Land viði vaxið
Ég ólst upp við mikið flatlendi þar sem sjóndeildin var víð og órofin öðru en tignarlegum fjöllum sem virtist í samanburði við flatneskjuna bera við himininn. Þetta var tilkomumikil sýn og mikill kostur að geta séð hvort greiðfært væri yfir heiðina eða gengt á Heklutind. Það var samt ekki fyrr en ég fluttist til höfuðborgarinnar sem ég áttaði mig á hvílík forréttindi þetta voru; að komast út og geta rölt um mýrarnar þar sem ekkert nema stöku kelda hindraði fótfráan — við blöstu mjúkar mosavaxnar þúfurnar sem eins og flutu á dúandi yfirborðinu með tilheyrandi gutli, sýnin lengst yfir ómengaðan flóann, fjarlægur sjávarniðurinn og Hekla, Hekla, hinn fallni eldspúandi miðaldanna engill sínum geigvænlega og yfirþyrmandi geislabaug skartandi og í senn mikilfengleg drottning krýnd þessa heims fegurstu skýjakórónu.
Hin annars ágæta Reykjavík er hins vegar umkringd smærri krummaskuðum þannig er hinn fótfrái á erfitt um vik. Sé gengið í vesturátt birtist hið vindasama og illa þefjandi nes seltjarna; kópar í austurvogum og sé haldið lengra í austurátt, þar sem víkingar nefna kjörlendi útivistar, getur að líta rótskotið svæði og jarðrask af verstu gerð. Og verst vondra, hið fagurvaxna mosfell, nú klætt innfluttum gróðri.
Er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru, segir í Íslendingabók. Það skyldi þó ekki vera að þessi jarðrasksstefna sé rekin í umboði þessarar mjög svo vafasömu heimildar?* Í kennslubókum æskunnar er skógur sagður þekja um eða innan við 1% lands og sagt að fyrr á öldum hafi hér verið meira skóglendi en nú er. Þess er getið í sömu andrá og minnst er á ötullegt starf landgræðslu og skógræktar. Til samanburðar eru gefnar mun hærri tölur frá Noregi, Þýskalandi, o.s.frv.
Ísland er þekkt fyrir sitt hrjóstruga landslag. Hvað er það eiginlega sem rekur okkur til þess að flytja hingað inn erlent landslag? Er þetta e.t.v. enn einn þátturinn í alþjóðavæðingunni? Alþjóðleg mannmenning, alþjóðleg matarmenning, listmenning, bókmenning, alþjóðleg hugsun, alþjóðleg trúarbrögð — hví ekki alþjóðlega náttúru í stíl?
Drekkjum landinu í trjám.
Skyggjum á fjöllin okkar.
Heftum útbreiðslu málvillna.**
* Í handritum er aðgreining langra og stuttra sérhljóða mjög handahófskennd, svo viður gæti hér allt eins hafa verið víðir. Auk þess er Íslendingabók aðeins varðveitt í 17. aldar eftirriti séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti „eftir mjög gamalli skinnbók“, þó að bókin muni hafa verið sett saman af Ara fróða Þorgilssyni um 1130 (Guðni Jónsson. 1946. Íslendinga sögur, fyrsta bindi. Landssaga og landnám. Formáli bls. XXVIII. Hrappseyjarprent h.f., Reykjavík.
** Þéttur skógur er talinn hefta málbreytingar hvað mest allra ytri áhrifaþátta, sbr. Helga Guðmundsson. 1977. Um ytri aðstæður íslenzkrar málþróunnar. [Einar G. Pétursson og Jónas Kristjánsson (ritstj.):] Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977. Fyrri hluti, bls. 314-25. (SÁM Rit 12.) Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.