Lesnir;

18.3.08

Mun núið formyrkvast?

Lítt gætir nú ljóss upplýsingarinnar, heldur böðumst við í flóðlýsingu af ljósaseríu upplýsinganna, í upphafinni fleirtölu. Upplýstur ljósleiðari er ljósberi okkar, og flytur okkur fregnir á hraða ljóssins hvaðanæva að úr veröldinni — ljós heimsins hefur aldrei skinið skærar en nú. Í gagnavarpi (e. internet) geymast allar upplýsingar og heimildir í heimi, að eilífu amen. NB, þar finnast engin skjöl, sem treystandi er, því að allir geta jú átt við það sem þar finnst, í samræmi við hagsmunavinda þá, er þeim stýra. Þar undirritar enginn neitt, ekkert er vottað, stimplað og samþykkt í þríriti. Þar liggur munurinn á upplýsingum og skjölum. (Af þeim sökum er kapphlaup stjórnvalda við að ná sem hæst á lista yfir þær þjóðir sem „skara fram úr“ í rafrænni stjórnsýslu hálf hjákátlegt.)
Þeim, sem blindaðir eru af ofbirtu upplýsingaflæðisins, er auðfyrirgefið að framsýn þeirra sé skert. Þeim til upplýsingar skal nú ljósi varpað á það, sem leynist handan upplýsinganna.
Hið stafræna upplýsingaflæði, sem svífa virðist um í limbói í gagnavarpinu, á sér allt fýsíska heimasveit. Sú sveit getur verið í formi 2,5 tommu harðs disks, 3,5 tommu harðs disks, flash-minnis, eða hvað sem geymslumiðillinn sem mest er í móð þá og þá stundina heitir. Líkja má honum við pappírsörk, og stafrænu ásunum og núllunum við orð á blaði. Helsti munurinn er vitaskuld sá, að augað eitt, auk læsis, dugir til lestrar blaðsins. En sérhæfðan tæknibúnað (e. hardware) og hugbúnað (e. software) þarf til lestrar harða disksins.
Rekist maður á afar aldraða blaðsíðu, dugir ofurlítil þjálfun í fornskriftarfræði (e. paleography) til lestrar hennar. Rekist maður hins vegar á gataspjald, fimm og kvart tommu diskling, floppy-diskling eða þvíumlíkt (líkja má þessu við blöð af stærðinni fólíó, kvartó, oktavó, A0, A1, A2 o.s.frv.), vandast málið. Ekki nóg með að flestum gæti reynst um megn að finna tækjabúnað sem býr yfir svo hallærislegri lestrarkunnáttu, heldur þarf tæknibúnaðurinn líka að virka. Flestir kannast við rispaðan geisladisk, harðan disk með ónýtri legu, flakkara sem dottið hefur í gólfið, fartölvu sem kaffi hefur hellst yfir o.s.frv. Þessi vandi er jafn raunverulegur í heimilistölvunni og hjá opinberu stjórnvaldi. Sjáið fyrir ykkur: „Æ, nei! Ég missti Reykholtsmáldaga í gólfið, nú er ekki hægt að lesa hann meir.“ Gallinn við þessa samlíkingu er sá, að mannsaugað getur lesið orð af blaði sem ritað var fyrir mörg hundruð árum, en venjuleg heimilstölva (sem nú til dags er margfalt snjallari en tölvur þær, er komu manninum til tunglsins) getur vart birt okkur á skjá sínum skjöl sem eldri eru en 10-15 ára (nema þau hafi verið þýdd sérstaklega á yngra skráarsnið).
Um það þarf ekki að deila, að stafræn gögn útheimta ómælt erfiði, nákvæmni og tæknikunnáttu til varðveislu. En þar að auki vomir yfir skjalastjóra eða –verði, sem berst við að varðveita stafrænu gögnin, vættaveldi öðrum almáttugra: duttlungafullur framleiðandi, heildsali, smásali, sölumaður, tæknimaður, viðgerðamaður; heil hersing af hagsmunaaðilum, sem hefur einungis eitt markmið að leiðarljósi; hámörkun arðs. Því komi fram ný tækni, sem krefst þess að allir endurnýi sín tæki og tól, hikar dalbúi Sílikóns ekki. Önnur dæmisaga: „Æ, nei! Við höfum ekki uppfært Reykholtsmáldaga síðan hann var settur á gataspjöld hér um árið, nú er ekki hægt að lesa hann meir.“
Hugsanavilla sem orsakast af fyrrnefndri ofbirtu upplýsinganna, er sú, að ekkert mál sé að skipta út þegar næsta skráarsnið (e. format) dæmist klossað, úr móð og fornt, hvort sem það heitir *.jpg, *.gif, eða *.tiff, nú eða *.doc, *.docx, *.txt, eða jafnvel *.wav, *.mp3, *.mpeg eða hvað þetta nú heitir allt saman. Líkja má þessu við mismunandi leturgerðir — blessunarlega ræður mannsheilinn við að ráða fram úr allnokkrum leturgerðarúnum. En þetta er ekki allur vandinn, fyrir utan mýgrút skráarsniða er hægt að geyma hvert skráarsnið á ótal gerðum miðla, geisladiskum, hörðum diskum, minnislyklum o.s.frv., sem allir eru undir sömu sök seldir: Damóklesarsverð úreldingarinnar hangir yfir þeim. Vandinn vex því í veldisfalli.
Nú gæti hinn upplýsti (sem nú er væntanlega orðinn heltannaður í ofbirtunni) hugsað: „Þessi gaur er nú ekki með öllum mjalla. Hann hlýtur að hafa komið upp úr einhverju fornmannakumli.“ Sé það raunin, hefur sá hinn sami misskilið mig. Tölvan, og allt sem henni fylgir, hefur ótal kosti. Hugsið ykkur bara, að geta vélritað síðu, og geri maður innsláttarvillu, þarf ekki að skrifa alla síðuna upp aftur! Þetta er sannarlega bylting. Eða kostirnir við allskyns tölfræðivinnslu og flókna útreikninga? Slíkt á sér engin fordæmi. En þessir vinnslukostir breyta engu um, að sé ekki vilji fyrir því að upplýsingaperurnar springi og litið verði aftur á okkar öld sem myrka miðöld, þarf að þrykkja innsláttinn á blað.
Þessir kostir eiga sér líka aðra hlið, þ.e. misnotkun tölvanna þar sem þær eiga í raun ekki við. Til að mynda hafa sumir kennarar tekið upp þann ósið að neita nemendum um að taka við útprentuðum verkefnum og ritgerðum; þeir heimta rafræn skjöl til yfirferðar og færa athugasemdir sínar rafrænt inn. Þetta verður til þess að hvorki nemandinn né kennarinn prenta ritgerðirnar út og innan fárra ára mun þeirra ekki finna stað í veröldinni meir.
Rafrænu aðgengi að skjölum (nú, eða upplýsingum) fylgir mikið hagræði. Því er óhætt að mæla með ljósmyndun og skönnun skjala til slíks. En gott aðgengi á engin áhrif að hafa á varðveisluna, það er tvennt ólíkt. Sé talið nauðsynlegt að gera skjalasafn eða flokk skjala aðgengilegan í gagnavarpi, sem vel getur verið, þýðir það ekki að frumritunum, á pappír, sé þar með hægt að moka í tætarann. Líta má á slíkan rafrænan gagnagrunn sem nokkurs konar útgáfu, og ættu bókasafnsfræðingar því að annast umsýslu slíkra grunna. Skjalaverðir sinna síðan varðveislu frumritanna.
Á Upplýsingaröld kom fram sú hugmynd að líta á „der Mensch als Träger der Geschichte“; þ.e. að maðurinn bæri söguna, eða væri íklæddur henni. Horfið var frá trúnni um að Guð væri drifkraftur og tilgangur sögunnar og maðurinn settur í forgrunn og miðju. Í þá tíð voru sögu-klæðin sniðin úr endingargóðum pappír og skreytt bleki sem blífur aldirnar. Gæti verið að við sem nú lifum sníðum sögu okkar úr sama efni og klæðskerar keisarans í sögu H.C. Andersens?

3 skilaboð:

  • Þetta þótti mér falleg hugvekja -

    Sagði Blogger Palli, kl. 9:06 e.h.  

  • Hér er ófögur dæmisaga sem þó endar vel:
    http://visir.is/article/20080305/SKODANIR04/103050087/1263

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:16 e.h.  

  • Þetta er mikilvæg umræða, og skemmtileg dæmisagan, Gunnar, sem innlegg í hana. Ég vil þó segja að skráasniðin sem slík vekja mér lítinn ugg. Það er talsvert minna fyrirtæki að skrifa hugbúnað sem getur lesið (eða fengið nokkurt vit úr) gömlum gagnaskrám. Hitt er verra að sífellt þurfi að skipta um sjálfa geymslumiðlana, sem þú minnist vitaskuld einnig á. Hitt er enn verra hvað þessi gögn eru forgengileg: þau geta eyðilagst fullkomlega við minnsta hnjask, og stundum þarf varla hnjask til að allt raskist.*

    Ég minni bara á atvik sem sést í tölvuloggum Reiknistofnunar, þar sem, ef ég man rétt, bilun kom upp í aðaldiski og á sama tíma tveimur diskum með öryggisafritum af því! (Var þá sá þriðji til?) Svona lagað getur náttúrulega hæglega skeð hjá stofnun sem varðveitir „frumrit“ (ef svo má kalla) í tölvu en er með afrit á utanáliggjandi diski. Ef svæsin rafmagnstruflun kemur upp getur tölvan eyðilagst, og þarmeð báðir diskarnir, ef báðir voru í sambandi. Vírus kann einnig að berast á báða diska, og hann getur ræstst á tilteknum degi, og þarmeð skemmast bæði gögnin á aðaldiski og afritsdiski (nema afritsdiski sé stungið í tölvur eða kerfi af „öruggari gerðinni“).

    Á einum minna vinnustaða höfum við örlítið fengið að súpa seyðið** af tækniundrunum. Þar var aðaldiski og afritsdiski 1 stolið (voru í sama herbergi), en ofurlítið eldri afrit voru til í öðru póstnúmeri, öryggisafrit 2. Af þessum afritum voru tekin önnur afrit, öryggisafrit 3, til öryggis. Þá vildi hins vegar ekki betur til en að diskurinn með öryggisafritum 2 gaf sig skyndilega og út í bláinn, svo öryggisafrit 3 var eitt til! (Nú eru til tvö öryggisafrit af öryggisafriti 3, en óljóst hver næstu skref eiga að verða.)

    * Egill (Skalla-Grímsson) hefði áreiðanlega ort hér dróttkvæða vísu, kominn með eina ágæta aðalhendingu, a.m.k. á nútímakvarða.
    * Ég legg til að annað hvort verði tekið upp orðið seyði í stað orðsins te, eða að stafasetningarreglum verði breytt með latínu (eða t.d. hollensku, vilji menn sprelllifandi mál) að fyrirmynd og skrifi ekki: teinu heldur teïnu svo að menn lesi ei ekki óvart sem tvíhljóð og maður skilur orðið betur í lestri en haldi ekki að þetta sá prentvilla fyrir teini eða þ.u.l.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:27 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða