Lesnir;

24.3.08

1. þáttur um stafsetningu:
Stúrin er tunga | illa stöfuð

Ekki er með öllu vandalaust að setja sér, og hvað þá heilli þjóð, stafsetningarreglur sem við má una. Sjónarmiðin eru mörg og ekki blasir við hvort eða upp að hvaða marki skrifa eigi eftir framburði; sumir segðu — og hafa vitanlega sagt — að framburður væri einkaregla stafsetningarinnar. Það er sjónarmið, en stafsetning byggð á framburði yrði til nokkurra vandræða, enda fer því fjarri að nokkur sátt ríki um það hvernig orð eru borin fram. Skrifar þá einn skipstjóri og annar skifstjóri, enn einn skifstjori og enn annar til skisstjóri? Það væri allt í lagi mín vegna, en þá er rangt að tala um stafsetningarreglur í því samhengi; þá er stafsetningin einfaldlega „gefin frjáls“!

Sennilega hafa fornmenn skrifað, ef ekki að öllu leyti, þá að mestu, eftir framburði. „Fyrsti málfræðingurinn“, sem reyndi að setja Íslendingum reglur á 12. öld um það hvernig þeir ættu að skrifa (e.t.v. til þess að komast hjá tvíræðni, t.d. í lagatextum), vildi að bókstafirnir sem notaðir væru til þess að skrá íslensku á bókfell væru réttræðir, það er, að p stæði fyrir p, o fyrir o, æ fyrir æ, o.s.frv., en ekki að o gæti táknað hvort heldur sem er t.d. o, ó, ö eða ø, eins og þá hefur verið venjan.1 Með öðrum orðum framburðarskrift.

Nú horfir málið öðruvísi við. Frá því á 19. öld hefur verið einhver (e.t.v. skrítin) krafa um að stafsetning sé samræmd. Í þessu felst þá að orðið skipstjóri er skrifað nákvæmlega á þann hátt óháð því hver skrifar, óháð tal- (eða skrif)hraða, óháð tíma, óháð stund. Tilraunir til eins konar framburðarskriftar hafa menn í seinni tíð reynt og afraksturinn verið á ýmsa lund.2 En er ekki ótrúleg hugsunarvilla fólgin því að ætla að setja sér samræmda stafsetningu sem byggir á framburði? Kallar það ekki óhjákvæmilega um leið á einhvern samræmdan framburð?

Í þessum fyrsta þætti um stafsetningu er ætlunin að líta á eitt tiltekið atriði þeirra ritreglna sem nú ber að nota.

Mislukkað afnám zetunnar
Stafsetningin sem kennd hefur verið í skólum frá 1974, og er nú enn í gildi með breytingum frá 1977,4 er upp að vissu marki ágæt og reglurnar um margt skynsamar. Skynsemin er þó reyndar aðallega í því fólgin að enn búum við við kjarnann úr reglunum frá 1939, þar sem m.a. var kveðið á um að skrifuð skyldi z þar sem tannhljóð (t, d, eða ð) fellur brott í framburði.

Núgildandi stafsetningarreglur eru enn talsvert íhaldssamar og fylgja yfirleitt svokallaðri upprunareglu fremur en framburði, þó að zetureglurnar hafi verið afnumdar. Því er skrifað sleppti þó að fram sé borið slefti sbr. nafnháttinn sleppa, og eins skipti af skipta, kippti af kippa. Ekki veit ég til þess að þetta vefjist mjög mikið fyrir mönnum sem á annað borð eru læsir og sæmilega skrifandi. Þetta atriði virðist semsé auðlært, skýrt og um það held ég að ríki almenn sátt.

En, hvern þann sem ekki hugnast að skrifa slefti og skifta hlýtur að reka í rogastans þegar reglurnar frá 1974 kveða á um að lýsingarháttur þátíðar af sögninni hittast sé: (þau hafa) hi...st og að breytast sé að sama skapi: (þetta hefur) brey...st; eða hvað varð eiginlega um tannhljóðin í rótinni! Þetta veldur vitanlega oft samfalli og óskírleik. Til dæmis rennur sögnin kætast saman við kæsa: (þú getur) kæst (yfir þessu) / kæst (skötuna). Eins látast og læsa (læst), rætast og ræsa, gætast og gæsa, o.s.frv.

Eðlilegasta reglan væri að fylgja hér þeim hljóðum sem greinilega má sjá í beygingu sagnarinnar, rétt eins og í beygingu fallorða í eftirfarandi reglu (úr 2. kafla núgildandi reglna; fengið héðan, leturbreytingar mínar):

3. gr.

Til leiðbeiningar skal bent á eftirfarandi atriði:

a. Í stofnum fallorða skal tannhljóð haldast á undan s, ef það kemur fram í einhverju falli orðsins. Skiptir þá eigi máli, hvort tannhljóðið er borið fram eður ei, t.d. lofts (af loft), lats (af latur), lands (af land), skorts (af skortur) o.s.frv.

Þetta er svolítið skrítið ef c-liður sömu greinar er skoðaður (leturbreytingar mínar):

c. Ef stofn lýsingarháttar þátíðar sagnar eða lýsingarorðs endar á -tt samkvæmt uppruna, skal þeim stöfum sleppt, ef endingin -st fer á eftir, t.d. (hefur) sest (af setja(st)), (hefur) flust (af flytja(st)), (hefur) breyst (af breyta(st)), (hefur) hist (af hitta(st)); stystur (af stuttur) o.s.frv.

Hvers vegna skal upprunareglu fylgt í fallorðum en annarri reglu í lýsingarhætti þátíðar sagna?

Enn ruglingslegra er það svo þegar sagt er í 25. grein, 3. lið 8. kafla (leturbreytingar mínar):

3. Uppruni ræður, hvort rita skal ps, pt (ppt) eða fs og ft.
Dæmi: þreps (af þrep); hófs (af hóf); tæpt (af tæpur); gróft (af grófur); gapti (af gapa); kleipst (af klípa); gifta (sbr. gefa); skaft, Skafti (skylt skafa), loft (skylt lauf); skipta, skipti, skipting (af skipa); svipta, sviptingar (af svipur); yppta (skylt upp).

Hér er innra ósamræmi. Ef skrifa á t.d. slappst af sleppa, hví þá ekki eins (þú) dattst af detta, (hefur) breytst af breyta. Af hverju da...st og brey...st? Ef p á í hlut skal uppruni ráða, en ef t, d eða ð á í hlut, ræður framburður, nema um sé að ræða fallorð, þá skal samt farið eftir uppruna! Þetta er fásinna.

Því gerðu nefndarmenn sér reyndar fulla grein fyrir. Hinn 30. október 1976 efndi menntamálaráðherra, eftir ábendingu menntamálanefndar, til ráðstefnu um reglurnar frá 1974 „þar sem reynt verði að ná sem víðtækustu samkomulagi um meginstefnu varðandi stafsetningarreglur og ákvarðanatöku um breytingar á þeim.“5 Hugmyndir þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálms Hjálmarssonar, eru m.a. á þá leið að breyta ætti c-lið 3. greinar, sem vitnað var til hér á undan, á þá leið „að rita s þar sem áður var rituð z, en ekki í stað tz“.6 Þá verða orðmyndir á borð við hist (fyrir breytinguna 1974: hitzt) skrifaðar með t ef tvö t eru í stofni: hitst. Þessi breyting hefur það þá einnig í för með sér að orðmyndir með einu t í stofni verða óbreyttar: (þú) sest (áður: sezt, af sitja).

Þessi breyting er afar órökrétt og fer eiginlega einnig í bága við upprunaregluna í sinni einföldustu mynd. Einfaldast og skýrast hefði verið að fella c-liðinn einfaldlega út (og raunar allan 2. kafla, um afnám zetunnar) og bæta við upptalninguna í 25. grein, 3. lið 8. kafla hér að ofan: t, tt, d, ð. Sú breyting hefði það í för með sér að í stað (hefur) hist er skrifað hittst (af hitta, þar eru tvö t í rót), en hins vegar breytst (af breyta, þar sem eitt t er í rót). Þetta er bæði rökrétt og skýrt, að ekki sé talað um einfalt. Um leið losnum við einnig við þennan hugsanlega misskilning sem þegar var minnst á, þ.e. t.d. flest (fleira-flest) andspænis fletst (af fletjast); léttst (af léttast) andspænis létst (af látast), o.s.frv. Hér eru reglurnar mun einfaldari en zetureglurnar, því að einungis er miðað við fjölda tannhljóða í grunnmynd sagnarinnar.

Af þessari breytingu, ef af yrði, hlýtst (hlý...st) þó einn vandi sem taka þarf afstöðu til. Ef fylgja á þeim tannhljóðum sem birtast í beygingu orðanna, ætti þá ekki, samkvæmt þessum breytingum, að skrifa betstur (sbr. góður — betri) og íslendska (sbr. Ísland)? Og hvað með uns? Uns var skrifað með zetu, unz, fyrir breytinguna 1974 og sagt komið úr < unds. Þessar reglur mundu reyndar kveða á um að ekki ætti að skrifa unds vegna þess að d kemur þar hvergi fyrir í beygingu. Sjálfum finnst mér prýðilegt að skrifa betstur og íslendska, en það er ljóst að sú breyting er ekki jafn rökrétt eða auðveld í kennslu, því að þar þurfa tengsl og uppruni orða að vera nemendum skýr, á sama hátt og þegar skrifuð var z. Þannig þyrftu börn að vita að nískur er dregið af níð: ðskur; veisla af sögninni veita o.s.frv. Þá væri allt eins gott að taka aftur upp z.

-st á -st(-) ofan
Þá er aðeins eftir miðmyndarendingin -st þar sem lýsingarháttur þátíðar endar á -st eða -sst. Sú breyting varð 1974 að ekki átti að skrifa -st á eftir -st, semsé, ekki Þau hafa kysstst (þ.e.: kysst hvort annað), heldur Þau hafa kysst. Í reglunum er það þetta ákvæði, d)-liður, 3. grein 2. kafla:

d. Ef lýsingarháttur þátíðar í germynd endar á -st eða -sst, skal miðmyndarendingu sleppt, t.d. (hefur) leyst (af leysast), (hefur) lýst (af lýsast), (hafa) kysst (af kyssast) o.s.frv.

Báðar tillögur á endurbótum reglnanna frá 1976 eru á þá leið að miðmyndarendingin sé skrifuð þó að stofn hafi -sst eða -st,8 þ.e. eins í zetureglunum frá 1939. Óeðlilegt er annað en að skrifa miðmyndarendinguna, enda merkir kysst ekki það sama og kysstst, og á þessu er oft framburðarmunur, svo sem sagt væri kyss.st með óvenjulega löngu s-i, jafnvel ofurlítilli hvíld, eða hreinlega er borið fram kysstst.

Báðar þessar breytingar, sem hér eru lagðar til, miðuðu að því að gera stafsetninguna reglulegri og þar með einfaldari í kennslu. Stafsetningin verður einnig skýrari, rökréttari og í meira samræmi við önnur atriði í reglunum sem fylgja uppruna fremur en framburði. Nú má hins vegar velta fyrir sér hvort ekki ætti að ganga enn lengra í því að skrifa samkvæmt uppruna, en vangaveltur um slíkt munu bíða betri tíma.


Samantekt
Í stuttu máli sagt:

- hitta, sletta, þétta ...
nú: (hef) hist, slest, þést.
tillaga: (hef) hittst, slettst, þéttst.

- breyta, skipta ...
nú: (hef) breyst, skipst.
tillaga: (hef) breytst, skiptst.

- kyssast, festast ...
nú: (hef) kysst, fest. (ég hef fest bílinn, bíllinn hefur fest)
tillaga: (hef) kysstst, festst. (ég hef fest bílinn, bíllinn hefur festst)


Tilvísanir
1 Sjá t.d.: The First Grammatical Treatise. Hreinn Benediktsson (ritstj.). University of Iceland, Publications in Linguistics 1. Institute of Nordic Linguistics. Reykjavík, 1972. Bls. 206-208. 
2 Sjá um þetta gott yfirlit Jóns Aðalsteins Jónssonar: „Ágrip af sögu íslenzkrar stafsetningar“, Lingua Islandica, Íslenzk tunga I:71-119. Reykjavík, 1959.
3 Sbr. all-úreltar hugmyndir um samræmingu á framburði: Breytingar á framburði og stafsetningu, Björn Guðfinsson. Reykjavík, 1947.
4 Það þriggja ára skeið sem börnum var kennt að skrifa íslendingur og reykvíkingur varð til þess að úr grasi óx kynslóð sem aldrei er viss hvar setja á stóran og lítinn staf, minnug þess að reglunum var breytt, í tvígang.
5 Sjá: Ráðstefna um íslenska stafsetningu, 30. október 1976, Menntamálaráðuneytið. Bls. 1.
6 Sama rit. Fylgiskjal 1, bls. 120.
7 Hér er því ekki heldur um það að ræða að skrifað sé (hefur) *fundiðst (sbr. áður fundizt), (hefur) *reyntst (áður reynzt). Einungis skuli skrifa rótarhljóð sagnmyndanna, því: (hefur) fundist (af finnast), (hefur) reynst (af reynast).
8 Sama rit. Fylgiskjal 1 og 2, bls. 120 og 123.

5 skilaboð:

  • Nú vil ég stinga upp á einu. Þrykktu þennan pistil út á blað, semdu fagra orðsendingu sem skýringu, undirritaða eigin hendi, stingdu þessu svo í umslag og sendu Menntamálaráðuneytinu, með beiðni um endurskoðun laga um stafsetningu.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:55 f.h.  

  • Núverandi sustemi til lasts* vil ég benda á eftirfarandi:

    Er þá Babels efldur dans;
    eg vil gefa þar til ans:
    Hvað mun eftir fylgja?
    Þrældómur en leðja lands
    leikur sér í múga manns
    eins og önnur bylgja.

    Þetta er 12. erindi kvæðisins Yfirlýsing hrifningar og velþóknunar Jóns Ólafssonar á Harmleik Eggerts Ólafssonar sem fjallar um dauða og endalok íslenskrar tungu, geymt í Lbs 853 4to, prentað af Guðvarði Má Gunnlaugssyni í ritgerðasafni Jóns, Vitjun sína vakta ber, bls. 45 o.á.

    Hér rímar Jón: dans, ans, lands og manns. Sem væri mun betur skiljanlegt ef ans væri ritað anz og lands lanz.

    Ræðið.

    ---
    *lasz?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:16 e.h.  

  • Ég gleymi vitaskuld að taka fram að útgáfan er óbrúkleg til stafsetningarumræðu, því allt fútt í henni er normalíserað til ólífis.

    Því er ekki hægt að fullyrða út frá henni hvernig Jón sjálfur skrifaði þessi rímorð, eða nokkur önnur sem þar eru prentuð og sögð eftir hann.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:17 e.h.  

  • Hah! Morð á rí-morðum.

    Túngan, já.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:19 e.h.  

  • Það væri hreint ekki svo vond hugmynd að senda eitthvað þessu líkt Menntamálaráðuneytinu.

    Vísubrotið er skemmtilegt sem þú vitnar hér til, Gunnar, og engu síðra en þetta hér:

    Margt er smátt í vettling manns
    gettu sanns, gettu sanns.
    Þótt þú getir í allan dag,
    þú getur aldrei hans.


    En hér erum við komnir útfyrir stafsetningarumræðuna, þvíað varla lifnar þessi framburður við, þó að farið yrði að skrifa z á skemmtilegustu stöðum.

    Sagði Blogger Heimir, kl. 6:07 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða