Lesnir;

23.3.08

Stutt páskahugvekja
um hið æðsta og fremsta boðorð.

Kæru lesendur, gleðilega páska.

Í tilefni dagsins langaði mig að reyna að miðla ykkur, eða koma áleiðis, nokkurs konar hugarljómun sem mér hlotnaðist eitt napurt vetrarkvöld á miðri góu. Þessi, ég kalla það, hugvekja tengist tveimur sviðum lífsins þar sem ég tel mig hinn mesta fúskara: guðfræði og ástarmál. (Það skemmtilega við fúskarann er að hann þarf ekki að skammast sín, í krafti menntunar sinnar á því sviði, fyrir fáfræðina sem opinberast í orðum hans.)

Það væri helber lygi ef ég segði að það væri alltaf auðvelt að trúa, og svei mér þá ef það á þá nokkuð að vera auðvelt. Margt er í kenningunni tormelt og enn fleiru er erfitt að fylgja, svo að sæmi, en sérstaklega hafa eftirfarandi orð Krists þó löngum reynst mér ofraun (Matt 22:34-38, og víðar): 

[34] Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. [35] Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: [36] „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?" [37] Hann svaraði honum: „ ,Elska skalt þú Drottinn, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.' [38] Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“

Að elska Guð af öllu hjarta? Já já, er það ekki bara auðvelt? Það hljómar hreint ekki svo flókið. En hvað er það að elska af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga? Sá sem ástfanginn er, er áreiðanlega líklegur til þess að lýsa hugarástandi sínu einmitt á þann hátt: ég elska unnustu mína af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga. En hvað þá með Guð? Auðveldast svara væri einfaldlega að ást á Guði sé e.t.v. allt annars konar ást en ást á konu eða manni. — Hvernig þá? Andleg? — Er önnur ást þá líkamleg? Er guðsást öllum ástum æðri? Hvað merkir það? Mér fannst ég ekki finna neitt viðunandi svar við vangaveltum mínum um þetta hið æðsta og fremsta boðorð, sem Jesús nefnir svo, hvorki meira né minna.

(Annað vers sem ég held upp á hefur verið mér til svolítillar huggunar, enda þarf maður ekki að skilja og skýra allt (Mark 9:24): „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni." Mér hefur alltaf fundist það hughreystandi.)

Einhvern daginn datt mér í hug að finna mér eitthvert annað lesefni fyrir svefninn en eintómar fagurbókmenntir. Ég tók eiginlega bara eitthvað af handahófi úr bókaskápnum hjá mér, og fyrir valinu varð bókin „Þrjár þýðingar lærðar, frá miðöldum" þar sem eru þrjú gömul trúarleg rit, þar á meðal íslensk þýðing frá um 1200 á Eintal um festarfé sálarinnar sem á frummálinu mun heita 'Soliloquium de arrha animae' (sjá hér og hér), eftir Hugo nokkurn frá klaustri heilags Viktors við París. Ég fór sem sagt að lesa þetta, en las nú eiginlega meira vegna þess að mér, íslenskufræðingnum, fannst skemmtilegt að sjá fornlegt tungumálið. Svo, allt í einu, fannst mér ég hreinlega lesa svar við þessari spurningu sem ég hef verið að velta fyrir mér. Eftirfarandi brot er úr 7. kafla verksins:  

Lít yfir allan heiminn og sé að allt það er í heiminum er þjónar þér. [...] Eigi leynast nú gjafarnar þó að sá sé ósýnilegur er veitir. Mikils er sá verður er svo stórum gefur og veitir. Með ástum er þeim unnanda er svo mikið mátti gefa og svo stórum vildi miðla og er allt í móti leggjandi því að með ástum var gefið. Gjöfin sýnir hver gefur og með hverri ást er hann gefur, og er það ærsla að draga undan að elska þann er svo mikið ann og svo stórum gefur. [...] Sála, tak heilt ráð, ef þú annt veraldar hlutum, unn sem þínum, því að það [er] þér áður játað til þjónustu, og unn þó eigi framar en til nauðsynja og skyldra hluta. Elska það sem gefið er, elska sem festarfé unnasta þíns, sem gjafir vinar þíns, sem velgerninga drottins þíns. Mun æ hvað þú átt þeim er veitir og unn eigi gjöfum í stað hins er gaf. Honum skaltu unna en eigi þessu með honum. Unn þessu fyrir hans sakir og af þessu unn honum yfir alla hluti. Skipa svo að þú megir festarmær heita og vera, en eigi pýtlingur, sem þá ertu ef þú virðir meira gjafirnar en ást gefanda. [...] Unn honum og þér, unn og gjöfum hans, elska hann að þú megir nálgast hann, unn því sjálfri þér að hann ann þér, unn því gjöfum hans að hann gaf.

Mín kristna heimsmynd segir mér vitaskuld að Guð sé á bak við allt, hann búi í öllu og allt sé á valdi hans. Guð gaf. Eins og Hugo kemst að orði hefur sá ástfangni, sem finnst hann ekki geta séð sól fyrir sætri mey, gerst sekur um að unna gjöfunum í stað þess sem gaf þær. Í mannheimum er þetta vitanlega mikill löstur, og til marks um eigingirni og græðgi. Og ekki sparar hann Hugo þeim slíkum orðin: hóra geturðu verið, maður! — að virða gjafirnar í stað þess að unna þeim sem gaf; en það sem gefið er, vegna þess sem það gaf.

Og svei mér þá; ekki nóg með að ást á Guði hafi nú orðið honum eitthvað eilítið skiljanlegri, heldur ætli títtnefndum unnustanum finnist hann nú ekki bara elska festarmey sína örlítið meir en fyrr, fyrir vikið?