Lesnir;

27.3.08

Sendibréf til nágranna minna

Þessi grein birtist í Sunnlenzka Frjettablaðinu nú í dag. Hana birti ég hér þeim er það ekki sjá til ánægju.

Kæru grannar!
Ég skrifa ykkur frá Kaupmannahöfn. Oft er sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá og ég hlýt að taka undir það. Ekki þarf annað en að lesa Hafnarljóð Jónasar til að átta sig á áhrifum fjarlægðarinnar á heim(s)sýnina.
Kaupmannahöfn hefur mátt þola eitt og annað. Má þar nefna eldibrandinn 1728, annan 1795 og bombarderingu engelskra 1807. Hafa stórviðburðir þessir vitaskuld mótað ásýnd borgarinnar og byggingarstíla. Þrátt fyrir þetta hafa Hafnarbúar haldið mörgu til haga en jafnframt bætt við eftir tíðaranda og þörfum. Samsuða nýs og gamals kristallast hvað best í byggingu Konunglega bókasafnsins og viðbyggingunni Svarta demantinum.
Ekki er okkar bæ Selfossi mikill greiði gerður með samanburði við Höfn. Kaupmannahafnar er fyrst getið árið 1043 í Knytlinga sögu, þar sem segir frá bænum Höfn á Sjólandi. 1167 heyrum við næst frá Höfn, en þá segir að biskupinn Afsalón hafi byggt borg á hólma einum við Höfn. Hólminn fékk nafnið Hallarhólmi, Slotsholmen, vegna borgarinnar. Núverandi borg á Hólmanum er Kristjánsborgarhöll (sú þriðja með því nafni, fimmta frá upphafi; þar hefur alloft brunnið). Saxi hinn danski, nemandi Afsalóns, nefnir kaupmenn fyrst í sambandi við Höfn, hann kallar bæinn mercatorum Portus, kaupmannanna Höfn, í Danmerkursögu sinni.
Byggð á Selfossi er líklega ekki fjarri Kaupmannahöfn í aldri. Landnáma segir Selfoss landnámsjörð, þar nam Þórir Ásason land, allan Kallnesingahrepp og hafði bú sitt að Selforsi, eins og þar segir. Hreppurinn hefur því fyrst fengið nafn af Kallaðarnesi (núverandi Kaldaðarnes) en verið kenndur við Sandvík síðar. Full ástæða er reyndar til að efast um heillindi Landnámu (líkt og annarrar námu í nágrenni Selfoss) en víst má telja að frá fyrstu tíð hafi verið búið að Selfossi.
En það var ekki fyrr en brú var byggð (vígð árið 1891) sem forsenda var fyrir þéttbýli við Selfoss. Í kjölfarið fylgdu Flóaáveitan, Kaupfélagið og Mjólkurbúið.
Þrátt fyrir þá Guðs mildi að hörmungar á borð við stórbruna hafi hlíft Selfossi, hafa mennirnir verið iðnir við að eyða menjum um upphaf og þróun byggðar þar. Nægir að nefna niðrrif gamla Mjólkurbúshússins um 1970 því til sönnunar.
Annað sögulegt hús á Selfossi er Pakkhúsið. Eldur hefur gert tilraun til að granda húsinu, en því var afstýrt með dugnaði og dáð góðra manna. Nú hýsir nýuppgert húsið Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Það er sem fjallið okkar hafi, í andaslitrunum, gert tilraun til að minna á af hverju Selfoss er góður staður fyrir slíka miðstöð þegar það reyndi af veikum mætti að hrista af sér tilræðismenn sína fyrir nokkru.
En allt um það. Nú steðjar önnur vá, og sýnu verri en nokkur eldibrandur, að Pakkhúsinu; verktakar með skipulagsyfirvöld tamin í taumi.
Jónas orti: „Forðum átti ég falleg gull / nú er ég búinn að brjóta og týna.“ Auðvelt er að vera vitur eftir á, og orðnar gjörðir er auðveldara að syrgja en að taka aftur. Að Hólum í Hjaltadal stóð eitt sinn Auðunarstofa, Reykjavík státaði um tíma af elsta kvikmyndahúsi Evrópu, Lögréttuhúsið á Þingvelli fauk þaðan um leið og Alþing sjálft.
En Selfoss á enn sitt Pakkhús, sína atvinnusögu holdgerða. „Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus [þ.e. vitleysum] á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverjir tveggju nokkuð að iðja“ Þessi orð á Árni Magnússon prófessor. Hann þurfti á sinni tíð að glíma við afleiðingar mikillar eyðileggingar, en sá var munurinn á að sú eyðilegging var ekki fyrirséð. Kæru nágrannar, útryðjum vitleysunni áður en það er um seinan.

24.3.08

1. þáttur um stafsetningu:
Stúrin er tunga | illa stöfuð

Ekki er með öllu vandalaust að setja sér, og hvað þá heilli þjóð, stafsetningarreglur sem við má una. Sjónarmiðin eru mörg og ekki blasir við hvort eða upp að hvaða marki skrifa eigi eftir framburði; sumir segðu — og hafa vitanlega sagt — að framburður væri einkaregla stafsetningarinnar. Það er sjónarmið, en stafsetning byggð á framburði yrði til nokkurra vandræða, enda fer því fjarri að nokkur sátt ríki um það hvernig orð eru borin fram. Skrifar þá einn skipstjóri og annar skifstjóri, enn einn skifstjori og enn annar til skisstjóri? Það væri allt í lagi mín vegna, en þá er rangt að tala um stafsetningarreglur í því samhengi; þá er stafsetningin einfaldlega „gefin frjáls“!

Sennilega hafa fornmenn skrifað, ef ekki að öllu leyti, þá að mestu, eftir framburði. „Fyrsti málfræðingurinn“, sem reyndi að setja Íslendingum reglur á 12. öld um það hvernig þeir ættu að skrifa (e.t.v. til þess að komast hjá tvíræðni, t.d. í lagatextum), vildi að bókstafirnir sem notaðir væru til þess að skrá íslensku á bókfell væru réttræðir, það er, að p stæði fyrir p, o fyrir o, æ fyrir æ, o.s.frv., en ekki að o gæti táknað hvort heldur sem er t.d. o, ó, ö eða ø, eins og þá hefur verið venjan.1 Með öðrum orðum framburðarskrift.

Nú horfir málið öðruvísi við. Frá því á 19. öld hefur verið einhver (e.t.v. skrítin) krafa um að stafsetning sé samræmd. Í þessu felst þá að orðið skipstjóri er skrifað nákvæmlega á þann hátt óháð því hver skrifar, óháð tal- (eða skrif)hraða, óháð tíma, óháð stund. Tilraunir til eins konar framburðarskriftar hafa menn í seinni tíð reynt og afraksturinn verið á ýmsa lund.2 En er ekki ótrúleg hugsunarvilla fólgin því að ætla að setja sér samræmda stafsetningu sem byggir á framburði? Kallar það ekki óhjákvæmilega um leið á einhvern samræmdan framburð?

Í þessum fyrsta þætti um stafsetningu er ætlunin að líta á eitt tiltekið atriði þeirra ritreglna sem nú ber að nota.

Mislukkað afnám zetunnar
Stafsetningin sem kennd hefur verið í skólum frá 1974, og er nú enn í gildi með breytingum frá 1977,4 er upp að vissu marki ágæt og reglurnar um margt skynsamar. Skynsemin er þó reyndar aðallega í því fólgin að enn búum við við kjarnann úr reglunum frá 1939, þar sem m.a. var kveðið á um að skrifuð skyldi z þar sem tannhljóð (t, d, eða ð) fellur brott í framburði.

Núgildandi stafsetningarreglur eru enn talsvert íhaldssamar og fylgja yfirleitt svokallaðri upprunareglu fremur en framburði, þó að zetureglurnar hafi verið afnumdar. Því er skrifað sleppti þó að fram sé borið slefti sbr. nafnháttinn sleppa, og eins skipti af skipta, kippti af kippa. Ekki veit ég til þess að þetta vefjist mjög mikið fyrir mönnum sem á annað borð eru læsir og sæmilega skrifandi. Þetta atriði virðist semsé auðlært, skýrt og um það held ég að ríki almenn sátt.

En, hvern þann sem ekki hugnast að skrifa slefti og skifta hlýtur að reka í rogastans þegar reglurnar frá 1974 kveða á um að lýsingarháttur þátíðar af sögninni hittast sé: (þau hafa) hi...st og að breytast sé að sama skapi: (þetta hefur) brey...st; eða hvað varð eiginlega um tannhljóðin í rótinni! Þetta veldur vitanlega oft samfalli og óskírleik. Til dæmis rennur sögnin kætast saman við kæsa: (þú getur) kæst (yfir þessu) / kæst (skötuna). Eins látast og læsa (læst), rætast og ræsa, gætast og gæsa, o.s.frv.

Eðlilegasta reglan væri að fylgja hér þeim hljóðum sem greinilega má sjá í beygingu sagnarinnar, rétt eins og í beygingu fallorða í eftirfarandi reglu (úr 2. kafla núgildandi reglna; fengið héðan, leturbreytingar mínar):

3. gr.

Til leiðbeiningar skal bent á eftirfarandi atriði:

a. Í stofnum fallorða skal tannhljóð haldast á undan s, ef það kemur fram í einhverju falli orðsins. Skiptir þá eigi máli, hvort tannhljóðið er borið fram eður ei, t.d. lofts (af loft), lats (af latur), lands (af land), skorts (af skortur) o.s.frv.

Þetta er svolítið skrítið ef c-liður sömu greinar er skoðaður (leturbreytingar mínar):

c. Ef stofn lýsingarháttar þátíðar sagnar eða lýsingarorðs endar á -tt samkvæmt uppruna, skal þeim stöfum sleppt, ef endingin -st fer á eftir, t.d. (hefur) sest (af setja(st)), (hefur) flust (af flytja(st)), (hefur) breyst (af breyta(st)), (hefur) hist (af hitta(st)); stystur (af stuttur) o.s.frv.

Hvers vegna skal upprunareglu fylgt í fallorðum en annarri reglu í lýsingarhætti þátíðar sagna?

Enn ruglingslegra er það svo þegar sagt er í 25. grein, 3. lið 8. kafla (leturbreytingar mínar):

3. Uppruni ræður, hvort rita skal ps, pt (ppt) eða fs og ft.
Dæmi: þreps (af þrep); hófs (af hóf); tæpt (af tæpur); gróft (af grófur); gapti (af gapa); kleipst (af klípa); gifta (sbr. gefa); skaft, Skafti (skylt skafa), loft (skylt lauf); skipta, skipti, skipting (af skipa); svipta, sviptingar (af svipur); yppta (skylt upp).

Hér er innra ósamræmi. Ef skrifa á t.d. slappst af sleppa, hví þá ekki eins (þú) dattst af detta, (hefur) breytst af breyta. Af hverju da...st og brey...st? Ef p á í hlut skal uppruni ráða, en ef t, d eða ð á í hlut, ræður framburður, nema um sé að ræða fallorð, þá skal samt farið eftir uppruna! Þetta er fásinna.

Því gerðu nefndarmenn sér reyndar fulla grein fyrir. Hinn 30. október 1976 efndi menntamálaráðherra, eftir ábendingu menntamálanefndar, til ráðstefnu um reglurnar frá 1974 „þar sem reynt verði að ná sem víðtækustu samkomulagi um meginstefnu varðandi stafsetningarreglur og ákvarðanatöku um breytingar á þeim.“5 Hugmyndir þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálms Hjálmarssonar, eru m.a. á þá leið að breyta ætti c-lið 3. greinar, sem vitnað var til hér á undan, á þá leið „að rita s þar sem áður var rituð z, en ekki í stað tz“.6 Þá verða orðmyndir á borð við hist (fyrir breytinguna 1974: hitzt) skrifaðar með t ef tvö t eru í stofni: hitst. Þessi breyting hefur það þá einnig í för með sér að orðmyndir með einu t í stofni verða óbreyttar: (þú) sest (áður: sezt, af sitja).

Þessi breyting er afar órökrétt og fer eiginlega einnig í bága við upprunaregluna í sinni einföldustu mynd. Einfaldast og skýrast hefði verið að fella c-liðinn einfaldlega út (og raunar allan 2. kafla, um afnám zetunnar) og bæta við upptalninguna í 25. grein, 3. lið 8. kafla hér að ofan: t, tt, d, ð. Sú breyting hefði það í för með sér að í stað (hefur) hist er skrifað hittst (af hitta, þar eru tvö t í rót), en hins vegar breytst (af breyta, þar sem eitt t er í rót). Þetta er bæði rökrétt og skýrt, að ekki sé talað um einfalt. Um leið losnum við einnig við þennan hugsanlega misskilning sem þegar var minnst á, þ.e. t.d. flest (fleira-flest) andspænis fletst (af fletjast); léttst (af léttast) andspænis létst (af látast), o.s.frv. Hér eru reglurnar mun einfaldari en zetureglurnar, því að einungis er miðað við fjölda tannhljóða í grunnmynd sagnarinnar.

Af þessari breytingu, ef af yrði, hlýtst (hlý...st) þó einn vandi sem taka þarf afstöðu til. Ef fylgja á þeim tannhljóðum sem birtast í beygingu orðanna, ætti þá ekki, samkvæmt þessum breytingum, að skrifa betstur (sbr. góður — betri) og íslendska (sbr. Ísland)? Og hvað með uns? Uns var skrifað með zetu, unz, fyrir breytinguna 1974 og sagt komið úr < unds. Þessar reglur mundu reyndar kveða á um að ekki ætti að skrifa unds vegna þess að d kemur þar hvergi fyrir í beygingu. Sjálfum finnst mér prýðilegt að skrifa betstur og íslendska, en það er ljóst að sú breyting er ekki jafn rökrétt eða auðveld í kennslu, því að þar þurfa tengsl og uppruni orða að vera nemendum skýr, á sama hátt og þegar skrifuð var z. Þannig þyrftu börn að vita að nískur er dregið af níð: ðskur; veisla af sögninni veita o.s.frv. Þá væri allt eins gott að taka aftur upp z.

-st á -st(-) ofan
Þá er aðeins eftir miðmyndarendingin -st þar sem lýsingarháttur þátíðar endar á -st eða -sst. Sú breyting varð 1974 að ekki átti að skrifa -st á eftir -st, semsé, ekki Þau hafa kysstst (þ.e.: kysst hvort annað), heldur Þau hafa kysst. Í reglunum er það þetta ákvæði, d)-liður, 3. grein 2. kafla:

d. Ef lýsingarháttur þátíðar í germynd endar á -st eða -sst, skal miðmyndarendingu sleppt, t.d. (hefur) leyst (af leysast), (hefur) lýst (af lýsast), (hafa) kysst (af kyssast) o.s.frv.

Báðar tillögur á endurbótum reglnanna frá 1976 eru á þá leið að miðmyndarendingin sé skrifuð þó að stofn hafi -sst eða -st,8 þ.e. eins í zetureglunum frá 1939. Óeðlilegt er annað en að skrifa miðmyndarendinguna, enda merkir kysst ekki það sama og kysstst, og á þessu er oft framburðarmunur, svo sem sagt væri kyss.st með óvenjulega löngu s-i, jafnvel ofurlítilli hvíld, eða hreinlega er borið fram kysstst.

Báðar þessar breytingar, sem hér eru lagðar til, miðuðu að því að gera stafsetninguna reglulegri og þar með einfaldari í kennslu. Stafsetningin verður einnig skýrari, rökréttari og í meira samræmi við önnur atriði í reglunum sem fylgja uppruna fremur en framburði. Nú má hins vegar velta fyrir sér hvort ekki ætti að ganga enn lengra í því að skrifa samkvæmt uppruna, en vangaveltur um slíkt munu bíða betri tíma.


Samantekt
Í stuttu máli sagt:

- hitta, sletta, þétta ...
nú: (hef) hist, slest, þést.
tillaga: (hef) hittst, slettst, þéttst.

- breyta, skipta ...
nú: (hef) breyst, skipst.
tillaga: (hef) breytst, skiptst.

- kyssast, festast ...
nú: (hef) kysst, fest. (ég hef fest bílinn, bíllinn hefur fest)
tillaga: (hef) kysstst, festst. (ég hef fest bílinn, bíllinn hefur festst)


Tilvísanir
1 Sjá t.d.: The First Grammatical Treatise. Hreinn Benediktsson (ritstj.). University of Iceland, Publications in Linguistics 1. Institute of Nordic Linguistics. Reykjavík, 1972. Bls. 206-208. 
2 Sjá um þetta gott yfirlit Jóns Aðalsteins Jónssonar: „Ágrip af sögu íslenzkrar stafsetningar“, Lingua Islandica, Íslenzk tunga I:71-119. Reykjavík, 1959.
3 Sbr. all-úreltar hugmyndir um samræmingu á framburði: Breytingar á framburði og stafsetningu, Björn Guðfinsson. Reykjavík, 1947.
4 Það þriggja ára skeið sem börnum var kennt að skrifa íslendingur og reykvíkingur varð til þess að úr grasi óx kynslóð sem aldrei er viss hvar setja á stóran og lítinn staf, minnug þess að reglunum var breytt, í tvígang.
5 Sjá: Ráðstefna um íslenska stafsetningu, 30. október 1976, Menntamálaráðuneytið. Bls. 1.
6 Sama rit. Fylgiskjal 1, bls. 120.
7 Hér er því ekki heldur um það að ræða að skrifað sé (hefur) *fundiðst (sbr. áður fundizt), (hefur) *reyntst (áður reynzt). Einungis skuli skrifa rótarhljóð sagnmyndanna, því: (hefur) fundist (af finnast), (hefur) reynst (af reynast).
8 Sama rit. Fylgiskjal 1 og 2, bls. 120 og 123.

23.3.08

Stutt páskahugvekja
um hið æðsta og fremsta boðorð.

Kæru lesendur, gleðilega páska.

Í tilefni dagsins langaði mig að reyna að miðla ykkur, eða koma áleiðis, nokkurs konar hugarljómun sem mér hlotnaðist eitt napurt vetrarkvöld á miðri góu. Þessi, ég kalla það, hugvekja tengist tveimur sviðum lífsins þar sem ég tel mig hinn mesta fúskara: guðfræði og ástarmál. (Það skemmtilega við fúskarann er að hann þarf ekki að skammast sín, í krafti menntunar sinnar á því sviði, fyrir fáfræðina sem opinberast í orðum hans.)

Það væri helber lygi ef ég segði að það væri alltaf auðvelt að trúa, og svei mér þá ef það á þá nokkuð að vera auðvelt. Margt er í kenningunni tormelt og enn fleiru er erfitt að fylgja, svo að sæmi, en sérstaklega hafa eftirfarandi orð Krists þó löngum reynst mér ofraun (Matt 22:34-38, og víðar): 

[34] Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. [35] Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: [36] „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?" [37] Hann svaraði honum: „ ,Elska skalt þú Drottinn, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.' [38] Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“

Að elska Guð af öllu hjarta? Já já, er það ekki bara auðvelt? Það hljómar hreint ekki svo flókið. En hvað er það að elska af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga? Sá sem ástfanginn er, er áreiðanlega líklegur til þess að lýsa hugarástandi sínu einmitt á þann hátt: ég elska unnustu mína af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga. En hvað þá með Guð? Auðveldast svara væri einfaldlega að ást á Guði sé e.t.v. allt annars konar ást en ást á konu eða manni. — Hvernig þá? Andleg? — Er önnur ást þá líkamleg? Er guðsást öllum ástum æðri? Hvað merkir það? Mér fannst ég ekki finna neitt viðunandi svar við vangaveltum mínum um þetta hið æðsta og fremsta boðorð, sem Jesús nefnir svo, hvorki meira né minna.

(Annað vers sem ég held upp á hefur verið mér til svolítillar huggunar, enda þarf maður ekki að skilja og skýra allt (Mark 9:24): „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni." Mér hefur alltaf fundist það hughreystandi.)

Einhvern daginn datt mér í hug að finna mér eitthvert annað lesefni fyrir svefninn en eintómar fagurbókmenntir. Ég tók eiginlega bara eitthvað af handahófi úr bókaskápnum hjá mér, og fyrir valinu varð bókin „Þrjár þýðingar lærðar, frá miðöldum" þar sem eru þrjú gömul trúarleg rit, þar á meðal íslensk þýðing frá um 1200 á Eintal um festarfé sálarinnar sem á frummálinu mun heita 'Soliloquium de arrha animae' (sjá hér og hér), eftir Hugo nokkurn frá klaustri heilags Viktors við París. Ég fór sem sagt að lesa þetta, en las nú eiginlega meira vegna þess að mér, íslenskufræðingnum, fannst skemmtilegt að sjá fornlegt tungumálið. Svo, allt í einu, fannst mér ég hreinlega lesa svar við þessari spurningu sem ég hef verið að velta fyrir mér. Eftirfarandi brot er úr 7. kafla verksins:  

Lít yfir allan heiminn og sé að allt það er í heiminum er þjónar þér. [...] Eigi leynast nú gjafarnar þó að sá sé ósýnilegur er veitir. Mikils er sá verður er svo stórum gefur og veitir. Með ástum er þeim unnanda er svo mikið mátti gefa og svo stórum vildi miðla og er allt í móti leggjandi því að með ástum var gefið. Gjöfin sýnir hver gefur og með hverri ást er hann gefur, og er það ærsla að draga undan að elska þann er svo mikið ann og svo stórum gefur. [...] Sála, tak heilt ráð, ef þú annt veraldar hlutum, unn sem þínum, því að það [er] þér áður játað til þjónustu, og unn þó eigi framar en til nauðsynja og skyldra hluta. Elska það sem gefið er, elska sem festarfé unnasta þíns, sem gjafir vinar þíns, sem velgerninga drottins þíns. Mun æ hvað þú átt þeim er veitir og unn eigi gjöfum í stað hins er gaf. Honum skaltu unna en eigi þessu með honum. Unn þessu fyrir hans sakir og af þessu unn honum yfir alla hluti. Skipa svo að þú megir festarmær heita og vera, en eigi pýtlingur, sem þá ertu ef þú virðir meira gjafirnar en ást gefanda. [...] Unn honum og þér, unn og gjöfum hans, elska hann að þú megir nálgast hann, unn því sjálfri þér að hann ann þér, unn því gjöfum hans að hann gaf.

Mín kristna heimsmynd segir mér vitaskuld að Guð sé á bak við allt, hann búi í öllu og allt sé á valdi hans. Guð gaf. Eins og Hugo kemst að orði hefur sá ástfangni, sem finnst hann ekki geta séð sól fyrir sætri mey, gerst sekur um að unna gjöfunum í stað þess sem gaf þær. Í mannheimum er þetta vitanlega mikill löstur, og til marks um eigingirni og græðgi. Og ekki sparar hann Hugo þeim slíkum orðin: hóra geturðu verið, maður! — að virða gjafirnar í stað þess að unna þeim sem gaf; en það sem gefið er, vegna þess sem það gaf.

Og svei mér þá; ekki nóg með að ást á Guði hafi nú orðið honum eitthvað eilítið skiljanlegri, heldur ætli títtnefndum unnustanum finnist hann nú ekki bara elska festarmey sína örlítið meir en fyrr, fyrir vikið?

18.3.08

Mun núið formyrkvast?

Lítt gætir nú ljóss upplýsingarinnar, heldur böðumst við í flóðlýsingu af ljósaseríu upplýsinganna, í upphafinni fleirtölu. Upplýstur ljósleiðari er ljósberi okkar, og flytur okkur fregnir á hraða ljóssins hvaðanæva að úr veröldinni — ljós heimsins hefur aldrei skinið skærar en nú. Í gagnavarpi (e. internet) geymast allar upplýsingar og heimildir í heimi, að eilífu amen. NB, þar finnast engin skjöl, sem treystandi er, því að allir geta jú átt við það sem þar finnst, í samræmi við hagsmunavinda þá, er þeim stýra. Þar undirritar enginn neitt, ekkert er vottað, stimplað og samþykkt í þríriti. Þar liggur munurinn á upplýsingum og skjölum. (Af þeim sökum er kapphlaup stjórnvalda við að ná sem hæst á lista yfir þær þjóðir sem „skara fram úr“ í rafrænni stjórnsýslu hálf hjákátlegt.)
Þeim, sem blindaðir eru af ofbirtu upplýsingaflæðisins, er auðfyrirgefið að framsýn þeirra sé skert. Þeim til upplýsingar skal nú ljósi varpað á það, sem leynist handan upplýsinganna.
Hið stafræna upplýsingaflæði, sem svífa virðist um í limbói í gagnavarpinu, á sér allt fýsíska heimasveit. Sú sveit getur verið í formi 2,5 tommu harðs disks, 3,5 tommu harðs disks, flash-minnis, eða hvað sem geymslumiðillinn sem mest er í móð þá og þá stundina heitir. Líkja má honum við pappírsörk, og stafrænu ásunum og núllunum við orð á blaði. Helsti munurinn er vitaskuld sá, að augað eitt, auk læsis, dugir til lestrar blaðsins. En sérhæfðan tæknibúnað (e. hardware) og hugbúnað (e. software) þarf til lestrar harða disksins.
Rekist maður á afar aldraða blaðsíðu, dugir ofurlítil þjálfun í fornskriftarfræði (e. paleography) til lestrar hennar. Rekist maður hins vegar á gataspjald, fimm og kvart tommu diskling, floppy-diskling eða þvíumlíkt (líkja má þessu við blöð af stærðinni fólíó, kvartó, oktavó, A0, A1, A2 o.s.frv.), vandast málið. Ekki nóg með að flestum gæti reynst um megn að finna tækjabúnað sem býr yfir svo hallærislegri lestrarkunnáttu, heldur þarf tæknibúnaðurinn líka að virka. Flestir kannast við rispaðan geisladisk, harðan disk með ónýtri legu, flakkara sem dottið hefur í gólfið, fartölvu sem kaffi hefur hellst yfir o.s.frv. Þessi vandi er jafn raunverulegur í heimilistölvunni og hjá opinberu stjórnvaldi. Sjáið fyrir ykkur: „Æ, nei! Ég missti Reykholtsmáldaga í gólfið, nú er ekki hægt að lesa hann meir.“ Gallinn við þessa samlíkingu er sá, að mannsaugað getur lesið orð af blaði sem ritað var fyrir mörg hundruð árum, en venjuleg heimilstölva (sem nú til dags er margfalt snjallari en tölvur þær, er komu manninum til tunglsins) getur vart birt okkur á skjá sínum skjöl sem eldri eru en 10-15 ára (nema þau hafi verið þýdd sérstaklega á yngra skráarsnið).
Um það þarf ekki að deila, að stafræn gögn útheimta ómælt erfiði, nákvæmni og tæknikunnáttu til varðveislu. En þar að auki vomir yfir skjalastjóra eða –verði, sem berst við að varðveita stafrænu gögnin, vættaveldi öðrum almáttugra: duttlungafullur framleiðandi, heildsali, smásali, sölumaður, tæknimaður, viðgerðamaður; heil hersing af hagsmunaaðilum, sem hefur einungis eitt markmið að leiðarljósi; hámörkun arðs. Því komi fram ný tækni, sem krefst þess að allir endurnýi sín tæki og tól, hikar dalbúi Sílikóns ekki. Önnur dæmisaga: „Æ, nei! Við höfum ekki uppfært Reykholtsmáldaga síðan hann var settur á gataspjöld hér um árið, nú er ekki hægt að lesa hann meir.“
Hugsanavilla sem orsakast af fyrrnefndri ofbirtu upplýsinganna, er sú, að ekkert mál sé að skipta út þegar næsta skráarsnið (e. format) dæmist klossað, úr móð og fornt, hvort sem það heitir *.jpg, *.gif, eða *.tiff, nú eða *.doc, *.docx, *.txt, eða jafnvel *.wav, *.mp3, *.mpeg eða hvað þetta nú heitir allt saman. Líkja má þessu við mismunandi leturgerðir — blessunarlega ræður mannsheilinn við að ráða fram úr allnokkrum leturgerðarúnum. En þetta er ekki allur vandinn, fyrir utan mýgrút skráarsniða er hægt að geyma hvert skráarsnið á ótal gerðum miðla, geisladiskum, hörðum diskum, minnislyklum o.s.frv., sem allir eru undir sömu sök seldir: Damóklesarsverð úreldingarinnar hangir yfir þeim. Vandinn vex því í veldisfalli.
Nú gæti hinn upplýsti (sem nú er væntanlega orðinn heltannaður í ofbirtunni) hugsað: „Þessi gaur er nú ekki með öllum mjalla. Hann hlýtur að hafa komið upp úr einhverju fornmannakumli.“ Sé það raunin, hefur sá hinn sami misskilið mig. Tölvan, og allt sem henni fylgir, hefur ótal kosti. Hugsið ykkur bara, að geta vélritað síðu, og geri maður innsláttarvillu, þarf ekki að skrifa alla síðuna upp aftur! Þetta er sannarlega bylting. Eða kostirnir við allskyns tölfræðivinnslu og flókna útreikninga? Slíkt á sér engin fordæmi. En þessir vinnslukostir breyta engu um, að sé ekki vilji fyrir því að upplýsingaperurnar springi og litið verði aftur á okkar öld sem myrka miðöld, þarf að þrykkja innsláttinn á blað.
Þessir kostir eiga sér líka aðra hlið, þ.e. misnotkun tölvanna þar sem þær eiga í raun ekki við. Til að mynda hafa sumir kennarar tekið upp þann ósið að neita nemendum um að taka við útprentuðum verkefnum og ritgerðum; þeir heimta rafræn skjöl til yfirferðar og færa athugasemdir sínar rafrænt inn. Þetta verður til þess að hvorki nemandinn né kennarinn prenta ritgerðirnar út og innan fárra ára mun þeirra ekki finna stað í veröldinni meir.
Rafrænu aðgengi að skjölum (nú, eða upplýsingum) fylgir mikið hagræði. Því er óhætt að mæla með ljósmyndun og skönnun skjala til slíks. En gott aðgengi á engin áhrif að hafa á varðveisluna, það er tvennt ólíkt. Sé talið nauðsynlegt að gera skjalasafn eða flokk skjala aðgengilegan í gagnavarpi, sem vel getur verið, þýðir það ekki að frumritunum, á pappír, sé þar með hægt að moka í tætarann. Líta má á slíkan rafrænan gagnagrunn sem nokkurs konar útgáfu, og ættu bókasafnsfræðingar því að annast umsýslu slíkra grunna. Skjalaverðir sinna síðan varðveislu frumritanna.
Á Upplýsingaröld kom fram sú hugmynd að líta á „der Mensch als Träger der Geschichte“; þ.e. að maðurinn bæri söguna, eða væri íklæddur henni. Horfið var frá trúnni um að Guð væri drifkraftur og tilgangur sögunnar og maðurinn settur í forgrunn og miðju. Í þá tíð voru sögu-klæðin sniðin úr endingargóðum pappír og skreytt bleki sem blífur aldirnar. Gæti verið að við sem nú lifum sníðum sögu okkar úr sama efni og klæðskerar keisarans í sögu H.C. Andersens?

8.3.08

Forsendur og umfang X-heila

Það var einn hlýjan góðviðrisdag sumarið 2001 að við tókum okkur hádegishlé í vinnunni uppi á Snæfoksstöðum. Sólin skein, og við undum okkur við að horfa á kjalsogið í lækjarsprænu rétt hjá. Egill Baldursson sagði okkur frá mynd sem hann hafði nýlega séð, Memento. Hana sá ég síðar sjálfur.
Hún fjallar um mann sem getur ekki fært neitt úr skammtímaminninu í langtímaminnið. Hann fæst við að komast til botns í því hver drap konuna hans, sem er honum vissulega óhægt. Myndin er annars með þeim ósköpum að hún gerist afturábak. En stóráhugaverð engu að síður.
Nú er margt í þessu. Og þetta má færa á enn dýpri mið: Maður hugsar í fimm mínútur, og gleymir því svo. Hverju kemst hann áleiðis? Ef til vill skrifar hann eitthvað niður hjá sér, og notar það í síðari ályktanir. En hvað með menn sem paufast við að hugsa í 70 ár, og skrifa heilar bækur af úthugsuðum niðurstöðum, til þess að gera komandi sporfetendum hægara um vik að ná lengra, þróa þekkinguna?
Kannski skilar það einhverju. Við erum enda miklu nær öllu en við vorum fyrir fjórtán mannsöldrum. En er þetta ekki nokkuð seinlegt? Hver í sínu horni að grufla, enginn með yfirsýn, og við löngu dauð áður en við áttuðum okkur á öllu sem við gátum vitað.
Því að yfirsýn er takmarkandi þáttur í þekkingarleit.

Eitt sinn var ég að spila Mastermind við frænda minn. Ég gat í eyðurnar, sem voru fimm. Ég var ýmist með 4 eða 3 rétta, og kominn á áttundu eða níundu tilraun. Þá var svo komið fyrir mér, að ég gat ekki komið saman litum sem pössuðu við alla hina, þannig að ég gafst upp.
Nú eru möguleikarnir í fimm holna Mastermind með átta litum ekki svo margir; ég slumpa á að þeir séu um 806.400* En hvað ef Mastermindið er með 107 liti í 6,21 ·1023 reitum? Hver gæti leyst það spil?
- Hér var reifuð fyrri spurning þessa pistils. Hin síðari er þessi: Ef heili, eða tölva, væri stækkaður nægilega, myndi hann þá geta leyst verkefnið? Og: Hvert er sambandið milli stærðar heila og reiknigetu hans?

Sé öflugasti heili, miðað við stærð, stækkaður, eykst reiknigeta hans. Það er að segja; hann ræður við flóknari verkefni en áður. En væri það hægt endalaust? - Nei. Fyrir utan þá einföldu takmörkun, að á einhverjum tímapunkti yrði ekki nægt efni til að stækka hann meira, þá myndi yfirsýn heilans minnka hlutfallslega eftir að ákveðinni stærð hefur verið náð.
Þegar heili er nógu lítill, vita allir hlutar hans af öllum hinum. Það er fullkomin yfirsýn. Ef heili er stækkaður, hlýtur að koma að því, að sumir hlutar hans vita ekki af öðrum. Ef einn hluti getur aðeins vitað af sjö öðrum hlutum á sama tíma, en alls eru í heilanum tíu, þá gefur auga leið, að útreikningur sem krefst samtímis aðildar allra hlutanna tíu, tekur lengri tíma en ella - og verður jafnvel ómögulegur.
Samhengi þessara tveggja eiginleika heila; yfirsýnar og stærðar, má setja upp í graf:

Hér er lárétti ásinn stærð heilans, en lóðrétti ásinn yfirsýn hans. Með vaxandi stærð, minnkar yfirsýnin, og öfugt. Minnstu heilarnir hafa mestu yfirsýnina, og þeir stærstu minnsta. Heilar, sem falla undir geira E, A og B á grafinu, eru ekki mögulegir. Heilar á geira C eru það, og því nær sem þeir eru skurðpunkti línanna, X, því betur nýtast bæði yfirsýn og stærð. [e] táknar allt það efni sem tiltækt er fyrir smíði heila, þó að ekki sé ljóst hversu mikið það er, og hvar [e] ætti að vera á skalanum.

Það er ekki annað að sjá, en að ef heili er svo stór að yfirsýn hans bíði skaða af, þá sé minni heili öflugri. Heili í skurðpunktinum X er því hinn öflugasti og umfangshæfasti sem mögulegur er. En hve flókið er hið flóknasta verkefni sem X-heilinn ræður við?
Það er ef til vill mikilvægasta spurningin af öllum, því að á svarinu veltur einmitt líka svarið við spurningunni um það, hvort hægt sé að búa til eina lokaniðurstöðu um allt og alheiminn.
Og vissulega er líka skilyrði, að nægt efni sé til í þennan heila.

*Þ.e. 8x7x6x5x4 litasamsetningar sem má raða upp á 120 mismunandi vegu. Reki einhver augun í að þessi útreikningur er ekki réttur, þá vil ég benda á, mér til afsökunar, að ég er skógverkfræðingur, ekki bara-verkfræðingur.