Lesnir;

9.1.05

Saknaðarkveðskapur í janúar

Í tilefni af því að nú er ég ekki lengur í skólanum, og hef því ekki rjóma hins fegurra kyns fyrir augunum heilu og hálfu dagana, þá blés vetrarmyrkrið mér þessum þunglyndishugleiðingum í brjóst.

Löngum hef ég lónað um
lífsins skólaganga.
Fangaði mig úr fjarskanum
fegurð auðarspanga.

Ægi-fagrar, alltaf hef,
öndurdísir tignað,
aldrei þó ég ástarbréf
undir hafi signað.

Að nálgast kvenfólk er mér kvöl
kárnar allt þá gaman;
svitnar hörund, hönd er þvöl,
hné mín bogna saman.

Ólmast hjarta, æðar slá,
augasteinar stækka,
- vanadís er vekur þrá -
vits míns gengi lækka.

Enda hef ég aldrei reynt
allt sem get ég sjálfur.
Kvenmannslaus, það fer ei leynt,
labba ég ætíð hálfur.

5 skilaboð:

  • Stórskemmtilegt alveg! Vér menn inir hálfu getum tekið undir með innihaldi og form er alls ekki síðra. Ég ætla hins vegar ekki að kasta hugsunarlaust fram ofnotuðum gildishlöðnum orðum að hætti gagnrýnenda:
    - magnþrungið!
    - margslungið!
    - tær samhljómur forms og innihalds!
    - það besta sem ég hef lesið!
    - það besta sem skrifað hefur verið á íslenskri tungu!
    - ljóð aldarinnar!

    Meira svona takk.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 3:34 e.h.  

  • Það er nú sorglegt þegar vellesnir ráðast á bloggið mitt og stela hugmyndum þaðan... (já ekki ljóðið sjálft en konseptið).

    Já það er fínt að stela hugmyndum EN AÐ KOMMENTA EKKI? Skilja enginn ummerki er bara dónaskapur!

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 6:42 e.h.  

  • Mér finnst þetta hljóma afar ólíkt Jóni - sér í lagi þetta [G]uð sem inn er skotið. Máske það sé með ráðum gert.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:24 e.h.  

  • Sýnir vel hvað þú veist í raun lítið Heimir, málrýnir. Þetta er mér eðlilegt mál og þú ættir kannski öðru hverju að fara úr bókunum og tala við mig sem raunverulega persónu.

    OK?

    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 11:47 e.h.  

  • Gott er ef satt er.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:34 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða