Lesnir;

27.3.08

Sendibréf til nágranna minna

Þessi grein birtist í Sunnlenzka Frjettablaðinu nú í dag. Hana birti ég hér þeim er það ekki sjá til ánægju.

Kæru grannar!
Ég skrifa ykkur frá Kaupmannahöfn. Oft er sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá og ég hlýt að taka undir það. Ekki þarf annað en að lesa Hafnarljóð Jónasar til að átta sig á áhrifum fjarlægðarinnar á heim(s)sýnina.
Kaupmannahöfn hefur mátt þola eitt og annað. Má þar nefna eldibrandinn 1728, annan 1795 og bombarderingu engelskra 1807. Hafa stórviðburðir þessir vitaskuld mótað ásýnd borgarinnar og byggingarstíla. Þrátt fyrir þetta hafa Hafnarbúar haldið mörgu til haga en jafnframt bætt við eftir tíðaranda og þörfum. Samsuða nýs og gamals kristallast hvað best í byggingu Konunglega bókasafnsins og viðbyggingunni Svarta demantinum.
Ekki er okkar bæ Selfossi mikill greiði gerður með samanburði við Höfn. Kaupmannahafnar er fyrst getið árið 1043 í Knytlinga sögu, þar sem segir frá bænum Höfn á Sjólandi. 1167 heyrum við næst frá Höfn, en þá segir að biskupinn Afsalón hafi byggt borg á hólma einum við Höfn. Hólminn fékk nafnið Hallarhólmi, Slotsholmen, vegna borgarinnar. Núverandi borg á Hólmanum er Kristjánsborgarhöll (sú þriðja með því nafni, fimmta frá upphafi; þar hefur alloft brunnið). Saxi hinn danski, nemandi Afsalóns, nefnir kaupmenn fyrst í sambandi við Höfn, hann kallar bæinn mercatorum Portus, kaupmannanna Höfn, í Danmerkursögu sinni.
Byggð á Selfossi er líklega ekki fjarri Kaupmannahöfn í aldri. Landnáma segir Selfoss landnámsjörð, þar nam Þórir Ásason land, allan Kallnesingahrepp og hafði bú sitt að Selforsi, eins og þar segir. Hreppurinn hefur því fyrst fengið nafn af Kallaðarnesi (núverandi Kaldaðarnes) en verið kenndur við Sandvík síðar. Full ástæða er reyndar til að efast um heillindi Landnámu (líkt og annarrar námu í nágrenni Selfoss) en víst má telja að frá fyrstu tíð hafi verið búið að Selfossi.
En það var ekki fyrr en brú var byggð (vígð árið 1891) sem forsenda var fyrir þéttbýli við Selfoss. Í kjölfarið fylgdu Flóaáveitan, Kaupfélagið og Mjólkurbúið.
Þrátt fyrir þá Guðs mildi að hörmungar á borð við stórbruna hafi hlíft Selfossi, hafa mennirnir verið iðnir við að eyða menjum um upphaf og þróun byggðar þar. Nægir að nefna niðrrif gamla Mjólkurbúshússins um 1970 því til sönnunar.
Annað sögulegt hús á Selfossi er Pakkhúsið. Eldur hefur gert tilraun til að granda húsinu, en því var afstýrt með dugnaði og dáð góðra manna. Nú hýsir nýuppgert húsið Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Það er sem fjallið okkar hafi, í andaslitrunum, gert tilraun til að minna á af hverju Selfoss er góður staður fyrir slíka miðstöð þegar það reyndi af veikum mætti að hrista af sér tilræðismenn sína fyrir nokkru.
En allt um það. Nú steðjar önnur vá, og sýnu verri en nokkur eldibrandur, að Pakkhúsinu; verktakar með skipulagsyfirvöld tamin í taumi.
Jónas orti: „Forðum átti ég falleg gull / nú er ég búinn að brjóta og týna.“ Auðvelt er að vera vitur eftir á, og orðnar gjörðir er auðveldara að syrgja en að taka aftur. Að Hólum í Hjaltadal stóð eitt sinn Auðunarstofa, Reykjavík státaði um tíma af elsta kvikmyndahúsi Evrópu, Lögréttuhúsið á Þingvelli fauk þaðan um leið og Alþing sjálft.
En Selfoss á enn sitt Pakkhús, sína atvinnusögu holdgerða. „Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus [þ.e. vitleysum] á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverjir tveggju nokkuð að iðja“ Þessi orð á Árni Magnússon prófessor. Hann þurfti á sinni tíð að glíma við afleiðingar mikillar eyðileggingar, en sá var munurinn á að sú eyðilegging var ekki fyrirséð. Kæru nágrannar, útryðjum vitleysunni áður en það er um seinan.

3 skilaboð:

  • Það var rétt!

    Sagði Blogger Unknown, kl. 10:17 f.h.  

  • Ágætt. Væri ekki ráð að setja þetta líka í samband við ástandið í miðbænum hér í Reykjavík, svona úr því að miðborgin fær nokkra andakt nú?

    Sagði Blogger Heimir, kl. 6:10 e.h.  

  • Ég þakka hlý orð í minn garð.

    Heimir: það má. Eins og þú, bókmenntafræðingurinn sjálfur (!) veizt, þá er allt texti, og allur texti er túlkanlegur.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 6:21 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða