e.h.  

  • Jamm jamm.

    Takk.

    Amen.

    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 11:33 e.h.  

  • Þú, Pavle, þjáist af sömu hugsanavillu og Heimir. Þ.e. að halda að öll útgáfa gamalla texta sé af sama meiði runnin. Það er rangt og enganvegin hægt að leggja að líku útgáfu á fornsögu sem geymst hefur í munnmælum frá 10. öld, er rituð á þeirri 13. en elsta handrit frá 15. öld annarsvegar og útgáfu á prestastefnubók skrifaðri niður samdægurs þeim atburðum sem hún lýsir eða því sem næst, en síðar færð inn í eina samantekt. Þetta eru svo gjörólíkar heimildir að það vekur furðu mína að þessi umræða skuli yfir höfuð fara fram!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:37 e.h.  

  • Ég er á allan hátt sammála Gunnari.

    Takk takk

    Jón Örn

    (ég veit þetta hljómar kaldhæðnislegt en ég hef bara ekki meira vit um þetta mál en að koma með svona stutta dóma)

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:43 e.h.  

  • Ég tel að það sjáist á fyrra svari mínu, en ég skal reyna að útskýra nánar. Heimildirnar eru gjörólíkar að innihaldi, ef við tökum sem dæmi prestastefnubók Brynjólfs biskups og Njálu, þá sér það hver maður?
    Og íslenskan er tungumál sem hefur verið í þróun í +1000 ár og það er ekki sama málstig á t.d. miðri 13. öldinni og miðri 17. Heimir væri samt hæfari en ég til að ansa seinni spurningunni.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 5:50 e.h.  

  • Ég er ekki þungt haldinn af þessari meintu h u g s u n a r v i l l u, en mig langar að vekja athygli þína, Gunnar Mr. Stud. Gesch., á, að í mínum huga, og áreiðanlega annarra, er í raun enginn munur á því, hverslags efni við erum með í höndunum. Stefnan er dagsljós. Textinn skal gefinn út á sem allra nákvæmasta hátt. Ef ritarinn skrifar langt 'í' þá skal langt 'í' skrifað. Annað er della. Hljóðfræði verður ekkert frekar greind frá textanum en t.a.m. - svo notað sé óumdeilt atriði til samanburðar - orðaforðinn. Það dytti (vonandi) engum í hug að skipta orðinu "eigi" út fyrir "ekki" og breyta sömuleiðis "ekki" í "ekkert" (ef um er að ræða svo gamlar heimildir að þetta hafi tekið breytingum). Slíks má reyndar geta einhvers staðar ef þörf er á því, en að hnika til orðalagi dettur engum heilvita manni í hug.
    Í þessum skilningi er enginn munur á skinnhandriti frá 12. öld og pappírshandriti frá 17. öld. Við viljum gefa út það sem stendur í handritinu. Það kemur til álita - og þetta verður sennilega eilíft vandamál á meðan handrit verða enn prentuð - hvort skrifa eigin böndin athugasemdalaust eða gera tilraun til að túlka þau. Allar slíkar breytingar verður skilyrðislaust að sýna skilmerkilega, eða hverjum dytti í hug að breyta skammstöfuninni "þ.e." í "það er" alls staðar sem hún kemur fyrir án þess að sýna að þar er um túlkun að ræða? Ég gæti allt eins verið að stytta "þar eð" eða jafnvel kynni ég að hafa ætlað að segja "þeim einnig", eða eitthvað allt annað. Þetta veit enginn.

    Það sem ég vildi sagt hafa er s.s. [sumsé? semsé? semsagt? sem sagt? sum sé? sem sé? sesst...] þetta: Hér er deilt um aðferðarfræði. Í hugvísindum, eins og öðrum vísindum, er beitt vísindalegum og gagnrýnum aðferðum, og ef stefnan er að gefa út handrit, þá á að gefa þau út eins og þau eru, en ekki eins og einhver ofmenntaður-Jón-út-í-bæ (með fullri virðingu fyrir öllum slíkum) túlkar það.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 1:22 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða