Lesnir;

11.1.05

Hag-þeinkir

Ég komst stóráfallalaust í gegnum grunnskóla og gekk meira að segja alveg þokkalega. Námsins naut ég hins vegar ekki og það afvegaleiddi mig. Hvers vegna var það? hlýt ég að spyrja mig.

Það var mér nokkur opinberun að lesa Hag-þeinki eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1737). Þetta rit ætti að vera skyldulesning sérhverjum upprennandi kennara og raunar landsmönnum öllum. Þótt ekki sé Hag-þeinkir gallalaus og beri mjög ljós merki þess að vera ekki skrifaður á okkar tímum þá er fjölmargt í honum sem á mikið erindi inn í menntakerfið og ekki síst í grunn- og framhaldsskólana.

Strax í grunnskóla varð ég vitni að því hvernig sumir samnemendur mínir voru afgreiddir sem vitlausir kjánar sem ekkert gætu lært. Þetta var ekki þeim að kenna. Þvert á móti. Menntakerfið brást þessum vinum mínum með því að höfða ekki nógsamlega til þess sem þeir höfðu áhuga á. Það finna sig ekki allir í raunvísindum, hugvísindum eða iðngreinum. Allra síst á öllum þessum sviðum í senn. Jón Grunnvíkingur orðar þetta svo:


(Jón Ólafsson úr Grunnavík. Hag-þeinkir: 20)

Okkur Jóni finnst miklu máli skipta að allir nemendur læri fyrstu árin helstu grunnatriði náms. Að á tíunda eða ellefta hið allra síðasta hafi neminn:


(Sama rit: 20)

Það er hér sem núverandi menntakerfi bregst og vinnur markvisst að því að móta alla nemendur í sama mót, óháð því hverjir hæfileikar þeirra eru og áhugasvið. Strax í fyrstu bekkjum grunnskóla fékk ég t.a.m. athugasemdir á einkunnaspjaldið mitt: fær í íslensku og ritun en árangur þarf að bæta í stærðfræðinni. Það lá með öðrum orðum ljóst fyrir strax í 1., 2., 3. og 4. bekk að ég hneigðist til hugvísinda fremur en raunvísinda. Enda brást námið mér.

Áhugaverða menntun í íslensku fékk ég ekki fyrr en ég var á mínu síðasta ári í framhaldsskóla, þá 19 ára gamall, en slíka kennslu fékk ég aðeins vegna þess að undanfarin 3 ár hafði ég kropið fyrir áfangastjóra og aðstoðarskólameistara. Í staðinn hafði ég fengið heiladauða og þvælna kennslu í þeim þáttum málfræði sem ég hafði síst þörf fyrir, t.a.m. stafsetningu. Áhugi minn á íslensku var myrtur í fæðingu og hann endurheimti ég ekki fyrr en ég las Ofvitann 17 ára.

Það þarf að bjóða nemendum upp á val strax í 5. bekk. Þeir sem hneigjast til handverka skulu fá að reyna sig í slíku; þeir sem vilja raunvísindi skulu fá það og hugvísindamenn skulu fá tækifæri til að læra þar undirstöðuatriði. Þó verður allt nám að skarast meira og minna. Hér er ekki um það að ræða að þeir sem ekki hafi áhuga á yfirlegu bóka komist hjá því að lesa bækur, eða að raunvísindamenn komist hjá því að læra matreiðslu eða að prjóna. Heldur það að frá og með 5. bekk séu áfram kennd grunnfög en allt þar umfram gefið frjálst.

Þarna greinir okkur Jón ofurlítið á því hann segir um nemann:


(Sama rit: 20)

Iðnnám og annað verklegt nám er alltaf að einhverjum hluta bóklegt. Það hlýtur því að skarast við annað nám sem kallað er bóknám upp að því marki. Jón virðist líka gera ráð fyrir því að þá sem hneigjast til handverksins eigi hér, við 10-11 ára aldurinn, að skilja frá hinum og mennta í handverkinu eingöngu. Þetta finnst mér vera óþarfi. Hins vegar væri heppilegast að þeir sem deili sama áhugasviði séu á sömu námsleið og ekki sé því verið að íþyngja þeim sem hafa brennandi áhuga á sagnfræði með óhagnýtu málfræðiþvaðri, og öfugt.

Það menntakerfi sem við búum við hentar engum. Það gefur grunna þekkingu á öllum námsgreinum, íþyngir áhugasömum nemendum með stagli en pínir aðra með einhverju sem nýtist þeim lítið eða ekkert. Þetta er kerfi sem gerir bóknámi hátt undir höfði en birtir iðnnám sem annars flokks nám með því að reyna ávallt fyrst að beina þeim sem hneigjast til handverks inn í bóknám. Þegar þessir iðnnemar hafa loksins fengið nám við sitt hæfi í iðnskólum er búið að brjóta þá niður, níðast á þeim og gefa þeim mörgum hverjum neikvæða lífssýn á sjálfa sig og nám.

Ef nám á að skila árangri þá þarf það að vera áhugavert. Það má vel vera bland í poka en það er ómögulegt ef námið á að bera einhvern árangur að selja allt nám niðursoðið í nákvæmlega sömu dósir. Það vantar enn fjölbreytnina.


Heimild
Jón Ólafsson úr Grunnavík. 1996. Hag-þeinkir, skrifat at fyrstu 1737. JS 83 fol. Þórunn Sigurðardóttir sá um útgáfuna og ritaði inngang. Góðvinir Grunnavíkur-Jóns og Hagþenkir, félag höfunda og kennslugagna. Árnastofnun, Reykjavík.

1 skilaboð:

  • Þetta er þörf umræða og á vel heima með fyrri umræðum um námsmat og kennslutækni. Ég held samt að einstaka róttæklingar innan kennslugeirans séu farnir að átta sig á hvílík vitleysa sumra þessara aðferða og kennsluskráa eru.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 6:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða