Lesnir;

27.2.05

Land viði vaxið

Ég ólst upp við mikið flatlendi þar sem sjóndeildin var víð og órofin öðru en tignarlegum fjöllum sem virtist í samanburði við flatneskjuna bera við himininn. Þetta var tilkomumikil sýn og mikill kostur að geta séð hvort greiðfært væri yfir heiðina eða gengt á Heklutind. Það var samt ekki fyrr en ég fluttist til höfuðborgarinnar sem ég áttaði mig á hvílík forréttindi þetta voru; að komast út og geta rölt um mýrarnar þar sem ekkert nema stöku kelda hindraði fótfráan — við blöstu mjúkar mosavaxnar þúfurnar sem eins og flutu á dúandi yfirborðinu með tilheyrandi gutli, sýnin lengst yfir ómengaðan flóann, fjarlægur sjávarniðurinn og Hekla, Hekla, hinn fallni eldspúandi miðaldanna engill sínum geigvænlega og yfirþyrmandi geislabaug skartandi og í senn mikilfengleg drottning krýnd þessa heims fegurstu skýjakórónu.

Hin annars ágæta Reykjavík er hins vegar umkringd smærri krummaskuðum þannig er hinn fótfrái á erfitt um vik. Sé gengið í vesturátt birtist hið vindasama og illa þefjandi nes seltjarna; kópar í austurvogum og sé haldið lengra í austurátt, þar sem víkingar nefna kjörlendi útivistar, getur að líta rótskotið svæði og jarðrask af verstu gerð. Og verst vondra, hið fagurvaxna mosfell, nú klætt innfluttum gróðri.

Er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru, segir í Íslendingabók. Það skyldi þó ekki vera að þessi jarðrasksstefna sé rekin í umboði þessarar mjög svo vafasömu heimildar?* Í kennslubókum æskunnar er skógur sagður þekja um eða innan við 1% lands og sagt að fyrr á öldum hafi hér verið meira skóglendi en nú er. Þess er getið í sömu andrá og minnst er á ötullegt starf landgræðslu og skógræktar. Til samanburðar eru gefnar mun hærri tölur frá Noregi, Þýskalandi, o.s.frv.

Ísland er þekkt fyrir sitt hrjóstruga landslag. Hvað er það eiginlega sem rekur okkur til þess að flytja hingað inn erlent landslag? Er þetta e.t.v. enn einn þátturinn í alþjóðavæðingunni? Alþjóðleg mannmenning, alþjóðleg matarmenning, listmenning, bókmenning, alþjóðleg hugsun, alþjóðleg trúarbrögð — hví ekki alþjóðlega náttúru í stíl?

Drekkjum landinu í trjám.

Skyggjum á fjöllin okkar.

Heftum útbreiðslu málvillna.**


* Í handritum er aðgreining langra og stuttra sérhljóða mjög handahófskennd, svo viður gæti hér allt eins hafa verið víðir. Auk þess er Íslendingabók aðeins varðveitt í 17. aldar eftirriti séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti „eftir mjög gamalli skinnbók“, þó að bókin muni hafa verið sett saman af Ara fróða Þorgilssyni um 1130 (Guðni Jónsson. 1946. Íslendinga sögur, fyrsta bindi. Landssaga og landnám. Formáli bls. XXVIII. Hrappseyjarprent h.f., Reykjavík.

** Þéttur skógur er talinn hefta málbreytingar hvað mest allra ytri áhrifaþátta, sbr. Helga Guðmundsson. 1977. Um ytri aðstæður íslenzkrar málþróunnar. [Einar G. Pétursson og Jónas Kristjánsson (ritstj.):] Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977. Fyrri hluti, bls. 314-25. (SÁM Rit 12.) Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

8 skilaboð:

  • Hvurnin væri að skreppa í skógræktarferð uppá Hekluna? Það skal enginn reyna að segja mér að blessuð úlfynjan þrífist ei á Heklutindi, fram að næsta gosi, hið minnsta.
    En það er merkilegt, að sama hvussu hvasst er útá Nesi, þá er alltaf logn í Vesturbænum. Og ófagurt og kolvitlaust mál þrífst ágætlega þrátt fyrir skógskort.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:32 e.h.  

  • En annars lítst mér vel á þessa kenningu um að landið hafi verið víði vaxið, þá er hann kannski eldri en við teljum brandarinn góði um viðbrögð við villum á Ísalandi.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:34 e.h.  

  • Já hver ákvað að það væri fallegt að pota niður öspum allstaðar sem pláss finnst? Þetta stingur svo í augun þegar úppúr lágreistu birkikjarrinu standa ógnarháir skærgrænir risar.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:11 e.h.  

  • Já ég skil það svo sem ósköp vel að hvassviðrisstuðullinn hafi breytst eitthvað hjá þér Gunnar minn - það tekur semsé sirka 1-2 ár, en ég get fullvissað þig um að 101 er eitthvert hið mesta rokraskat sem fyrirfinnst m.v. hundrað-blíðviðris-fjörkina.

    Egill hefur lög að mæla.

    Tilgangurinn var nú samt eingöngu að sjá hver viðbrögð skógfræðingsins yrðu - mér hefur þótt hann helsti þögull upp á síðkastið.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:18 e.h.  

  • Það er greinilegt að skipulagsnefnd Árborgar les okkur því rétt í þessum töluðu orðum höfðust framkvæmdir á stóru landsvæði sem skógræktin hefur undanfarin 10 ár eða svo staðið að hríslurækt. Nú er verið að pæla þetta svæði og vörubílar farnir að sturta mold yfir. Svæðið og ég go way back því þarna gróðursetti ég mín fyrstu tré. Skógfræðingar og aðrir norvagistar munu vera komnir í málið og kvörtun liggur fyrir á borði byggingarfulltrúa.
    Þetta fer að verða blóðugt!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:49 e.h.  

  • Ég held að ég hafi ætlað að segja 'hófust' en ekki 'höfðust' - annars er höfðust tiltölulega krúttlegt og má svo sem alveg standa.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:27 f.h.  

  • Þið eruð nú ljótu kallarnir ad segja ad hávaxin ösp sem stendur beint upp í hópi aspa, og vindurinn hvín svo létt í fagurlega grænum blöðunum sé ekki hin tærasta fegurð.
    Hversu oft hef ég ekki grátið hreinum tárum berklaskálds yfir fegurð lerkilundanna?
    Ég man hvernig ég hugsaði um skógrækt þegar ég vcar kúasmali í flóanum. Mér fannst hún fáránleg, og þess aðeins valdandi að menn sæju ekki lengur á milli bæja.
    En hvað er svoleiðis tittlingaskítur hliðiná endalausri fegurð stórvíðisins þegar úðaregnið lemur gráhærð blöðin?

    En annars, ertu viss Heimir, um að skógar hafi takmarkað málbreytingar, mig minninr að Helgi hafi skrifað að skógar hefði einangrandi áhrif, og stuðluðu því að auknum fjölda mállýskna.

    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:52 e.h.  

  • Pælingin var sú að hægt væri að einangra þágufallssýkt svæði (í Reykjavík svæðið austan Elliðaáa - auk mestallrar landsbyggðarinnar, vesturbærinn er tiltölulega óspilltur) með því að planta nógu mörgum trjám umhverfis þessi svæði. Þannig er hægt að hindra að veiran berist í fleiri menn. Þannig eru málbreytingar allrar innan Ríkismálsins - veiran skapar vissulega mállýtskur víða, en gróðurinn hindrar að hún sýki stærra svæði en þegar er orðið.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:06 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða