Lesnir;

8.3.08

Forsendur og umfang X-heila

Það var einn hlýjan góðviðrisdag sumarið 2001 að við tókum okkur hádegishlé í vinnunni uppi á Snæfoksstöðum. Sólin skein, og við undum okkur við að horfa á kjalsogið í lækjarsprænu rétt hjá. Egill Baldursson sagði okkur frá mynd sem hann hafði nýlega séð, Memento. Hana sá ég síðar sjálfur.
Hún fjallar um mann sem getur ekki fært neitt úr skammtímaminninu í langtímaminnið. Hann fæst við að komast til botns í því hver drap konuna hans, sem er honum vissulega óhægt. Myndin er annars með þeim ósköpum að hún gerist afturábak. En stóráhugaverð engu að síður.
Nú er margt í þessu. Og þetta má færa á enn dýpri mið: Maður hugsar í fimm mínútur, og gleymir því svo. Hverju kemst hann áleiðis? Ef til vill skrifar hann eitthvað niður hjá sér, og notar það í síðari ályktanir. En hvað með menn sem paufast við að hugsa í 70 ár, og skrifa heilar bækur af úthugsuðum niðurstöðum, til þess að gera komandi sporfetendum hægara um vik að ná lengra, þróa þekkinguna?
Kannski skilar það einhverju. Við erum enda miklu nær öllu en við vorum fyrir fjórtán mannsöldrum. En er þetta ekki nokkuð seinlegt? Hver í sínu horni að grufla, enginn með yfirsýn, og við löngu dauð áður en við áttuðum okkur á öllu sem við gátum vitað.
Því að yfirsýn er takmarkandi þáttur í þekkingarleit.

Eitt sinn var ég að spila Mastermind við frænda minn. Ég gat í eyðurnar, sem voru fimm. Ég var ýmist með 4 eða 3 rétta, og kominn á áttundu eða níundu tilraun. Þá var svo komið fyrir mér, að ég gat ekki komið saman litum sem pössuðu við alla hina, þannig að ég gafst upp.
Nú eru möguleikarnir í fimm holna Mastermind með átta litum ekki svo margir; ég slumpa á að þeir séu um 806.400* En hvað ef Mastermindið er með 107 liti í 6,21 ·1023 reitum? Hver gæti leyst það spil?
- Hér var reifuð fyrri spurning þessa pistils. Hin síðari er þessi: Ef heili, eða tölva, væri stækkaður nægilega, myndi hann þá geta leyst verkefnið? Og: Hvert er sambandið milli stærðar heila og reiknigetu hans?

Sé öflugasti heili, miðað við stærð, stækkaður, eykst reiknigeta hans. Það er að segja; hann ræður við flóknari verkefni en áður. En væri það hægt endalaust? - Nei. Fyrir utan þá einföldu takmörkun, að á einhverjum tímapunkti yrði ekki nægt efni til að stækka hann meira, þá myndi yfirsýn heilans minnka hlutfallslega eftir að ákveðinni stærð hefur verið náð.
Þegar heili er nógu lítill, vita allir hlutar hans af öllum hinum. Það er fullkomin yfirsýn. Ef heili er stækkaður, hlýtur að koma að því, að sumir hlutar hans vita ekki af öðrum. Ef einn hluti getur aðeins vitað af sjö öðrum hlutum á sama tíma, en alls eru í heilanum tíu, þá gefur auga leið, að útreikningur sem krefst samtímis aðildar allra hlutanna tíu, tekur lengri tíma en ella - og verður jafnvel ómögulegur.
Samhengi þessara tveggja eiginleika heila; yfirsýnar og stærðar, má setja upp í graf:

Hér er lárétti ásinn stærð heilans, en lóðrétti ásinn yfirsýn hans. Með vaxandi stærð, minnkar yfirsýnin, og öfugt. Minnstu heilarnir hafa mestu yfirsýnina, og þeir stærstu minnsta. Heilar, sem falla undir geira E, A og B á grafinu, eru ekki mögulegir. Heilar á geira C eru það, og því nær sem þeir eru skurðpunkti línanna, X, því betur nýtast bæði yfirsýn og stærð. [e] táknar allt það efni sem tiltækt er fyrir smíði heila, þó að ekki sé ljóst hversu mikið það er, og hvar [e] ætti að vera á skalanum.

Það er ekki annað að sjá, en að ef heili er svo stór að yfirsýn hans bíði skaða af, þá sé minni heili öflugri. Heili í skurðpunktinum X er því hinn öflugasti og umfangshæfasti sem mögulegur er. En hve flókið er hið flóknasta verkefni sem X-heilinn ræður við?
Það er ef til vill mikilvægasta spurningin af öllum, því að á svarinu veltur einmitt líka svarið við spurningunni um það, hvort hægt sé að búa til eina lokaniðurstöðu um allt og alheiminn.
Og vissulega er líka skilyrði, að nægt efni sé til í þennan heila.

*Þ.e. 8x7x6x5x4 litasamsetningar sem má raða upp á 120 mismunandi vegu. Reki einhver augun í að þessi útreikningur er ekki réttur, þá vil ég benda á, mér til afsökunar, að ég er skógverkfræðingur, ekki bara-verkfræðingur.

8 skilaboð:

  • Ég tel að ótímabært sé að leggjast í rannsóknir á reiknigetu hæfasta mögulega heila. Við getum verið sammála um að langt sé í að takmörkunar fari að gæta hjá stökum í menginu homo sapiens sapiens (nema kannski hjá þeim sem neyta aspartams).

    Ég tel ennfremur að það bezta sem mannskepnan geti gert sé að lesa sem mest, vinsa það vitlausasta frá, skrifa sem mest, og vona það bezta fyrir framtíðina.

    Þ.e.a.s. að því gefnu að talið sé æskilegt, að mannkynið stefni 'áfram' að einhverju 'betra'. Framþróunarhugmyndin er jú ekki nema rúmlega aldar gömul, skilst mér.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 3:40 e.h.  

  • Ennfremur, um efni neðanmálsgreinar þinnar.

    Ekki er hægt að vera bara-verkfræðingur, nema í hernum. Þar varð þessi ágæta staða til. Einmitt þess vegna er talað um civil-ingenieur í útlenzku, þegar átt er við verkfræðinga sem ekki starfa hjá hernum, en ekki militair-ingenieur þegar þesslags verkfræðingar eru til umræðu. Síðan eru ótal aðrar sortir og undir sortir í þessu eðla fagi. Íslenzkan ruglar þessu, eins og oft vill verða þegar hugtök sem eiga uppruna sinn í hermennsku reka á fjörur okkar.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 3:47 e.h.  

  • Þetta er auðvitað sígilt og eilíft vandamál innan fræðanna; að vita hvað aðrir hafa sagt um efnið, að viða að sér nægilega miklum fróðleik --- Gunnar orðar það sem svo að skilja kjarnann frá hisminu, eða öfugt --- til þess að teljast hafa 'næga yfirsýn'.

    Tæpast er yfirsýn nokkurn tíma næg.

    Og svo eru það þessar kenningar sem alltaf spretta upp innan fræða og orka sumpart eins og rauður þráður í bók, þar sem leitað er að tilteknum einkennum eða beitt er tiltekinni nálgun, allt bundið á tiltekinn klafa (fylgt er tilteknu kerfi), ... þær geta verið afar takmarkandi yfirsýn. Til dæmis dettur mér í hug að nefna málfræðilega umræðu um tvítyngi á 6. og 7. áratugnum, sem á 8. og 9. áratugnum var talin bera keim af fordómum þar sem allar rannsóknir miðuðu, að því er virtist, að því að sýna hve slæm áhrif tvítyngi hefði á einstakling í málsamfélagi. Þar var t.d. kannað hvernig tvítyngdur einstaklingur væri í samanburði við eintyngdan(?) á vitsmunaskala, þar sem prófuð var, e.t.v. mætti segja, menningarsöguleg eða samfélagsleg þekking, og því greinilegt að ekkert var verið að skoða tvítyngið sem slíkt, heldur fremur aðlögun mismunandi menningarhópa að öðrum.

    Því var á 8. og kannski enn meir á 9. áratugnum (?), yfirlýst stefna innan þessara fræða að líta á allt það sem áður hafði verið sagt um tvítyngi sem tóma vitleysu og ekki þess verða að skoða það neitt nánar. Enn má sjá svipaða tendensa þar sem tilteknir fræðimenn koma upp með tilteknar hugmyndir um eðli tvítyngis og segja að allar rannsóknir sem ekki taki X með inn í reikninginn gefi rangar eða misvísandi niðurstöður, og því beri að horfa framhjá þeim.

    Allt tengist þetta yfirsýninni. Yfirsýn hlýtur alltaf að skipta höfuðmáli, og ég er sammála orðum Gunnars, að best sé að lesa sem mest, halda því sem gott er en horfa framhjá hinu. En til þess að hægt sé að horfa framhjá hinu þarf maður þó að vita af tilvist þess, sem vítis til varnaðar.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 3:56 e.h.  

  • Heimi er ég sammála. Hann ræði það sem sumir hafa kallað tízkusveiflur í fræðunum. (Sbr. ágæta bók Einars Más Jónssonar, Bréf til Maríu.)

    En getum við komist að 'réttu' niðurstöðum dagsins í dag án þess að einhver hafi áður komist að 'röngu' niðurstöðum gærdagsins? Og þær niðurstöður sem teljast 'réttar' á morgun, hvaða leið liggur að þeim?

    Er framþróunin ekki bara tálsýn? Með framþróunarhugmyndum eru hugsuðir fortíðarinnar afskrifaðir sem apakettir, og það er hroki. Niður með framþróun!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 5:31 e.h.  

  • Það má vera, að í þessum pistli sé margt nokkuð óljóst sett fram. Tja, fyrir það fyrsta, þá notaði ég orðið „heili" yfir það fyrirbæri sem bæði hvaða venjulegur dýrsheili og tölva falla undir.

    Mér sýnist að bæði Gunnar og Heimir séu nokkuð fastir í hugvísindalegum hugsanagangi. Eða kannski er það bara ég sem er fastur í raunvísindaheimi mínum, þar sem niðurstöður og uppgötvanir eru svo gott sem óhuglægar, eða öllu heldur bara mismunandi marktækar. Þó er það vafamál, hve miklu máli tízka og framhjáhorf skipta, í því sem ég var raunverulega að skoða:
    - þýðingu yfirsýnar í þekkingarleit (ekki framþróun)
    - þá eiginleika sem mikilvirkasti heili, sem mögulegur er, þarf að hafa.

    Ég reyndi að tengja þessa yfirsýn (takmarkandi við þekkingarleit), við þá yfirsýn (heildrænu) sem heili hefur yfir sjálfan sig, en líklega er sú tenging á veikum grunni reist.

    Þá voru vísanirnar undir lokin, í leitina að lokasvari og kenningu um allan heiminn og allt, að öllu leiti komnar til af eigin hvötum, án þess að þær komi efni pistilsins nokkuð sérstaklega við sem slíkar.

    Þetta var í grófum dráttum það sem ég vildi segja.

    Sagði Blogger Palli, kl. 6:22 e.h.  

  • Palli hvað ertu að rugla?

    Ef það eru FIMM reitir og ÁTTA mismunandi litir þá eru möguleikarnir

    8 í fimmtaveldi - sem er 32768.


    (Reitur eitt hefur 8 möguleika...
    Reitur tvö hefur 8 möguleika...

    8*8*8*8*8)

    Sagði Blogger Jón Örn, kl. 9:41 e.h.  

  • Nei, en það er að sjálfsögðu rétt að möguleikarnir eru ekki fleiri en 32768.
    Hinsvegar má bara nota hvern lit einu sinni, alltént spiluðum við það þannig.

    Sagði Blogger Palli, kl. 9:08 e.h.  

  • Ef sama lit má einungis nota einu sinni þá gefur auga leið að möguleikarnir eru 8*7*6*5*4=6720 eins og Palli sagði fyrst, en möguleikarnir 120 á uppröðun sem Palli nefnir felast í raun í þessum 6720 möguleikum. Ef við veljum lit, t.d. gulan í byrjun, þá eru 7 litir eftir. Það breytir engu þó við hefðum valið rauðan, við eigum alltaf 7 liti eftir fyrir næsta sæti. Því er óþarfi að reikna möguleika á uppröðun inn í þetta.

    Sagði Blogger Sævar, kl. 8:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða