Lesnir;

9.2.05

Tíðindi af austurvígstöðvunum

Kæru Lesnir, og aðrið kærir lesendur.
Ég hélt um stund að ég hefði drepið bloggið með þessu ljóðabulli um daginn. En svo virðist ekki vera.
Annars er kannski rétt að tíunda nokkuð héðan.
Við erum þrír í herbergi; ég, Ljosa nokkur og Díma nokkur. Þeir eru að læra hagfræði, einsog flestir á þessari vist. Ég er á þriðju hæð af níu. Húsið vel kynt, fimm manns um hvern vask og salerni. Eina eldavélarhellu höfum við í herberginu, en hellan er svo slöpp að það tekur 25 mínútur að hita lítra af vatni í katlinum.
Við lifum á grjónum og svörtu brauði með smjöri. Te er það eina sem við drekkum á daginn. Nema þegar við fáum okkur í glas. Þá er ekkert til sparað. Sérstaklega ef um er að ræða hinn tæra ljóma lífs. Þá skortir ekki síld, ljóst brauð, steiktar kjötbollur, steiktar kartöflur í teningum, niðursoðnar gúrkur og tómata.
Sökum uppruna míns og blóðskyldu kaupi ég stundum mjólk. En þar sem við höfum ekki ísskáp, þá er hún iðulega nokkuð örkekkjuð á morgnana. Eða þá að við höfum drukkið alla mjólkina í ölæði kvöldið áður.
Skólinn er byrjaður hjá mér. Milli kl. 10 og 14 erum við, þrír krakkar frá Perú og þrír Nígeríumenn í tímum að læra hvernig á að segja t.d. „Hann gekk fyrir vatnið og yfir brúna” eða „lína skerst í gegnum flöt, liggjandi á topphorni fjórhyrndar keilu.” Ó, afhverju fór ég ekki bara í tónlistarnám?
Um daginn fór ég í lúterska messu með perúskum kunningja mínum. Ég hélt að þetta væri venjuleg kirkja, en þarna mun þjóna norskur prestur, sem mig langaði að spjalla við, enda engir aðrir landar nærri.
En þetta var þá fanatískur söngvarasöfnuður. Í byrjun messu var ég spurður af sessunautu mínum einum hvort ég tryði á Guð. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Ég vona að ég móðgi engan, en mér var skapi næst að segjast trúa á Trunt, Trunt og Tröllin í fjöllunum. En ég jánkaði bara.
Herbergisnautar mínir hafa verið í prófum þessa dagana. Þetta eru svipuð próf og þau sem eru eftir hverja önn í HÍ. En ekki úttauguðu þeir sig. Ekki gengu þeir um í kaffivímu. Þeir voru óhræddir við að fá sér í aðra tána kvöldið fyrir próf. Dæmigert var, að þeir sætu til tólf, og færu þá út. Eða þá að í herbergið kæmu stelpur af hæðinnni. Ef þeir færu út, þá kæmu þeir heim um sjö-leytið. Og þegar þeir vakna, labba þeir rakleitt í próf.
Sjálfur er ég orðinn þreyttur á að drekka. Ég er farinn að drekka á mína vísu, þ.e. sjaldnar, og sterkar. - Bjór fer bara illa með lifrina.
Í dag var ég í efnafræði, með þremur öðrum útlendingum, í aðalháskólanum. (Mæting í útlendingadeildinni sýnist mér vera á bilinu 20 – 60 % í hvern tíma.) Rússar eru svo nýtnir að í stað þess að skipta um húsgögn, mála þeir þau bara. Flestar skúffurnar í stofunni höfðu verið málaðar fastar.
Annars, þá er Arkangelsk ekki nærri því eins mikið Haarlem og Tver var. Hér þykir ekki tiltökumál að eiga farsíma og eyða 100 rúblum í að fara á klúbb. En í Tver þótti mönnum geðveiki líkast að fara á diskótek fyrir meira en 50 rúblur.
Svona er það nú hér.
Hvað er annars með Íslandið? Alveg er það makalaust, fylgi míns elskaða flokks, Framsóknarflokksins hefur hrapað niður í næstum ekki neitt. En annað var það ekki í bili.
Ykkar Flóamaður í Arkhangelsk - Palli

4 skilaboð:

  • Ég hélt þú værir bara skápa-frammari? En hvað um það, gott að heyra að þú lifir.
    Hvernig er annars kaffið þarna úti?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:36 e.h.  

  • Ég er gáttaður á þessu með ísskápsleysið - mjólkina ystir sem sagt og þú svolgrar hana samt. Það held ég að Reykvíkingar kveinkuðu sér, sérstaklega miðað við 'best fyrir' upplýsingarnar sem þeir setja á fernurnar. Mjólkin er afbragðsgóð viku og allt að því hálfan mánuð umfram þann tíma; súrmjólkin enn lengur.

    En segðu mér, úr því Rússland er til umræðu. Hvernig er með málfarsstefnu Rússlands, er hún mjög íhaldssöm eða er hóflegt kæruleysi eins og hér? Eins og þú hefur kannski lesið um er Skjár Einn nú farinn að senda út beint frá einhverjum boltaleikjum í útlöndum á útlensku. Þætti það tiltökumál í Rússíu, t.d. þar sem þú ert? Hvað með auglýsingar? Fyrirtækjanöfn? Þýddar bækur (og erlenda titla "Súper flört" ágætt dæmi héðan)? Hvað með letur, eru engin áhrif að utan merkjanleg? Hvað með tökuorð? Eru þau aðlöguð (væri gott að fá t.d. dæmi af tökusögn í miðmynd, og hvort hún fær eðlilega meðhöndlun).

    (Þetta er Heimir eins og vart þarf að nefna)

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 10:59 e.h.  

  • Já. Nei Rússland er gott land, reyndar land sem býr við frumstæðan kapitalisma og allt er í rústi og þurfti að búa við marga ,,tilraunakennda'' stjórnendur. Annað en hér á Íslandi - hér slettir fólk og fótboltaleikir eru sýndir með erlendu tali!!!!!
    Ungdómurinn hér á örugglega eftir að vera ótalandi ribbalda lýður sem sefur hjá öllu, fer ekki í kirkju og etur skyndibita. Ó sei, ó sei! Rétt væri að húðstrýkja þau öll og þylja yfir þau góð íslensk blótsyrði, eitthvað annað en þetta motherfucker og cocksucker sem þau stynja uppúr sér einsog djöfullinn ælir úr sér borgarlífi, háskólalífi og öðru slíku. (Borgar líf er jú einungis verk Satans.)

    Annars fannst mér einsog þessi kaffidrykkjuvímu komment væri beint til mín Palli. Jájá ég var orðinn kolruglaður af kaffidrykkju fyrir prófin, en að tala um vímu finnst mér nú einum of.

    ___

    En að greininni sjálfri. Mér finnst gaman að lesa þetta, mun skemmtilegra en allt annað á lesnum. Húrra húrra!

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:11 f.h.  

  • Þakka ykkur fyrir þessu frábæru komment. Ég vil sem fyrst gera grein fyrir því sem ykkur finnst áhugavert.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:44 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða